Úrskurður yfirskattanefndar
- Reiknað endurgjald
Úrskurður nr. 98/2011
Gjaldár 2005-2008
Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul. 2. mgr., 58. gr. Reglur fjármálaráðherra um reiknað endurgjald tekjuárin 2004-2007.
Í máli þessu var fjallað um ákvörðun reiknaðs endurgjalds kæranda vegna starfa á vegum sameignarfélags sem rak bílasölu. Yfirskattanefnd hafnaði kröfum kæranda um að miða endurgjald við viðmiðunarflokk D eða E í reglum um reiknað endurgjald. Sérhæfð sölustarfsemi félli undir flokk C í reglunum og væri bifreiðasala sérstaklega tilgreind í því sambandi. Var því fallist á með skattstjóra að kærandi félli undir viðmiðunarflokk C í reglunum vegna umræddra starfa. Fram kom að ákvæði 3. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003, sem setti skorður við tapsmyndun við ákvörðun reiknaðs endurgjalds, ætti ekki við í þeim tilvikum þegar um væri að ræða ákvörðun reiknaðs endurgjalds manns vegna vinnu við atvinnurekstur lögaðila. Var ekki fallist á það með kæranda að annað gilti þegar í hlut ætti sameignarfélag eða annars konar lögaðili með ótakmarkaðri ábyrgð eigenda.
I.
Með kæru, dags. 17. febrúar 2010, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 18. nóvember 2009, um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2005, 2006, 2007 og 2008. Með úrskurði þessum hækkaði skattstjóri reiknað endurgjald kæranda vegna vinnu hans á vegum X sf. úr 780.000 kr. í 2.484.000 kr. eða um 1.704.000 kr. gjaldárið 2005, úr 945.000 kr. í 2.606.400 kr. eða um 1.661.400 kr. gjaldárið 2006, úr 1.560.000 í 2.721.600 kr. eða um 1.161.600 kr. gjaldárið 2007 og úr 1.560.000 kr. í 2.980.800 kr. eða um 1.420.800 kr. gjaldárið 2008. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun skattstjóra verði hnekkt „þannig að laun þau er [kærandi] ákvarðaði séu látin gilda eða a.m.k. að þau myndi ekki tap hjá félaginu“, eins og segir í kæru til yfirskattanefndar.
II.
Málavextir eru þeir að samkvæmt gögnum málsins er kærandi eigandi X sf. og eini starfsmaður félagsins. Í skattframtölum sínum árin 2005, 2006, 2007 og 2008 tilfærði kærandi laun frá félaginu að fjárhæð 780.000 kr. árið 2005, 945.000 kr. árið 2006, 1.560.000 kr. árið 2007 og 1.560.000 kr. árið 2008.
Með bréfi til X sf., dags. 12. janúar 2009, lagði skattstjóri fyrir félagið að gera grein fyrir ákvörðun reiknaðs endurgjalds kæranda vegna starfa hans á vegum félagsins á árunum 2004, 2005, 2006 og 2007, sbr. ákvæði 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 58. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sem vísað var til í bréfi skattstjóra. Óskaði skattstjóri m.a. eftir því að gerð yrði grein fyrir umfangi og eðli starfa kæranda í þágu félagsins umrædd ár, vinnuframlagi hans og við hvaða viðmiðunarflokk í reglum fjármálaráðherra um reiknað endurgjald laun kæranda hefðu verið miðuð. Af hálfu félagsins var bréfi skattstjóra svarað með bréfi, dags. 27. janúar 2009. Í bréfinu kom fram að reiknuð laun kæranda vegna starfa í þágu félagsins hefðu verið miðuð við flokk E(2) í viðmiðunarreglum um reiknað endurgjald tekjuárið 2004 og 40% starfshlutfall, þ.e. um 65.000 kr. á mánuði, enda hefði kærandi starfað sem bílasali. Tekjuárið 2005 hefði verið miðað við sömu fjárhæð, en í september það ár hefðu laun kæranda þó verið hækkuð í 120.000 kr. á mánuði og miðast við flokk C(4) í viðmiðunarreglum og 40% starfshlutfall. Í ársbyrjun 2006 hefðu laun kæranda síðan verið hækkuð í 160.000 kr. á mánuði og haldist óbreytt síðan þar sem ekki hafi verið talið að rekstur X sf. gæti borið hærri launagreiðslur. Auk þess væri um að ræða sömu laun og þurft hefði að greiða öðrum fyrir sams konar starf í sveitarfélagi F. Vinnutími kæranda hefði ekki verið skráður, suma daga hefði lítið eða ekkert verið unnið. Af þeim sökum hefði ekki þótt ástæða til að miða við hærra starfshlutfall kæranda en 40%. Daglegur vinnutími hefði verið frá kl. 13:00 til kl. 18:00. Með bréfi skattstjóra til kæranda, dags. 24. febrúar 2009, var honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum í tilefni af skýringum X sf. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 9. mars 2009, kom fram að kærandi gerði ekki sérstakar athugasemdir við svör félagsins.
Með bréfi, dags. 29. maí 2009, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda hans gjaldárin 2005, 2006, 2007 og 2008, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, þar sem fyrirhugað væri að hækka reiknað endurgjald kæranda vegna vinnu á vegum X sf. á árunum 2004, 2005, 2006 og 2007 um 1.704.000 kr. árið 2004, 1.661.400 kr. árið 2005, 1.161.600 kr. árið 2006 og 1.420.800 kr. árið 2007. Í bréfinu vísaði skattstjóri til ákvæða um reiknað endurgjald í 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 58. gr. laga nr. 90/2003 og í viðmiðunarreglum fjármálaráðherra um reiknað endurgjald tekjuárin 2004, 2005, 2006 og 2007, sbr. auglýsingar nr. 17/2004, 15/2005, 1196/2005 og 1084/2006 sem birst hefðu í B-deild Stjórnartíðinda. Í boðunarbréfinu rakti skattstjóri m.a. að kærandi væri eigandi og eini starfsmaður X sf. og að honum bæri því að reikna sér endurgjald vegna starfa á vegum félagsins, sbr. fyrrgreind lagafyrirmæli. Þá kom fram að skattstjóri teldi rétt að miða reiknað endurgjald kæranda við flokk C í viðmiðunarreglum um reiknað endurgjald tekjuárin 2004, 2005, 2006 og 2007, nánar tiltekið viðmiðunarflokk C(4) fyrsta árið og viðmiðunarflokk C(5) seinni árin þrjú, enda félli sérhæfð sölustarfsemi, svo sem bílasala, undir viðmiðunarflokk C í reglum þessum. Að teknu tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga um opnunartíma bílasölunnar, þ.e. milli kl. 13:00 og 18:00 virka daga, yrði að miða við að viðvera kæranda á vinnustað hefði verið fimm klukkustundir alla virka daga. Þar sem fullur vinnudagur yrði almennt talinn átta stundir virtist starfshlutfall kæranda því hafa verið 62,5% af fullu starfi en ekki 40%. Þá vék skattstjóri að afkomu X sf. þau ár sem um ræðir og tók fram að miðað við afkomu félagsins og úttektir kæranda úr félaginu yrði ekki annað séð en að félagið hefði borið hærri launagreiðslur en raun bæri vitni. Þá væri til þess að líta að bann við tapsmyndun vegna reiknaðs endurgjalds í 3. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 tæki ekki til starfa á vegum lögaðila, sbr. t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 303/2006. Með vísan til framangreinds yrði ekki talið að kærandi hefði fært fram viðhlítandi röksemdir eða gögn sem réttlætt gætu ákvörðun lægra reiknaðs endurgjalds en leiddi af viðmiðunarreglum um reiknað endurgjald. Væri því fyrirhugað að hækka reiknað endurgjald kæranda umrædd ár til samræmis við lágmarksfjárhæðir samkvæmt viðmiðunarflokk C(4) tekjuárið 2004 og viðmiðunarflokk C(5) tekjuárin 2005, 2006 og 2007 og miða við 60% starfshlutfall kæranda.
Með bréfi, dags. 15. júlí 2009, mótmælti umboðsmaður kæranda hinum boðuðu breytingum skattstjóra. Í bréfinu kom fram að gera yrði athugasemdir við ákvörðun skattstjóra um að miða reiknað endurgjald kæranda við flokk C í viðmiðunarreglum fjármálaráðherra, enda tæki sá viðmiðunarflokkur til starfsstétta sem flestar væru með háskólamenntun eða aðra framhaldsmenntun. Kærandi hefði enga slíka menntun heldur einungis aukin ökuréttindi og réttindi til að selja bifreiðar. Viðmiðunarflokkur E ætti því fremur við í tilviki kæranda. Væri því farið fram á að skattstjóri félli frá hinum fyrirhuguðu breytingum ellegar léti sitja við hækkun reiknaðs endurgjalds miðað við flokk E í stað flokks C.
Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 18. nóvember 2009, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda umrædd gjaldár til samræmis, sbr. ákvæði 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í forsendum úrskurðarins gerði skattstjóri grein fyrir lagareglum um reiknað endurgjald í 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 58. gr. laga nr. 90/2003 og reifaði reglur fjármálaráðherra um reiknað endurgjald tekjuárin 2004, 2005, 2006 og 2007, sbr. auglýsingar nr. 17/2004, 15/2005, 1196/2005 og 1084/2006 í B-deild Stjórnartíðinda. Ítrekaði skattstjóri að starf kæranda í þágu X sf. fælist í sölu bifreiða og félli þar af leiðandi undir flokk C í framangreindum viðmiðunarreglum, enda tæki sá flokkur m.a. til sérhæfðrar sölustarfsemi og væri bifreiðasala sérstaklega tilgreind í því sambandi. Benti skattstjóri á að starfsemi gæti einvörðungu fallið undir flokk E í reglunum þegar fyrir lægi að hún félli ekki undir flokka A til D. Þá tók skattstjóri fram að þótt ljóst væri að fjármagnskostnaður í starfsemi X sf. hefði vegið þungt í rekstrarafkomu yrði ekki séð að sú staðreynd gæti leitt til lækkunar reiknaðs endurgjalds. Þá stæðu engin rök til annars en að miða reiknað endurgjald við 60% starfshlutfall, sbr. sjónarmið í boðunarbréfi. Hin boðaða hækkun reiknaðs endurgjalds kæranda kæmi því til framkvæmda.
III.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 17. febrúar 2010, er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi „þannig að laun þau er [kærandi] ákvarðaði séu látin gilda eða a.m.k. að þau myndi ekki tap hjá félaginu“, eins og segir í kærunni. Í kærunni eru gerðar athugasemdir við að ákvörðun skattstjóra um hækkun á reiknuðu endurgjaldi kæranda hafi myndað tap af rekstri X sf., einkum í ljósi þess að um sameignarfélag sé að ræða með ótakmarkaðri ábyrgð eiganda. Túlkun 4. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 með þeim hætti að ákvæðið girði ekki fyrir tapsmyndun í tilviki lögaðila fái ekki staðist þegar um sé að ræða sameignarfélag með ótakmarkaðri ábyrgð eiganda, svo sem við eigi um einkarekstur. Þá sé því mótmælt að miða reiknað endurgjald kæranda við flokk C í viðmiðunarreglum fjármálaráðherra, enda verði bílasalar ekki lagðir að jöfnu við fasteignasala. Eðlilegra sé að fella bifreiðasala undir flokk E.
IV.
Með bréfi, dags. 7. maí 2010, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 11. maí 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
V.
Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skattstjóra að hækka reiknað endurgjald kæranda vegna vinnu á vegum X sf. um 1.704.000 kr. gjaldárið 2005, um 1.661.400 kr. gjaldárið 2006, um 1.161.600 kr. gjaldárið 2007 og um 1.420.800 kr. gjaldárið 2008, sbr. úrskurð skattstjóra, dags. 18. nóvember 2009, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2005, 2006, 2007 og 2008. Eins og fram er komið tilfærði kærandi í skattframtölum sínum umrædd ár laun frá sameignarfélaginu að fjárhæð 780.000 kr. gjaldárið 2005, 945.000 kr. gjaldárið 2006 og 1.560.000 kr. hvort gjaldáranna 2007 og 2008. Skattstjóri taldi að atvikum væri svo farið að kæranda bæri að reikna sér endurgjald vegna starfa sinna hjá félaginu, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og áleit að hin tilfærðu laun væru lægra endurgjald en ef kærandi hefði innt starfið af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila, sbr. áskilnað lagaákvæðisins. Við ákvörðun fjárhæðar reiknaðs endurgjalds kæranda vegna vinnu á vegum félagsins tók skattstjóri mið af viðmiðunarflokki C(4) í reglum fjármálaráðherra um reiknað endurgjald tekjuárið 2004, þ.e. árslaunum að fjárhæð 4.140.000 kr., og viðmiðunarflokki C(5) í reglum þessum tekjuárin 2005, 2006 og 2007, þ.e. árslaunum að fjárhæð 4.344.000 kr. fyrsta árið, 4.536.000 kr. það næsta og 4.968.000 kr. það síðasta. Þá lagði skattstjóri til grundvallar að kærandi hefði verið í hlutastarfi hjá félaginu á greindum árum, þ.e. í 60% starfi. Samkvæmt þessu leit skattstjóri svo á að reiknað endurgjald kæranda væri vanreiknað um fyrrgreindar fjárhæðir umrædd gjaldár.
Grundvallarákvæðið um reiknað endurgjald og sköttunarheimild þess til tekjuskatts er 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, að því er varðar útsvar. Samkvæmt nefndu ákvæði laga nr. 90/2003 ber þeim manni, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, að telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Sama gildir um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Í 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, er fjallað um ákvörðun og meðferð reiknaðs endurgjalds í staðgreiðslu samkvæmt þeim lögum, sbr. 2. tölul. 4. gr. og 2. tölul. 5. gr. laganna. Í 58. gr. laga nr. 90/2003 eru ákvæði um vefengingu skattstjóra á tilfærðu reiknuðu endurgjaldi af hendi skattaðila, ákvarðanir skattstjóra í því sambandi, viðmiðanir og skorður sem þessu ákvörðunarvaldi eru settar. Á þeim tíma sem mál þetta varðar kom fram í 1. mgr. greinarinnar að fjármálaráðherra skyldi árlega setja við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald að fengnum tillögum ríkisskattstjóra, sbr. nú 10. gr. laga nr. 128/2009 þar sem setning viðmiðunarreglna um reiknað endurgjald er færð í hendur ríkisskattstjóra að fenginni staðfestingu fjármálaráðherra. Þá kom fram að við ákvörðun lágmarksendurgjalds skyldi höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf. Í 2. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 var tekið fram að færði maður sér til tekna á framtali lægra endurgjald en áskilið væri í reglum fjármálaráðherra, sbr. 1. mgr., skyldi skattstjóri hækka endurgjaldið, óháð ákvörðun á staðgreiðsluári, enda hefði framteljandi ekki lagt fram fullnægjandi gögn og rökstuðning með skattframtali sem honum bæri að gera ótilkvöddum. Skattstjóra væri heimilt að fallast á lægra endurgjald en viðmiðunarreglur fjármálaráðherra kvæðu á um, enda lægju fyrir viðhlítandi gögn og rökstuðningur framteljanda og eftir atvikum launagreiðanda sem réttlætt gæti slíka ákvörðun. Skyldi framteljandi m.a. láta í té upplýsingar um umfang og eðli starfs og starfsemi, afkomu rekstrarins, fjármagn bundið í rekstri og upplýsingar um útselda vinnu eftir því sem það ætti við. Samkvæmt 4. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 skulu ákvæði 1. og 2. mgr. greinarinnar gilda um starf á vegum lögaðila, enda vinni maður við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann, maki hans, barn eða nákomnir ættingjar eða venslamenn hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.
Samkvæmt framansögðu er skylda manna til að reikna sér endurgjald ekki bundin við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, heldur tekur hún jafnframt til vinnu manna við atvinnurekstur eða starfsemi, sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Í málinu er komið fram að kærandi er eigandi X sf. og var eini starfsmaður félagsins þau ár sem málið tekur til. Ljóst er því að kæranda bar að reikna sér endurgjald vegna vinnu sinnar á vegum félagsins, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 4. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003, svo sem ágreiningslaust er í málinu.
Samkvæmt reglum fjármálaráðherra um reiknað endurgjald tekjuárin 2004, 2005, 2006 og 2007, sbr. auglýsingar nr. 17, 9. janúar 2004, nr. 15, 6. janúar 2005, nr. 1196, 28. desember 2005 og nr. 1084, 20. desember 2006 í B-deild Stjórnartíðinda, tekur viðmiðunarflokkur C í reglum þessum m.a. til „sérhæfðrar sölustarfsemi o.fl.“ Er tekið fram til flokks C teljist menn með eða án sérmenntunar sem vinni við þá starfsemi sem um ræðir. Er fasteignasala og bifreiðasala sérstaklega tilgreind í reglunum í dæmaskyni um sérhæfða sölustarfsemi. Flokkur C skiptist í nokkra undirflokka eftir umsvifum og starfsmannafjölda. Einyrkjar í framangreindri starfsemi féllu undir viðmiðunarflokk C(4) í reglum þessum tekjuárið 2004 og viðmiðunarflokk C(5) tekjuárin 2005, 2006 og 2007. Samkvæmt reglunum eru viðmiðunarfjárhæðir miðaðar við þá tegund atvinnurekstrar eða starfsemi sem framteljandi stendur fyrir og er um lágmarksfjárhæðir að ræða sé viðkomandi ekki í öðru launuðu föstu starfi eða starfi sem reikna skal endurgjald fyrir, sbr. 1. kafla viðmiðunarreglnanna og upphaf 4. kafla þeirra.
Af hálfu kæranda er því haldið fram að eðlilegra sé að miða reiknað endurgjald hans vegna starfa á vegum X sf. við viðmiðunarflokk D eða E í reglum um reiknað endurgjald heldur en flokk C. Flokkur D tekur til iðnaðarmanna í löggiltum iðngreinum og á því ekki við í tilviki kæranda. Flokkur E tekur til ýmissar starfsemi einyrkja, ófaglærðra og vélstjórnenda og kemur fram að til þess flokks teljist menn sem vinna í tilgreindum störfum sem falla ekki undir flokka A til D. Eins og hér að framan greinir fellur sérhæfð sölustarfsemi undir flokk C í reglunum og er bifreiðasala sérstaklega tilgreind í því sambandi. Verður því að fallast á með skattstjóra að kærandi falli undir viðmiðunarflokk C í reglunum vegna umræddra starfa við sölu bifreiða á vegum X sf.
Í kæru til yfirskattanefndar er hækkun reiknaðs endurgjalds kæranda sérstaklega mótmælt með vísan til ákvæðis 3. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kemur að ákvörðun skattstjóra um hækkun á reiknuðu endurgjaldi manns með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi megi ekki mynda tap umfram það sem nemi samanlögðum almennum fyrningum samkvæmt 37. gr. laganna. Af þessu tilefni er rétt að taka fram að samkvæmt 4. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 skulu ákvæði 1. og 2. mgr. greinarinnar gilda um starf á vegum lögaðila eftir því sem við getur átt, enda vinni maður við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann, maki hans, barn eða nákomnir ættingjar eða venslamenn hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Af ákvæði þessu verður gagnályktað að ákvæði 3. mgr. greinarinnar, sem setur skorður við tapsmyndun við ákvörðun reiknaðs endurgjalds, eigi ekki við í þeim tilvikum þegar um er að ræða ákvörðun reiknaðs endurgjalds manns vegna vinnu við atvinnurekstur lögaðila. Í 4. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 er enginn greinarmunur gerður á einstökum tegundum lögaðila í þessu sambandi, hvorki með tilliti til þeirra reglna sem gilda um ábyrgð eigenda á skuldbindingum lögaðila né annarra atriða er greina á milli ólíkra félagaforma. Þess er að geta að í almennum athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 133/2001, um breyting á ýmsum skattalögum, kemur fram varðandi breytingar á reglum um reiknað endurgjald samkvæmt 7. og 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú 7. og 58. gr. laga nr. 90/2003, að nauðsynlegt sé talið „að styrkja þá framkvæmd að vinna manns í atvinnurekstri lögaðila (sameignarfélagi, hlutafélagi, samlagshlutafélagi, einkahlutafélagi o.fl.), sem hann eða fjölskylda hans á eignar- eða stjórnunaraðild að, verði skattlögð með sambærilegum hætti og vinna hans í eigin rekstri“. Þetta sé gert með tillögum að breytingum um ítarlegra orðalag í 7. og 59. gr. gildandi laga og með þeim breytingum sé reynt að koma í veg fyrir að hluthafar og hlutareigendur í fyrirtækjum ákvarði sér laun langt undir því sem almennt geti talist eðlilegt endurgjald fyrir sambærileg störf fyrir óskylda eða ótengda aðila. Sömu sjónarmið koma fram í athugasemdum með 2. gr. frumvarpsins er breytti 7. gr. laga nr. 75/1981. Í lögskýringargögnum með lögum nr. 133/2001 kemur ekkert fram sem bendir til þess að sú breyting á reglum 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981 um bann við tapsmyndun við ákvörðun reiknaðs endurgjalds, sem 28. gr. laga nr. 133/2001 fól í sér að því er snertir vinnu manns á vegum lögaðila, hafi ekki átt að taka til sameignarfélaga eða annars konar lögaðila með ótakmarkaðri ábyrgð eigenda. Verður því ekki fallist á framangreind sjónarmið kæranda í málinu.
Líta verður svo á að ákvörðun skattstjóra á starfshlutfalli kæranda þau ár sem um ræðir, sem byggði einkum á fyrirliggjandi upplýsingum um opnunartíma bifreiðasölunnar, sé ágreiningslaus í málinu, enda er ekkert að henni vikið í kæru til yfirskattanefndar. Með vísan til þess sem hér að framan er rakið og þar sem ekki verður annað séð en að skattstjóri hafi gætt ákvæða 58. gr. laga nr. 90/2003 við ákvörðun á reiknuðu endurgjaldi kæranda þykja ekki efni til að hagga við þeirri fjárhæð reiknaðs endurgjalds sem skattstjóri ákvað. Verður því að hafna kröfum kæranda í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.