Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður hlutabréfa
  • Skattlagning hjóna

Úrskurður nr. 95/2011

Gjaldár 2006

Lög nr. 90/2003, 62. gr. 1. mgr. 2. tölul.  

Kærandi mótmælti því að á sig væri lagður fjármagnstekjuskattur gjaldárið 2006 vegna vantalins söluhagnaðar hlutabréfa sem komið hefði til vegna viðskipta eiginmanns kæranda með hlutabréf á árinu 2005. Í úrskurði yfirskattanefndar var rakið að við frumálagningu opinberra gjalda kæranda og eiginmanns hennar gjaldárið 2006 hefði fjármagnstekjuskattur vegna fjármagnstekna beggja hjóna verið lagður á kæranda í samræmi við ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, enda hefði hún verið með hærri skattskyldar tekjur samkvæmt A-lið 7. gr. sömu laga. Samhliða hinni umdeildu hækkun fjármagnstekna hefði skattstjóri hækkað launatekjur eiginmanns kæranda í skattframtali hans árið 2006. Þrátt fyrir lækkun samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar á þeirri fjárhæð stæði eftir að gjaldárið 2006 hefði eiginmaður kæranda hærri hreinar tekjur samkvæmt A-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 en kærandi. Bæri því að telja fjármagnstekjur hjónanna samkvæmt C-lið 7. gr. laganna til tekna hjá eiginmanni kæranda. Vegna sjónarmiða í kröfugerð ríkisskattstjóra tók yfirskattanefnd fram að í ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 kæmi hvergi fram að miða bæri við framtaldar tekjur hjóna einvörðungu. Var því fallist á kröfu kæranda.

I.

Málavextir eru þeir að í kjölfar bréfaskipta við eiginmann kæranda, B, tók skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda og B gjaldárin 2006, 2007 og 2008 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 24. nóvember 2009, vegna tilgreindra breytinga sem skattstjóri gerði á skattskilum B umrædd ár, sbr. 4. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Lutu breytingar skattstjóra m.a. að því að færa B til skattskyldra tekna í skattframtali hans árið 2006 söluhagnað hlutabréfa að fjárhæð 29.750.000 kr. vegna sölu hlutabréfa á árinu 2005, sbr. 8. tölul. C-liðar 7. gr. og 18. gr. laga nr. 90/2003. Við þá hækkun skattstofna kærenda sem leiddi af breytingum skattstjóra á skattframtali þeirra árið 2006 bætti skattstjóri 25% álagi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt skattbreytingaseðlum með úrskurðinum hækkaði álagður fjármagnstekjuskattur kæranda gjaldárið 2006 úr 619 kr. í 3.719.369 kr. eða um 3.718.750 kr.

Með kæru, dags. 22. febrúar 2010, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 24. nóvember 2009, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að því sé mótmælt að fjármagnstekjuskattur að fjárhæð 3.719.369 kr. sé lagður á kæranda þar sem athugun skattstjóra á skattskilum eiginmanns kæranda sé henni óviðkomandi, enda hafi kærandi ekki átt í neinum viðskiptum með hlutabréf á árinu 2005. Sé þess því krafist að fjármagnstekjuskatturinn verði lagður á B en ekki kæranda. Kemur fram í kærunni að B hafi haft mun hærri tekjur en kærandi á umræddum tíma, svo sem úrskurður skattstjóra beri með sér.

II.

Með bréfi, dags. 14. maí 2010, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Af kæru er ljóst að hún lýtur fyrst og fremst að innheimtu vangoldinna opinberra gjalda og ábyrgð á skattgreiðslum samkvæmt ákvæðum XIII. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem fjallar um innheimtu og ábyrgð. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. sömu laga skulu skattar sem álagðir eru samkvæmt lögunum renna í ríkissjóð og þar segir jafnframt að tollstjórinn í Reykjavík hafi á hendi innheimtu þeirra í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur en sýslumenn í öðrum stjórnsýsluumdæmum. Samkvæmt framansögðu falla ágreiningsefni sem varða innheimtu opinberra gjalda, þ.m.t. ábyrgð á skattgreiðslum, ekki undir kærumeðferð þá sem kveðið er á um í 100. gr. laga nr. 90/2003 og lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Ríkisskattstjóri telur þó rétt að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Í tilefni af þeirri athugasemd kæranda sem sett er fram í fyrsta og fjórða tölulið kærunnar vill ríkisskattstjóri benda á að kærandi og eiginmaður hennar voru bæði aðilar að málinu fyrir skattstjóra. Kemur það skýrt fram á forsíðu boðunarbréfs og úrskurðar þar sem bæði eru tilgreind sem aðilar máls. Er það og ástæðan fyrir því að nauðsyn stóð til þess að tilgreina eiginmann kæranda sérstaklega í C lið úrskurðar skattstjóra vegna breytinga á tekju- og útsvarsstofni hans.

Í tilefni af þeim athugasemdum sem fram koma í þriðja tölulið kærunnar þykir rétt að fjalla um ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og hvernig því hefur verið beitt í framkvæmd. Í því ákvæði kemur fram að tekjur hjóna skv. C-lið 7. gr. laganna (fjármagnstekjur) skuli leggja saman og telja til tekna hjá því hjóna sem hærri hefur hreinar tekjur skv. 1. tölul. 62. gr. Er tekið fram að ekki skipti hér máli hvort tekjurnar eru af séreign samkvæmt kaupmála eða hjúskapareign. Frá tekjum þess hjóna skuli síðan draga frádrátt skv. B-lið 1. mgr. 30. gr. sömu laga. Af ákvæðinu leiðir að ekki ber að sérgreina fjármagnstekjur á framtali eftir því hverjum þær tilheyra. Í álagningu er ákvarðað hjá hvoru hjóna skuli telja slíkar tekjur til tekna í samræmi við framangreindar reglur. Við þeirri ákvörðun er ekki hróflað á síðari stigum þrátt fyrir að eftirfarandi breytingar á skattframtölum aðila leiði til þess að hitt hjóna hafi hærri hreinar tekjur skv. 1. tölul. 62. gr. laganna. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga ákvæði 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem fjallar um ábyrgð á skattgreiðslum. Í 1. mgr. nefndrar lagagreinar segir að hjón, sbr. 62. og 80. gr., beri óskipta ábyrgð á greiðslum skatta sem á þau eru lagðir og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja. Rétt sé því hjóna, er skattgreiðslur annast, að krefjast endurgreiðslu af hinu hjóna á þeim hluta skatts er það hefur greitt umfram það sem að réttum hlutföllum kemur í þess hlut miðað við tekjur og eign hvors hjóna. Þá er tekið fram að reglur þessarar málsgreinar um ábyrgð hjóna skuli gilda með sama hætti um samskattað sambúðarfólk og einstaklinga í staðfestri samvist. Í 6. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að með ábyrgð samkvæmt þessari grein sé átt við sjálfskuldarábyrgð.

Ríkisskattstjóri krefst frávísunar á kæru þessari þar sem ekki er um að ræða úrskurð sem er kæranlegur til yfirskattanefndar samkvæmt 100. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Telji yfirskattanefnd hins vegar að taka beri kæruna til efnislegrar meðferðar er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 19. maí 2010, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.

Með bréfi, dags. 5. júní 2010, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu ítrekar kærandi áður fram komin sjónarmið sín þess efnis að skatt af söluhagnaði hlutabréfa beri að leggja á B en ekki kæranda. Önnur niðurstaða hljóti að fela í sér mismunun, enda sé um að ræða tekjur af fjármagnshreyfingum sem séu kæranda alveg óviðkomandi. Þá hafi kærandi enga burði til þess að greiða skattinn.

III.

Kæra í máli þessu lýtur að því hvort telja beri söluhagnað hlutabréfa að fjárhæð 29.750.000 kr. gjaldárið 2006 til tekna hjá kæranda á grundvelli ákvæða 1. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, ellegar hvort tekjur þessar beri að skattleggja hjá maka kæranda, B. Verður því ekki fallist á með ríkisskattstjóra að kæran lúti að innheimtu skatta eða ábyrgð á skattgreiðslum, sbr. ákvæði XIII. kafla laga nr. 90/2003. Er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hrundið.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal leggja saman tekjur hjóna samkvæmt C-lið 7. gr. sömu laga, og telja til tekna hjá því hjóna sem hærri hefur hreinar tekjur samkvæmt A-lið 7. gr., sbr. 1. tölul. 1. mgr. 62. gr. laganna. Ekki skiptir máli hvort tekjurnar eru af séreign samkvæmt kaupmála eða hjúskapareign. Samkvæmt 8. tölulið C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 telst hagnaður af sölu eigna, sbr. 12.-27. gr. laganna, til skattskyldra tekna. Fyrir liggur að samkvæmt skattframtali kæranda og eiginmanns hennar, B, árið 2006 var kærandi með hærri skattskyldar tekjur samkvæmt A-lið 7. gr. laga nr. 90/2003. Var frumálagning opinberra gjalda kæranda og B gjaldárið 2006 í samræmi við þetta og fjármagnstekjuskattur að fjárhæð 619 kr. lagður á kæranda. Á hinn bóginn liggur fyrir að með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 24. nóvember 2009, hækkaði skattstjóri launatekjur B í reit 21 í skattframtali hans árið 2006 um 5.600.000 kr. Af hálfu B var úrskurði skattstjóra skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 20. febrúar 2010, og með úrskurði yfirskattanefndar nr. 94/2011 í máli B, sem kveðinn var upp í dag, varð niðurstaðan sú að tekjufærsla launatekna að fjárhæð 3.650.000 kr. í skattframtali B árið 2006 var felld úr gildi, en kærunni að öðru leyti vísað frá yfirskattanefnd að því er varðar þann þátt málsins sem hér skiptir máli. Að teknu tilliti til þeirrar niðurstöðu stendur eftir að gjaldárið 2006 hefur B hærri hreinar tekjur samkvæmt A-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 en kærandi. Teljast því fjármagnstekjur hjónanna samkvæmt C-lið 7. gr. laganna til tekna hjá B, sbr. fyrrgreint ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 62. gr. sömu laga. Vegna sjónarmiða í kröfugerð ríkisskattstjóra skal tekið fram að í síðastnefndu ákvæði kemur hvergi fram að miða beri við framtaldar tekjur hjóna einvörðungu. Með vísan til framangreinds er fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda er tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja