Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur

Úrskurður nr. 193/2013

Gjaldárið 2012

Lög nr. 90/2003, 68. gr. B-liður.  

Íbúðarhúsnæði kærenda var selt fjármálafyrirtæki á árinu 2010. Þar sem kærendur voru ekki eigendur íbúðarhúsnæðis á árinu 2011 var kröfu þeirra um vaxtabætur gjaldárið 2012 hafnað. Voru tildrög að eigendaskiptum á íbúðarhúsnæðinu á árinu 2010 ekki talin geta skipt máli í því sambandi.

I.

Málavextir eru þeir að með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 7. ágúst 2012, gerðu kærendur athugasemdir við að þeim hefðu ekki verið ákvarðaðar neinar vaxtabætur við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2012. Í kærunni var greint frá því að kærendur væru í greiðsluaðlögun og þeim væri óheimilt að greiða af lánum á greiðsluaðlögunartíma. Þrjú lán, sem öll hefðu verið með veði í fasteign kærenda, væru enn á nafni þeirra og hefðu því verið forskráð í lið 5.2 í skattframtali þeirra árið 2012. Fjármálaráðuneytið hefði hafnað þeirri túlkun að vaxtabætur skyldu einungis viðurkenndar vegna greiddra vaxta en ekki vegna vaxta af gjaldföllnum en ógreiddum skuldum. Greiðsluaðlögun væri í raun og veru skuldasamningur, þ.e. tímabundin frestun á skuldum, og að greiðsluaðlögunartíma loknum kæmi til uppgjörs. Kærendur færu því fram á vaxtabætur af umræddum lánum sem enn væru skráð á þeirra kennitölur og lánardrottnar hefðu tilkynnt um til forskráningar í kafla 5.2 í skattframtali kærenda árið 2012.

Með kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 8. nóvember 2012, var kröfum kærenda hafnað. Í úrskurðinum benti ríkisskattstjóri á að samkvæmt fasteignaskrá hefðu orðið eigendaskipti á húseign kærenda að X þann 28. október 2010. Nýr eigandi væri Z-banki. Þá vísaði ríkisskattstjóri til ákvæða 1., 2., 5. og 6. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og tók fram að í ljósi þess að íbúðarhúsnæði kærenda hefði verið selt í október 2010 yrði ekki séð að skilyrði 6. mgr. B-liðar 68. gr. nefndra laga fyrir greiðslu vaxtabóta væru uppfyllt í tilviki kærenda. Greind þrjú lán veittu því ekki rétt til vaxtabóta gjaldárið 2012.

II.

Með kæru, dags. 13. nóvember 2012, sem barst 6. desember sama ár, hafa kærendur skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að staða kærenda í húsnæðismálum sé til komin vegna nauðungar og ytri aðstæðna, þ.e. atburða sem kærendur hafi ekki getað haft nein áhrif á. Sala kærenda á íbúðarhúsnæði sínu hafi ekki verið sjálfviljug, heldur orðið að veruleika vegna vandræðagangs stjórnvalda í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Kærendur hafi treyst því að gripið yrði til úrræða fyrir heimili í vanda en það hafi brugðist. Kærendur séu nú eignalaus með öllu og standi þó enn í baráttu við erfiðustu lánardrottna. Fólki í þeirra sporum muni um vaxtabæturnar og því leitist kærendur við að ná sanngjarnri niðurstöðu í málið. Fráleitt sé að halda því fram að kærendur hafi selt íbúðarhúsnæði sitt án þess að kaupa annað húsnæði í staðinn þar sem þau hafi ekki haft neitt val í þeim efnum. Ef eignamissir eigi að leiða til þess að réttur til vaxtabóta glatist þá ætti hið sama að gilda um lánardrottna. Því sé þó ekki að heilsa þar sem skuldir kærenda séu í innheimtu þrátt fyrir eignamissi. Kærendur hafi því misst allar eignir sínar en haldi skuldunum. Kærendur séu nú í greiðsluaðlögun til þriggja ára og greiði mánaðarlega ákveðna fjárhæð af skuldum sínum. Þau séu því enn að greiða af lánum sem tekin hafi verið vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Forsendur fyrir lántökunni hafi því ekkert breyst. Kærendum þyki því afar ósanngjarnt að vera synjað um vaxtabætur. Ákvæði 6. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 eigi ekki við í tilviki kærenda þar sem húsnæðið hafi ekki verið selt heldur tekið. Sé ákvörðun ríkisskattstjóra því mótmælt.

III.

Með bréfi, dags. 4. febrúar 2013, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Kærendur halda því fram í kæru að sú málsástæða sé fráleit í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra að þau eigi ekki rétt til vaxtabóta þar sem þau hafi selt íbúðarhúsnæði sitt án þess að festa kaup á öðru íbúðarhúsnæði í staðinn og uppfylli þar með ekki skilyrði 6. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, til að eiga rétt á vaxtabótum. Kærendur hafi ekki selt íbúðarhúsnæði sitt heldur hafi það verið af þeim tekið nauðugum.

Fram kemur í kæru að kærendur séu að greiða afborganir af lánum sem upphaflega hafi verið tekin til að festa kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota.

Í 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að maður sem skattskyldur er samkvæmt 1. gr. og ber vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, eigi rétt á vaxtabótum. Samkvæmt 5. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er réttur til vaxtabóta bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Kærendur eru ekki skráðir eigendur íbúðarhúsnæðis þess sem þau búa í. Ekki þykir hafa verið sýnt fram á að þau uppfylli skilyrði laga um rétt til vaxtabóta.

Að framangreindu virtu er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 7. febrúar 2013, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Samkvæmt 1. mgr. B-liðar 1. mgr. 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eiga þeir sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna og bera vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum, enda sé gerð grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Í 5. mgr. B-liðar 68. gr. kemur fram að réttur til vaxtabóta sé bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota og stofnist þegar íbúðarhúsnæði til eigin nota sé keypt eða bygging þess hefjist. Réttur til vaxtabóta fellur niður þegar íbúðarhúsnæði telst ekki lengur til eigin nota, sbr. 6. mgr. stafliðarins.

Krafa kærenda í máli þessu lýtur að því að þeim verði ákvarðaðar vaxtabætur gjaldárið 2012 vegna vaxtagjalda af þremur lánum frá Lífeyrissjóði Y og N-banka. Kom fram í kæru kærenda til ríkisskattstjóra, dags. 7. ágúst 2012, að lánin hefðu öll verið tryggð með veði í íbúðarhúsnæði kærenda við X og að þau væru enn á nafni kærenda. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra urðu eigendaskipti að umræddri fasteign við X á árinu 2010, en samkvæmt því sem skráð er í fasteignaskrá komst húsnæðið í eigu Z-banka þann 28. október 2010. Þar sem kærendur voru ekki eigendur íbúðarhúsnæðis á árinu 2011 verður ekki talið að skilyrði vaxtabóta séu uppfyllt í tilviki þeirra gjaldárið 2012, enda er réttur til vaxtabóta samkvæmt framansögðu bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota, sbr. 5. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Geta tildrög að eigendaskiptum að X á árinu 2010 ekki skipt máli í því sambandi. Með vísan til framangreinds verður að hafna kröfu kærenda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja