Úrskurður yfirskattanefndar

  • Húsnæðissparnaðarreikningur
  • Skattafsláttur

Úrskurður nr. 272/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 49/1985, 5. gr. 2. mgr. (brl. nr. 111/1992, 31. gr.).  

Talið var að kæranda væri heimill skattafsláttur vegna innleggs á húsnæðissparnaðarreikning þótt ekki hefði verið gert skil á öllu umsömdu innleggi ársins. Kærandi hafði stofnað reikning sinn fyrir 1. janúar 1993 og uppfyllti þannig skilyrði til að mega víkja frá greiðslu umsamins innleggs án þess að glata rétti sínum til skattafsláttar.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 25. júlí 1996, tilkynnti skattstjóri kæranda að ekki væri heimild til skattafsláttar vegna innleggs á húsnæðissparnaðarreikning nema gerð hefðu verið skil á öllu umsömdu innleggi hvers almanaksárs fyrir lok þess, sbr. 5. gr. laga nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga. Samkvæmt bankayfirliti yfir reikning kæranda hefðu ekki verið staðin skil á öllu innleggi vegna 4. ársfjórðungs 1995 fyrir lok ársins og væri því fjárhæð í reit 58 á framtali hennar felld af framtalinu. Í samræmi við þessa breytingu fékk kærandi ekki skattafslátt við álagningu gjalda 1996 vegna innleggs á húsnæðissparnaðarreikning á árinu 1995.

Kærandi mótmælti gerðri breytingu með kæru til skattstjóra, dags. 29. júlí 1996 …

Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 14. október 1996. …

Með kæru, dags. 25. október 1996, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar og ítrekað að samkvæmt breytingu þeirri á 2. mgr. 5. gr. laga nr. 49/1985 sem gerð hafi verið með lögum nr. 111/1992 skuli maður sem stofnað hafði húsnæðissparnaðarreikning fyrir 1. janúar 1993 ekki sæta viðurlögum þótt hann eftir þann tíma standi ekki skil á umsömdu innleggi á húsnæðissparnaðarreikning. Kærandi hafi ekki tekið fé af húsnæðissparnaðarreikningi sínum og muni ekki gera svo fyrr en ráðist verði í íbúðarkaup.

Með bréfi, dags. 17. janúar 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda fallist á kröfu kæranda með hliðsjón af fram komnum skýringum og gögnum.

II.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga, eins og greinin hljóðar eftir gildistöku breytingar samkvæmt 31. gr. laga nr. 111/1992, er ljóst að þeir sem stofnuðu húsnæðissparnaðarreikninga fyrir 1. janúar 1993 geta fengið skattafslátt þótt eftir þann tíma sé ekki lagt inn á reikninga þeirra fullt ársinnlegg samkvæmt samningi. Er þegar af þeirri ástæðu fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja