Úrskurður yfirskattanefndar

  • Erfðafjárskattur
  • Lífeyrissparnaður

Úrskurður nr. 115/2015

Lög nr. 14/2004, 1. gr. 1. og 4. mgr.   Lög nr. 90/2003, 28. gr. 1. tölul.   Lög nr. 129/1997, 8. gr., 11. gr. 4. mgr. (brl. nr. 171/2008, 2. gr.).  

Kærendur, sem voru bréferfingjar A, skutu til yfirskattanefndar ákvörðun sýslumanns um að telja séreignarsparnað A með skattstofni til erfðafjárskatts. Var sú ákvörðun byggð á því að undanþáguákvæði 4. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, gilti ekki í tilviki annarra erfingja en maka og barna. Yfirskattanefnd féllst ekki á túlkun sýslumanns og var krafa kærenda tekin til greina.

I.

Með kæru, dags. 24. september 2014, hefur umboðsmaður kærenda skotið til yfirskattanefndar ágreiningi um ákvörðun erfðafjárskatts kærenda vegna arfs úr dánarbúi A, sem lést 15. júní 2014. Nánar tiltekið lýtur ágreiningurinn að þeirri ákvörðun sýslumanns, sbr. tilkynningu, dags. 1. september 2014, að hækka stofn til erfðafjárskatts vegna greiðslu á séreignarlífeyri A heitins að fjárhæð 5.424.869 kr. sem ekki hefði verið gerð grein fyrir í erfðafjárskýrslu, dags. 29. ágúst 2014. Af hálfu kærenda er þess krafist að breytingu sýslumanns á erfðafjárskýrslu kærenda verði hnekkt og að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.

II.

Málavextir eru þeir að A átti ekki skylduerfingja og ráðstafaði hann eignum sínum með erfðaskrá, dags. 4. júní 2014, til kærenda. Fengu kærendur leyfi sýslumannsins í ... til einkaskipta á dánarbúi A 1. júlí 2014. Skiptum dánarbúsins lauk með einkaskiptagerð, dags. 16. júlí 2014, og lögðu kærendur sama dag fram erfðafjárskýrslu til sýslumanns. Í kjölfar athugasemda sýslumanns í tölvupósti til fyrirsvarsmanns kærenda, dags. 7. ágúst 2014, sendu kærendur sýslumanni endurgerða erfðafjárskýrslu, dags. 29. ágúst 2014, sbr. tölvupóst fyrirsvarsmannsins til sýslumanns, dags. 29. ágúst 2014. Tóku kærendur fram í athugsemdareit erfðafjárskýrslunnar að í skýrslunni væri ekki talinn fram séreignarsparnaður A að fjárhæð 5.424.869 kr. Væri af hálfu kærenda litið svo á að umræddur lífeyrir væri undanþeginn erfðafjárskatti þar sem tekjuskattur hefði þegar verið greiddur af honum. Vísuðu kærendur til 4. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, þar sem fram kæmi að ekki bæri að greiða erfðafjárskatt af lífeyrissparnaði sem félli til erfingja samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda færi um skattlagninguna samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Óumdeilt væri að tekjuskattur hefði verið greiddur. Leiddi af skýru orðalagi 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 að umræddur lífeyrir félli í arf til erfingja dánarbúsins. Þannig væri báðum skilyrðum 4. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 fullnægt. Var jafnframt bent á að markmið 4. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 væri að forða tvísköttun og væri skattundanþágan ekki háð tiltekinni útgreiðsluaðferð.

Með bréfi sýslumanns, dags. 1. september 2014, var kærendum tilkynnt um hækkun stofns til erfðafjárskatts samkvæmt erfðafjárskattsskýrslu, dags. 29. ágúst 2014, um 5.424.869 kr. Byggði sýslumaður á því að telja bæri séreignarlífeyri hins látna að fjárhæð 5.424.869 kr. til eignar dánarbús hans í erfðafjárskýrslu með vísan til 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997. Þar sem hin látni hefði ekki látið eftir sig maka eða barn rynni innstæðan til dánarbúsins og því bæri að leggja erfðafjárskatt á þá eign dánarbúsins eins og aðrar eignir.

III.

Krafa kærenda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 24. september 2014, er byggð á því að ákvörðun sýslumanns sé í andstöðu við 4. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Umrætt lagaákvæði setji tvö skilyrði fyrir því að lífeyrissparnaður sé undanþeginn erfðafjárskatti. Í fyrsta lagi að lífeyrissparnaður falli til erfingja samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og í öðru lagi að hann hafi verið skattlagður samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Að því er varði síðarnefnda skilyrðið er vísað til meðfylgjandi tilkynningar til dánarbús A um greiðslu lífeyris frá greiðslustofu lífeyrissjóða, dags. 30. júní 2014. Samkvæmt tilkynningunni hafi lífeyrissjóðurinn S greitt arf vegna séreignar að fjárhæð 9.982.875 kr. Af þeirri fjárhæð hafi lífeyrissjóðurinn haldið eftir staðgreiðslu tekjuskatts að fjárhæð 4.558.006 kr. þannig að útborguð fjárhæð til dánarbúsins hafi numið 5.424.869 kr. Fram komi í athugasemdum við 4. mgr. 1. gr. frumvarps þess sem orðið hafi að lögum nr. 14/2004 að ákvæðinu sé ætlað að taka af tvímæli um að ekki beri að greiða erfðafjárskatt af lífeyrissparnaði sem falli til erfingja samkvæmt lögum nr. 129/1997. Um skattlagningu hans fari samkvæmt lögum nr. 90/2003. Að mati kærenda hafi markmið 4. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 verið að koma í veg fyrir að lífeyrisréttindi væru tvískattlögð.

Hvað snertir fyrrnefnda skilyrðið í 4. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 vísa kærendur til orðalags 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 þar sem kveðið sé á um að lífeyrissparnaður falli til erfingja hins látna og skiptist milli þeirra eftir ákvæðum erfðalaga. Ekki sé ágreiningur um að kærendur eigi erfðarétt samkvæmt erfðalögum nr. 8/1962, enda byggist réttur þeirra á fullgildri erfðaskrá. Kærendur telji því að lífeyrissparnaðurinn hafi fallið til þeirra í skilningi 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997, sbr. 4. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004. Af hálfu kærenda er bent á að sýslumaður horfi eingöngu til þess hvert lífeyrissparnaður sé greiddur og þannig litið fram hjá því hver sé raunverulegur erfingi. Sé engu líkara en að sýslumaður telji dánarbúið hafa verið raunverulegan erfingja umrædds sparnaðar. Ljóst sé að arfsréttur sé eitt og útgreiðsla lífeyrissparnaðar sé annað. Ólík aðferð við útgreiðslu lífeyrissparnaðar sé tilkominn vegna ólíkrar stöðu erfingja. Athugasemdir með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 171/2008, um breytingu á lögum nr. 129/1997, séu þessu til stuðnings, en með breytingalögunum hafi verið ákveðið annað greiðslufyrirkomulag lífeyrissparnaðar í séreign til maka og barna hins látna en áður hafi verið kveðið á um í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997.

Til stuðnings kröfu um greiðslu málskostnaðar er vísað til þess að kostnaður kærenda svari til 15 klukkustunda vinnu fyrirsvarsmanns þeirra við málið, en áskilið gjald fyrir hverja klukkustund sé 7.000 kr.

IV.

Með bréfi, dags. 13. október 2014, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda umsögn um kæruna:

„Í kæru umboðsmanns kærenda kemur fram sú skoðun að ekki skuli greiddur erfðafjárskattur af lífeyrissparnaði sem fellur til erfingja samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 129/1997, óháð því hvort um sé að ræða maka, börn eða aðra erfingja að lögum.

Ríkisskattstjóri bendir á að greiðsla lífeyrissparnaðar telst til skattskyldra tekna samkvæmt ákvæði 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, og eru þær staðgreiðsluskyldar samkvæmt A-lið 2. gr. laga nr. 45/1897, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Enginn erfðafjárskattur er greiddur af slíkum greiðslum er fellur til erfingja samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, sbr. og 2. málslið 1. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003.

Láti rétthafi eftir sig maka eða barn, áður en innistæða er að fullu greidd til rétthafa, ganga greiðslur beint til þeirra, sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997. Láti rétthafi hins vegar ekki eftir sig maka eða barn rennur innstæðan til dánarbúsins.

Dánarbú eru skattskyld skv. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, og nemur tekjuskattur 36% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. mgr. 71. gr., sbr. 2. tölul. 61. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. tölul. 61. gr. laganna er tekjuskattsstofn lögaðila tekjur skv. II. gr. laganna að teknu tilliti til þess frádráttar sem þessum aðilum er heimilaður skv. 31. gr.

Greiðsla lífeyris til dánarbús telst því hluti tekjuskattsstofns dánarbúsins og skattleggst eftir þeim ákvæðum er um dánarbúið gilda, enda hefur ekki myndast krafa um tekjur fyrir andlát manns. Af því leiðir að greiðsla er ekki staðgreiðsluskyld samkvæmt A-lið 2. gr. laga nr. 45/1987, heldur ber að skattleggja greiðsluna með öðrum tekjum búsins. Af öllum fjárverðmætum er við skipti á dánarbúi manns hverfa til erfingja hans skal greiða í ríkissjóð skatt eftir lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, sbr. 1. gr. þeirra laga.

Verður því ekki hjá því komist að fara fram á það við yfirskattanefnd að úrskurður sýslumanns verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á þeirri ákvörðun.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. október 2014, var fyrirsvarsmanni kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um umsögnina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 22. október 2014, hefur fyrirsvarsmaður kærenda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Kemur fram að kærendur geti ekki fallist á sjónarmið ríkisskattstjóra þess efnis að skattundanþága 4. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 velti á því hvort tekjuskattur af lífeyrissparnaði sé staðgreiðsluskyldur eður ei. Þá er áréttað að lífeyrissparnaður hafi fallið til kærenda við andlát A í skilningi 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997. Það að lífeyrissparnaður hafi runnið til dánarbúsins breyti ekki stöðu þeirra sem rétthafa verðmætanna. Í þessu sambandi er bent á 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 90/2003 sem byggi á því að lífeyrissparnaður myndi tekjur hjá erfingjum.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. janúar 2015, var sýslumanni send gögn málsins og honum gefinn kostur á að leggja fram umsögn um kæru kærenda og eftir atvikum leggja fram viðbótargögn, teldi hann nauðsyn þess.

Með bréfi, dags. 13. febrúar 2015, hefur sýslumaður lagt fram umsögn um kæruna af sinni hálfu. Fram kemur í bréfinu að fyrir liggi ákvörðun sýslumanns, dags. 1. september 2014, sem byggð sé á 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 þar sem segi að láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn renni innstæða séreignarlífeyris til dánarbúsins. Umrædd ákvörðun sé einnig í samræmi við ákvæði 1. gr. laga nr. 14/2004 þar sem komi fram að af öllum fjárverðmætum er við skipti á dánarbúi manns hverfi til erfingja hans skuli greiða í ríkissjóð skatt eftir lögum um erfðafjárskatt. Sé ákvörðun sýslumanns í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hafi í sambærilegum málum.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 19. febrúar 2015, var fyrirsvarsmanni kæranda sent ljósrit af umsögn sýslumanns í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um umsögnina og leggja fram gögn til skýringar. Með tölvupósti, dags. 23. febrúar 2015, hefur fyrirsvarsmaður kærenda staðfest að engar athugasemdir séu gerðar af hálfu kærenda við umsögn sýslumanns, enda komi ekkert nýtt fram í henni.

V.

Kærendur í máli þessu eru bréferfingjar A, en með erfðaskrá, dags. 4. júní 2014, ráðstafaði hann öllum eignum sínum til þeirra eftir sinn dag. Meðal eigna, sem til skipta komu á þessum grundvelli, var séreignarsparnaður A heitins í Lífeyrissjóðunum S. Fyrir liggur að séreignarsparnaður nam 9.982.875 kr. við andlát. Hinn 30. júní 2014 greiddi lífeyrissjóðurinn inneignina inn á bankareikning dánarbúsins með 5.424.869 kr. og hafði þá verið tekið tillit til afdráttar staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð 4.558.006 kr. Við skipti dánarbúsins kom greind fjárhæð 5.424.869 kr. til skipta milli kærenda í samræmi við ákvæði erfðaskrár ásamt öðrum eignum. Er í máli þessu deilt um þá ákvörðun sýslumanns að telja greinda fjármuni til skattstofns samkvæmt lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt.

Samkvæmt upphafsmálsgrein 1. gr. laga nr. 14/2004 skal greiða skatt í ríkissjóð, erfðafjárskatt, af „öllum fjárverðmætum er við skipti á dánarbúi manns hverfa til erfingja hans“. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar skal þó ekki greiða erfðafjárskatt „af lífeyrissparnaði sem fellur til erfingja samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda fari um skattlagningu samkvæmt lögum um tekjuskatt“. Um þetta ákvæði kemur það eitt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 14/2004 að með ákvæðinu séu tekin af tvímæli um að ekki beri að greiða erfðafjárskatt af slíkum lífeyrissparnaði. Um skattlagningu hans fari samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Iðgjöld vegna lífeyrissparnaðar séu frádráttarbær frá skattskyldum tekjum, sbr. A-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, og því beri að greiða tekjuskatt við útborgun lífeyrisins til rétthafa.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, er launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi heimilt að gera samning við tilgreinda aðila, m.a. lífeyrissjóði, sbr. 3. mgr. 8. gr., um tryggingavernd á grundvelli iðgjalda sem þeir hafa beinan ráðstöfunarrétt yfir samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna. Iðgjaldi eða iðgjaldshluta samkvæmt þeim samningi skal verja til öflunar lífeyrisréttinda í séreign samkvæmt II. kafla laganna eða í sameign samkvæmt III. kafla. Í 2. mgr. 8. gr. segir að rétthafa samkvæmt 1. mgr. sé almennt óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa innstæðu eða réttindum samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd eða lífeyrisréttindi í séreign. Ekki verði gerð aðför í réttindum samkvæmt slíkum samningi og enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hafi rétt til að skerða réttindin á nokkurn hátt.

Um hugtakið „rétthafi“ í þessu sambandi kemur fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 129/1997 að það sé notað um þá launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem geri samning um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað. Launagreiðandi eða lífeyrissjóður geti jafnframt gert slíkan samning samkvæmt umboði en launþeginn eða sjóðfélaginn teljist samt sem áður rétthafi samkvæmt samningnum. Þá er tekið fram í athugasemdunum að erfingjar launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings teljist hins vegar ekki rétthafar samkvæmt frumvarpinu og sé fjallað um greiðslur til þeirra í 4. mgr. 11. gr.

Reglur um útborgun inneignar samkvæmt samningi um lífeyrissparnað er að finna í 11. gr. laga nr. 129/1997. Í 4. mgr. 11. gr. er kveðið á um greiðslur til erfingja rétthafa. Fyrir breytingu á málsgreininni með 2. gr. laga nr. 171/2008 hljóðaði ákvæðið svo:

„Deyi rétthafi áður en innstæða er að fullu greidd út fellur hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Hlut barns undir 13 ára aldri ber að skipta með jöfnum greiðslum á þau ár sem vantar á að barnið nái 18 ára aldri. Hafi barn náð 13 ára aldri við andlát rétthafa skal hlutur þess greiddur út á fimm árum. Hlut eftirlifandi maka ber að skipta með jöfnum greiðslum á sjö ár eða á þann tíma sem makann vantar á 67 ára aldur við andlát rétthafa. Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn rennur innstæðan til dánarbúsins og gildir þá ekki takmörkunin í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr.“

Um ákvæði þetta segir í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 129/1997 að þar sé „fjallað um greiðslu til maka, barna og annarra erfingja. Lagt er til að greiðsla til maka og barna, þ.e. skylduerfingja, dreifist á ákveðið tímabil en greiðsla til annarra erfingja, ef um þá er að ræða, verði greidd út í einu lagi.“

Með 2. gr. laga nr. 171/2008 varð sú breyting á 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 að ákvæðin í 2.-4. málslið um dreifingu greiðslna til barna og maka voru felld niður. Kemur fram í athugasemdum að þessi breyting, sem feli í sér að felldar séu niður þær hömlur sem séu á útgreiðslu lífeyrissparnaðar í séreign við andlát, standi í tengslum við aðrar breytingar á 11. gr. um aukinn sveigjanleika við útgreiðslu á lífeyrissparnaði í séreign. Jafnframt hafi reynslan sýnt að það komi erfingjum í mörgum tilvikum mun betur að fá lífeyrissparnaðinn greiddan út í einu lagi frekar en að greiðslum sé dreift á tiltekinn fjölda ára.

Tekið skal fram að í 1. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er kveðið á um að eignaauki vegna arftöku, fyrirframgreiðslu arfs og dánargjafa teljist ekki til tekna, enda hafi erfðafjárskattur verið greiddur. Tekið er fram í síðari málslið töluliðarins að þetta eigi þó ekki við „um þann hluta lífeyrissparnaðar sem fellur til erfingja samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða“. Umrædd undantekning kom í lög með 4. gr. laga nr. 154/1998. Um þetta segir í lögskýringargögnum að lagt sé til að tekið verði fram í lögunum að greiðslur til erfingja samkvæmt lögum nr. 129/1997 séu skattlagðar hjá erfingjum. Þar sem greiðslur í sjóðina séu frádráttarbærar frá skattskyldum tekjum sé eðlilegt að þær greiðslur verði skattlagðar hjá móttakanda þegar þær komi til útborgunar.

Skilja verður forsendur sýslumanns þannig að óumdeilt sé að hugtakið erfingjar í 4. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004, sbr. upphafsákvæði 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997, taki til eftirlifandi maka og barna rétthafa í séreignarsjóði samkvæmt lögum nr. 129/1997. Sé slíkur eignaauki því undanþeginn erfðafjárskatti hjá þessum hópi erfingja. Undir þetta er tekið í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 13. október 2014, og bent á að hér sé um að ræða skattskyldar tekjur hjá maka og/eða börnum samkvæmt 2. málsl. 1. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003. Niðurstöðu sína um að undanþáguákvæðið í 4. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 gildi ekki í tilviki annarra erfingja en maka/barna byggir sýslumaður á því ákvæði í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 að láti rétthafi hvorki eftir sig maka né barn renni innstæða lífeyrissparnaðar í dánarbú hans. Í þessari túlkun sýslumanns virðist felast að hið gagnstæða eigi við þegar maki eða barn kallar til arfs.

Eins og rakið hefur verið „fellur [innstæða rétthafa í séreignarsjóði] til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga“ svo sem segir í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997. Fyrir breytingu með lögum nr. 171/2008 var í ákvæðinu að finna reglur um dreifingu útborgunar til barna (undir 18 ára aldri) og maka, en þær reglur voru felldar niður með greindum breytingalögum. Ekki hefur í löggjöf þessari verið mælt fyrir um hliðstæða dreifingu greiðslna til annarra erfingja en barna og maka, en sé þessum skylduerfingjum ekki fyrir að fara „rennur innstæðan til dánarbúsins“ sem samkvæmt lögskýringargögnum felur í sér að innstæðan sé „greidd út í einu lagi“. Við þær aðstæður gildir ekki takmörkunin í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997, sbr. niðurlagsákvæði 4. mgr. 11. gr. laganna. Verður að skilja þetta þannig að greiðslur til maka/barna njóti þeirrar réttarverndar sem kveðið er á um í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna, þar sem m.a. kemur fram að „enginn skuldheimtumaður í dánarbúi“ hafi heimild til að skerða lífeyrisréttindi sem þar um ræðir, en öndverð regla gildir hvað varðar aðra erfingja. Hefur lokamálsliður málsgreinarinnar sjálfstæða þýðingu að þessu leyti þrátt fyrir breytingar með lögum nr. 171/2008.

Af samanburði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 og undanþáguákvæðisins í 4. mgr. sömu lagagreinar verður að draga þá ályktun að gengið sé út frá því í lögunum að slík verðmæti sem um ræðir í undanþáguákvæðinu teljist út af fyrir sig til eigna dánarbús, svo sem raunar er í samræmi við meginreglu 2. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Samhengi ákvæðanna í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. og 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 þykir einnig benda til þess að í þeim lögum sé litið á séreignarsparnað látins manns sem eign sem tilheyri dánarbúi rétthafans, þ.e. hvort heldur maka og/eða börnum er til að dreifa eða ekki. Framsetningin í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 þykir á hinn bóginn skýrast af viðhorfum löggjafans um mismunandi tilhögun á útborgun til einstakra erfingjahópa og réttarstöðu þeirra gagnvart kröfuhöfum, svo sem rakið hefur verið, enda verður ekkert ráðið af lögskýringargögnum um að annað hafi þar búið að baki.

Samkvæmt framansögðu verður ekki tekið undir þá skýringu sýslumanns á ákvæðum 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 sem liggur til grundvallar hinni kærðu ákvörðun. Áréttað skal í þessu sambandi að í upphafsákvæði margnefndrar málsgreinar segir að umræddur lífeyrissparnaður falli til erfingja og er eftir orðanna hljóðan enginn greinarmunur gerður á hópum erfingja í því sambandi. Ekki verður heldur ráðið af orðan 4. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 eða 2. málsl. 1. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003 að þessum ákvæðum sé ætlað að gilda um tiltekna erfingja og aðra ekki. Miða reglur þessar augljóslega að því að ekki komi til skattlagningar verðmæta sem þar um ræðir eftir báðum lögunum. Vegna hugleiðinga í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 13. október 2014, skal tekið fram að fjárhagsleg réttindi manns, sem ganga til dánarbús hans við andlát, teljast ekki til tekna dánarbúsins í skilningi 7. gr. laga nr. 90/2003. Annað mál er að dánarbúi geta hlotnast skattskyldar tekjur á meðan á skiptum stendur. Verður ekki betur séð en að ríkisskattstjóri blandi þessu tvennu saman í umsögn sinni.

Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, verður ekki talið að grundvöllur sé fyrir hinni kærðu skattlagningu vegna innstæðu lífeyrissparnaðar í séreign A heitins. Er krafa kærenda því tekin til greina.

Í kæru er þess krafist að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt gögnum málsins hefur einn erfingja, H, rekið mál kæranda. Kærendur hafa hvorki gert grein fyrir útlögðum kostnaði sínum við meðferð málsins með framlagningu reikninga eða á annan hátt. Samkvæmt þessu verður ekki óyggjandi ráðið að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Þykja því ekki lagaskilyrði til að úrskurða kærendum málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt framangreindu ákvæði. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða breyting sýslumanns á erfðafjárskýrslu kærenda er felld niður. Málskostnaðarkröfu kærenda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja