Úrskurður yfirskattanefndar
- Vaxtabætur
- Eigin not íbúðarhúsnæðis
Úrskurður nr. 30/2015
Gjaldár 2014
Lög nr. 90/2003, 68. gr. B-liður.
Kröfu kæranda um vaxtabætur vegna vaxtagjalda af láni, sem hún tók vegna kaupa systur sinnar á íbúðarhúsnæði, var hafnað þar sem ekki væri um að ræða lán vegna öflunar eigin íbúðarhúsnæðis.
I.
Málavextir eru þeir að í skattframtali kæranda árið 2014 voru færð vaxtagjöld af lánum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis að fjárhæð alls 620.833 kr., þar með talið vaxtagjöld að fjárhæð 83.647 kr. af láni frá Lífeyrissjóði L að eftirstöðvum 2.987.278 kr. í árslok. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2014 voru kæranda ákvarðaðar vaxtabætur að fjárhæð 174.111 kr.
Með kæru, dags. 7. ágúst 2014, gerði kærandi athugasemdir við álagninguna. Í kærunni kom fram að svo virtist sem erindi kæranda og B til ríkisskattstjóra, dags. 31. mars 2014, sem lotið hefði að því að lán frá Lífeyrissjóði L, sem tekið hefði verið á árinu 2013, yrði tilgreint í skattframtali B en ekki kæranda, hefði ekki hlotið afgreiðslu af hendi ríkisskattstjóra. Í erindinu, sem fylgdi kærunni í ljósriti, kom fram að lánið hefði verið tekið vegna kaupa B á íbúð við S-götu 10 í sveitarfélaginu R.
Ríkisskattstjóri tók kæruna til afgreiðslu með kæruúrskurði, dags. 11. nóvember 2014, og féllst á kröfu kæranda. Leiddi sú ákvörðun til þess að áður ákveðnar vaxtabætur kæranda gjaldárið 2014 lækkuðu úr 174.111 kr. í 19.694 kr.
II.
Með kæru, dags. 18. nóvember 2014, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi á árinu 2013 tekið 3.000.000 kr. lán hjá Lífeyrissjóði L vegna kaupa systur kæranda á íbúð við S-götu 10 í sveitarfélaginu R. Samkomulag sé um að systir kæranda greiði af láninu. Eftir að hafa leitað upplýsinga símleiðis hjá embætti ríkisskattstjóra hafi systurnar ákveðið að óska eftir því að lánið yrði skráð á systur kæranda í skattframtali hennar, enda hafi kærandi gert ráð fyrir því að sú ráðstöfun hefði engin fjárhagsleg áhrif á hana sjálfa þar sem henni hefði verið tjáð af starfsmanni ríkisskattstjóra að lánið hefði engin áhrif á útreikning vaxtabóta kæranda þar sem lánið hefði ekki verið tekið sama ár og kærandi hefði keypt eigin íbúð. Ætti upptaka af því símtali að vera til staðar hjá ríkisskattstjóra. Sé því farið fram á að áður ákvarðaðar vaxtabætur kæranda standi óbreyttar þrátt fyrir færslu lánsins í skattframtal systur kæranda, enda hafi verið staðhæft við kæranda í fyrrgreindu símtali að sú ráðstöfun hefði engin áhrif á ákvörðun vaxtabóta kæranda. Þegar úrskurður ríkisskattstjóra hafi borist hafi systir kæranda leitað eftir skýringum hjá embættinu og þá fengið sömu upplýsingar og kærandi, þ.e. að lánið veitti kæranda ekki rétt til vaxtabóta. Hins vegar hafi lánið verið tekið með í útreikningi vaxtabóta við álagningu samkvæmt sjálfvirku tölvuforriti þar sem ekki hafi „komið villumelding vegna þessa“. Sé ljóst samkvæmt framansögðu að kærandi hafi fengið greiddar of háar vaxtabætur gjaldárið 2014 vegna mistaka skattyfirvalda sem ekki hafi verið leiðrétt þrátt fyrir að kærandi hafi hringt strax í ágúst og spurst fyrir um málið. Þremur mánuðum síðar sé leiðrétting loks framkvæmd að frumkvæði kæranda sjálfrar. Sé því mótmælt kröfu um endurgreiðslu vaxtabóta vegna flutnings lánsins þar sem krafan sé í ósamræmi við upplýsingar sem kæranda hafi verið veittar símleiðis af starfsmanni ríkisskattstjóra. Ennfremur hafi rangur útreikningur skattyfirvalda og ítrekað sinnuleysi við yfirferð málsins haft í för með sér að endurgreiðslukrafa komi fyrst fram í nóvember 2014 þegar aðstæður kæranda séu breyttar og kærandi ekki í stakk búin til að greiða vaxtabætur til baka.
III.
Með bréfi, dags. 15. desember 2014, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda umsögn um kæruna:
„Í kæru gjaldanda kemur fram að gjaldandi hafi tekið lán til þess að hjálpa systur sinni að kaupa fasteignina að S-götu 10 í sveitarfélaginu R. Í B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að réttur til vaxtabóta sé bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota.
Í gögnum málsins kemur fram að gjaldandi væri ekki eigandi og væri ekki að nýta umrædda eign til eigin nota. Verður því ekki séð að gjaldandi eigi rétt á vaxtabótum af umræddu láni sbr. ofangreind ákvæði B-liðar 68. gr. Þess er því krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 17. desember 2014, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Samkvæmt 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eiga þeir sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna og bera vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum, enda sé gerð grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali samkvæmt 1. mgr. 90. gr. í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Samkvæmt 2. mgr. sama stafliðar eru vaxtagjöld, sem mynda rétt til vaxtabóta, vaxtagjöld vegna fasteignaveðlána til a.m.k. tveggja ára eða lána við lánastofnanir með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára, enda séu lánin sannanlega til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Í 5. mgr. stafliðarins segir að réttur til vaxtabóta sé bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota og stofnist þegar íbúðarhúsnæði til eigin nota sé keypt eða bygging þess hefjist. Réttur til vaxtabóta fellur niður þegar íbúðarhúsnæði telst ekki lengur til eigin nota, sbr. 6. mgr. stafliðarins.
Fram er komið að kærandi tók lán hjá Lífeyrissjóði L á árinu 2013 vegna kaupa systur kæranda á íbúðarhúsnæði á sama ári. Er því ljóst að ekki er um að ræða lán vegna öflunar kæranda á íbúðarhúsnæði til eigin nota, sbr. 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Með vísan til þess verður að hafna kröfu kæranda um að henni verði ákvarðaðar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af láni þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.