Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Skattskyld velta

Úrskurður nr. 38/2015

Virðisaukaskattur 2011

Lög nr. 50/1988, 11. gr., 12. gr., 12. gr. A (brl. nr. 110/2011, 1. gr.).  

Talið var að sala kæranda á þjónustu við „housekeeping“ til erlends sendiráðs hér á landi teldist til skattskyldrar veltu kæranda.

I.

Með kæru, dags. 18. júní 2014, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 26. mars 2014, um endurákvörðun á virðisaukaskatti kæranda árið 2011. Með hinum kærða úrskurði ákvarðaði ríkisskattstjóri skattskylda veltu kæranda í 25,5% skattþrepi 499.851 kr. uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2011, 499.851 kr. uppgjörstímabilið mars-apríl 2011, 515.689 kr. uppgjörstímabilið maí-júní 2011, 499.851 kr. uppgjörstímabilið júlí-ágúst 2011, 499.851 kr. uppgjörstímabilið september-október 2011 og 250.076 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2011. Þá ákvarðaði ríkisskattstjóri innskatt að fjárhæð 72.034 kr. uppgjörstímabilið maí-júní 2011. Ríkisskattstjóri bætti 10% álagi, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, við hækkun virðisaukaskatts sem af þessu leiddi.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist af hálfu kæranda að úrskurði ríkisskattstjóra verði hnekkt. Til vara er gerð krafa um að álagður tekjuskattur vegna ársins 2011 verði lækkaður vegna tekjulækkunar sem ákvörðun ríkisskattstjóra hafi í för með sér, ef hún verði látin standa óbreytt.

II.

Kærandi í máli þessu hefur samkvæmt samþykktum sínum m.a. með höndum veisluþjónustu og ræstingar. Með bréfi til kæranda, dags. 30. október 2012, vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt upplýsingum í skattframtali félagsins árið 2012, sbr. ársreikning fyrir rekstrarárið 2011, hefði velta félagsins, sem undanþegin væri virðisaukaskatti samkvæmt 12. gr. laga nr. 50/1988, verið 3.471.850 kr. vegna útflutnings o.fl. Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2011 kæmi fram að félagið hefði haft með höndum veisluþjónustu og ræstingar, ásamt hönnun, ráðgjöf og sérfræðiþjónustu í textíliðnaði. Með hliðsjón af framangreindu lagði ríkisskattstjóri fyrir kæranda að sýna fram á að velta félagsins á árinu 2012 (sic) hefði verið undanþegin samkvæmt 12. gr. laga nr. 50/1988 eins og fram kæmi í skattframtali félagsins. Jafnframt lagði ríkisskattstjóri fyrir félagið að leggja fram afrit útgefinna sölureikninga á árinu 2011. Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 8. nóvember 2012, fylgdu útgefnir sölureikningar kæranda árið 2011 ásamt leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts (RSK 10.26) vegna ársins 2011. Kom fram að láðst hefði að senda leiðréttingarskýrsluna með skattframtali félagsins árið 2012. Samkvæmt leiðréttingarskýrslunni næmi undanþegin velta félagsins samtals 3.471.850 kr. vegna sölu og þjónustu við erlend sendiráð. Nánar tiltekið var í leiðréttingarskýrslunni tilgreind undanþegin velta 627.700 kr. uppgjörstímabilið janúar-febrúar, 627.700 kr. uppgjörstímabilið mars-apríl, 647.200 kr. uppgjörstímabilið maí-júní, 627.700 kr. uppgjörstímabilið júlí-ágúst, 627.700 kr. uppgjörstímabilið september-október og 313.850 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2011.

Með bréfi, dags. 15. apríl 2013, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun virðisaukaskatts félagsins fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2011. Í bréfinu var rakið að fram kæmi í texta sölureikninga kæranda frá árinu 2011 að félagið hefði starfað við „housekeeping“ eða þrif fyrir sendiherra [erlends ríkis] á Íslandi. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988 bæri að greiða virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og innflutningi vöru og þjónustu. Næði skattskyldan næði til allrar vinnu og þjónustu, sbr. þó 3. mgr. 2. gr. laganna. Í 12. gr. laganna væri tiltekið hvaða vörur, vinna og þjónusta væri undanþegin skattskyldri veltu. Þjónusta við þrif sendiherrabústaðar á Íslandi félli ekki undir þau ákvæði. Í ljósi framangreinds hefði ríkisskattstjóri í hyggju að ákvarða kæranda sem skattskylda veltu þá fjárhæð sem kærandi hefði tiltekið sem veltu undanþegna virðisaukaskatti. Yrði útskattur afreiknaður af heildarfjárhæð reikninga. Virðisaukaskattur af rekstrarkostnaði samkvæmt skattframtali félagsins yrði færður sem innskattur á tímabilinu maí-júní 2011. Væri fyrirhugað að ákvarða skattskylda veltu 499.851 kr. uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2011, 499.851 kr. uppgjörstímabilið mars-apríl 2011, 515.689 kr. uppgjörstímabilið maí-júní 2011, 499.851 kr. uppgjörstímabilið júlí-ágúst 2011, 499.851 kr. uppgjörstímabilið september-október 2011 og 250.076 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2011. Innskattur uppgjörstímabilið maí-júní yrði 72.034 kr. Loks boðaði ríkisskattstjóri beitingu álags samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988 á hækkun virðisaukaskatts.

Með tölvubréfi, dags. 22. apríl 2013, mótmælti forsvarsmaður kæranda fyrirhugaðri endurákvörðun. Hefði fyrirsvarsmanninum ekki verið ljóst að innheimta bæri virðisaukaskatt af umræddum störfum, en hann hefði fengið þær upplýsingar að sendiráðið væri undanþegið virðisaukaskatti vegna þeirra. Var óskað eftir fresti til að athuga málið. Af þessu tilefni framlengdi ríkisskattstjóri svarfrest til 31. maí 2013, sbr. tölvubréf 23. apríl 2013. Engin frekari gögn eða upplýsingar munu hafa borist ríkisskattstjóra.

Með úrskurði, dags. 26. maí 2014, hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði virðisaukaskatt kæranda til samræmis. Í úrskurði sínum rakti ríkisskattstjóri gang málsins og bréfaskipti í því. Þá gerði ríkisskattstjóri grein fyrir lagagrundvelli málsins með sama hætti og í boðunarbréfi, dags. 15. apríl 2013, auk þess sem ríkisskattstjóri vísaði til 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 470/1991, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til sendimanna erlendra ríkja, til stuðnings niðurstöðu sinni.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist af hálfu kæranda að úrskurði ríkisskattstjóra verði hnekkt. Til var er þess krafist að álagður tekjuskattur vegna ársins 2011 verði lækkaður vegna tekjulækkunar sem ákvörðun ríkisskattstjóra hafi í för með sér, ef hún verið látin standa óhögguð. Tekið er fram að þegar kærandi hafi gert verktakasamning við sendiráð [erlends ríkis] á árinu 2010 hafi fyrirsvarsmaður kæranda verið fullvissaður um að þjónusta við sendiráðið væri undanþegin virðisaukaskatti þar sem að um þjónustu við erlendan aðila væri að ræða. Hafi samningurinn við sendiráðið verið gerður á þessum grundvelli. Skattstofan hafi spurst fyrir um undanþegna veltu samkvæmt rekstrarframtali árið 2011 (rekstrarárið 2010) og óskað eftir því að leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts yrði lögð fram. Hafi kærandi orðið við þessari beiðni og jafnframt gert grein fyrir starfsemi félagsins. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af þessu tilefni af hálfu ríkisskattstjóra, en nýtt fyrirspurnarbréf borist 30. október 2012 vegna sama atriðis. Sé með ólíkindum að ríkisskattstjóri hefjist nú handa við innheimtu virðisaukaskatts hjá kæranda vegna þjónustu sem sannanlega hafi ekki verið seld með virðisaukaskatti. Með kærunni fylgir m.a. ljósrit af verktakasamningi við sendiráðið auk yfirlýsingar frá sendiráðinu um fullnaðargreiðslur reikninga.

IV.

Með bréfi, dags. 11. ágúst 2014, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda umsögn um kæruna:

„Að fallist verði á varakröfu kæranda þar sem þess virðist ekki hafa verið gætt að lækka tekjuskattstofn kæranda til samræmis við ákvörðun ríkisskattstjóra um hækkun virðisaukaskatts kæranda til samræmis við ákvörðun ríkisskattstjóra um hækkun virðisaukaskatts af heildaratvinnurekstrartekjum kæranda.

Að öðru leyti er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. ágúst 2014, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir bárust.

V.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort sala kæranda á þjónustu við „housekeeping“ til erlends sendiráðs á Íslandi teljist til skattskyldrar veltu kæranda eða hvort um sé að ræða undanþegna veltu á grundvelli 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, svo sem talið hafði verið af hálfu kæranda. Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988 kemur fram sú meginregla að til skattskyldrar veltu skráðs aðila teljist öll sala eða afhending vöru og verðmæta gegn greiðslu, svo og seld vinna og þjónusta. Í 12. gr. og 12. gr. A sömu laga er tilgreind sala á vöru og þjónustu sem ekki telst til skattskyldrar veltu. Ljóst er að sú vinna og þjónusta kæranda sem um ræðir í máli þessu, sbr. framkomna sölureikninga kæranda og fyrirliggjandi samning kæranda við sendiráðið, dags. 5. janúar 2011, fellur ekki undir neitt undanþáguákvæði 12. gr. og 12. gr. A laganna. Eins og ríkisskattstjóri benti á í hinum kærða úrskurði kemur fram í 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 470/1991, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til sendimanna erlendra ríkja, sbr. 43. og 49. gr. laga nr. 50/1988, að erlendum sendiráðum og sendierindrekum beri að greiða álagðan virðisaukaskatt og aðra óbeina skatta á Íslandi við kaup á vörum eða þjónustu innanlands. Samkvæmt reglugerð þessari skal endurgreiða erlendum sendiráðum og sendierindrekum (diplomatic agents) virðisaukaskatt sem þessir aðilar hafa greitt, svo sem þar er nánar kveðið á um. Samkvæmt framansögðu er aðalkröfu kæranda hafnað.

Varakrafa kæranda lýtur að því að tekjuskattstofn kæranda gjaldárið 2012 verði lækkaður til samræmis við endurákvörðun ríkisskattstjóra á virðisaukaskatti félagsins. Með hinum kærða úrskurði gerði ríkisskattstjóri enga breytingu á skattframtali kæranda árið 2012 og liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun að því er varðar almenn skattskil kæranda, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Með vísan til þessa er kæran ásamt meðfylgjandi gögnum send ríkisskattstjóra til meðferðar vegna umræddrar málaleitunar kæranda, sbr. ennfremur sjónarmið í H 1992:1377.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðalkröfu kæranda er hafnað. Kærunni er vísað til ríkisskattstjóra til umfjöllunar um varakröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja