Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollflokkun

Úrskurður nr. 117/2015

Lög nr. 88/2005, 20. gr.   Almennar reglur um túlkun tollskrár.  

Deilt var um tollflokkun fylgihluta með svefnrannsóknartæki, þ.e. sérhannaðra tengikapla og teygjubelta. Yfirskattanefnd féllst á með tollstjóra að vörurnar féllu undir vörulið 8544 í tollskrá sem rafleiðarar.

I.

Kæra í máli þessu, dags. 17. október 2014, varðar bindandi álit tollstjóra nr. 85-92/2014 á tollflokkun fylgihluta sem embættið lét uppi hinn 30. júlí 2014 samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í álitum þessum komst tollstjóri að þeirri niðurstöðu að vörur sem um ræðir, þ.e. fylgihlutir með svefnrannsóknartæki sem kærandi hannar og selur, féllu undir tollskrárnúmer 8544.4209 í tollskrá. Í kærunni er þess krafist að niðurstöðu tollstjóra verði breytt og umræddir fylgihlutir taldir falla undir tollflokk 9018 eða 9033. Tekið skal fram að yfirskattanefnd fékk málið til meðferðar við gildistöku laga nr. 123/2014, um breytingu á lögum um yfirskattanefnd og fleiri lögum, hinn 1. janúar 2015, sbr. 17. gr. hinna fyrstnefndu laga.

II.

Málavextir eru þeir að hinn 24. júlí 2014 óskaði kærandi eftir bindandi álitum tollstjóra á tollflokkun nokkurra vara, sbr. 21. gr. tollalaga nr. 88/2008. Í umsóknunum kom fram að um væri að ræða annars vegar öndunarnema (e. RIP belts) sem notaðir væru til að mæla hreyfingu á bringu og kvið við svefnrannsóknir á sjúklingum. Var vörunni lýst sem hvítu teygjubelti með vír og festingum til að smella beltunum á tengikapal sem síðan væri smellt á svefngreiningartæki. Hins vegar væri um að ræða sérhannaða tengikapla (e. Abdomen Cable) til að tengja öndunarnema við svefngreiningartæki. Var þeirri vöru lýst sem plastferhyrningum sem tengdust saman með tinselvír. Í öllum tilvikum var tekið fram að framleiðandi varanna í Kína tollflokkaði vörurnar í tollflokk 8544.4219 og samkvæmt upplýsingum framleiðandans væri ekki unnt að breyta þeirri flokkun vegna kínverskra tollalaga sem krefðust þess að framleiðandinn „tolli framleiðsluvöruna út á sama tollnúmeri og þau tolluðu inn vír sem er notaður í öndunarskynjarana“, eins og sagði í umsóknunum.

Tollstjóri lét uppi átta bindandi álit hinn 30. júlí 2014 í tilefni af umsókn kæranda þar sem tollstjóri taldi að umræddar vörur féllu í öllum tilvikum undir tollskrárnúmer 8544.4209 sem rafmagnsleiðarar með tengihlutum. Í rökstuðningi tollstjóra, sbr. bréf til kæranda, dags. 20. ágúst 2014, kom eftirfarandi fram:

„Um er að ræða kapla sem nota á í svefnrannsóknatæki. Allur einangraður vír, kaplar og aðrir einangraðir rafleiðarar, hvort sem þeir eru með tengihlutum eða ekki, flokkast í vörulið 8544. Þar flokkast einnig ljósleiðarar. Þá skiptir ekki máli í hvaða tæki tilteknir kaplar séu ætlaðir eða í hvað þeir eru notaðir.

Kaplar eru notaðir í ýmsum tilgangi, t.d. í ýmis tæki eins og þau sem nefnd eru í vörulið 9033, það breytir hins vegar ekki tollflokkun á köplunum. Í skýringabókum WCO fyrir hið alþjóðlega tollflokkunarkerfi kemur fram að í vörulið 8544 flokkist kaplar sem eru notaðir í rafmagnstæki. Engar undantekningar er þar að finna. Við flokkun á köplum er stuðst við túlkunarreglur 1 og 6.

Kaplar sem fluttir eru inn í tækjum eða með tækjum myndu samtollast með tækjum nema ef þeir kæmu sundurliðaðir á reikning.“

III.

Með kæru, dags. 17. október 2014, skaut kærandi bindandi álitum tollstjóra nr. 85-92/2014 til ríkistollanefndar, sbr. kæruheimild í þágildandi 1. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í kærunni kom fram að með bindandi álitum sínum hefði tollstjóri komist að þeirri niðurstöðu að sérsmíðaðir fylgihlutir með svefnrannsóknatæki sem kærandi hannaði og léti framleiða fyrir sig féllu undir tollflokk 8544.4209. Vörurnar væru allar sérhannaðar af kæranda sem hluti af svefnrannsóknatæki sem félli undir tollflokk 9018.9000 (tæki til lækninga). Vörurnar hefðu engan annan tilgang eða sjálfstætt notagildi og væru þannig ekki íhlutir heldur hluti af endanlegri framleiðsluvöru. Vörurnar væru framleiddar undir vörumerki kæranda sem lækningatækjaframleiðanda og kæmu hingað til lands pakkaðar og CE-merktar sem lækningatæki, sbr. tilskipun nr. 93/42/EB um lækningatæki sem hefði verið innleidd á Íslandi með reglugerð nr. 934/2010, um lækningatæki. Þá yrðu 99,7% af framleiðsluverðmætum kæranda til við útflutning svefnrannsóknartækja og fylgibúnaðar þeirra undir tollflokki 90 sem fylgihlutir við lækningavörur, enda mættu kaupendur tækja kæranda ekki flytja þau inn sem nokkuð annað en lækningavörur. Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið FDA (e. US Food and Drug Administration) veitti innflutningsheimildir á vörum kæranda til Bandaríkjanna á þeim grundvelli að um lækningavörur væri að ræða, enda væru vörurnar tollaðar inn í Bandaríkin sem slíkar. Eðli og virkni varanna tæki alls engum breytingum frá því þær væru fluttar hingað til lands og þar til þær væru fluttar út aftur í 99,7% tilvika. Svefngreiningartæki kæranda væru ófullkomin og ónothæf án fylgihluta sem í öllum viðskiptalöndum kæranda væru tollflokkuð sem lækningatæki.

Í kærunni kom fram að ekki yrði fallist á með tollstjóra að þeir fylgihlutir sem um ræddi yrðu flokkaðir sem kaplar í vörulið 8544 algerlega óháð notagildi þeirra og tilgangi að öðru leyti. Var fjallað um túlkunarreglur tollskrár í því sambandi og m.a. bent á að í 1. athugasemd við 90. kafla tollskrárinnar væru tilteknar vörur sérstaklega undanskildar vöruliðum kaflans. Tengikaplar sem væru hluti lækningatækis væru ekki meðtaldir þar. Hins vegar væru ljósleiðarar sérstaklega taldir í h-lið athugasemdanna. Þá kæmi mikilvæg túlkunarregla fram í 2. athugasemd við 90. kafla tollskrárinnar sem tæki sérstaklega til hluta og fylgihluta, sem væru einungis eða aðallega nothæfir við vélar, tæki, áhöld eða vörur samkvæmt 90. kafla. Af a- og b-lið athugasemdarinnar leiddi að hinar umdeildu vörur kæranda uppfylltu öll efnisskilyrði til að falla undir tollflokk 9033, sbr. a-lið, eða tollflokk 9018, sbr. b-lið. Var í kærunni vísað til túlkunarreglu 1, 6 og 3 við tollskrá og bent á að tollflokkar 9033 og 9018 væru sérstækari en tollflokkur 8544 sem tæki til hvers kyns víra og kapla óháð notkunarsviði. Þá var í kærunni skírskotað til athugasemda við HS-flokkunarkerfi WCO varðandi tollflokk 9033 sem taldar voru renna stoðum undir sjónarmið kæranda.

IV.

Með bréfi, dags. 10. nóvember 2014, lagði tollstjóri fram svofellda umsögn í málinu, sbr. þágildandi 4. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005:

„Vörur þær sem um ræðir eru kaplar sem eru sérhannaðir til nota í svefnrannsóknartæki. Slík rannsóknartæki flokkast í vörulið 9018. Kærandi telur að flokka eigi kaplana sem hluta til slíkra tækja í kafla 90 þar sem þeir séu sérhannaðir til þeirra nota og er ekki hægt að nýta í öðrum tilgangi. Embætti tollstjóra er þessu ekki sammála og telur að flokka eigi kaplana í vörulið 8544 þar sem þar flokkast allir einangraðir kaplar óháð því í hvaða tæki eða í hvaða tilgangi þeir eru notaðir. Embættið byggir þá skoðun sína á túlkunarreglu 1 og athugasemd 2 við kafla 90 í tollskrá. Einnig er stuðst við skýringabækur alþjóðatollastofnunarinnar (hér eftir WCO), þá sérstaklega skýringatexta við athugasemd 2 við kafla 90 og skýringatexta við vörulið 9033. Þessir tveir textar fjalla um hluta og fylgihluti til tækja í kafla 90.

Í fyrsta lagi nefnir kærandi í rökstuðningi sínum að köplum sé ekki frávísað í athugasemd 1 við 90. kafla. Það er rétt enda byggir embættið ekki rökstuðning sinn á þeirri athugasemd.

[...]

Í öðru lagi byggir kærandi rök sín á athugasemd 2 en þar misskilur hann inntak athugasemdarinnar. Kærandi heldur því fram að samkvæmt athugasemdinni skulu vörur sem geta fallið í vörulið 9033 ekki flokkast í vöruliði í kafla 85. Þetta er rangt. Hið rétta er að samkvæmt þessari athugasemd skulu allir hlutar eða fylgihlutir sem eru vörur meðtaldar í vöruliðum 85. kafla flokkast, í öllum tilvikum, í þá vöruliði en ekki sem hlutar eða fylgihlutir í kafla 90.

Í skýringabókum WCO er þessi athugasemd skýrð betur. Þar segir að með tilliti teknu til athugasemdar 1 skuli fylgihlutir sem eru sérhannaðir til tækja í kafla 90 flokkast með þeim tækjum í viðeigandi vöruliði. Hins vegar er undantekningin á þessari reglu sú að hlutar eða fylgihlutir sem eru vörur sem flokkast í kafla 90, 84, 85 eða 90 skulu flokkast í sína viðeigandi vöruliði í þá kafla. Í texta skýringabóka WCO sem fjallar um athugasemdir við kafla 90 eru tekin nokkur dæmi (bls. XVIII-90-4, 5. bindi). Til dæmis er bent á að lofttæmidæla sem er hlutur í rafeindasmásjá, sem flokkast í vörulið 9012, er áfram flokkuð í sinn viðeigandi vörulið í kafla 84. Skiptir þá engu hvort dælan sé sérhönnuð til að passa í slíka smásjá. Hún er áfram lofttæmidæla og flokkast sem slík í vörulið 8414. Einnig er bent á að optískt unnar vörur flokkast áfram í sína viðeigandi vöruliði sama í hvaða tæki þau eru hönnuð til að passa í. Þessi upptalning á dæmum um vörur sem flokkast í sína viðeigandi vöruliði er ekki tæmandi. Af þessu leiðir að sambærilegar vörur eins og kaplar flokkast einnig samkvæmt þessum reglum, s.s. í sinn viðeigandi vörulið sem er 8544 þrátt fyrir að vera sérhannaðar í svefnrannsóknartæki.

[...]

Í þriðja lagi byggir kærandi rök sín á texta skýringabóka WCO sem fjallar um vörulið 9033. Í þeim texta eru tekin ýmis dæmi um vörur sem flokkast í sína viðeigandi vöruliði þrátt fyrir að vera hlutar eða fylgihlutir í tæki sem flokkast í 90. kafla. Kærandi telur að þar sem ekki er minnst á kapla í þessum dæmum þá leiði það til þess að þeir falli ekki undir þessa reglu. Þetta er ekki rétt. Þarna er ekki um tæmandi lista að ræða heldur dæmi um vörur sem fylgja þessari reglu. Bent er sérstaklega á síðustu setningu fyrstu málsgreinar í lið 2 í texta skýringabóka WCO um vörulið 9033 (bls. XVIII-9033-1, 5. bindi) en þar segir áður en dæmi eru talin upp: „Examples of such goods include“. Af þessu leiðir að þrátt fyrir að kaplar séu ekki teknir sem dæmi í skýringatextanum þá eru þeir sambærilegir við þær vörur sem þar eru nefndar og fylgja því sömu reglum. Kaplar eru flokkaðir í sinn viðeigandi vörulið sem er 8544.

[...]

Í fjórða lagi telur kærandi að vörunum sé nánar lýst í kafla 90 sem hlutar eða fylgihlutar til tækja sem þar flokkast. Á það fellst embætti Tollstjóra ekki. Vörurnar eru kaplar og kaplar eru nefndir í vörulið 8544. Nánari getur lýsingin ekki orðið.

Ekki er úr vegi að útskýra athugasemd 2 við 90. kafla nánar þar sem textinn getur verið torskilinn. Athugasemdin segir okkur hvernig hlutar og fylgihlutar sem eru nothæfir við tæki í kafla 90 skuli flokkast. Bent er á að athugasemd 1 við kaflann hefur þegar frávísað nokkrum slíkum vörum og skal tekið tillit til þess.

A liður segir okkur að hlutar og fylgihlutir sem nefndir eru í vöruliðum í köflum 84, 85, 90 og 91 skuli flokkast í þá vöruliði. Vöruliðir 8487, 8548 og 9033 heyra augljóslega ekki undir þessa reglu þar sem þetta eru endanúmer eða vöruliðir fyrir hluta eða fylgihluti ótalið annarsstaðar (ót. a.). Það ætti að vera ljóst að hlutir sem eru taldir upp annarsstaðar geta ekki flokkast í vörulið fyrir hluti sem eru ótaldir annarsstaðar.

B liður segir okkur að aðrir hlutir sem eru eingöngu eða aðallega nothæfir til tiltekinna véla skuli flokkast með þeim vélum í þá vöruliði sem þær flokkast í en ekki í hlutavöruliðinn 9033.

C liður segir okkur að allir aðrir hlutar eða fylgihlutir skulu flokkast í vörulið 9033 sem er fyrir hluti sem eru ótaldir annarsstaðar. Í þennan vörulið flokkast vörur sem eiga hvergi annars staðar pláss, þ.e. eiga ekki sína eigin vöruliði (liður a) og eru ekki sérhönnuð fyrir tæki í 90. kafla (liður b).

[...]

Með vísan til ofangreinds gerir Tollstjóri þá kröfu að ákvörðun um tollflokkun verði staðfest.“

Með bréfi ríkistollanefndar, dags. 18. nóvember 2014, var kæranda send umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni.

Með bréfi til ríkistollanefndar, dags. 5. desember 2014, gerði umboðsmaður kæranda grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu var lögð áhersla á að þær vörur sem málið varðaði væru alls ekki „kaplar“ í neinum venjulegum skilningi þess orðs, eins og tollstjóri virtist álíta. Um væri að ræða lykilbúnað í svefnrannsóknartækjum kæranda, þ.e. einnota skynjara þar sem eitt sett af skynjurum væri notað við hverja svefnmælingu. Öndunarnemarnir væru notaðir til að mæla rúmmálsbreytingu við andardrátt sjúklings og væri einn nemi strengdur yfir brjóst sjúklingsins og annar yfir þind. Um væri að ræða þekkta og viðurkennda tækni í öndunarlækningum (e. RIP - Respiratory Inductance Plethysmography). Kærandi hefði fengið einkaleyfi á greindum búnaði, sbr. meðfylgjandi gögn. Varan væri að uppistöðu til ofinn bómullarstrengur eða -teygja sem í væri ofinn örþunnur vír. Á hvorn enda væri síðan fest sérhannað tengistykki sem tengdist „heila“ svefnrannsóknartækisins. Utan um tengistykkið væri síðan festur límmiði með lögbundum merkingum, þar með talið CE-merkingum sem gerði vöruna að sjálfstæðri lækningavöru sem væri á ábyrgð og undir skráningum kæranda. Var vísað til meðfylgjandi ljósmyndar af vörunni og sundurliðunar á kostnaðarverði við framleiðslu hvers einstaks nema þar sem fram kæmi m.a. að verðmæti einleiðara sem notaður væri í vöruna væri um 8,4% af kostnaðarverði hennar eða 12,4% af heildarefniskostnaði frá kínverskum undirverktaka kæranda. Eðlilegt væri að spyrja hversu mikið málmefni mætti vera í vöru svo hún gæti talist vera kapall eða hvenær bómullarteygja teldist vera kapall. Tollflokkun öndunarnema kæranda sem kapla væri jafn fráleit og að tollflokka sprautunál sem járnrör. Þá væri ekki um sjálfstæðar íhlutavörur að ræða heldur vörur sem væru óaðskiljanlegur hluti heildstæðs lækningatækis. Vörurnar hefðu því ekkert annað sjálfstætt eða almennt notagildi en að vera hluti svefnrannsóknartækja. Sú forsenda tollstjóra, að um kapla væri að ræða, væri því röng. Þá kom fram í bréfi umboðsmanns kæranda, vegna tilvísunar tollstjóra til athugasemdar 2 við 90. kafla tollskrár, að þar væri vísað til tækja eða fylgihluta sem hefðu sjálfstætt notagildi án tillits til lækningatækja sem þau kynnu eftir atvikum að vera notuð við, svo sem dæmi um lofttæmispumpu og ljósmyndavél bæru glöggt vitni um.

Þar sem afgreiðslu máls kæranda var ólokið við gildistöku laga nr. 123/2014 hinn 1. janúar 2015 tók yfirskattanefnd við meðferð málsins frá þeim degi, sbr. 17. gr. nefndra laga.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 20. janúar 2015, hefur umboðsmaður kæranda gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Þá bárust yfirskattanefnd með tölvupósti 28. janúar 2015 gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu kæranda.

V.

Kæra í máli þessu varðar átta bindandi álit tollstjóra samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005 sem embættið lét uppi 30. júlí 2014 í tilefni af beiðni kæranda 24. júlí sama ár. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu hér að framan óskaði kærandi eftir bindandi álitum tollstjóra um tollflokkun vöru, þ.e. fylgihluta með svefnrannsóknartæki sem félagið hannar og selur. Í beiðni kæranda um bindandi álit kom fram að um væri að ræða annars vegar öndunarnema (e. RIP belts) sem notaðir væru til að mæla hreyfingu á bringu og kvið á sjúklingum og hins vegar sérhannaða tengikapla (e. Abdomen Cable) til að tengja öndunarnemana við svefnrannsóknartæki. Var vörunum nánar lýst í beiðni kæranda. Tollstjóri komst að þeirri niðurstöðu í bindandi álitum sínum að umræddar vörur féllu undir tollskrárnúmer 8544.4209 sem rafmagnsleiðarar með tengihlutum. Tók tollstjóri fram að um væri að ræða kapla til nota í svefnrannsóknartæki og að allur einangraður vír, kaplar og aðrir einangraðir rafleiðarar, með eða án tengihluta, félli undir tollskrárnúmer 8544.4209. Skipti þá engu máli til hverra nota slíkir kaplar væru ætlaðir. Vísaði tollstjóri í þessu sambandi til túlkunarreglna nr. 1 og 6 við tollskrá. Kærandi telur hins vegar að þær vörur sem um er að ræða falli undir vöruliði 9018 („Áhöld og tæki til lyflækninga, skurðlækninga, tannlækninga eða dýralækninga, þar með taldir leifturritar (scintigraphic apparatus), önnur rafmagnslækningatæki og sjónprófunaráhöld“) eða 9033 („Hlutar og fylgihlutir (ót. a. í þessum kafla) fyrir vélar, tæki, áhöld eða tækjabúnað í 90. kafla“) í tollskrá. Er bent á í kæru að um sé að ræða fylgihluti, sérhannaða af kæranda, sem teljist hluti af svefnrannsóknatæki félagsins, enda hafi fylgihlutirnir engan annan tilgang eða sjálfstætt notagildi. Sé því ekki um að ræða íhluti í svefnrannsóknartækið heldur hluta tækisins sjálfs sem sé ónothæft án fylgihlutanna. Beri því fyrst og fremst að horfa til tilgangs eða notagildis vörunnar.

Eins og fram er komið tekur kæran til alls átta bindandi álita tollstjóra. Álit sem auðkennd eru nr. 85, 86, 87, 88 og 89 taka til vara sem lýst er sem öndunarnemum (RIP belts) í umsókn kæranda um bindandi álit. Samkvæmt útlitslýsingu umsóknarinnar er í öllum tilvikum um að ræða teygjubelti með vír og festingum til að smella beltunum á tengikapal sem síðan er smellt á svefngreiningartæki. Eru tilgreind fimm vörunúmer, þ.e. vörunúmer 551050 (RIP belts Disposable X-LARGE, pack of 14 sets), sbr. bindandi álit tollstjóra nr. 85/2014, vörunúmer 551040 (RIP belts Disposable LARGE, pack of 20 sets), sbr. álit nr. 86/2014, vörunúmer 551030 (RIP belts Disposable MEDIUM, pack of 20 sets), sbr. álit nr. 87/2014, vörunúmer 551020 (RIP belts Disposable SMALL, pack of 20 sets), sbr. álit nr. 88/2014 og vörunúmer 551010 (RIP belts Disposable PEDIATRIC, pack of 20 sets), sbr. álit nr. 89/2014. Bindandi álit tollstjóra sem auðkennd eru nr. 90, 91 og 92 taka til vara sem lýst er sem sérhönnuðum tengiköplum til að tengja öndunarnema við svefngreiningartæki. Samkvæmt útlitslýsingu er í fyrsta lagi um að ræða tvo svarta plast-ferhyrninga sem tengjast saman með tinselvír, sbr. vörunúmer 562010 (Abdomen Cable, ATC1 for T3 system, pack of 1 pcs) og álit tollstjóra nr. 90/2014, í öðru lagi tvo hvíta plast-ferhyrninga sem tengjast saman með tinselvír, sbr. vörunúmer 562060 (QDC-PRO Abdomen Cable, pack of 1 pcs) og álit nr. 91/2014 og í þriðja lagi tvo svarta plast-ferhyrninga með tinselvír, annar með bláu plast-keyhole tengi og hinn með gulu plast-keyhole tengi, sbr. vörunúmer 562050 (RIP Cable Kit E for T3 system, pack of 2 cables) og álit nr. 92/2014. Rétt er að taka fram að í málinu liggja fyrir bæði sýnishorn og ljósmyndir af umræddum vörum og greinargóðar lýsingar af hendi kæranda á notkun þeirra við svefnrannsóknir, sbr. m.a. skýringarmyndir sem fylgdu umsókn kæranda um bindandi álit tollstjóra. Þá er óumdeilt í málinu að svefnrannsóknartæki kæranda falli undir vörulið 9018 í tollskrá sem lækningatæki, sbr. umsögn tollstjóra, dags. 10. nóvember 2014.

Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Í athugasemd 2 við 90. kafla tollskrárinnar, sem fjallar um áhöld og tækjabúnað til m.a. lyf- og skurðlækninga og hluta og fylgihluti til þeirra, segir að leiði ekki annað af 1. athugasemd kaflans skuli hlutar og fylgihlutir, sem eru einungis eða aðallega nothæf við vélar, tæki, áhöld eða vörur í þessum kafla, flokkast samkvæmt eftirfarandi reglum:

„a. Hlutar og fylgihlutir sem eru vörur meðtaldar í einhverjum vöruliðum þessa kafla eða 84., 85. eða 91. kafla (þó ekki nr. 8485, 8548 eða 9033) skulu í öllum tilvikum flokkast í viðeigandi vöruliði.

b. Aðrir hlutar og fylgihlutir sem eingöngu eða aðallega eru nothæfir til tiltekinnar vélar, áhalds eða tækis eða til nokkurra véla, áhalda eða tækja í sama vörulið (þar með talið vél, áhald eða tæki í nr. 9010, 9013 eða 9031) skulu flokkast með þeim tegundum véla, áhalda eða tækja.

c. Allir aðrir hlutar og fylgihlutir skulu flokkast í nr. 9033.“

Í 85. kafla tollskrár er m.a. fjallað um rafbúnað og -tæki og hluta til þeirra. Undir vörulið 8544 fellur m.a. einangraður (þar með talinn gljábrenndur eða skauthúðaður) vír, kaplar (þar með taldir samása kaplar) og aðrir einangraðir rafleiðarar, einnig með tengihlutum.

Af hálfu kæranda er komið fram, vegna þeirrar lýsingar tollstjóra á hinni umdeildu vöru að um sé að ræða sérhannaða kapla, að vörurnar geti ekki talist „kaplar“ í neinum venjulegum skilningi þess orðs. Í bréfi umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er tekið fram að öndunarnemar sem um ræðir, sbr. bindandi álit tollstjóra nr. 85-89/2014, séu einnota skynjarar sem notaðir séu við svefnrannsóknir til að mæla rúmmálsbreytingu við andardrátt sjúklings. Um sé að ræða þekkta tækni við öndunarlækningar (e. Respiratory Inductance Plethysmography), en ný hönnun kæranda hafi í för með sér að ekki sé þörf á sérstökum fatnaði við slíkar mælingar eins og áður og hafi kærandi fengið einkaleyfi á greindum búnaði. Þá kemur fram að varan sé að uppistöðu til ofinn bómullarstrengur eða bómullarteygja sem í sé ofinn örþunnur vír, en á hvorn enda sé síðan fest sérhannað tengistykki sem tengist „heila“ svefnrannsóknartækis kæranda.

Ekki fer á milli mála að vörur, sem um er fjallað í bindandi álitum tollstjóra nr. 90, 91 og 92/2014, sbr. vörunúmer 562010, 562060 og 562050, teljast kaplar (raftengi) í venjulegum skilningi þess orðs, svo sem bæði vöruheiti og -lýsing í umsókn kæranda um bindandi álit ber með sér. Leiðir því af framangreindu, sbr. athugasemd 2. a. við 90. kafla tollskrár, að umræddir tengikaplar falli undir vörulið 8544 í tollskrá, eins og tollstjóri hefur byggt á. Þótt taka megi undir með kæranda að hið sama eigi ekki við fullum fetum um teygjubeltin, sbr. bindandi álit tollstjóra nr. 85, 86, 87, 88 og 89, liggur allt að einu fyrir að beltin eru búin raftaug, þ.e. vír sem flytur rafmagn, og hljóta því að teljast rafmagnsleiðarar í almennum skilningi þess orðs. Breytir því ekki þótt beltin þjóni að öðru leyti þeim tilgangi að nema andardrátt sjúklings við svefnrannsókn, eins og kærandi hefur lýst. Eins og fyrr greinir falla hvers konar einangraðir rafleiðarar undir vörulið 8544 í tollskrá. Verður því að fallast á með tollstjóra að sú vara sem um ræðir, sbr. bindandi álit tollstjóra nr. 85-89/2014, falli undir greindan vörulið. Tekið skal fram að ekki verður séð að út af fyrir sig sé ágreiningur um tollskrárnúmer sem tollstjóri taldi eiga við um þær vörur sem málið varðar, þ.e. tollskrárnúmer 8544.4209.

Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, svo og með vísan til reglu 1 og 3a í almennum reglum um túlkun tollskrár, verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja