Úrskurður yfirskattanefndar
- Auðlegðarskattur
- Álag
Úrskurður nr. 203/2014
Gjaldár 2010 og 2011
Lög nr. 90/2003, 108. gr. 2. mgr., bráðabirgðaákvæði XXXIII.
Ríkisskattstjóri færði kærendum til eignar í skattframtali hlutabréfaeign í erlendu félagi og erlenda kröfu og leiddu þær breytingar til hækkunar auðlegðarskattsstofns. Kröfu kærenda um niðurfellingu 25% álags var hafnað.
I.
Málavextir eru þeir að með úrskurði um endurákvörðun, dags. 1. desember 2011, sem ríkisskattstjóri kvað upp í framhaldi af bréfum til kærenda, dags. 12. apríl, 24. maí, 15. september og 12. október 2011, og svörum kærenda, dags. 20. apríl, 8. júní, 30. september og 15. nóvember 2011, sbr. einnig boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 12. október 2011, og andmælabréf kærenda, dags. 15. nóvember 2011, færði ríkisskattstjóri kærendum til eignar hlutabréfaeign í X 65.000 kr. og erlenda kröfu á X 184.935.000 kr. og til skuldar vegna annarra skulda tvær kröfur samtals 54.524.260 kr. í árslok 2009 í skattframtali árið 2010 og til eignar hlutabréfaeign í X 65.000 kr. og erlenda kröfu á X 110.412.658 kr. í árslok 2010 í skattframtali árið 2011. Þá beitti ríkisskattstjóri 25% álagi á hækkun eignar að fjárhæð 130.475.740 kr. gjaldárið 2010 og 110.477.658 kr. gjaldárið 2011 eða 32.618.935 kr. fyrra árið og 27.619.414 kr. síðara árið. Af breytingum ríkisskattstjóra leiddi að sameiginlegur stofn kærenda til auðlegðarskatts hækkaði úr 117.421.010 kr. í 280.515.680 kr. eða um 163.094.670 kr. gjaldárið 2010 og úr 79.961.970 kr. í 218.059.040 kr. eða um 138.097.070 kr. gjaldárið 2011. Leiddu breytingar ríkisskattstjóra til hækkunar auðlegðarskatts hvors kæranda um sig úr 0 kr. í 1.003.223 kr. gjaldárið 2010 og um 885.442 kr. gjaldárið 2011.
Með kæru, dags. 19. febrúar 2012, skutu kærendur úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 1. desember 2011, til yfirskattanefndar. Í kærunni var auk kröfu um niðurfellingu álags á hækkun gjaldstofna gerð sú krafa að eignfærsla erlendrar kröfu á X lækkaði á grundvelli meðfylgjandi staðfestingar stjórnarformanns þess félags, dags. 6. febrúar 2012, um að staða hennar í árslok 2009 hefði verið 350.000 EUR eða 63.350.000 kr. miðað við kaupgengi evru „181“ kr. í árslok 2009 og í árslok 2010 hafi staða hennar verið 165.000 EUR eða 25.410.000 kr. miðað við kaupgengi evru „154“ kr. í árslok 2010.
Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 86/2013, sem kveðinn var upp 20. mars 2013, var vísað til þess að kæran væri studd gögnum og skýringum sem ríkisskattstjóri hefði ekki tekið afstöðu til. Með vísan til þess og þeirra lagaraka sem byggju að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, væri kæran ásamt meðfylgjandi gögnum send ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar, þar á meðal um álagsbeitingu.
II.
Ríkisskattstjóri tók mál kærenda vegna gjaldáranna 2010 og 2011 fyrir að nýju með úrskurði, dags. 21. ágúst 2013, sbr. 1. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Rakti ríkisskattstjóri málavexti og tók fram að ekki þætti ástæða til að vefengja nýframlögð gögn um skuld X við kærendur. Með hliðsjón af hinum nýju gögnum og öðrum upplýsingum sem áður hefðu komið fram í málinu taldi ríkisskattstjóri að umþrætt skuld X við kærendur hefði numið 117.874.260 kr. í árslok 2009 og 43.351.918 kr. í árslok 2010. Taldi ríkisskattstjóri að fjárhæðir þær sem getið væri um í framlagðri yfirlýsingu frá stjórnarformanni X tækju tillit til skuldar kærenda við C og D og hefðu fjárhæðir þeirra verið dregnar frá raunverulegri skuld kærenda við fyrirtækið. Þá beitti ríkisskattstjóri 25% álagi á vantalinn stofn til auðlegðarskatts sem hefði numið 63.350.000 kr. gjaldárið 2010 og 43.351.918 kr. gjaldárið 2011. Fjárhæð álags yrði því 15.837.500 kr. fyrra árið og 10.837.980 kr. síðara árið. Af breytingum ríkisskattstjóra leiddi að sameiginlegur stofn kærenda til auðlegðarskatts að meðtöldu álagi varð 98.336.755 kr. gjaldárið 2010 og 67.108.430 kr. gjaldárið 2011.
III.
Með kæru, dags. 4. október 2013, hafa kærendur skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. ágúst 2013, til yfirskattanefndar. Krefjast kærendur þess að beiting álags verði felld niður. Kemur fram í kærunni að beiting álags sé ósanngjörn, enda hafi stofnar til auðlegðarskatts verið leiðréttir. Benda kærendur á að við framtalsgerð árin 2010 og 2011 og þegar framtöl hafi verið send á rafrænu formi hefði engin tilkynning komið fram um að fjárhæðir sem stæðu til grundvallar stofni til auðlegðarskatts væru vantaldar. Slík tilkynning hefði hins vegar komið fram þegar framtöl árin 2012 og 2013 hefðu verið prófuð áður en þau voru send inn. Þá skipti og máli að kærendur hefðu á engan hátt reynt að skjóta undan eignum til að komast hjá greiðslu auðlegðarskatts. Skipti máli að um væri að ræða nýja tegund af skatti, en auðlegðarskattur hafi fyrst verið lagður á gjaldárið 2010. Hafi áform um álagningu skattsins verið illa kynnt og lítið auglýst og hafi kærendur nánast enga vitneskju haft um skattinn. Lítil umræða hefði auk þess átt sér stað í þjóðfélaginu um skattinn og væri ástæðan líklega pólitísk. Með vísan til þess sem kæmi fram í hinum kærða úrskurði og þess sem að framan væri rakið væri komin fram góð ástæða til að fella niður hið umþrætta álag.
IV.
Með bréfi, dags. 4. nóvember 2013, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 6. nóvember 2013, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.
Með bréfi, dags. 14. nóvember 2013, hafa kærendur gert grein fyrir athugasemdum sínum. Kemur fram hjá kærendum að ekkert réttlætti það álag sem deilt sé um, en engar villutilkynningar hafi komið fram þegar framtölin hafi verið villuprófuð og send inn á sínum tíma. Sé ábyrgðin því hjá skattyfirvöldum. Þá skipti máli að kærendur hafi á engan hátt reynt að komast hjá því að greiða auðlegðarskatt, enda fjöldi fólks í sömu stöðu varðandi álag á auðlegðarskatt. Hafi kærendur talið að skattframtalið sjálft lægi til grundvallar álagningu auðlegðarskatts, en ekki hafi komið skýrt fram í framtalsleiðbeiningum að fylla ætti út sérstakt eyðublað um auðlegðarskattsstofn. Væri ítrekuð krafa um niðurfellingu álags.
V.
Kæruefni málsins lýtur einvörðungu að álagsbeitingu ríkisskattstjóra á vantalda stofna til auðlegðarskatts samkvæmt hinum kærða úrskurði, dags. 21. ágúst 2013, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, svo sem kæran ber skýrlega með sér.
Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó ekki beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færi rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess. Þegar atvik málsins eru virt þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kærenda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af hálfu kærenda að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Er kröfu um niðurfellingu álags því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kærenda er hafnað.