Úrskurður yfirskattanefndar
- Vanræksla á skilum ársreiknings
- Sekt
Úrskurður nr. 198/2013
Lög nr. 3/2006, 1. gr., 109. gr., 126. gr. 3. mgr. (brl. nr. 160/2006, 3. gr.).
Kærandi, sem var einkahlutafélag, mótmælti ákvörðun ársreikningaskrár að gera félaginu sekt vegna meintrar vanrækslu á að standa skil á ársreikningi til opinberrar birtingar. Ekki var fallist á með kæranda að félagið félli utan gildissviðs ársreikningalaga. Var m.a. bent á að í lögskýringargögnum kæmi ekkert fram um að tilgangur löggjafans hefði verið að undanþiggja minni félög skilaskyldu. Að virtum málsatvikum og þar sem ekki varð ráðið að kærandi hefði staðið ársreikningaskrá skil á ársreikningi voru ekki talin efni til að hagga við sektarfjárhæð ársreikningaskrár.
I.
Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 3. september 2012, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ársreikningaskrár að gera félaginu sekt að fjárhæð 250.000 kr. vegna meintrar vanrækslu kæranda á að standa skil á ársreikningi til opinberrar birtingar, sbr. úrskurð ársreikningaskrár, dags. 19. júní 2012. Af hálfu kæranda er þess krafist að sektarákvörðun ársreikningaskrár verði felld niður.
II.
Málavextir eru þeir að með bréfi ársreikningaskrár til kæranda, dags. 31. október 2011, var skorað á félagið að standa ársreikningaskrá skil á ársreikningi fyrir árið 2010. Í bréfi þessu kom fram að kæranda bæri skylda til að senda ársreikningaskrá ársreikninga sína eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs, óháð og til viðbótar því að senda ríkisskattstjóra skattframtal ásamt ársreikningi, sbr. lög nr. 3/2006, um ársreikninga, og reglugerð nr. 664/2008, um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga. Frestur til að skila ársreikningi fyrir árið 2010 væri því liðinn. Í bréfi ársreikningaskrár kom fram að hefði ársreikningur kæranda ekki borist innan 30 daga frá dagsetningu bréfsins að telja yrði að grípa til viðeigandi aðgerða samkvæmt heimild í lögum um ársreikninga, en samkvæmt greindum lögum hefði ársreikningaskrá heimild til að leggja fésektir á þau félög sem stæðu ekki skil á ársreikningi. Var í þessu sambandi vísað til heimildar í 3. mgr. 126. gr. laga nr. 3/2006. Greind áskorun ársreikningaskrár var ítrekuð með bréfi, dags. 29. febrúar 2012. Ekki verður séð að nein viðbrögð hafi orðið við bréfum þessum af hálfu kæranda.
Með bréfi til kæranda, dags. 23. apríl 2012, greindi ársreikningaskrá kæranda frá því að fyrirhugað væri að ákvarða félaginu sekt að fjárhæð 250.000 kr. vegna vanrækslu á að standa skil á ársreikningi fyrir árið 2010 til opinberrar birtingar, sbr. 3. mgr. 126. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Í bréfinu var greint frá því að ársreikningur kæranda fyrir árið 2010 hefði ekki borist ársreikningaskrá og hefði kærandi ekki bætt úr því þrátt fyrir áskorun þess efnis. Þá var í bréfinu fjallað um lagagrundvöll að baki skyldu félaga til að standa skil á ársreikningi til opinberrar birtingar, sbr. 1. mgr. 1. gr., 3. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006 og 2. gr., 3. gr. og 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 664/2008, og gerð grein fyrir refsiákvæðum laga nr. 3/2006 í XII. kafla þeirra, sbr. 125. gr. og 3. mgr. 126. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 160/2006. Kom fram að nánari fyrirmæli um framkvæmd á sektarheimild ársreikningaskrár hefðu verið sett í reglugerð nr. 664/2008, sbr. einkum 13. gr. reglugerðarinnar þar sem tekið væri fram að ársreikningaskrá skyldi leggja fésektir á félag, sem félli undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006, og vanrækti að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá innan tilskilins frests. Skyldi fésektin vera að fjárhæð 250.000 kr. Þá kom fram að kæranda hefði borið samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006 að láta semja ársreikning í samræmi við lagafyrirmæli þar að lútandi og standa skil á honum til ársreikningaskrár innan þeirra tímamarka sem fram kæmu í 109. gr. sömu laga. Með því að vanrækja þessa skyldu sína til að standa ársreikningaskrá skil á ársreikningi fyrir árið 2010 teldist kærandi hafa brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006, en samkvæmt 125. gr., sbr. 3. mgr. 126. gr. laganna varðaði sú háttsemi fésekt sem heimilt væri að leggja á kæranda, sbr. og 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 664/2008. Væri því fyrirhugað að ákvarða kæranda sekt að fjárhæð 250.000 kr., sbr. síðastgreint ákvæði. Var kæranda veittur 30 daga frestur frá dagsetningu bréfsins að telja til að tjá sig um boðaða sektarákvörðun ársreikningaskrár.
Meðal gagna málsins er bréf kæranda til ársreikningaskrár, dags. 22. maí 2012, þar sem fyrirhugaðri ákvörðun skrárinnar um að gera kæranda sekt var mótmælt af hálfu félagsins. Í bréfinu kom fram að kærandi væri undir stærðarmörkum sem tilgreind væru í 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Samkvæmt því félli kærandi ekki undir skilaskyldu eftir lögum nr. 3/2006, enda yrði að líta svo á að skilaskylda samkvæmt ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna tæki til annarra félagaforma en talin væru í 2. tölul. málsgreinarinnar. Þá yrði að álykta að skilaskylda samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna væri ekki ríkari hvað stærðarmörk snerti en fram kæmi í 2. tölul. málsgreinarinnar, enda væru stærðarmörk þá tilgreind til einskis í 2. tölul. og öll tilvist þess töluliðar raunar óþörf. Ekki kæmi til álita að skýra ákvæði 1. gr. laga nr. 3/2006, sem væru íþyngjandi ákvæði um upplýsingagjöf um einkamálefni, með frjálslegum og rýmkandi hætti. Krafa ársreikningaskrár á hendur kæranda væri því ólögmæt.
Með úrskurði, dags. 19. júní 2012, hratt ársreikningaskrá hinni boðuðu sektarákvörðun í framkvæmd og ákvað kæranda sekt að fjárhæð 250.000 kr. vegna vanrækslu á að standa skil á ársreikningi fyrir árið 2010 til opinberrar birtingar. Var rökstuðningur í úrskurðinum á sömu lund og í boðunarbréfi ársreikningaskrár, sbr. hér að framan.
III.
Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 3. september 2012, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ársreikningaskrár að gera félaginu sekt vegna meintrar vanrækslu á skilum ársreiknings fyrir árið 2010. Í kærunni eru áréttuð þau sjónarmið varðandi skilaskyldu eftir lögum nr. 3/2006 sem reifuð voru í bréfi kæranda til ársreikningaskrár, dags. 22. maí 2012. Er ítrekað að ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006 geti ekki tekið til sömu félagaforma og talin séu í 2. tölul. málsgreinarinnar, enda væri hið síðarnefnda ákvæði þá með öllu óþarft. Samkvæmt viðurkenndum lögskýringarreglum verði því að líta svo á að ákvæði 3. tölul. taki til annarra félagaforma en tilgreind séu í 2. tölul. Með hinum kærða úrskurði hafi kæranda verið gerð fésekt á grundvelli rýmkandi lögskýringar sem ekki fái staðist í ljósi þess að upplýsingar um einkamálefni njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þá sé ljóst að þótt umræddar reglur laga nr. 3/2006 um skilaskyldu ársreikninga séu byggðar á reglum evrópuréttar séu íslensku reglurnar allt að einu mun víðtækari en þær evrópsku. Með vísan til framangreinds og þar sem kærandi sé undir öllum stærðarmörkum samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006 beri að fella hinn kærða úrskurð með öllu úr gildi.
IV.
Með bréfi, dags. 29. október 2012, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Í kærunni er því haldið fram að félaginu beri ekki að skila ársreikningi þar sem einkahlutafélög eru ekki talin upp í 3. tl. 1. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga en þar kemur fram gildissvið laganna.
Í X. kafla laga nr. 3/2006, um ársreikninga, er fjallað um birtingu ársreiknings. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laganna skulu félög er falla undir 1. gr. senda ársreikningaskrá ársreikning sinn, sbr. 3. gr., eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs. Skil á ársreikningi í tölvutæku formi séu heimil í samræmi við reglur sem ársreikningaskrá setur. Í reglum ársreikningaskrár nr. 1220/2007 kemur fram að rafræn skil eigi sér stað á þjónustuvef skattstjóra, sbr. nú ríkisskattstjóra, www.skattur.is.
Í 2. mgr. 109. gr. kemur fram að félögum er fara ekki fram úr stærðarmörkum í 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna sé heimilt að senda ársreikningaskrá samandregna útgáfu ársreiknings. Hefur ársreikningaskrá talið að stofnuninni sé ekki heimilt að sækja ársreikning í tölvukerfi ríkisskattstjóra til opinberrar birtingar þar sem forráðamenn félaga verða að ákveða hvort birta eigi opinberlega hefðbundinn eða samandreginn ársreikning, sbr. 111. gr. framangreindra laga.
Í samræmi við það sem hér er rakið hafa ákvæði 1. mgr. 109. gr. um birtingu ársreiknings verið skilin og skýrð sem svo að ákvæðið byggi á því að um almenna opinbera upplýsingaskyldu félaga sé að ræða. Í þessu sambandi má benda á að skilaskylda er í raun tvíþætt. Skilaskylda til ársreikningaskrár varðar annan ársreikning en þann sem skila ber til ríkisskattstjóra með skattframtali. Skilgreining atvinnurekstrar í skattalegum skilningi hefur því enga þýðingu fyrir skyldu til skila á ársreikningi til ársreikningaskrár.
Ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006 verður samkvæmt þessu ekki skilið eða skýrt svo að það undanþiggi frá skilaskyldu ársreiknings til ársreikningaskrár neitt það félag sem fellur undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna enda þótt ekki hafi verið starfsemi hjá félaginu á viðkomandi ári.
Þann 31. október 2011 og 29. febrúar 2012 sendi ársreikningaskrá áskorun til allra skilaskyldra lögaðila um að þeim bæri að skila ársreikningi 2010 til ársreikningaskrár og þeim gefinn 30 daga frestur til að skila ársreikningi annars gæti komið til þess að sekt yrði lögð á viðkomandi lögaðila. Í áskorunum ársreikningaskrár er bent á að skila megi ársreikningi á tvennan hátt, annars vegar rafrænt á þjónustusíðunni www.skattur.is og hins vegar á pappír til ríkisskattstjóra, ársreikningaskrá, Laugavegi 166, 150 Reykjavík. Þann 23. apríl var sent sektarboðunarbréf á skráð lögheimili þeirra félaga sem ekki höfðu skilað ársreikningi 2010 þar sem gefinn var 30 daga frestur í viðbót til að skila ársreikningi eða tjá sig skriflega um boðunarbréfið.
Í ljósi þess að skila ber ársreikningi bæði með skattframtali til ríkisskattstjóra og til ársreikningaskrár var það sérstaklega tekið fram í áskorunarbréfi ársreikningaskrár að það bæri að skila ársreikningnum í gegnum www.skattur.is eða á pappír til ársreikningaskrár á Laugavegi 166. Þegar skilað er rafrænt í gegnum www.skattur.is kemur skýrt fram hvort verið sé að skila til RSK með skattframtali eða til ársreikningaskrár.
Um ákvörðun sektar ársreikningaskrár vegna vanskila á ársreikningi fer samkvæmt 3. mgr. 126. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, en þar segir að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. sömu greinar sé ársreikningaskrá heimilt að leggja sektir á þau félög sem falli undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr. laganna og vanræki að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar. Ennfremur kemur fram að heimild ársreikningaskrár til að leggja á sektir samkvæmt ákvæðinu sé óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðila.
Í 12.-18. gr. reglugerðar nr. 664/2008, um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga, er fjallað nánar um viðurlög og málsmeðferð við sektarákvörðun. Í 12. gr. kemur fram að vanræki félag að skila ársreikningi innan tilskilins frests skuli ársreikningaskrá skora á félagið að bæta úr vanskilum innan 30 daga. Í 13. gr. kemur svo fram að ársreikningaskrá skuli leggja fésektir á félög er falli undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um ársreikninga. Skuli sektin nema 250.000 kr.
Varðandi málsástæður kæranda er vert að benda á að félagið var í rekstri árið 2010 og er því ekki tilefni til þess að fella niður sekt vegna vanskila á ársreikningi. Kærandi heldur því fram félaginu beri ekki að skila ársreikningi þar sem 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. ársreikningalaga eigi ekki við um einkahlutafélög. Uppbygging 1. gr. ársreikningalaga miðar að því að flokka skilaskyld félög þannig að auðvelt sé að vísa til tiltekins hóps félaga síðar í lögunum, t.d. varðandi það hvaða félögum er skylt eða heimilt að vera með IAS staðla, og hvaða félög geti skilað inn samandregnum ársreikningum svo dæmi séu nefnd. Er þetta í samræmi við skýringar við greinina er henni var síðast breytt og endurskrifuð en þar segir um 1. gr. „Lagðar eru til breytingar á 1. gr. laganna með því að flokka félög í félög á markaði, stór félög og lítil félög, jafnframt því að færa í greinina ákvæði 2. gr. laganna um hvaða sameignarfélögum og samlögum beri að fara eftir lögum um ársreikninga. Er það gert til að auðvelda frekari tilvísun til félaganna í lögunum...“ Í 3. tl. 1. mgr. 1. gr. felst að lögin gilda um öll félög með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila sem stunda atvinnurekstur og falla ekki undir 1. og 2. tölul. 1. mgr., þar á meðal öll einkahlutafélög sem falla ekki undir 1. - 2. tölul. 1. mgr. Ljóst er af frumvarpi laganna þegar 1. gr. var breytt að ekki var ætlað að afnema ársreikningaskil minni einkahlutafélaga enda eru flest einkahlutafélög á Íslandi það lítil að þau falla ekki undir 1. - 2. tölul. Á því 3. tölul. við um einkahlutafélög og bar því kæranda að skila inn ársreikningi til opinberrar birtingar. Hefur slík skilaskylda verið staðfest í úrskurðum yfirskattanefndar.
Fram komnar viðbárur kæranda þykja ekki geta leitt til niðurfellingar sektarákvörðunar ársreikningaskrár enda bar félaginu að skila ársreikningi. Kærandi skilaði seinast inn ársreikningi 9. október 2006 og var það ársreikningur ársins 2005. Hefur því kærandi ítrekað brotið gegn lögum um ársreikninga varðandi skil á ársreikningi til ársreikningaskrár.
Að framangreindu virtu er þess krafist að úrskurður ársreikningaskrár verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ársreikningaskrár.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. október 2012, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.
Með bréfi, dags. 16. nóvember 2012, hefur fyrirsvarsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Eru áður fram komin sjónarmið kæranda ítrekuð og þess krafist að hin kærða fésekt verði felld niður. Bréfinu fylgdi ársreikningur kæranda fyrir árið 2010 og er tekið fram í bréfinu að hann sé afhentur yfirskattanefnd í trúnaði þannig að nefndinni sé unnt að ganga úr skugga um að kærandi sé undir stærðarmörkum 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006. Í niðurlagi bréfsins er farið fram á að kæranda verði úrskurðaður hæfilegur málskostnaður vegna umstangs og fyrirhafnar sem málið hafi haft í för með sér.
V.
Í máli þessu er til umfjöllunar sú ákvörðun ársreikningaskrár að gera kæranda sekt að fjárhæð 250.000 kr. vegna vanrækslu félagsins á að standa skil á ársreikningi fyrir árið 2010. Um birtingu ársreikninga og skyldur félaga til þess að standa ársreikningaskrá skil á ársreikningum sínum eru ákvæði í X. kafla laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Í XII. kafla laganna er fjallað um viðurlög og málsmeðferð vegna brota á þeim. Kemur fram í 2. mgr. 126. gr. laganna að yfirskattanefnd úrskurði sektir vegna brota á lögunum nema máli sé vísað til rannsóknar og dómsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar, sbr. 3. gr. laga nr. 160/2006, um breyting á lögum nr. 3/2006, er ársreikningaskrá heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 126. gr., að leggja sektir á þau félög sem falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr. laga nr. 3/2006 og vanrækja að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar. Þá er ársreikningaskrá heimilt að leggja sektir á félög sem falla undir 1. gr. laganna og vanrækja að leggja fram fullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar. Er heimild ársreikningaskrár til að leggja á sektir samkvæmt þessari málsgrein óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Nemur sektarfjárhæðin allt að 500.000 kr. og rennur í ríkissjóð. Í niðurlagi málsgreinarinnar segir að sektarákvörðun ársreikningaskrár sé kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992. Þá skal ráðherra setja reglugerð um nánari framkvæmd á sektarheimild ársreikningaskrár, sbr. 4. mgr. 126. gr. laga nr. 3/2006, sbr. 3. gr. laga nr. 160/2006. Hefur það verið gert með reglugerð nr. 664/2008, um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga, sem leysti af hólmi reglugerð nr. 319/2003, um sama efni.
Samkvæmt ákvæðum 109. gr. laga nr. 3/2006 hvílir skylda til þess að standa ársreikningaskrá skil á ársreikningi til opinberrar birtingar á þeim félögum sem falla undir gildissvið laganna, sem markað er í 1. gr. þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006 gilda lögin um félög með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila eins og greinir í 1.-3. tölul., svo og félög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila eins og greinir í 4. tölul. málsgreinarinnar. Eftir breytingar á 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna með 12. gr. laga nr. 108/2006 og 1. gr. laga nr. 171/2007 falla undir þann tölulið félög sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, svo sem nánar greinir. Undir ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. falla hlutafélög, einkahlutafélög, samlagshlutafélög, samvinnufélög og samvinnusambönd og gagnkvæm vátrygginga- og ábyrgðarfélög ef félög þessi fara fram úr tvennum af þargreindum stærðarmörkum tvö ár í röð, sbr. stafliði a-c í ákvæðinu. Undir 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006, sbr. 1. gr. laga nr. 171/2007, falla „öll önnur félög með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila sem stunda atvinnurekstur sem falla ekki undir 1. og 2. tölul., svo og sparisjóðir og skráð útibú erlendra félaga og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, sbr. lög nr. 33/1999“, eins og segir í ákvæðinu. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna tekur gildissvið laganna loks til sameignarfélaga og annarra félaga með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila, svo og samlagsfélaga, að uppfylltum skilyrðum sem þar eru rakin.
Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag. Hin kærða fésektarákvörðun er byggð á því að kæranda hafi borið að standa ársreikningaskrá skil á ársreikningi fyrir árið 2010 þar sem félagið falli undir fyrrgreint ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006.
Almenn ákvæði um skil og birtingu ársreikninga voru fyrst lögfest hér á landi með lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, sem síðar voru endurútgefin sem lög nr. 3/2006, sbr. 6. gr. laga nr. 135/2005, um breyting á lögum nr. 144/1994. Áður voru reglur um þessi efni að finna í ýmsum sérlögum, þar á meðal í hlutafélagalögum nr. 32/1978, sbr. XII. kafla þeirra laga. Með greindum lögum nr. 144/1994 var mælt fyrir um víðtækari skyldur félaga til að standa skil á ársreikningi til opinberrar birtingar en áður hafði gilt, en samkvæmt 105. gr. hlutafélagalaga nr. 32/1978, um skil ársreiknings til hlutafélagaskrár, sbr. og 2. mgr. 145. gr. laganna, um heimild til að veita almennan aðgang að skránni, eins og þessum ákvæðum var breytt með 44. og 62. gr. laga nr. 69/1989, var einvörðungu þeim hlutafélögum, sem ekki lögðu neinar hömlur á heimild hluthafa til meðferðar á hlutabréfum sínum, fortakslaust skylt að senda hlutafélagaskrá ársreikninga sína og heimild til að veita aðgang að ársreikningum bundin við slík félög. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 144/1994 giltu lögin um hlutafélög og önnur félög með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila, samvinnufélög og samvinnusambönd, gagnkvæm vátrygginga- og ábyrgðarfélög og önnur félög með breytilegan höfuðstól og breytilega félagatölu. Ennfremur giltu lögin um sameignarfélög og önnur félög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila, svo og samlagsfélög, sbr. 2. gr. laganna.
Með lögum nr. 45/2005, um breyting á lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, voru gerðar breytingar á 1. gr. hinna síðarnefndu laga og ákvæði greinarinnar að mestu færð til þess horfs sem nú er. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps til laga nr. 45/2005 kom fram að lagðar væru til breytingar á 1. gr. ársreikningalaga með því að flokka félög, í félög á markaði, stór félög og lítil félög, jafnframt því að færa í greinina ákvæði 2. gr. sömu laga um hvaða sameignarfélögum og samlögum bæri að fara eftir lögum um ársreikninga. Væri það gert til að auðvelda frekari tilvísun til félaganna í lögunum.
Samkvæmt framansögðu mæltu lög nr. 144/1994, eins og þau hljóðuðu fyrir breytingar með lögum nr. 45/2005, fyrir um almenna skyldu hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila til að standa skil á ársreikningi til opinberrar birtingar án tillits til stærðar slíkra félaga eða umfangs rekstrar þeirra í einstökum tilvikum. Í lögskýringargögnum með lögum nr. 42/2005 kemur ekkert fram um að tilgangur löggjafans hafi verið að undanþiggja minni félög skilaskyldu að þessu leyti. Þvert á móti kemur fram í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 42/2005, að markmið með breytingum á 1. gr. ársreikningalaga var einvörðungu að auðvelda tilvísanir í lögunum til mismunandi hópa félaga, þ.e. félaga sem skráð væru á opinberum markaði, stærri félaga, minni félaga og sameignarfélaga, sbr. hér að framan. Þá er tilefni til að taka fram, vegna þess sjónarmiðs kæranda að ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006 hafi ekki sjálfstæða þýðingu ef litið sé svo á að sömu félagaform geti fallið undir ákvæði 3. tölul. sömu málsgreinar, að í lögunum er víða gerður greinarmunur á réttarstöðu þeirra félaga, sem falla undir 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. þeirra, og þeirra félaga sem falla undir 3. tölul. málsgreinarinnar, sbr. t.d. 16. gr., 56. gr., 59. gr. og 64. gr. laganna. Eiga þessar athugasemdir kæranda því ekki við rök að styðjast.
Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður ekki fallist á með kæranda að félagið hafi fallið utan gildissviðs ársreikningalaga nr. 3/2006, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. nefndra laga. Verður því að telja að kæranda hafi borið að senda ársreikningaskrá ársreikning félagsins fyrir árið 2010 til opinberrar birtingar eigi síðar en átta mánuðum eftir lok viðkomandi reikningsárs, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006. Vegna vanrækslu kæranda á að sinna þeirri skyldu sinni innan tilskilins frests voru lagaskilyrði til beitingar sektar samkvæmt 3. mgr. 126. gr. sömu laga, sbr. 3. gr. laga nr. 160/2006. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi hafi staðið ársreikningaskrá skil á ársreikningi vegna umrædds árs. Að því athuguðu og málsatvikum að öðru leyti verða ekki talin efni til að hagga við þeirri sektarfjárhæð sem ársreikningaskrá ákvarðaði. Samkvæmt framansögðu er kröfu kæranda hafnað. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda er hafnað.