Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollflokkun

Úrskurður nr. 136/2015

Lög nr. 88/2005, 20. gr.   Almennar reglur um túlkun tollskrár.  

Deilt var um tollflokkun rafals í bát. Yfirskattanefnd féllst á með tollstjóra að um rafal til notkunar við brunahreyfil væri að ræða sem félli undir vörulið 8511 í tollskrá og tók fram að engu gæti breytt í því sambandi þótt rafallinn væri ekki ætlaður til gangsetningar bátsvélarinnar sjálfrar heldur annarrar rafmagnsneyslu bátsins.

I.

Kæra í máli þessu, dags. 14. nóvember 2014, varðar úrskurð tollstjóra, dags. 30. október 2014, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á rafal. Kemur fram í kærunni að ágreiningur sé um tollflokkun rafalsins, en við tollafgreiðslu var lagt til grundvallar að rafallinn félli undir tollskrárnúmer 8511.5000 í tollskrá. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun tollstjóra verði hnekkt og umræddur rafall talinn falla undir tollskrárnúmer 8501.6100. Tekið skal fram að yfirskattanefnd fékk málið til meðferðar við gildistöku laga nr. 123/2014, um breytingu á lögum um yfirskattanefnd og fleiri lögum, hinn 1. janúar 2015, sbr. 17. gr. hinna fyrstnefndu laga.

II.

Helstu málsatvik eru þau að kærandi flutti inn til landsins rafal til nota í bát. Við tollafgreiðslu var byggt á því að rafallinn félli undir tollskrárnúmer 8511.5000 í tollskrá.

Með kæru, dags. 2. október 2014, mótmælti kærandi álagningu aðflutningsgjalda vegna innflutnings rafalsins og fór fram á að tollflokkun hans yrði endurskoðuð. Í kæru kæranda kom fram að um væri að ræða rafal sem breytti riðstraumi í jafnstraum fyrir bátavélar. Af þeim sökum ætti að flokka rafalinn í 8501.6100 sem riðstraumsrafal með 75 kW útafli eða minna, sbr. og tilgreiningu á vörureikningi. Rafallinn væri eingöngu ætlaður bátum, en fyrirtækið hefði með höndum innflutning á vélbúnaði fyrir skip og báta og varahluti tengda þeim. Fyrirtækið sæi þannig um að koma ýmsum íhlutum í vélar fyrir afhendingu til kaupenda, t.d. bátasmiðja og útgerðarmanna. Um væri að ræða hluti, svo sem gíra, dælur og rafala, sem notaðir væru til að framleiða rafmagn fyrir báta og skip. Kærunni munu hafa fylgt ýmis gögn, þar með talið ljósmynd af rafal sem málið varðar.

Með úrskurði, dags. 30. október 2014, hafnaði tollstjóri kröfu kæranda. Í úrskurði tollstjóra kom fram að rafalar gætu fallið undir tvo vöruliði í tollskrá, þ.e. vörulið 8501 og vörulið 8511. Ekki yrði fallist á með kæranda að sá rafall, sem um ræðir, félli undir hinn fyrrnefnda vörulið þar sem hann tæki aðeins til rafala sem ekki tengdust brunahreyfli. Umrædd vara væri hins vegar rafall sem tengdist brunahreyfli í bát, eins og sjá mætti af ljósmynd af henni. Varan félli því undir vörulið 8511, sbr. 1. tölul. og a-lið 3. tölul. í almennum reglum um túlkun tollskrár og athugasemd 2 við kafla 85 í tollskránni. Tók tollstjóri fram að vöruliður 8511 tæki m.a. til rafræsibúnaðar fyrir brunahreyfla og rafala til notkunar við slíka hreyfla og skipti þá ekki máli í hvaða tæki slíkir hreyflar færu. Hefði því ekki áhrif á niðurstöðu málsins að rafall sem um ræðir væri ætlaður fyrir bátavélar. Að öllu ofangreindu virtu yrðu að telja rafalinn falla undir tollskrárnúmer 8511.5000.

III.

Með kæru, dags. 14. nóvember 2014, skaut kærandi framangreindum úrskurði tollstjóra til ríkistollanefndar, sbr. kæruheimild í þágildandi 1. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í kærunni kom fram að málið snerist um tollflokkun rafals (alternators) sem framleiddi rafmagn fyrir skip og báta. Um væri að ræða neyslurafal sem framleiddi allt rafmagn fyrir skipið. Ætti rafallinn því að falla undir vörulið 8501 en ekki vörulið 8511 sem lyti að startbúnaði véla og tækja sem ekki ætti við í þessu tilviki. Kærunni fylgdu ýmis gögn, m.a. ljósrit af tölvupóstum vegna samskipta kæranda við samgöngustofu og ljósmynd af rafal sem um ræðir.

IV.

Með bréfi, dags. 12. desember 2014, lagði tollstjóri fram umsögn í málinu, sbr. þágildandi 4. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í umsögninni er þess krafist að úrskurður tollstjóra verði staðfestur. Kemur eftirfarandi fram í því sambandi:

„Þetta mál snýst um tollflokkun á rafal sem ætlaður er til að knýja rafkerfi skips. Það er mat tollstjóra að flokka eigi rafalinn í vörulið 8511 með beitingu túlkunarreglu 1 en ekki í vörulið 8501 eins og innflytjandi heldur fram. Í kæru til Ríkistollanefndar vísar kærandi til þess að tollflokkur 8511 snúi að startbúnaði véla og tækja sem eigi ekki við í þessu tilviki. [Tollstjóri] gerir athugasemdir við þessa fullyrðingu. Vöruliður 8511 ber m.a. yfirskriftina rafalar (t.d. dínamóar og alternatorar) og straumlokur til notkunar við slíka [brunahreyfla með neista- eða þrýstikveikju] hreyfla. Það virðist vera mat innflytjanda að í þennan vörulið flokkist einungis rafræsi- og rafkveikibúnaður. Hið rétta er hins vegar að þó slíkur búnaður flokkist í þennan vörulið flokkast fleiri tæki þar einnig, þar með taldir rafalar af þeirri gerð sem hér um ræðir. Skýringabækur alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) taka sérstaklega fram að slíkir rafalar eigi að flokkast í vörulið 8511 en þar segir í G lið við 8511:

Generators (dynamos and alternators).

These are driven by the engine, and serve to charge the batteries and to supply current to the lighting, signaling, heating and other electrical equipment of motor vehicles, aircraft, etc. Alternators are used with a rectifier.

Rafalar í vörulið 8501 eru ekki knúnir af brunahreyflum með neista- eða þrýstikveikju og getur umrædd vara því ekki flokkast í þann vörulið.“

Með bréfi ríkistollanefndar, dags. 15. desember 2014, var kæranda send umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni.

Með bréfi til ríkistollanefndar, dags. 22. desember 2014, gerði kærandi grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu ítrekar kærandi áður fram komin sjónarmið og kveðst telja að túlkun tollstjóra á tollskrá sé ekki í samræmi við orðanna hljóðan, enda komi fram í skránni að rafhreyflar og rafalar falli undir vörulið 8501. Þá kom fram að kærandi teldi að ástæða væri til að afla álits sérfróðra fagmanna á sviði vélbúnaðar vegna deiluefnis málsins.

Þar sem afgreiðslu máls kæranda var ólokið við gildistöku laga nr. 123/2014 hinn 1. janúar 2015 tók yfirskattanefnd við meðferð málsins frá þeim degi, sbr. 17. gr. nefndra laga.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á rafal á árinu 2014, nánar tiltekið tollflokkun rafalsins, sbr. úrskurð tollstjóra, dags. 30. október 2014. Fram er komið að um er að ræða rafal sem ætlaður er til að knýja rafkerfi báts. Tollstjóri taldi að rafallinn félli undir vörulið 8511 í tollskrá þar sem hann væri knúinn af vél bátsins. Af hálfu kæranda er því hins vegar haldið fram að rafallinn falli undir vörulið 8501 í tollskrá, enda taki sá vöruliður til rafhreyfla og rafala. Kom fram í kæru kæranda til tollstjóra, dags. 2. október 2014, að um væri að ræða rafal sem breytti riðstraumi í jafnstraum og félli undir tollskrárnúmer 8501.6100 sem riðstraumsrafall með 75 kVA útafli eða minna.

Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Þá kemur fram í a-lið 3. tölul. reglnanna að þegar til álita kemur að telja vörur til tveggja eða fleiri vöruliða skuli sá vöruliður sem felur í sér nákvæmasta vörulýsingu tekinn fram yfir vörulið með almennari vörulýsingu. Í 85. kafla tollskrár er m.a. fjallað um rafbúnað og -tæki og hluta til þeirra. Rafhreyflar og rafalar falla undir vörulið 8501, þó ekki rafalasamstæður sem falla undir vörulið 8502 í sama kafla. Í athugasemd 2 við þennan kafla tollskrárinnar segir að til vöruliða 8501-8504 teljist ekki vörur sem lýst sé í vöruliðum 8511, 8512, 8540, 8541 eða 8542. Undir vörulið 8511 fellur „rafræsi- eða rafkveikibúnaður fyrir brunahreyfla með neista- eða þrýstikveikju (t.d. kveikiseglar, kveikirafalar, kveikispólur, kveikikerti og glóðarkerti, ræsihreyflar); rafalar (t.d. dínamóar og alternatorar) og straumlokur til notkunar við slíka hreyfla“. Falla ræsihreyflar og tvívirkir ræsirafalar undir tollskrárnúmer 8511.4000 undir greindum vörulið og „aðrir rafalar“ undir tollskrárnúmer 8511.5000.

Samkvæmt framansögðu, sbr. athugasemd 2 við 85. kafla tollskrár, falla rafalar til notkunar við brunahreyfla undir vörulið 8511 í tollskrá. Fram er komið að sá rafall, sem málið snýst um, framleiðir raforku fyrir báta og er knúinn af aflvél bátsins. Verður því að telja að um rafal til notkunar við brunahreyfil sé að ræða sem falli undir fyrrgreindan vörulið 8511 í tollskrá og getur engu breytt í því sambandi þótt rafallinn sé ekki ætlaður til gangsetningar bátsvélarinnar sjálfrar heldur annarrar rafmagnsneyslu bátsins. Með vísan til framanritaðs, svo og með vísan til 1. tölul. og a-liðar 3. tölul. í almennum reglum um túlkun tollskrár, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja