Úrskurður yfirskattanefndar
- Vanræksla á skilum ársreiknings
- Sekt
Úrskurður nr. 44/2015
Lög nr. 3/2006, 109. gr., 126. gr. 3. mgr. (brl. nr. 160/2006, 3. gr.). Lög nr. 37/1993, 7. gr.
Kærandi, sem var einkahlutafélag, mótmælti ákvörðun ársreikningaskrár að gera félaginu sekt vegna meintrar vanrækslu á að standa skil á ársreikningi til opinberrar birtingar. Ekki var fallist á með kæranda að félagið hefði ekki haft með höndum atvinnurekstur á árinu 2012. Þá var ekki fallist á með kæranda að sérstakt tilefni hefði verið fyrir ríkisskattstjóra að vekja athygli kæranda á skyldu til að senda ársreikningaskrá ársreikning til birtingar eða framsenda skránni ársreikning sem fylgdi skattframtali kæranda árið 2013. Að virtum málsatvikum voru ekki talin efni til að hagga við sektarfjárhæð ársreikningaskrár.
I.
Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. júní 2014, sbr. greinargerð fyrir kærunni í bréfi sem barst yfirskattanefnd 27. sama mánaðar, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ársreikningaskrár að gera félaginu sekt að fjárhæð 100.000 kr. vegna meintrar vanrækslu kæranda á að standa skil á ársreikningi fyrir árið 2012 til opinberrar birtingar, sbr. úrskurð ársreikningaskrár, dags. 10. mars 2014, þar sem ársreikningaskrá féllst á að endurupptaka úrskurð skrárinnar, dags. 7. janúar 2014, í máli kæranda. Hinn síðarnefndi úrskurður var kveðinn upp í kjölfar bréfaskrifta, sbr. bréf ársreikningaskrár til kæranda, dags. 17. október 2013, þar sem skorað var á félagið að standa ársreikningaskrá skil á ársreikningi fyrir árið 2012, og bréf skrárinnar, dags. 27. nóvember 2013, þar sem kæranda var greint frá því að fyrirhugað væri að ákvarða félaginu sekt að fjárhæð 250.000 kr. vegna vanrækslu á að standa skil á ársreikningi fyrir árið 2012 til opinberrar birtingar, sbr. 3. mgr. 126. gr. laga nr. 3/2006. Var kæranda veittur 30 daga frestur frá dagsetningu bréfsins að telja til að tjá sig um boðaða sektarákvörðun ársreikningaskrár og standa skil á ársreikningi. Með úrskurði, dags. 7. janúar 2014, hratt ársreikningaskrá hinni boðuðu sektarákvörðun í framkvæmd og ákvað kæranda sekt að fjárhæð 250.000 kr. Með hinum kærða úrskurði, dags. 10. mars 2014, tók ársreikningaskrá mál kæranda til nýrrar meðferðar og lækkaði áður ákvarðaða sekt úr 250.000 kr. í 100.000 kr. með vísan til þess að kærandi hefði skilað ársreikningi fyrir rekstrarárið 2012 innan 60 daga frá tilkynningu sektarfjárhæðar, sbr. 4. mgr. 126. gr. laga nr. 3/2006.
Í úrskurði ársreikningaskrár, dags. 7. janúar 2014, var fjallað um lagagrundvöll að baki skyldu félaga til að standa skil á ársreikningi til opinberrar birtingar, sbr. 1. mgr. 1. gr., 3. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006 og 2. gr., 3. gr. og 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 664/2008, um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga, og gerð grein fyrir refsiákvæðum laga nr. 3/2006 í XII. kafla þeirra, sbr. 125. gr. og 3. mgr. 126. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 160/2006. Kom fram að nánari fyrirmæli um framkvæmd á sektarheimild ársreikningaskrár hefðu verið sett í reglugerð nr. 664/2008, sbr. einkum 13. gr. reglugerðarinnar þar sem tekið væri fram að ársreikningaskrá skyldi leggja fésektir á félag, sem félli undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006, og vanrækti að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá innan tilskilins frests. Skyldi fésektin vera að fjárhæð 250.000 kr. Þá kom fram að kæranda hefði borið samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006 að láta semja ársreikning í samræmi við lagafyrirmæli þar að lútandi og standa skil á honum til ársreikningaskrár innan þeirra tímamarka sem fram kæmu í 109. gr. sömu laga. Með því að vanrækja þessa skyldu sína til að standa ársreikningaskrá skil á ársreikningi fyrir árið 2012 teldist kærandi hafa brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006, en samkvæmt 125. gr., sbr. 3. mgr. 126. gr. laganna varðaði sú háttsemi fésekt sem heimilt væri að leggja á kæranda, sbr. og 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 664/2008. Í niðurlagi úrskurðarins var vakin athygli á því að yrði ársreikningi kæranda skilað innan 60 daga frá tilkynningu sektarfjárhæðar yrði sektin lækkuð um 60%, sbr. 4. mgr. 126. gr. laga nr. 3/2006. Að þeim tíma liðnum væri ársreikningaskrá óheimilt að lækka fésekt þótt ársreikningi hefði verið skilað.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess aðallega krafist að sekt kæranda verði felld niður, en til vara að sektin verði lækkuð enn frekar standi lagaheimild til slíks. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Rakið er í kærunni að hinn 5. desember 2013 hafi kærandi með rafrænum hætti staðið skil á skattframtali vegna rekstrarársins 2012 ásamt ársreikningi. Félagið hafi engar tekjur haft á árinu 2012 og einu gjöldin í rekstri þess verið útvarpsgjald. Þar sem framkvæmdastjóri kæranda hafi talið að um fullnægjandi skil ársreiknings væri að ræða hafi komið á óvart er honum hafi borist bréf í ársbyrjun 2014 um ákvörðun stjórnvaldssektar vegna vanskila á ársreikningi. Í kjölfar þess hafi ársreikningurinn verið sendur ársreikningaskrá og sekt verið lækkuð úr 250.000 kr. í 100.000 kr. Til stuðnings kröfum kæranda er bent á að í fyrsta lagi hafi ársreikningi sannanlega verið skilað innan tímamarka til réttra yfirvalda, þ.e. ríkisskattstjóra, en ársreikningaskrá virðist einungis vera deild innan þess embættis. Í öðru lagi hafi framsetning á vef ríkisskattstjóra verið til þess fallin að valda misskilningi í þá veru að skil ársreiknings með skattframtali væru fullnægjandi. Í þriðja lagi sé til þess að líta að ársreikningurinn „sé á núlli“ og því langsótt að kærandi hafi með einhverjum haft hag af því að skila ekki ársreikningi. Í fjórða lagi hljóti ríkisskattstjóra að hafa borið að framsenda ársreikningaskrá ársreikning kæranda, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í fimmta lagi liggi fyrir að úrskurðarvenja yfirskattanefndar sé sú að fella niður sektir í svonefndum „núllskýrslumálum“, sbr. upplýsingar á vef ársreikningaskrár. Mál kæranda sé af þessum toga, enda sé gjaldaliðurinn „útvarpsgjald“ óumflýjanlegur burtséð frá því hvort fyrirtæki sé í rekstri eða ekki. Í sjötta lagi líti kærandi svo á að ekki standist að stjórnvald felli sektir á aðila sé því kunnugt um framangreinda réttarframkvæmd og kunni slíkt að varða við almenn hegningarlög. Í niðurlagi kærunnar er málskostnaðarkrafa kæranda rökstudd og tekið fram að rétt sé að úrskurða kæranda málskostnað hvernig sem málið fari auk álags samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með áorðnum breytingum.
II.
Með bréfi, dags. 30. júní 2014, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Í umsögninni eru reifuð lagaákvæði um skyldu félaga til að standa skil á ársreikningi til opinberrar birtingar. Þá segir svo í niðurlagi umsagnar ríkisskattstjóra:
„Varðandi málsástæður kæranda er vert að benda á að félagið var í rekstri árið 2012 og telur fram bæði tekjur og gjöld sem og eignir og skuldir. Þó um mjög lágar upphæðir sé að ræða þá getur ársreikningaskrá ekki tekið tillit til þess enda er aðeins hægt að miða við félög með engar eignir/tekjur/skuldir/gjöld. Lögin eru skýr um að öll félög sem eru í rekstri ber að skila ársreikningi og um leið og félög eiga eignir eða skuldir, eða fá tekjur og greiða gjöld, þá telst félagið í rekstri. Kærandi heldur því fram að ársreikningi hafi verið skilað innan tímamarka til réttra yfirvalda er ársreikningi var skilað með skattframtali. Einnig er því haldið fram að framsetning RSK hafi ekki verið nógu skýr. RSK tekur ekki undir þessa málsástæðu því eins og kemur hér að ofan ber samkvæmt lögum að skila ársreikningi til ársreikningaskrár og stendur í áskorunarbréfi að skila beri ársreikningi til ársreikningaskrár óháð og til viðbótar því að senda til ríkisskattstjóra framtal með ársreikningi. Í boðunarbréfi stendur einnig að aðeins þau félög sem eru með engar tekjur og gjöld og eru eigna- og skuldlaus beri ekki skylda til að skila ársreikningi. Þegar ársreikningi er skilað með skattframtali er sérstök athygli vakin á því að skila eigi sérstaklega ársreikningi til ársreikningaskrár. Ársreikningar er berast ársreikningaskrá eru til opinberar birtingar og er flestum fyrirtækjum á Íslandi heimilt að birta samandreginn ársreikning en með skattframtali ber ávallt að senda ósamandreginn ársreikning. Starfsmenn RSK geta því ekki að eigin frumkvæði sent gögn er berast með framtölum til opinberar birtingar enda teljast skattframtöl vera viðkvæm gögn sem enginn skal hafa aðgang að nema framteljandi og skattyfirvöld. Varðandi stjórnsýsluframkvæmd þá tekur ársreikningaskrá mið af skattskýrslum þegar send eru út boðunarbréf og sektarákvarðanir. Þannig reynir ársreikningaskrá að koma í veg fyrir að félög sem ekki ber að skila ársreikningi séu sektuð. Í þessu tilfelli bar framtalið með sér að kæranda bar að skila ársreikningi og því var félagið sektað.
Með hliðsjón af framansögðu er því ekki tilefni til þess að fella niður sekt vegna vanskila á ársreikningi enda bar félaginu að skila ársreikningi. Skilaskyldir aðilar geta einnig ekki losnað undan ábyrgð sinni á skilum ársreiknings til opinberrar birtingar með því að fela öðrum gerð ársreiknings og skil. Að auki er heimild ársreikningaskrár til að leggja á sektir óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðila. Fram komnar viðbárur kæranda þykja ekki geta leitt til niðurfellingar sektarákvörðunar ársreikningaskrár.
Kærandi skilaði ársreikningi ársins 2012 til ársreikningaskrár þann 13. febrúar 2014. Samkvæmt 4. mgr. 126. gr. laga um ársreikninga er ársreikningaskrá heimilt að lækka sektarfjárhæðina um 60% sé ársreikningi skilað innan 60 daga frá tilkynningu sektarfjárhæðar. Umrætt ákvæði kom nýtt inn í ársreikningalögin árið 2013. Þann 10. mars 2014 lækkaði ársreikningaskrá sektir allra félaga er höfðu skilað ársreikningi frá því að ákvörðun um sekt var tekin. Var því sekt kæranda lækkuð niður í 100.000 kr. Á þeim tímapunkti var ársreikningaskrá ekki kunnugt um að fyrri ákvörðun hefði einnig verið kærð til yfirskattanefndar. Verður að telja að ekki séu til staðar lagaheimild til frekari lækkunar sektar enda bar félaginu að skila ársreikningi.
Að framangreindu virtu er þess krafist að ákvörðun ársreikningaskrár frá 10. mars 2014 um lækkun fésektar kæranda verði staðfest og fésekt ákvörðuð kr. 100.000.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. júlí 2014, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.
Með bréfi, dags. 30. júlí 2014, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu kemur m.a. fram að innanhússreglum ríkisskattstjóra um framsendingar verði ekki beitt gagnvart kæranda til sektarábyrgðar, enda séu slíkar reglur byggðar á mati embættisins sjálfs. Þá kemur fram að ákvæði 13. gr. reglugerðar nr. 664/2008 skorti lagastoð þar sem 3. mgr. 126. gr. laga nr. 3/2006 feli aðeins í sér heimild til sektarbeitingar, en í reglugerðarákvæðinu sé mælt fyrir um skyldu til beitingar sektar og sé því ónothæf réttarheimild. Þá verði ekki annað séð en að afstaða ríkisskattstjóra til þess, hvenær félag teljist stunda atvinnurekstur, gangi lengra en úrskurðarvenja í þeim efnum, enda sé gert að viðbótarskilyrði að félag skuli „hafa núll á eigna- og skuldahlið“, eins og segir í bréfinu. Við blasi að kærandi hafi ekki haft með höndum rekstur á árinu 2012, enda hvorki haft rekstrartekjur né –gjöld. Eignir félagsins hafi einkum verið fólgnar í úreltum hljómplötubirgðum og hlutafé félagsins sé nánast uppurið. Hverjum þeim, sem hafi réttsýni að leiðarljósi, sé því ljóst að um „núllskýrslufyrirtæki“ sé að ræða.
III.
Í máli þessu er til umfjöllunar sú ákvörðun ársreikningaskrár að gera kæranda sekt að fjárhæð 100.000 kr. vegna vanrækslu félagsins á að standa skil á ársreikningi fyrir árið 2012. Um birtingu ársreikninga og skyldur félaga til þess að standa ársreikningaskrá skil á ársreikningum sínum eru ákvæði í X. kafla laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Í XII. kafla laganna er fjallað um viðurlög og málsmeðferð vegna brota á þeim. Kemur fram í 2. mgr. 126. gr. laganna að yfirskattanefnd úrskurði sektir vegna brota á lögunum nema máli sé vísað til rannsóknar og dómsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar, sbr. 3. gr. laga nr. 160/2006, um breyting á lögum nr. 3/2006, er ársreikningaskrá heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 126. gr., að leggja sektir á þau félög sem falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr. laga nr. 3/2006 og vanrækja að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar. Þá er ársreikningaskrá heimilt að leggja sektir á félög sem falla undir 1. gr. laganna og vanrækja að leggja fram fullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar. Er heimild ársreikningaskrár til að leggja á sektir samkvæmt þessari málsgrein óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Nemur sektarfjárhæðin allt að 500.000 kr. og rennur í ríkissjóð. Í niðurlagi málsgreinarinnar segir að sektarákvörðun ársreikningaskrár sé kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992. Þá skal ráðherra setja reglugerð um nánari framkvæmd á sektarheimild ársreikningaskrár, sbr. 4. mgr. 126. gr. laga nr. 3/2006, sbr. 3. gr. laga nr. 160/2006. Hefur það verið gert með reglugerð nr. 664/2008, um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga, sem leysti af hólmi reglugerð nr. 319/2003, um sama efni.
Af hálfu kæranda er komið fram að ársreikningur félagsins fyrir árið 2012 hafi fylgt skattframtali félagsins árið 2013 sem fyrirsvarsmaður kæranda hafi staðið skil á til ríkisskattstjóra með rafrænum hætti þann 5. desember 2013, sbr. bréf umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 19. júní 2014. Ekki verður fallist á með kæranda að atvik hafi verið með þeim hætti að sérstakt tilefni hafi verið fyrir ríkisskattstjóra að vekja athygli kæranda á skyldum félagsins samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006 til að senda ársreikningaskrá ársreikninginn eða framsenda skránni þann ársreikning sem fylgdi skattframtali félagsins árið 2013. Eru því ekki efni til að líta svo á að ríkisskattstjóri hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu sína gagnvart félaginu, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður fésektarákvörðunin ekki felld úr gildi á þeim grundvelli sem hér um ræðir.
Vegna athugasemda í kæru til yfirskattanefndar varðandi umsvif kæranda skal tekið fram að samkvæmt ársreikningi kæranda fyrir árið 2012, sem barst ársreikningaskrá 13. febrúar 2014, verður að byggja á því að kærandi hafi haft með höndum atvinnurekstur á því ári, enda eru tilfærðar rekstrareignir, þ.e. hljómplötur, og rekstrargjöld. Verður því að telja að kærandi hafi stundað atvinnurekstur í skilningi 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006 á árinu 2012. Samkvæmt því bar kæranda að senda ársreikningaskrá ársreikning félagsins fyrir árið 2012 til opinberrar birtingar eigi síðar en átta mánuðum eftir lok viðkomandi reikningsárs, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006. Vegna vanrækslu kæranda á að sinna þeirri skyldu sinni innan tilskilins frests voru lagaskilyrði til beitingar sektar samkvæmt 3. mgr. 126. gr. sömu laga, sbr. 3. gr. laga nr. 160/2006. Fram komnar viðbárur kæranda þykja ekki geta leitt til niðurfellingar hinnar umdeildu sektarákvörðunar ársreikningaskrár. Að því athuguðu og málsatvikum að öðru leyti verða ekki talin efni til að hagga við þeirri sektarfjárhæð sem ársreikningaskrá hefur ákvarðað. Er kröfu kæranda um niðurfellingu sektar því hafnað. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður og að hafna kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar, enda eru ekki uppfyllt skilyrði laga til að ákvarða kæranda málskostnað, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hin kærða sektarákvörðun ársreikningaskrár stendur óhögguð.