Úrskurður yfirskattanefndar
- Tapað hlutafé
- Væntingaregla
Úrskurður nr. 547/2012
Gjaldár 2009
Lög nr. 90/2003, 31. gr. 5. tölul. Lög nr. 37/1993, 20. gr. 1. mgr.
Í desember 2011 felldi ríkisskattstjóri niður frádrátt vegna niðurfærslu hlutafjáreignar í föllnum bönkum í skattskilum kæranda fyrir árið 2008 þar sem skilyrði fyrir gjaldfærslu tapaðs hlutafjár voru ekki talin uppfyllt. Kærandi krafist ógildingar á þeirri ákvörðun á þeim grundvelli að fulltrúi ríkisskattstjóra hefði tilkynnt umboðsmanni kæranda símleiðis í apríl 2011 að ekki yrðu gerðar athugasemdir við gjaldfærsluna. Ekki var fallist á með kæranda að greind samskipti umboðsmanns hans og starfsmanns ríkisskattstjóra hefðu bundið hendur ríkisskattstjóra varðandi framhald málsins, m.a. þar sem ekki þóttu efni til að leggja upplýsingar starfsmannsins að jöfnu við fyrirvaralausa tilkynningu um málalok.
I.
Með kæru, dags. 13. mars 2012, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 14. desember 2011, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2009. Með úrskurði þessum, sem kveðinn var upp í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 21. febrúar 2011, og boðunarbréf, dags. 7. júní 2011, og svarbréf kæranda, dags. 26. apríl og 1. september 2011, felldi ríkisskattstjóri niður frádrátt að fjárhæð 23.693.553 kr. í skattframtali kæranda árið 2009 vegna niðurfærslu hlutafjáreignar í X banka hf., Y banka hf. og Z banka hf., auk óskýrðs frádráttar að fjárhæð 1.330.677 kr. sem færður hafði verið í skattskilum kæranda sem niðurfærsla hlutabréfa eða samtals 25.024.230 kr. Voru forsendur ríkisskattstjóra fyrir þeirri ákvörðun þær að þar sem bú umræddra hlutafélaga hefðu ekki verið tekin til formlegra gjaldþrotaskipta væru skilyrði fyrir gjaldfærslu hlutafjárins samkvæmt 5. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, ekki uppfyllt. Vísaði ríkisskattstjóri í því sambandi til ákvarðandi bréfs embættisins nr. 8/2011 frá 18. maí 2011, þar sem fjallað væri um það álitaefni hvort hlutafé í fjármálafyrirtækjum í slitameðferð gæti fallið undir fyrrgreint ákvæði laga nr. 90/2003, og til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 303/2010. Vegna þeirra sjónarmiða sem fram komu í bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 1. september 2011, og lutu að því að umboðsmanni kæranda hefði verið tilkynnt munnlega af fulltrúa ríkisskattstjóra í apríl 2011 að ekki yrði aðhafst frekar í málinu þar sem sú ákvörðun hefði verið tekin hjá embætti ríkisskattstjóra að gera ekki athugasemdir við gjaldfærslu tapaðs hlutafjár í hinum föllnu bönkum í skattskilum gjaldárið 2009, var tekið fram í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra að um væri að ræða rangar upplýsingar sem ekki gætu bundið hendur embættisins, enda væri ekki um að ræða skuldbindandi ákvörðun heldur ígildi leiðbeininga. Gæti hin ranga upplýsingagjöf ekki haft í för með sér að kærandi öðlaðist ríkari rétt til gjaldfærslu hlutafjár en aðrir aðilar í sömu stöðu.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi að því er tekur til leiðréttingar ríkisskattstjóra á móti „niðurfærslu verðbréfaeignar að fjárhæð 23.693.553 kr.“, og að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Kemur fram að krafa kæranda sé byggð á því að ríkisskattstjóri hafi verið bundinn af þeirri ákvörðun sem fólgin hafi verið í yfirlýsingu ótiltekins starfsmanns embættisins til umboðsmanns kæranda. Er samskiptum umboðsmannsins við starfsmenn ríkisskattstjóra lýst nánar og tekið fram að í kjölfar boðunarbréfs ríkisskattstjóra, dags. 7. júní 2011, hafi starfsmaður embættisins greint umboðsmanni kæranda frá því að ef gefin yrði sú skýring í formlegu svarbréfi að um væri að ræða hlutafjáreign í hinum föllnu bönkum þá myndi ríkisskattstjóri líta svo á að um tapað hlutafé væri að ræða þannig að ekki kæmi til hinnar boðuðu endurákvörðunar opinberra gjalda kæranda. Ekki verði fallist á með ríkisskattstjóra að ákvörðun hans í hinum kærða úrskurði hafi falið í sér leiðréttingu á röngum upplýsingum, enda verði ekki litið á fyrrgreind samskipti umboðsmanns kæranda við fulltrúa ríkisskattstjóra sem hefðbundna upplýsingagjöf. Tilefni samskiptanna hafi verið fyrirliggjandi boðunarbréf ríkisskattstjóra og honum hafi verið gerð grein fyrir efnislegu innihaldi andmæla kæranda. Hafa verði í huga að þegar umboðsmanni kæranda hafi verið tilkynnt um ákvörðun ríkisskattstjóra hafi ákvarðandi bréf embættisins nr. 8/2011 ekki legið fyrir. Ekki sé því um það að ræða að í svari starfsmannsins hafi falist afstaða sem verið hafi í andstöðu við afstöðu embættisins sem kynnt hefði verið út á við. Jafnvel þótt afstaðan væri í andstöðu við lagaákvæði, og því ekki haft fordæmisgildi, hafi verið um skuldbindandi ákvörðun að ræða gagnvart kæranda. Í 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fjallað um heimild stjórnvalds til að breyta og leiðrétta ákvörðun sína. Hafi ákvörðun verið tilkynnt munnlega falli heimild til breytingar á henni niður eftir að hún sé komin til vitundar einhvers þess sem hafi heimild til að taka við henni fyrir hönd aðila. Ákvæði 2. mgr. 23. gr. laganna taki ekki til leiðréttinga á efni ákvörðunar.
II.
Með bréfi, dags. 25. maí 2012, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Í kæru umboðsmanns er gerð sú krafa að yfirskattanefnd ómerki þann hluta ákvörðunar ríkisskattstjóra er lýtur að leiðréttingu ríkisskattstjóra á niðurfærslu verðbréfaeignar að fjárhæð 23.693.553 kr.
Í kæru umboðsmanns kæranda segir orðrétt: „[...] að ríkisskattstjóri hafi verið bundinn af þeirri ákvörðun sinni er fólst í yfirlýsingum starfsmanns RSK til umboðsmanns kæranda.“
Ríkisskattstjóra þykir rétt að nefna að þær upplýsingar eða leiðbeiningar sem umboðsmaður kæranda vísar til að hafa fengið frá starfsmanni ríkisskattstjóra komu fram áður en ríkisskattstjóri tilkynnti um fyrirhugaðar breytingar á opinberum gjöldum kæranda.
Ríkisskattstjóri lítur svo á að þær upplýsingar og leiðbeiningar, sbr. m.a. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem starfsmaður ríkisskattstjóra gaf umboðsmanni kæranda hafi ekki verið stjórnsýsluákvörðun með þeim réttaráhrifum sem um slíkar ákvarðanir gilda. Það að starfsmaður ríkisskattstjóra veiti rangar eða ófullnægjandi upplýsingar og/eða leiðbeiningar varðandi túlkun á ákveðinni lagagrein leiðir að mati ríkisskattstjóra ekki almennt til þess að stjórnvaldsákvörðun sem tekin er á síðari stigum sé ógildanleg.
Að framangreindu virtu er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. maí 2012, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.
Með bréfi, dags. 6. júní 2012, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Kemur fram í bréfinu að þau samskipti umboðsmanns kæranda og starfsmanna ríkisskattstjóra, sem málið varðar, hafi átt sér stað dagana 11. til 15. apríl 2011, en þá hafi fulltrúi ríkisskattstjóra tjáð umboðsmanninum símleiðis að gjaldfærsla vegna falls gömlu bankanna yrði heimiluð í skattskilum gjaldárið 2009. Sé því mótmælt að greind samskipti hafi verið þess eðlis að þau falli undir ákvæði um leiðbeiningarskyldu í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi þau eingöngu lotið að því hvort ákvörðun hefði verið tekin um hvernig mál af umræddum toga yrðu afgreidd. Kæranda hafi þannig verið tilkynnt munnlega um ákvörðun ríkisskattstjóra í málinu og í því hafi ekki falist nein leiðbeining af hálfu ríkisskattstjóra. Bréfinu fylgir yfirlit yfir kostnað kæranda af rekstri málsins.
III.
Kæra í máli þessu varðar úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 14. desember 2011, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2009. Með úrskurði þessum felldi ríkisskattstjóri niður frádrátt að fjárhæð 23.693.553 kr. í skattframtali kæranda árið 2009 vegna niðurfærslu hlutafjáreignar í X banka hf., Y banka hf. og Z banka hf. á þeim forsendum að skilyrði fyrir gjaldfærslu tapaðs hlutafjár samkvæmt 5. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, væru ekki uppfyllt í tilviki umræddra félaga. Auk þess felldi ríkisskattstjóri niður óskýrðan frádrátt 1.330.677 kr. Ekki er efnislegur ágreiningur í málinu um ákvörðun ríkisskattstjóra. Er krafa kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar að því er tekur til 23.693.553 kr. eingöngu byggð á því að þar sem fulltrúi ríkisskattstjóra hafi tilkynnt umboðsmanni kæranda símleiðis í apríl 2011, að ekki yrðu gerðar athugasemdir af hálfu ríkisskattstjóra við gjaldfærslu hlutafjár í hinum föllnu bönkum í skattskilum gjaldárið 2009, hafi ríkisskattstjóra verið óheimilt að ráðast í hinar kærðu breytingar á skattframtali kæranda árið 2009. Er m.a. bent á í kæru til yfirskattanefndar að stjórnvöldum sé óheimilt að breyta ákvörðunum sínum eftir að þær hafa verið tilkynntar aðilum máls, sbr. 1. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í bréfi umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 1. september 2011, og í kæru til yfirskattanefndar, dags. 13. mars 2012, eru reifuð samskipti umboðsmannsins við starfsmenn ríkisskattstjóra í apríl 2011 vegna máls kæranda. Eins og þessum samskiptum er lýst af hálfu kæranda og sakarefni málsins var vaxið er ljóst að umboðsmanni kæranda gat ekki dulist að afgreiðsla máls félagsins tengdist með beinum hætti afgreiðslu annarra hliðstæðra mála og valt alfarið á afstöðu ríkisskattstjóra til þess hvort hlutafjáreign í fyrrgreindum bönkum gæti talist töpuð í skilningi 5. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 á tekjuárinu 2008. Voru ekki efni til að leggja upplýsingar starfsmanns ríkisskattstjóra að jöfnu við fyrirvaralausa tilkynningu um málalok, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og atvikum er háttað samkvæmt framansögðu verður ekki talið að greind samskipti umboðsmanns kæranda og starfsmanns ríkisskattstjóra í apríl 2011 hafi bundið hendur ríkisskattstjóra varðandi framhald málsins. Er kröfu kæranda um ógildingu hins kærða úrskurðar því hafnað. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda er hafnað.