Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lánsveðsvaxtabætur
  • Eigin not íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 114/2015

Lög nr. 90/2003, bráðabirgðaákvæði LII.  

Ríkisskattstjóri felldi niður tilfærð vaxtagjöld og eftirstöðvar skulda vegna öflunar íbúðarhúsnæðis í skattframtali kæranda árið 2011 þar sem hann taldi að lagaskilyrði um eigin not íbúðarhúsnæðisins væri ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Ekki kom til ákvörðunar lánsveðsvaxtabóta til handa kæranda þar sem eftirstöðvar fasteignaveðlána kæranda í árslok 2010 námu að gerðri framangreindri breytingu ríkisskattstjóra lægri fjárhæð en sem nam 110% af fasteignamati íbúðar kæranda.

I.

Með kæru, dags. 7. maí 2014, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra frá 13. mars 2014 um að honum beri ekki réttur til lánsveðsvaxtabóta í samræmi við bráðabirgðaákvæði LII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Ríkisskattstjóri tók hina kærðu ákvörðun um lánsveðsvaxtabætur kæranda í framhaldi af umsókn kæranda, dags. 5. september 2013. Komst ríkisskattstjóri að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði bráðabirgðaákvæðis LII í lögum nr. 90/2003 til lánsveðsvaxtabóta þar sem ekki væri getið um skuldir vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota í árslok 2010 í lið 5.2 í skattframtali kæranda árið 2011. Lánsveðsvaxtabætur væru því ákvarðaðar 0 kr. Leiðbeindi ríkisskattstjóri um kæruheimild til yfirskattanefndar vegna ákvörðunar um lánsveðsvaxtabætur samkvæmt framansögðu.

Í kæru til yfirskattanefndar er óskað eftir endurskoðun á ákvörðun ríkisskattstjóra á þeim grundvelli að villur hafi verið í skattframtali kæranda árið 2011, svo sem nánar er rakið. Kemur fram að eftirstöðvar fasteignaveðlána í lið 5.2 í skattframtali kæranda árið 2011 eigi að vera 19.834.610 kr. og mismunur á eftirstöðvum lána í árslok 2010 og 110% af fasteignamati fasteignar til eigin nota nemi því 5.809.610 kr. Eigi kærandi því rétt á lánsveðsvaxtabótum að fjárhæð 116.192 kr.

II.

Með bréfi, dags. 2. júní 2014, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda umsögn um kæruna:

„Í úrskurði ríkisskattstjóra dags. 24. júlí 2013 kom fram að kærandi uppfylli ekki skilyrði B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum og að íbúðarhúsnæði kæranda að A-götu 2 í Reykjavík hafi ekki verið til eigin nota í skilningi ákvæðisins á gjaldárinu 2011.

Umræddar breytingar sem gerðar voru á kafla 5.2., vaxtagjöld vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, í skattframtali 2011 með ofangreindum úrskurði, verða til þess að töluliðir 4, 6, 12, 13 og 15 í hinum kærða úrskurði eru með niðurstöðuna kr. 0.

Þess er því krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 4. júní 2014, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða LII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 42/2013, um breytingu á hinum fyrrnefndu lögum, skal ríkisskattstjóri ákvarða sérstakar vaxtabætur, svonefndar lánsveðsvaxtabætur, til handa manni sem hefur tekið fasteignaveðlán til kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, sem tryggt er með veði í fasteign í eigu annars einstaklings. Skilyrði er að íbúðarhúsnæðið hafi verið í eigu hans á tímabilinu frá og með 1. janúar 2009 til og með 31. desember 2010, um lengri eða skemmri tíma, að eftirstöðvar allra fasteignaveðlána vegna sama húsnæðis hafi þá verið umfram 110% af fasteignamati og einnig að hann hafi ekki fengið höfuðstól þeirra lána lækkaðan við sölu eða á annan hátt fyrir gildistöku laga þessara. Ákvæðið gildir einungis um fasteignaveðlán sem stofnað var til vegna fasteignakaupa sem fóru fram á tímabilinu 1. janúar 2004 til og með 31. desember 2008, sbr. 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis LII. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skulu lánsveðsvaxtabætur nema 2% af mismun á eftirstöðvum allra fasteignaveðlána 31. desember 2010 og 110% af fasteignamati þeirrar fasteignar sem lánið var tekið til kaupa eða byggingar á miðað við sömu dagsetningu. Í 9. mgr. bráðabirgðaákvæðisins kemur fram að um ákvörðun lánsveðsvaxtabóta fari að öðru leyti eftir B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og ákvæði til bráðabirgða XLI, eftir því sem við á.

Fyrir liggur að í skattframtali sínu árið 2011 gerði kærandi grein fyrir skuldum og vaxtagjöldum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota í lið 5.2, þ.e. vaxtagjöldum að fjárhæð 2.031.676 kr. og eftirstöðvum skulda að fjárhæð 19.834.610 kr. vegna tveggja lána frá Z- banka hf. Þá liggur fyrir að í framhaldi af bréfaskriftum á árinu 2013, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 24. janúar 2013, gerði ríkisskattstjóri þær breytingar á skattframtali kæranda árið 2011 að fella niður umrædd vaxtagjöld og eftirstöðvar skulda í lið 5.2 og færa með öðrum skuldum og vaxtagjöldum í lið 5.5 í skattframtalinu, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 24. júlí 2013, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2010, 2011 og 2012. Voru forsendur þessarar ákvörðunar ríkisskattstjóra þær að íbúð kæranda við A-götu 2 í Reykjavík hefði ekki verið til eigin nota í skilningi B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 á tekjuárunum 2010 og 2011 og að kærandi uppfyllti því ekki skilyrði vaxtabóta vegna umræddra ára. Leiddi úrskurður ríkisskattstjóra til þess að áður ákvarðaðar vaxtabætur kæranda og sérstök vaxtaniðurgreiðsla gjaldárin 2011 og 2012 féllu niður. Kærandi neytti ekki kæruréttar til yfirskattanefndar vegna umrædds úrskurðar ríkisskattstjóra.

Að gerðri framangreindri breytingu ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2011 nema eftirstöðvar fasteignaveðlána kæranda 31. desember 2010 lægri fjárhæð en sem nemur 110% af fasteignamati íbúðarinnar við A-götu 2 í Reykjavík. Kemur því ekki til ákvörðunar lánsveðsvaxtabóta til handa kæranda, sbr. 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis LII í lögum nr. 90/2003. Með vísan til framanritaðs verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja