Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn
  • Lágskattaríki

Úrskurður nr. 424/2012

Lög nr. 90/2003, 109. gr.  

A var með úrskurði yfirskattanefndar gerð sekt fyrir að hafa á saknæman hátt vanrækt að telja fram í skattframtölum sínum árin 2004-2008 arðgreiðslur frá erlendu félagi, S Ltd., sem skráð var á Bresku Jómfrúreyjum.

I.

Með bréfi, dags. 22. september 2011, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 2003 til og með 2007.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar arðgreiðslur. Vanframtaldar vaxtatekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattstjóranum í Reykjanesumdæmi skil á efnislega röngum skattframtölum vegna álagningar opinberra gjalda, gjaldárin 2004 til og með 2008, vegna tekjuáranna 2003 til og með 2007, með því að vanframtelja arðgreiðslur, samtals að fjárhæð kr. 40.815.380 og vaxtatekjur, samtals að fjárhæð kr. 34.600.

Með því að vanrækja að telja fram fjármagnstekjur sínar samkvæmt framangreindu, kom A sér hjá álagningu fjármagnstekjuskatts, svo sem hér greinir:

Reiknaður fjármagnstekjuskattur

Rekstrarár Vanframtaldar

arðgreiðslur

Vanframtaldar vaxtatekjur Samtals vanframtaldar fjármagnstekjur Fjármagns-tekjuskattur 10%

2003 10.461.600 18.061 10.479.661 1.047.966

2004 13.751.840 7.236 13.759.076 1.375.908

2005 15.620.880 1.750 15.622.630 1.562.263

2006 0 4.052 4.052 405

2007 981.060 3.501 984.561 98.456

Samtals kr. 40.815.380 34.600 40.849.980 4.084.998

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. 3. tl. og 4. tl. C liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 22. september 2011, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 26. september 2011, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Með bréfi, dags. 10. nóvember 2011, hefur umboðsmaður gjaldanda lagt fram vörn í máli þessu. Í bréfinu er þess aðallega krafist að gjaldanda verði ekki gerð sekt en til vara að honum verði gerð lægsta mögulega sekt lögum samkvæmt. Þá er þess krafist að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði í samræmi við 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Til stuðnings kröfum gjaldanda vísar umboðsmaður til þess að skattframtöl gjaldanda, þau ár sem kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins lúti að, hafi verið unnin af fagmönnum. B hafi annast framtalsgerð gjaldanda vegna tekjuáranna 2003, 2004 og 2005 en X vegna tekjuáranna 2006 og 2007. Framtalsgerð hafi vaxið gjaldanda í augum, enda hafi hann ekki haft íslensku að móðurmáli, og því hafi gjaldandi leitað til B vegna skattskila sinna og afhent honum öll gögn sem B upplýsti hann um að skiptu máli. Sé óumdeilt að B hafi haft allar upplýsingar undir höndum og þar á meðal upplýsingar um eignarhaldsfélagið S Ltd. B hafi gert grein fyrir eignarhaldsfélaginu í skattframtali gjaldanda árið 2005 en ekki í skattframtölum gjaldanda árin 2004 og 2006. Í skattframtölum gjaldanda árin 2007 og 2008 sé réttilega greint frá eignarhaldsfélaginu og arðstekjum frá því, eftir að gjaldandi leitaði til nýrra aðila um aðstoð við skattskil sín. Þær skýringar B, sem komið hafi fram við skýrslutökur af honum, að hann hefði gleymt að skoða skattframtal fyrra árs við gerð skattframtals vegna tekjuársins 2005 og því gleymt að setja nafn félagsins á framtalið, séu ekki trúverðugar. Þá séu skýringar B á stofnun hins erlenda félags og meintum samskiptum við nafngreindan einstakling í því sambandi á árinu 2004 ekki réttar, enda félagið stofnað á árinu 2002. Gjaldandi hafi treyst því að sá fagaðili, sem hann leitaði til um aðstoð við skattskil, væri fær um að framkvæma það verk sem hann væri beðinn um, en gjaldandi hafi greitt þó nokkurt fé fyrir þjónustuna. Hafi fagaðilinn haft öll gögn undir höndum, sem máli skiptu, og teldi hann sig ekki hafa fullnægjandi gögn, hafi honum borið kalla eftir þeim. Verði það vart talið gjaldanda til sakar hafi skattframtöl hans ekki verið efnislega rétt, svo sem atvikum sé háttað. Samkvæmt framansögðu sé ljóst að skilyrði um saknæmi verknaðar séu ekki uppfyllt og beri því að sýkna gjaldanda af kröfum skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-991/2010 (sic) sem gjaldandi telji hafa fordæmisgildi í máli sínu.

Verði ekki fallist á kröfu gjaldanda um sýknu á framangreindum forsendum sé þess krafist að gjaldandi verði sýknaður eða honum gerð lægsta mögulega sekt lögum samkvæmt. Í því sambandi vísar umboðsmaður gjaldanda í fyrsta lagi til þess að gjaldandi hafi greint skilmerkilega frá öllum atvikum við rannsókn málsins og aðstoðað í hvívetna við að upplýsa það. Í öðru lagi hafi gjaldandi staðið skil á vangoldnum fjármagnstekjuskatti að viðbættu álagi og dráttarvöxtum þegar ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð í máli hans þann 9. mars 2011. Gjaldandi hafi því bætt að fullu fyrir þau lögbrot sem átt hafi sér stað, en líta beri til þess við ákvörðun refsingar, sbr. 2. mgr., sbr. 8. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. og úrskurð yfirskattanefndar nr. 61/2008. Í þriðja lagi beri að draga skatt af álagi frá sektarfjárhæð, ef til komi, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 22. september 2011, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Umboðsmaður gjaldanda hefur lagt fram vörn í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og gert þá kröfu að gjaldanda verði ekki gerð sekt en ella að honum verði gerð lægsta mögulega sekt lögum samkvæmt. Einnig er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda vegna tekjuáranna 2003 til og með 2007, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 5. nóvember 2010. Rannsókn þessi, sem ákveðin var í framhaldi af ábendingu frá skattstjóranum í Reykjanesumdæmi, hófst formlega hinn 7. júlí 2009. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 24. ágúst 2009 og 4. ágúst 2010, en skýrslur voru einnig teknar af B hinn 12. ágúst 2010 og eiginkonu gjaldanda, C, hinn 27. ágúst 2010. Var rannsókn í máli gjaldanda byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar, svo og var byggt á bankaupplýsingum sem gjaldandi afhenti skattrannsóknarstjóra og upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda. Með bréfum, dags. 30. september 2010, sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins gjaldanda og C skýrslu embættisins, dags. 29. september 2010, sem þá lá fyrir um rannsóknina og var þeim veittur kostur á að koma að athugasemdum við skýrsluna. Með svarbréfi umboðsmanns gjaldanda og C, dags. 14. október 2010, var tekið fram að ekki væru gerðar athugasemdir við tölulegan þátt rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins, en því hins vegar mótmælt að gjaldandi hefði rangfært skattskil sín af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman lokaskýrslu sína um rannsóknina, dags. 5. nóvember 2010, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem kom fram að athugasemdir umboðsmanns gjaldanda þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 5. nóvember 2010, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á skattskilum A og C vegna tekjuáranna 2003 til og með 2007 eru:

• Skattframtölum hefur verið skilað.

• Staðin voru skil á efnislega röngum framtölum.

• Arðgreiðslur vegna tekjuáranna 2003 til og með 2005 eru vanframtaldar.

• Arðgreiðsla vegna tekjuársins 2007 er vanframtalin að hluta.

• Vaxtatekjur eru vegna tekjuáranna 2003 til og með 2007 eru vanframtaldar.“

Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu í niðurstöðukafla skýrslunnar, voru vantaldar arðgreiðslur taldar nema samtals 40.815.380 kr. tekjuárin 2003, 2004, 2005 og 2007 og vantaldar vaxtatekjur 34.600 kr. tekjuárin 2003 til og með 2007.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda og C sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103 gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 8. nóvember 2010. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af boðunarbréfi ríkisskattstjóra til gjaldanda og C, dags. 11. febrúar 2011, sem ekki var svarað af þeirra hálfu, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda og C gjaldárin 2004 til og með 2008 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 9. mars 2011. Í úrskurðinum kom fram að um væri að ræða vantaldar tekjur gjaldanda, þ.e. arðgreiðslur frá félagi í hans eigu og vaxtatekjur, en þar sem C hefði haft hærri hreinar tekjur en gjaldandi öll gjaldárin teldust vantaldar fjármagnstekjur til tekna hjá henni. Samkvæmt því hækkaði ríkisskattstjóri með úrskurði sínum stofn C til fjármagnstekjuskatts gjaldárið 2004 úr 0 kr. í 10.479.661 kr., úr 0 kr. í 13.759.076 kr. gjaldárið 2005, úr 0 kr. í 15.622.630 kr. gjaldárið 2006, úr 12.107.823 kr. í 12.111.875 kr. gjaldárið 2007 og úr 16.399.649 kr. í 17.384.210 kr. gjaldárið 2008. Auk hækkunar fjármagnstekjuskatts samkvæmt þessum breytingum leiddu tekjufærslur ríkisskattstjóra til þess að áður ákvarðaðar barnabætur gjaldanda og C gjaldárin 2004, 2005 og 2006 féllu niður eða 134.984 kr. fyrsta árið, 63.476 kr. annað árið og 69.824 kr. þriðja árið hjá hvoru þeirra um sig. Ríkisskattstjóri bætti álagi á ofgreiddar barnabætur samkvæmt heimild í 6. mgr. 68. gr. A laga nr. 90/2003, auk 25% álags á vantaldar fjármagnstekjur, sbr. heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr, 90/2003. Gjaldandi og C nýttu sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 5. nóvember 2010, að gjaldandi hefði greint frá því við skýrslutöku 24. ágúst 2009 að í skattframtölum hans árin 2004, 2005 og 2007 hefði ekki verið gerð grein fyrir hlutafjáreign hans í S Ltd. og tekjum af henni. Nánar aðspurður um S Ltd. sagði gjaldandi að um væri að ræða eignarhaldsfélag sem staðsett væri á Bresku Jómfrúreyjum. Kvaðst gjaldandi hafa í upphafi keypt 100.000 hluti að nafnvirði í félaginu á árunum 2002 eða 2003. Sagðist gjaldandi telja sig vera eina eiganda félagsins. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að gögn til staðfestingar á því að gjaldandi eigi félagið einn hafi ekki verið afhent. Aðspurður um gögn vegna arðgreiðslna frá S Ltd. og sölu hluta í félaginu á rannsóknartímabilinu, þar á meðal vegna arðgreiðslna og sölu hlutabréfa árin 2003, 2004 og 2005 samkvæmt upplýsingum í svarbréfi X við fyrirspurn skattstjórans í Reykjanesumdæmi, sagði gjaldandi að verið væri að afla þeirra gagna. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er tekið fram að umrædd gögn hafi verið afhent, sbr. yfirlit frá Landsbanki Luxembourg S.A. um viðskipti á árunum 2002¬–2008 sem eru meðal fylgigagna rannsóknarskýrslu. Þá er tekið fram að í skattframtölum áranna 2006 og 2007 séu upplýsingar um arðgreiðslur og sölu hlutabréfa í S Ltd. og sé skattframtal tekjuársins 2006 í samræmi við gögn sem gjaldandi hafi afhent við rannsóknina. Við skýrslutöku af gjaldanda hinn 4. ágúst 2010 staðfesti gjaldandi að hann hefði fengið arðgreiðslur frá S Ltd. að fjárhæð 10.461.600 kr. á árinu 2003, 13.751.840 kr. á árinu 2004 og 15.620.880 kr. á árinu 2005 í samræmi við fyrrgreind yfirlit frá Landsbanki Luxembourg S.A. Sagði gjaldandi að engin starfsemi væri í félaginu, hagnaður þess væru vaxtatekjur af bankareikningum og hlutabréf, og að uppruni fjármunanna væri arfur sem hann hafi fengið frá móður sinni. Samkvæmt yfirlitunum námu vaxtatekjur gjaldanda 39.146 kr. og sagðist gjaldandi treysta því að það væri rétt. Þá var gjaldandi spurður um mismun að fjárhæð 981.060 kr. á framtöldum arðgreiðslum samkvæmt skattframtali gjaldanda árið 2008 og arðgreiðslum samkvæmt fyrrgreindum bankayfirlitum. Sagði gjaldandi að um mistök hefði verið að ræða.

Þá er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir því svari gjaldanda við skýrslutöku 4. ágúst 2010, þegar hann var inntur skýringa á því hvers vegna hann gerði ekki grein fyrir umræddum arðgreiðslum, að hann hafi upplýst B um eignarhald á S Ltd. og að gjaldandi hefði fengið arðgreiðslur frá félaginu sem hann vildi að gerð yrði grein fyrir í framtali vegna tekjuársins 2003. Kvaðst gjaldandi ekki muna hvort hann hefði afhent B einhver gögn um arðgreiðslurnar eða félagið. Kvaðst hann ekki geta útskýrt hvers vegna ekki hefði verið gerð grein fyrir arðgreiðslunum í skattframtölunum, en vildi þó taka fram að þetta hefði ekki verið gert af ásetningi. C greindi frá því við skýrslutöku hinn 4. ágúst 2010 að hún hefði ekki vitað að ekki hafi verið gerð grein fyrir þessum tekjum í skattframtölum umrædd ár.

B staðfesti við skýrslutöku 12. ágúst 2010 að hann hefði annast framtalsgerð fyrir gjaldanda árin 2004, 2005 og 2006. Við framtalsgerðina hefði hann stuðst við launamiða, afrit af útgefnum reikningum fyrir vinnu gjaldanda sem arkitekts og kostnaðarreikninga vegna rekstrar og heimilis svo og hlutafjármiða frá Z hf. Kvaðst B hvorki hafa fengið nein gögn frá gjaldanda varðandi S Ltd. né varðandi skuldir almennt. Hann hefði spurt gjaldanda að því hvar hann fengi peninga til að fjárfesta í fasteignum, bílum og sumarhúsum og hefði gjaldandi svarað að hann hefði fengið þá frá mömmu sinni. Skuld við skyldmenni erlendis, sem tilgreind væri í skattframtölum gjaldanda, væri til skýringar á fjárfestingum hans og hefði verið byggð á munnlegum upplýsingum frá gjaldanda. Aðspurður sagðist B hafa vitað um erlent félag í eigu gjaldanda. Hefði gjaldandi nefnt það við sig að hann vildi stofna félag í útlöndum. Af því tilefni hefði B farið með gjaldanda til Y hf. og rætt þar við D lögfræðing, líklega á árinu 2004, en ekki komið meira nálægt þessu. Hann hefði svo spurt gjaldanda við framtalsgerð árið 2005 hvort hann hefði stofnað erlent félag og hefði gjaldandi játað því. Kvaðst B hafa tilgreint nafn félagsins í skattframtali vegna tekjuársins 2004, en hann hefði aldrei séð nein gögn frá gjaldanda um félagið. Við framtalsgerð árið eftir hefði hann gleymt að skoða framtalið frá fyrra ári og því gleymt að setja nafn félagsins í skattframtal vegna tekjuársins 2005. B kvaðst ekki hafa beðið gjaldanda sérstaklega um gögn vegna umrædds félags.

4. Eins og rakið er að framan eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á arðgreiðslum og vaxtatekjum gjaldanda vegna tekjuáranna 2003 til og með 2007 byggðar á yfirlitum frá Landsbanki Luxembourg S.A. um bankaviðskipti gjaldanda, en yfirlit þessi afhenti gjaldandi vegna rannsóknar málsins. Er það niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að vanframtaldar arðgreiðslur frá S Ltd. til gjaldanda hafi numið 10.461.600 kr. tekjuárið 2003, 13.751.840 kr. tekjuárið 2004, 15.620.880 kr. tekjuárið 2005 og 981.060 kr. tekjuárið 2007 eða samtals 40.815.380 kr. Þá hafi vantaldar vaxtatekjur af erlendum bankareikningi gjaldanda numið 18.061 kr. tekjuárið 2003, 7.236 kr. tekjuárið 2004, 1.750 kr. tekjuárið 2005, 4.052 kr. tekjuárið 2006 og 3.501 kr. tekjuárið 2007 eða samtals 34.600 kr. Umrædd bankayfirlit voru lögð fyrir gjaldanda við skýrslutöku hinn 4. ágúst 2010 og staðfesti gjaldandi að hafa fengið arðgreiðslur sem þar voru upplýsingar um. Þá sagðist gjaldandi treysta því að samantekt skattrannsóknarstjóra ríkisins um vaxtatekjur gjaldanda, sem fram kæmu í fyrrgreindum yfirlitum, væru réttar. Að þessu athuguðu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir bera að leggja til grundvallar í úrskurði þessum að vantaldar fjármagnstekjur gjaldanda á umræddum árum hafi numið þeim fjárhæðum sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Samkvæmt því sem að framan er rakið gerði gjaldandi ekki grein fyrir skattskyldum tekjum samkvæmt 3. og 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 9/2003 að fjárhæð samtals 10.479.661 kr. í skattframtali árið 2004, 13.759.076 kr. í skattframtali árið 2005, 15.622.630 kr. í skattframtali árið 2006, 4.052 kr. í skattframtali árið 2007 og 984.561 kr. í skattframtali árið 2008. Er þannig um að ræða ítrekaðar rangfærslur í skattskilum gjaldanda greind ár og að mestu vegna samkynja atvika öll árin. Af hálfu gjaldanda er því borið við, sbr. bréf umboðsmanns gjaldanda, dags. 10. nóvember 2011, að skattframtöl gjaldanda umrædd ár hafi öll verið unnin af aðilum sem hafi atvinnu af framtalsgerð, nánar tilekið B hjá U ehf. gjaldárin 2004, 2005 og 2006 og endurskoðunarstofunni X gjaldárin 2007 og 2008. B hafi haft upplýsingar um erlent félag í eigu gjaldanda, þ.e. S Ltd., og hafi gjaldandi treyst því að hann væri fær um að sjá um rétta framtalsgerð. Af þessu tilefni skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 hvílir framtalsskylda á hverjum manni og skal framtalið jafnframt undirritað af þeim sem framtalsskyldan hvílir á, en skil á skattframtali í tölvutæku formi að fenginni heimild ríkisskattstjóra jafngildir undirritun, sbr. 4. mgr. 90. gr. laganna. Eins og tekið er fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2011 í máli nr. S-1957/2008 eru ákvæði XII. kafla laga nr. 90/2003 skýr um það að refsiábyrgð á skattframtali hvílir á hinum skattskylda aðila og getur hann því ekki komið sér undan ábyrgð á skattframtali með því að fá annan til þess að semja það. Þannig hvílir á herðum gjaldanda sú skylda að ganga úr skugga um að rétt sé talið fram. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins greindi B frá því að þótt hann hefði haft vitneskju um tilvist S Ltd. hefði hann aldrei fengið nein gögn um tekjur gjaldanda af hlutareign hans í félaginu. Hefur ekkert komið fram í málinu sem hnekkir þessum framburði. Eins og atvikum málsins er háttað samkvæmt framansögðu verður talið að fullnægt sé í tilviki gjaldanda þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 109. gr. laga nr. 90/2003. Hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda leiddu til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar gjaldárin 2004, 2005, 2006, 2007 og 2008, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Nánar tiltekið nam vanálagður fjármagnstekjuskattur 1.047.966 kr. gjaldárið 2004, 1.375.908 kr. gjaldárið 2005, 1.562.263 kr. gjaldárið 2006, 405 kr. gjaldárið 2007 og 98.456 kr. gjaldárið 2008.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til skatts af álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 7.100.000 kr. til ríkissjóðs.

5. Umboðsmaður gjaldanda hefur gert kröfu um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum máls þessa þykja ekki vera til staðar lagaskilyrði til þess að ákvarða gjaldanda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 7.100.000 kr. til ríkissjóðs. Málskostnaðarkröfu gjaldanda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja