Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lífeyrir
  • Tekjutímabil
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 200/2013

Gjaldár 2010

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 2. tölul., 59. gr. 2. mgr., 96. gr., 104. gr.   Lög nr. 37/1993, 11. gr., 12. gr.   Lög nr. 100/2007, 16. gr., 18. gr. 52. gr., 55. gr.  

Ríkisskattstjóri færði kæranda til tekna í skattframtali hans árið 2010 greiðslu sem stafaði af endurreikningi og uppgjöri Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda á árinu 2009. Í úrskurði yfirskattanefndar var rakið að almannatryggingalöggjöf gerði ráð fyrir því að endanleg ákvörðun bóta hvers árs færi fyrst fram að því ári liðnu og að um ákvörðun bótafjárhæða leiddi beint af lögum. Að fram komnum upplýsingum um tekjur bótaþega yrði því ekki séð að nein sú óvissa ríkti um greiðsluskyldu, fjárhæðir né tímabil sem gæfi tilefni til að líta á viðbótargreiðslu, sem leiddi af því að tekjur hefðu reynst lægri en áður hefði verið reiknað með, sem óvissar tekjur í skilningi skattalaga. Samkvæmt því og þar sem um var að ræða leiðréttingu á bótum sem greiða átti kæranda á árinu 2009 var talið að greiðslan hefði með réttu verið færð kæranda til tekna í skattframtali hans árið 2010.

I.

Málavextir eru þeir að í innsendu skattframtali kæranda árið 2010 voru tilgreindar skattskyldar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 986.800 kr. Með bréfi, dags. 13. september 2012, boðaði ríkisskattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 2010 á grundvelli leiðréttra launamiða og skilagreina staðgreiðslu opinberra gjalda sem borist hefðu frá Tryggingastofnun ríkisins vegna greiðslna stofnunarinnar til kæranda á árinu 2009. Væri fyrirhugað að hækka skattskyldar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins í reit 40 í skattframtali kæranda árið 2010 úr 986.800 kr. í 1.463.973 kr. Varðandi skattskyldu bótagreiðslna Tryggingastofnunar ríkisins vísaði ríkisskattstjóri til 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Veitti ríkisskattstjóri kæranda 15 daga frest frá dagsetningu bréfs hans að telja til að koma á framfæri athugasemdum vegna fyrirhugaðrar breytingar.

Kærandi mótmælti boðaðri endurákvörðun með bréfi, dags. 17. september 2012. Vísaði kærandi til þess að umrædd greiðsla Tryggingastofnunar ríkisins að fjárhæð 477.173 kr. hefði borist sér á árinu 2012 og hefði Tryggingastofnun haldið eftir staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð 177.241 kr. Ætti greiðslan því að koma til skattlagningar með tekjum ársins 2012. Jafnframt fór kærandi fram á upplýsingar um hvenær Tryggingastofnun ríkisins hefði óskað eftir endurákvörðun og hvernig hagað væri samskiptum milli Tryggingastofnunar ríkisins og ríkisskattstjóra varðandi álagningu opinberra gjalda og afdregna staðgreiðslu. Loks fór kærandi fram á að tiltekinn starfsmaður ríkisskattstjóra kæmi ekki að afgreiðslu málsins. Kvaðst kærandi gefa ríkisskattstjóra 15 daga frest frá dagsetningu bréfsins til að taka afstöðu til efnis þess en annars yrði að líta svo á að fallist hefði verið á kröfur kæranda.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 15. október 2012, hratt ríkisskattstjói boðaðri breytingu í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 2010 til samræmis. Vegna framkominna andmæla kæranda tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 skyldi að jafnaði telja tekjur til tekna á því ári sem þær yrðu til, þ.e. þegar myndast hefði krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur væri að ræða. Krafa kæranda til bóta frá Tryggingastofnun ríkisins hefði byggt á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og yrði því ekki séð að um óvissar tekjur hefði verið að ræða. Bæri því samkvæmt 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 að færa umræddar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins til tekna í skattframtali kæranda árið 2010 (misritað 2009 í úrskurði), þrátt fyrir að þær hefðu verið greiddar eftir lok tekjuársins 2009. Ekki lægi fyrir hjá ríkisskattstjóra hvenær Tryggingastofnun ríkisins hefði tekið ákvörðun um að endurákvarða bætur kæranda og væri kæranda bent á að leita eftir upplýsingum hjá Tryggingastofnun um það atriði. Ríkisskattstjóri tók fram að um samskipti ríkisskattstjóra og aðila, sem skyldugir væru til að halda eftir staðgreiðslu opinberra gjalda, giltu ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þá synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um að tiltekinn starfsmaður ríkisskattstjóra kæmi ekki að ákvörðunartöku í máli kæranda á þeim grundvelli að sú krafa ætti sér ekki lagastoð. Loks áréttaði ríkisskattstjóri að ekki yrði annað ráðið en að kærandi hefði fengið greiddar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins sem hefðu stafað af endurreikningi bóta vegna tekjuársins 2009 og teldust þær því til skattskyldra tekna gjaldárið 2010.

II.

Með kæru, dags. 23. nóvember 2012, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 15. október 2012, til yfirskattanefndar. Er kæran sett fram í átta liðum. Í fyrsta lagi er þess krafist að úrskurði ríkisskattstjóra verði hnekkt þar sem frestur hans til uppkvaðningar úrskurðar hafi verið liðinn og er í því sambandi vísað til frestveitingar kæranda í bréfi hans, dags. 17. september 2012. Í öðru lagi er kærð sú ákvörðun ríkisskattstjóra að telja kæranda til tekna í skattframtali hans árið 2010 greiðslu sem hann hafi fengið greidda 4. janúar 2012 en tekjurnar hafi borið að færa til tekna með tekjum ársins 2012. Vísar kærandi í því sambandi til 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003. Í þriðja lagi byggir kærandi á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ekki verði séð hvaða lögmætu markmiðum ríkisskattstjóri nái fram með hinni umdeildu skattlagningu. Í fjórða lagi vísar kærandi til jafnræðisreglu í 11. gr. laga nr. 37/1993 og bendir á að hann hafi barist fyrir því í rúm þrjú ár að fá leiðréttingu frá Tryggingastofnun ríkisins og hafi Tryggingastofnun borið að reikna honum vexti á leiðrétta fjárhæð í samræmi við 2. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Í fimmta lagi er byggt á því að ríkisskattstjóri hafi ekki gætt hagsmuna kæranda og eiginkonu hans með hinum kærða úrskurði. Er það rökstutt með því að kærandi hafi ekki átt kost á að nýta persónuafslátt frá eiginkonu sinni á árinu 2009, en á árinu 2012 hafi verið um ónýttan persónuafslátt að ræða hjá henni. Í sjötta lagi byggir kærandi á vanhæfi þess starfsmanns ríkisskattstjóra sem kveðið hafi upp hinn kærða úrskurð. Vísar kærandi í því sambandi til fyrri afgreiðslu umrædds starfsmanns á máli kæranda sem gefi tilefni til að efast um hlutleysi hans. Í sjöunda lagi eru gerðar athugasemdir við framkvæmd staðgreiðsluskila hjá Tryggingastofnun ríkisins auk vinnubragða ríkisskattstjóra í tengslum við hana. Loks er gerð krafa um greiðslu bóta frá ríkisskattstjóra vegna lögbrota og í því sambandi vísað til miska, vinnutaps og annars tjóns kæranda sem þau brot hafi valdið.

III.

Með bréfi, dags. 4. febrúar 2013, hefur ríkisskattstjóri lagt fram þá kröfugerð fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 7. febrúar 2013, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Með bréfi kæranda, dags. 20. febrúar 2013, eru gerðar athugasemdir við framangreinda kröfugerð og kröfur kæranda áréttaðar.

IV.

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 15. október 2012, að færa kæranda til skattskyldra tekna í skattframtali hans árið 2010 greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 477.173 kr. Fram er komið að um var að ræða greiðslu sem stafaði af endurreikningi og uppgjöri Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda á árinu 2009 í samræmi við 16. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, sbr. endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. janúar 2012, sem er meðal gagna málsins. Samkvæmt þessu var umrædd greiðsla innt af hendi á árinu 2012. Af hálfu kæranda er því ekki mótmælt að um skattskylda greiðslu sé að ræða, sbr. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Á hinn bóginn telur kærandi að tekjufærsla ríkisskattstjóra á umræddri greiðslu í skattframtali árið 2010 standist ekki, enda beri að telja tekjurnar til tekna á árinu 2012, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, í samræmi við greiðslu til kæranda á því ári. Þá heldur kærandi því fram að ýmsir annmarkar hafi verið á málsmeðferð ríkisskattstjóra. Er krafa kæranda þannig bæði byggð á formlegum og efnislegum málsástæðum. Skal fyrst vikið að þeim málsástæðum kæranda sem lúta að formlegum atriðum.

Í kæru til yfirskattanefndar er byggt á því að ríkisskattstjóri hafi ekki virt þann frest sem kærandi hafi gefið honum í bréfi, dags. 17. september 2012, til að kveða upp úrskurð í málinu. Af þessu tilefni skal tekið fram að með bréfi sínu, dags. 13. september 2012, þar sem ríkisskattstjóri boðaði kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2010, veitti ríkisskattstjóri kæranda 15 daga frest frá póstlagningu bréfsins til að tjá sig um efni þess og leggja fram viðbótargögn áður en úrskurður yrði kveðinn upp, sbr. áskilnað í 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Var því gætt fyrirmæla þess ákvæðis um lágmarksfrest til andmæla. Andmæli kæranda voru móttekin hjá ríkisskattstjóra 18. september 2012. Samkvæmt 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 skal ríkisskattstjóra kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun álagningar innan tveggja mánaða að jafnaði. Hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp 15. október 2012, sem var innan lögboðins frests samkvæmt framansögðu. Þegar af þessari ástæðu verður hinum kærða úrskurði ekki hnekkt á þeim grundvelli að frestum til afgreiðslu málsins hafi ekki verið sinnt.

Eins og fram er komið byggir kærandi á því að nafngreindur starfsmaður ríkisskattstjóra hafi verið vanhæfur til meðferðar máls kæranda, sbr. 3. mgr. 6. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi starfsmaðurinn úrskurðað kæranda í óhag í öðru máli, svo sem kærandi gerir nánari grein fyrir. Af þessu tilefni skal tekið fram að um sérstakt hæfi skattyfirvalda er fjallað í 104. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar er svo kveðið á að maður megi ekki taka þátt í rannsókn eða annarri meðferð máls, hvorki skattákvörðun né kæru, ef honum hefði borið að víkja sæti sem héraðsdómara í málinu. Ganga ákvæði þessi framar ákvæðum um sérstakt hæfi í II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er fjallað um sérstakt hæfi dómara. Fela þau ákvæði í sér strangari hæfisskilyrði en stjórnsýslulögin mæla fyrir um, sbr. ákvæði um sérstakt hæfi í II. kafla laga nr. 37/1993, og ganga því framar almennum hæfisreglum stjórnsýslulaga, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. þeirra laga, sbr. og greint ákvæði 104. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt þessu verður að telja að um sérstakt hæfi starfsmanna ríkisskattstjóra til meðferðar máls fari eftir 104. gr. laga nr. 90/2003.

Samkvæmt g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til meðferðar máls ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður en greinir í stafliðum a-f í greininni og fallnar eru til að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Hér er um matskennda hæfisreglu að ræða sem er grunnreglan, en aðrar reglur í stafliðum a-f í lagagreininni eru nánari útfærsla á henni. Eins og fram er komið byggir kærandi á því að vegna fyrri afskipta greinds starfsmanns ríkisskattstjóra af málum kæranda hafi hann ekki getað talist hæfur til þess að kveða upp hinn kærða úrskurð, dags. 15. október 2012. Umræddur starfsmaður ríkisskattstjóra ritaði undir boðunarbréf embættisins, dags. 13. september 2012, og kvað jafnframt upp hinn kærða úrskurð. Þess er að geta að á því hefur verið byggt í úrskurðaframkvæmd, þegar vanhæfi hefur verið borið við af hálfu skattaðila við þær aðstæður að sami starfsmaður skattstjóra hefur fjallað um mál við meðferð þess á skattstjórastigi, að slíkar aðstæður einar sér leiði ekki til vanhæfis, komi ekkert annað til, sbr. t.d. úrskurði yfirskattanefndar nr. 750/1997 og 913/1997, sem birtir eru á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is). Má í þessu sambandi einnig vísa til dóms Hæstaréttar Íslands frá 20. september 2007 í máli nr. 523/2006. Þá verður ekki séð að afskipti greinds starfsmanns ríkisskattstjóra af hinu fyrra máli kæranda, samkvæmt því sem kærandi tiltekur um þau og fyrir liggur í gögnum málsins, beri neitt það með sér sem gefi tilefni til að draga óhlutdrægni starfsmannsins með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 104. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra ekki felldur úr gildi á þeim grundvelli sem hér um ræðir.

Víkur þá að umkvörtunarefni kæranda sem lýtur að því að jafnræðis hafi ekki verið gætt við meðferð máls hans, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með því að það hafi tekið hann þrjú ár að fá leiðréttingu á bótagreiðslum sínum frá Tryggingastofnun ríkisins án þess að stofnunin hafi greitt kæranda vexti, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007. Ljóst þykir að þessi athugasemd kæranda varðar samskipti hans við Tryggingastofnun ríkisins vegna uppgjörs á bótum kæranda og vaxtagreiðslu í því sambandi. Ekki kemur fram hvort kærandi hefur borið þessi atriði undir úrskurðarnefnd almannatrygginga, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 100/2007. Hvað sem því líður þykir liggja fyrir að hér sé ekki um að ræða ágreining vegna ákvörðunar skatta og gjalda í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Er því ekki á valdsviði yfirskattanefndar að taka afstöðu til þessa þáttar í kæru. Er þessu kæruatriði því vísað frá yfirskattanefnd.

Þá eru í kæru gerðar athugasemdir varðandi vinnubrögð Tryggingastofnunar ríkisins og ríkisskattstjóra við leiðréttingu staðgreiðsluskila í tilefni af endurreikningi bótagreiðslna. Þessi liður kæru er settur fram með almennum hætti og verður ekki séð að hann varði mál kæranda sérstaklega, en tekið skal fram að samkvæmt gögnum málsins stóð Tryggingastofnun ríkisins skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af þeirri greiðslu til kæranda sem um er deilt í málinu. Að svo vöxnu er þessum lið kærunnar vísað frá yfirskattanefnd.

Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að neinir þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð ríkisskattstjóra sem leitt geti til þess að ómerkja beri hina umdeildu skattákvörðun svo sem krafa kæranda lýtur að. Víkur þá að efnislegum grundvelli hinnar umdeildu skattlagningar, þ.e. á hvaða ári telja beri umræddar tekjur kæranda til skattskyldra tekna.

Meginregla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, um tímaviðmiðun fyrir tekjufærslum kemur fram í 2. mgr. 59. gr. laganna og er svohljóðandi: „Tekjur skal að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.“ Meginregla þessi, kröfustofnunarregla, var upphaflega lögfest með 2. mgr. 7. gr. laga nr. 6/1935, um tekjuskatt og eignarskatt, og hefur æ síðan verið í lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Um nýmæli þetta sagði svo í athugasemdum með 8. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 6/1935, en grein þessi varð 7. gr. laganna: „Að lokum er bætt við greinina því nýmæli, að tekjur skuli jafnan telja til tekna á því ári er þær verða til, þ.e. þegar vegna þeirra hefur myndast krafa á hendur öðrum, þótt ógreitt sé. Er það í samræmi við framtalsvenju manna almennt, en auðveldara er til samanburðar og yfirlits fyrir skattanefndir, að sem flestir fylgi sömu framtalsreglu að þessu leyti.“

Greiðslur til kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins byggja á ákvæðum laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Í III. kafli laganna er fjallað um lífeyristryggingar, en samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna taka þær til ellilífeyris, örorkulífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar, tekjutryggingar, örorkustyrks og barnalífeyris. Um ákvörðun örorkubóta er fjallað í 18. gr. laga nr. 100/2007 og kemur þar fram að þær bætur skerðast séu tekjur bótaþega umfram nánar tiltekin mörk, sbr. 5. mgr. 18. gr. laganna, en um framkvæmd fer samkvæmt 16. gr. laganna. Fram kemur í 7. mgr. 16. gr. greindra laga að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þeirri grein. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 ber bótaþega að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Er tekið fram að Tryggingastofnun sé heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og bótaþega m.a. hjá skattyfirvöldum. Samkvæmt 8. málsl. 2. mgr. 52. gr. laganna ber umsækjanda og bótaþega að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur til hans og skal beita ákvæðum 55. gr. laganna séu rangar upplýsingar gefnar. Í 4. mgr. 55. gr. laganna er mælt fyrir um leiðréttingu Tryggingastofnunar í þeim tilvikum þegar bætur hafa verið vangreiddar. Nánar er mælt fyrir um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta í reglugerð nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Í tilkynningu Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum ársins 2009, dags. 4. janúar 2012, kemur fram að þar sem skattyfirvöld hafi endurskoðað álagningu opinberra gjalda kæranda vegna ársins 2009 hafi bótaréttur kæranda verið endurreiknaður í samræmi við breyttar forsendur. Við athugun á skattframtali kæranda árið 2010 kemur í ljós að með úrskurði, dags. 5. desember 2011, hefur ríkisskattstjóri fallist á beiðni kæranda samkvæmt erindi, dags. 13. maí 2011, um að dreifa greiðslu frá lífeyrissjóði X að fjárhæð 1.255.603 kr., sem kærandi taldi til tekna í skattframtalinu, til skattlagningar á tekjuárunum 2007, 2008 og 2009. Samkvæmt greindum úrskurði ríkisskattstjóra lækkaði tekjuskatts- og útsvarstofn kæranda gjaldárið 2010 úr 2.869.362 kr. í 1.673.177 kr. Ganga má út frá því að þetta sé sú endurskoðun á álagningu kæranda sem vísað er til í tilkynningu Tryggingastofnunar ríkisins.

Samkvæmt framansögðu verður byggt á því að Tryggingastofnun ríkisins hafi endurreiknað bótagreiðslur til kæranda vegna umræddrar endurákvörðunar ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 2010. Hér að framan eru í stórum dráttum rakin þau ákvæði almannatryggingalaga sem eiga við um endurreikning af þessu tagi. Eins og þar kemur fram er gert ráð fyrir því að endanleg ákvörðun bóta hvers árs (bótagreiðsluárs) fari fyrst fram að því ári liðnu. Um ákvörðun bótafjárhæða hvers árs leiðir beint af lögum. Að fram komnum upplýsingum um tekjur bótaþega verður því ekki séð að nein sú óvissa ríki um greiðsluskyldu, fjárhæðir né tímabil sem gefi tilefni til að líta á viðbótargreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins, sem leiðir af því að tekjur hafi reynst lægri en áður var reiknað með, sem óvissar tekjur í skilningi 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt framansögðu og með því að um var að ræða leiðréttingu á bótum sem greiða átti kæranda á árinu 2009 verður talið að umrædd greiðsla hafi með réttu verið færð kæranda til tekna í skattframtali árið 2010. Að því leyti sem kærandi byggir á því að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið gætt, sbr. athugasemdir í kæru til yfirskattanefndar m.a. um að hagsmuna hans og eiginkonu hans hafi ekki verið gætt, skal tekið fram að ekki verður séð að meðalhófsregla geti átt hér við, enda er einungis um að ræða úrlausn ágreiningsefna á grundvelli gildandi réttarreglna. Samkvæmt framansögðu er efnislegum málsástæðum kæranda hafnað.

Vegna kröfu kæranda um að honum verði ákvarðaðar bætur vegna lögbrota ríkisskattstjóra, sem m.a. hafi valdið honum miska og vinnutapi, skal tekið fram að úrskurðarvald yfirskattanefndar er skilgreint svo í 1. og 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, að það taki til ákvörðunar skatta, gjalda og skattstofna svo sem nánar greinir. Er ekki á valdsviði yfirskattanefndar að taka skaðabótakröfu kæranda til efnislegrar úrlausnar, en um slík mál fjalla dómstólar. Kröfu kæranda varðandi skaðabætur er af þessum sökum vísað frá yfirskattanefnd. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum, getur yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag. Er skilyrði slíkrar ákvörðunar að skattaðili hafi haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt hafi verið að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Að því leyti sem líta má á kröfu kæranda sem kröfu um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt greindum lagaákvæðum skal tekið fram að samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda sem varðar ákvörðun bótafjárhæðar frá Tryggingastofnun ríkisins er vísað frá. Öðrum kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja