Úrskurður yfirskattanefndar
- Aðflutningsgjöld
- Tollflokkun
Úrskurður nr. 137/2015
Lög nr. 88/2005, 20. gr. Almennar reglur um túlkun tollskrár.
Deilt var um hvort drykkjarvara félli undir tollskrárnúmer 2202.9031 sem drykkjarvara úr sojabaunum, eins og kærandi hélt fram, ellegar tollskrárnúmer 2202.9091 sem tollstjóri taldi eiga við. Yfirskattanefnd taldi ljóst af heiti vörunnar og innihaldslýsingu að varan einkenndist af því að vera bæði ávaxta- og sojadrykkur. Var kröfum kæranda hafnað.
I.
Kæra í máli þessu, dags. 10. júlí 2014, sem yfirskattanefnd fékk til meðferðar við gildistöku laga nr. 123/2014, um breytingu á lögum um yfirskattanefnd og fleiri lögum, hinn 1. janúar 2015, sbr. 17. gr. greindra laga, varðar bindandi álit tollstjóra nr. 65/2014, dags. 13. maí 2014, á tollflokkun á óáfengri drykkjarvöru af tegundinni Don Simon Soja Multifruta í 1,0 lítra pappafernu, sbr. 21. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum. Í álitinu komst tollstjóri að þeirri niðurstöðu að varan félli undir tollskrárnúmer 2202.9091 í tollskrá. Í kærunni er þess krafist að niðurstöðu tollstjóra verði breytt og umrædd vara talin falla undir tollskrárnúmer 2202.9031.
II.
Málavextir eru þeir að hinn 13. maí 2014 óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollstjóra á tollflokkun vöru, sbr. 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í umsókninni kom fram að um væri að ræða drykkjarvöru af tegundinni Don Simon Soja Multifruta í 1,0 lítra pappafernu. Í umsókninni lýsti kærandi því að hann teldi að tollflokka bæri vöruna í tollskrárnúmer 2202.9031 sem drykkjarvöru úr sojabaunum í pappaumbúðum. Í umsókninni kom fram eftirfarandi lýsing vörunnar:
„Verslunarheiti: Don Simon Soja Multifruta.
Drykkjarvara ætluð til sölu á almennum markaði.
Smásölupakkning: 1,0 L. pappaferna.
Lýsing (á ensku eins og fram kemur á umbúðum): Multifruit and Soy Drink. Refreshing mixed pineapple, banana, mango, apple and soy juice drink. Minimum fruit content: 15%. Ingredients: Water, pineapple, banana, mango and apple juice from concentrate (15%), sugar, soy beans (3%), stabilizer: pectin, acidity regulators (citric acid and calcium citrate), aroma, antioxidant: absorbic acid and colouring beta carotene.“
Tollstjóri lét uppi bindandi álit samdægurs í tilefni af umsókn kæranda þar sem tollstjóri taldi að varan félli undir tollskrárnúmer 2202.9091. Til stuðnings þeirri ákvörðun vísaði tollstjóri til túlkunarreglna 1 og 6 við tollskrá.
III.
Með kæru, dags. 10. júlí 2014, skaut kærandi bindandi áliti tollstjóra nr. 65/2014 til ríkistollanefndar, sbr. kæruheimild í þágildandi 1. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í kærunni var þess krafist að niðurstöðu tollstjóra yrði breytt og umrædd drykkjarvara talin falla undir tollskrárnúmer 2202.9031 í tollskrá. Í kærunni kom fram að kærandi væri ósammála tollstjóra um tollflokkun vörunnar. Þá sagði svo í kærunni:
„Drykkjarvaran Don Simon Soja Multifruta inniheldur sojabaunir og á af þeirri ástæðu að flokkast í undirliðinn 2202.9030 sem ber heitið drykkjarvörur úr sojabaunum og þar sem varan er í pappaumbúðum, fernu, ber að setja hana í tollskrárnúmerið 2202.9031. Má þessu til rökstuðnings notast við túlkunarreglur tollskrárinnar lið 2.b. Einnig þann lið sem felur í sér nákvæmasta vörulýsingu, sbr. Lið 3.a. í túlkunarreglunum en varan ber þess öll merki að vera úr sojabaunum bæði í innihaldslýsingu og í vöruheiti. Ennfremur má styðjast við lið 3.b. túlkunarreglnanna en það efni sem helst einkennir umrædda vöru er að hún inniheldur sojabaunir og er drykkjarvara úr þeim. Markhópur, viðskiptavinir vörunnar á smásölumarkaði eru þeir sem kjósa sér drykkjarvöru úr sojabaunum.
Tollskrárnúmerið 2202 og heiti þess í tollskránni nær til efnisþátta sem undirliðurinn 2202.9030 drykkjarvörur úr sojabaunum geta innihaldið og teljast því lögmætir, en orðrétt heitir tollskrárnúmerið: Vatn, þar með talið ölkelduvatn og loftblandað vatn, með viðbættum sykri eða öðru sætuefni eða bragðbætt, og aðrar óáfengar drykkjarvörur, þó ekki ávaxtasafar eða matjurtasafar í nr. 2009.
Að mati kæranda uppfyllir varan Don Simon Soja Multifruta öll upptalin skilyrði tollskrárnúmersins til að flokkast í undirliðinn 2202.9030 sem drykkjarvara úr sojabaunum sem má samkvæmt heiti tollskrárnúmersins innihalda vatn, sykur og eða sætuefni og bragðbætt, í þessu tilfelli bragðbætt náttúrulegum bragðefnum þ.e. ávaxtasafa úr þykkni.
Kærandi leyfir sér að benda á ný lög Alþingis um breytingu á tollalögum og lögum um vörugjald (staðgengdarvörur kúamjólkur), lög nr. 76/2014 þar sem þingið felldi niður með lögunum magngjöld og tolla á staðgengdarvörur kúamjólkur, sojamjólk o.fl. með það að markmiði að lækka verð á þessum vörum í smásölu til neytenda sem, sökum óþols fyrir mjólkursykri, laktósaóþols, geta ekki neytt drykkjarvara úr kúamjólk. Þetta eru atriði og forsendur laganna sem komu fram á fundum efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á nýafstöðnu þingi.
Drykkjarvörur úr kúamjólk eru ekki einungis bundnar við hreina kúamjólk heldur einnig kúamjólk þar sem í er blandað sykri og eða sætuefnum og náttúrulegum bragðefnum, hressingardrykkir sem innihalda kúamjólk, líkt og umrædd vara Don Simon Soja Multifruta sem inniheldur sojabaunir. Sojabaunir í vörunni eru ætlaðar í stað kúamjólkur sem próteingjafi en sojabaunir eru það hráefni sem gefur vörunni próteininnihald sem er 1%. Þessu til samanburðar má nefna að hrein og óblönduð kúamjólk (nýmjólk og léttmjólk) frá Mjólkursamsölunni ehf. inniheldur 3,4% prótein. Sojabaunir og drykkjarvörur úr þeim innihalda jafn mikið prótein og hrein kúamjólk og eftir atvikum blandaðir drykkir úr kúamjólk.
Ennfremur er kvöð þess efnis að vörur í tollskrárnúmeri 2202.9091 sem Tollstjóri úrskurðaði að varan skuli sett í skuli fá heimild Matvælastofnunnar fyrir innflutningi, en umrædd vara, Don Simon Soja Multifruta getur ekki talist þess eðlis að Matvælastofnun þurfi að gefa heimild fyrir innflutningi í hvert skipti sem varan berst til landsins. Hvað undirliðinn varðar, 2202.9090, annað, er til þess tollflokks stofnað þar sem heimild Matvælastofnunnar þarf að liggja fyrir innflutningi þá gefur Matvælastofnun kæranda þær upplýsingar að þar vilji stofnunin fylgjast með innflutningi afurða sem innihalda mjólkurafurðir og vísa í því sambandi í reglugerð nr. 448/2012 og f lið 3. gr. þar í. Varðar bann við innflutningi á ógerilsneyddum mjólkurafurðum. Vegna þessa banns vill Matvælastofnun hafa eftirlit með ákveðnum tollflokkum. Matvælastofnun upplýsir kæranda einnig að stofnunin vilji ekki hafa eftirlit með vörum sem heyra ekki til eftirlitsskyldu stofnunarinnar. Ljóst má því vera að drykkjarvara úr sojabaunum og ávaxtasafa, sem inniheldur að auki vatn og sykur er ekki eftirlitsskyld í því sambandi. Það er að auki íþyngjandi ákvörðun Tollstjóra að setja vöruna í tollflokk þar sem heimild Matvælastofnunnar þarf við í hvert skipti sem varan er flutt inn þegar til er undirliður, 2202.9030, sem ber heitið drykkjarvörur úr sojabaunum, og ljóst mátti vera á innihaldslýsingu vörunnar að hún inniheldur sojabaunir og ætti því af þeim ástæðum að vera sett í þann undirlið.
Kærandi fer fram á við Ríkistollanefnd að sú ákvörðun Tollstjóra að flokka Don Simon Soja Multifruta í 1,0L. pappafernu, sbr. tilvísun 2014-65, dags. 13-05-2014, í tollskrárnúmer 2202.9091 verði endurákvörðuð og varan flokkuð í tollskrárnúmer 2202.9031 í samræmi við túlkunarreglur 2.b., 3.a. og 3.b. við tollskrá og samkvæmt þeim upplýsingum sem koma fram í þessari kæru.“
Meðfylgjandi kærunni var m.a. mynd af umræddri drykkjarvöru ásamt vörublaði framleiðanda og afrit af tölvupósti frá framkvæmdastjóra matvælastofnunar (MAST).
IV.
Með bréfi, dags. 8. ágúst 2014, lagði tollstjóri fram umsögn í málinu, sbr. þágildandi 4. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005, þar sem þess er krafist að bindandi álit tollstjóra nr. 65/2014 verði staðfest. Í umsögninni kemur eftirfarandi fram:
„Krafa kæranda snýr að því að umrædd vara skuli flokkast í tollskrárnúmer 2202.9031, en ekki í tollskrárnúmer 2202.9091, líkt og Tollstjóri ákvarðaði í hinum umræddu bindandi álitum. Varan sem um ræðir er drykkjarvara, sem tilbúin er til drykkjar í pappírsumbúðum. Varan er blanda úr vatni, ávaxtasafa (15%), sykri og sojabaunum (3%). Þar sem ekki er um hreinan ávaxtasafa eða hreina blöndu ávaxtasafa og matjurtasafa að ræða flokkast varan ekki í vörulið 2009 heldur í vörulið 2202.
Kærandi telur að vöruna eigi að flokka í tollskrárnúmer 2202.9031 sem drykkjarvöru úr sojabaunum. Máli sínu til stuðnings bendir kærandi á að í vöruheiti vörunnar sé tekið fram að hún innihaldi sojabaunir auk þess sem það komi fram í innihaldslýsingu vörunnar. Telur kærandi þetta benda til þess að markhópur vörunnar sé fólk sem sækist eftir drykkjarvöru úr sojabaunum. Tollstjóri telur hins vegar að flokka beri vöruna í tollskrárnúmer 2202.9091 sem aðrar drykkjavörur þar sem um blöndu ávaxtasafa og sojabauna sé að ræða sem blönduð er umfram það sem leyfilegt er í vörulið 2009. Aðal ágreiningsmálið er því hvort flokka eigi allar drykkjarvörur sem innihalda soja í undirliði 2202.9031 – 2202.9039 án tillits til þess hverju þær eru blandaðar með eða í hvaða magni þær innihalda sojabaunir.
Tollstjóri lítur svo á að til þess að vara geti flokkast sem drykkjarvara úr sojabaunum í undirliði 2202.9031 – 2202.9039 þá megi hún ekki vera blönduð með öðrum tegundum drykkjarvara umfram það sem breyti eðli drykkjarins úr hreinum sojadrykk í blandaða drykkjarvöru. Undirliðir 2202.9091 – 2202.9099 eru fyrir drykki úr öðrum drykkjarvörum heldur en þeim sem nefndir eru í fyrri undirliðum eða blöndur úr þeim. Mjög skýrar reglur er að finna í undirliðum fyrir mjólkurdrykki sem ekki er að finna í undirliðum fyrir sojadrykki né hrísgrjóna- eða möndludrykki. Í þeim undirliðum er tekið fram hversu hátt hlutfall mjólkur þarf að vera til þess að drykkurinn flokkist í þá undirliði. Mjólkurdrykkir þurfa að innihalda 75% eða meira af mjólkurafurðum til að flokkast þar. Sé mjólkurinnihald undir þessu magni flokkast slíkir mjólkurdrykkir í undirliði 2202.9091 – 2202.9099. Þar með talið væru drykkir sem innihéldu 15% mjólk og 3% sojabaunir. Þar sem sambærilegar skilgreiningu er ekki að finna í heiti undirliða fyrir sojabaunadrykki, hrísgrjóna- eða möndludrykki þá lítur Tollstjóri svo á að þeir undirliðir séu aðeins fyrir hreina slíka drykki eða drykki sem beri öll einkenni hreinna slíkra drykkja.
Umrædd drykkjarvara inniheldur 15% ávaxtasafa og 3% sojabaunir. Drykknum svipar mjög til ávaxtasafa en um leið er augljóst að hann inniheldur sojabaunir. Óumdeilt er að þessi vara á að höfða til þeirra sem vilja neyta sojabauna. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að slík blanda getur ekki flokkast í undirliði 2202.9031 – 2202.9039. Það er því álit Tollstjóra að flokka eigi umrædda vöru í tollskrárnúmer 2202.9091.
[...]
Kærandi telur að túlkunarreglur hafi ekki verið nýttar af Tollstjóra en því er hafnað af embættinu. Túlkunarreglur eru ófrávíkjanlegar reglur um tollflokkun vara í tollskrá og fer Tollstjóri ávallt eftir þeim reglum. Rétt er að í hinu kærða bindandi áliti er aðeins vísað í túlkunarreglur 1 og 6 en hið rétta er að túlkunarreglur 1, 3.b og 6 koma við sögu í flokkun vörunnar. Kærandi bendir á breytingu á tollalögum og lögum um vörugjald á staðgengdarvörum kúamjólkur máli sínu til stuðnings. Tollstjóri telur umrædda lagabreytingu aftur á móti færa stoðir undir túlkun Tollstjóra á umfangi undirliða fyrir drykkjavörur úr sojamjólk. Gjöld voru lækkuð á þessum undirliðum til þess að fólk sem notaði sojadrykki í stað mjólkur sætu við sama borð og mjólkurneytendur. Umræddur drykkur kemur aftur á móti ekki í stað mjólkur og yrði ekki notaður í þeim aðstæðum sem mjólk yrði venjulega notuð. Engin dæmi eru um mjólkurblandaða ávaxtadrykki sem þessi vara á að koma í staðinn fyrir. Auk þess yrði blanda af 15% ávaxtasafa og allt að 75% mjólkur flokkuð á sama stað og Tollstjóri flokkar umrædda vöru.
Kærandi bendir einnig á að kvöð sé um leyfi frá matvælastofnun á tollskrárnúmeri 2202.9091 en að umræddur drykkur innihaldi engin matvæli, svo sem mjólk, sem matvælastofnun krefjist leyfis fyrir. Þetta er rétt enda er um svokallað safnnúmer að ræða þar sem margar tegundir drykkja flokkast í. Þar flokkast ekki einungis drykkir með mjólk heldur allar aðrar blöndur drykkja. Blanda af grænmetissafa sem blandaður er umfram það sem leyfilegt er í vörulið 2009 myndi einnig flokkast á sama stað og lenda í tollskrárnúmeri sem ber kvöð um leyfi matvælastofnunar þrátt fyrir að innihalda engin matvæli sem matvælastofnun krefjist leyfis fyrir. Þessi staðreynd hefur því ekki með flokkun vörunnar að gera.“
Með bréfi ríkistollanefndar, dags. 14. ágúst 2014, var kæranda send umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni.
Með bréfi til ríkistollanefndar, dags. 26. ágúst 2014, gerði kærandi grein fyrir athugasemdum sínum og ítrekaði áður fram komin sjónarmið sín. Í bréfi kæranda segir m.a. svo:
„Í svari Tollstjóra til Ríkistollanefndar kemur fram að embætti hans líti svo á að til þess að vara geti flokkast sem drykkjarvara úr sojabaunum megi hún ekki vera „blönduð með öðrum tegundum drykkjarvara umfram það sem breyti[r] eðli drykkjarins úr hreinum sojadrykk í blandaða drykkjarvöru“. Hvergi er getið neinnar heimildar heldur virðist þetta sett fram sem matskennd skoðun starfsmanna Tollstjóra.
Ég vil á móti benda á að undirliðirnir 2202.9031–2202.9039 heita „drykkjarvörur úr sojabaunum“. Ekki er annan texta að finna í heiti undirliðarins enda vart hægt að hugsa sér að hægt sé að framleiða drykkjarvöru eingöngu úr sojabaunum. Enn fremur kemur hvergi fram að löggjafinn, sem setur viðkomandi tollareglur, hafi ætlast til að viðkomandi drykkjarvörur séu eingöngu úr sojabaunum og engu öðru, t.a.m. bragðefnum. Til frekari skýringar er rétt að benda á að í heiti vöruliðarins 2202 segir: „Vatn, þar með talið ölkelduvatn og loftblandað vatn, með viðbættum sykri eða öðru sætuefni eða bragðbætt, og aðrar óáfengar drykkjarvörur, þó ekki ávaxtasafar eða matjurtasafar í nr. 2009.“ Undir þessa skilgreiningu, þar sem er m.a. fjallað um bragðbætta drykki, falla drykkjarvörur úr sojabaunum. Matskennd ákvörðun Tollstjóra, sem er íþyngjandi fyrir innflytjanda, getur ekki staðist gegn skýru orðalagi tollskrár.
Drykkjarvörur úr sojabaunum, sem er einn undirliða vöruliðar 2202, getur án nokkurs vafa innihaldið til viðbótar við sojabaunir vatn, viðbættan sykur eða sætuefni og verið bragðbætt. Í öllum drykkjarvörum úr sojabaunum er vatn stærsta einstaka innihaldsefnið sem nemur 80–90%.
Umræddir drykkir höfða til neytenda sem kjósa drykki með sojabaunum, þ. á m. þeirra sem ekki geta nýtt sér vörur úr kúamjólk til neyslu sökum óþols, og var á það bent í kærunni að löggjafinn vilji stuðla að lægra verða á drykkjarvörum úr sojabaunum o.fl. Ákvörðun Tollstjóra er í andstöðu við þá stefnu stjórnvalda.
Löggjafinn lítur á drykkjarvörur úr sojabaunum sem staðgengdarvörur kúamjólkur og kom það fram í skýringum með lagafrumvarpinu sem varð að lögum nr. 76/2014. Þeir drykkir, sem hér um ræðir, eru markaðssettir af framleiðanda með þann hóp að leiðarljósi sem ekki getur drukkið mjólkurvörur, í þessu tilfelli ávaxtablandaða mjólkurdrykki, en fullyrðing Tollstjóra um að engir slíkir drykkir fyrirfinnist er röng. Bendi ég hér á nokkur dæmi um slíkar drykkjarvörur af mörgum sem eru í boði á íslenska markaðnum:
- KEA Skyrdrykkur með hindberjum sem inniheldur m.a. Agavesafa, sítrónusafa og grænmetissafa auk náttúrulegra bragðefna.
- MS Létt drykkjarjógúrt - perur (án viðbætts sykurs), inniheldur m.a. perur, sítrónusafa og bragðefni.
- MS Biomjólk m/jarðarberjum, inniheldur m.a. jarðarber og sykur.
- MS Skyr.is drykkur - hindber og bananar, inniheldur m.a. undanrennu, sykur, hindber og banana.
Fjöldi annarra tegunda er til sölu. Fólk með mjólkuróþol getur ekki neytt neinna af þeim drykkjarvörum úr kúamjólk, sem hér eru taldar upp.
Vísa ég í fyrri bréf mín málið varðandi og ítreka kröfu mína um að framangreindar vörur verði ákvarðaðar í tollflokk 2202.9031.“
Þar sem afgreiðslu máls kæranda var ólokið við gildistöku laga nr. 123/2014 hinn 1. janúar 2015 tók yfirskattanefnd við meðferð málsins frá þeim degi, sbr. 17. gr. nefndra laga.
V.
Kæra í máli þessu varðar bindandi álit tollstjóra samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005 sem embættið lét uppi 13. maí 2014 í tilefni af beiðni kæranda sama dag. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu hér að framan óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollstjóra um tollflokkun drykkjarvöru af tegundinni Don Simon Soja Multifruta í 1,0 lítra pappafernu. Í beiðni kæranda kom fram eftirfarandi lýsing á vörunni og innihaldi hennar með vísan til upplýsinga á umbúðum:
„Multifruit and Soy Drink. Refreshing mixed pineapple, banana, mango, apple and soy juice drink. Minimum fruit content: 15%. Ingredients: Water, pineapple, banana, mango and apple juice from concentrate (15%), sugar, soy beans (3%), stabilizer: pectin, acidity regulators (citric acid and calcium citrate), aroma, antioxidant: absorbic acid and colouring beta carotene.“
Í hinu kærða bindandi áliti sínu komst tollstjóri að þeirri niðurstöðu að umrædd vara félli undir tollskrárnúmer 2202.9091 í tollskrá og hafnaði því sjónarmiði kæranda að varan félli undir tollskrárnúmer 2202.9031 sem drykkjarvara úr sojabaunum. Leit tollstjóri svo á að til þess að vara gæti fallið undir tollskrárnúmer 2202.9031–2202.9039 sem drykkjarvara úr sojabaunum mætti hún ekki vera blönduð með öðrum tegundum drykkjarvara þannig að eðli drykkjarins breyttist úr því að vera hreinn sojadrykkur í blandaða drykkjarvöru. Vísaði tollstjóri í þessu sambandi til túlkunarreglna 1 og 6 við tollskrá og í umsögn embættisins til ríkistollanefndar var jafnframt vísað til túlkunarreglu 3b til stuðnings niðurstöðu embættisins. Kærandi telur hins vegar að drykkjarvaran falli undir tollskrárnúmer 2202.9031, enda innihaldi drykkurinn sojabaunir og eigi fyrst og fremst að höfða til þeirra neytenda sem kjósi að neyta drykkja með sojabaunum, þar með talið þeirra sem glími við mjólkuróþol. Í kæru kæranda er skírskotað til túlkunarreglna 2b og 3a og 3b við tollskrá.
Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Samkvæmt b-lið 2. tölul. reglnanna fer um tollflokkun blandaðra og samsettra vara eftir reglum 3. töluliðar þeirra. Er 3. tölul. reglnanna svohljóðandi:
„Nú kemur til álita samkvæmt reglu b-liðar 2. töluliðar, eða af öðrum ástæðum, að telja vörur til tveggja eða fleiri vöruliða og skal þá tollflokkunin fara eftir því sem hér segir:
a. Vöruliður sem felur í sér nákvæmasta vörulýsingu skal tekinn fram yfir vörulið með almennari vörulýsingu. Þegar tveir eða fleiri vöruliðir hver um sig taka aðeins til hluta þeirra efnivara eða efna, sem eru í blöndum eða samsettum vörum, eða aðeins til hluta vara í vörusamstæðu í smásöluumbúðum, skulu þeir vöruliðir taldir koma að jöfnu til álita með tilliti til þessara vara, þótt ein þeirra gefi fyllri eða nákvæmari lýsingu á vörunum.
b. Blöndur, samsettar vörur úr ýmsum efnum eða hlutum svo og vörusamstæður, sem eigi verður flokkað eftir reglu a-liðar 3. töluliðar, skal flokka eftir því efni eða þeim hluta sem helst einkennir vörurnar, enda verði slíku mati komið við.
c. Ef eigi er unnt að flokka vörur eftir reglum a- eða b-liðar 3. töluliðar hér á undan skal telja þær til þess vöruliðar sem síðastur er þeirra vöruliða sem að jöfnu koma til álita.“
Samkvæmt 4. tölul. túlkunarreglnanna skulu vörur, sem ekki verða flokkaðar samkvæmt undanfarandi reglum, taldar til sama vöruliðar og þær vörur sem þeim eru líkastar. Að því er snertir flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða kemur fram í 6. tölul. reglnanna að sú flokkun skuli í lagalegu tilliti byggð á orðalagi undirliðanna og sérhverri tilheyrandi athugasemda við undirliði og, að breyttu breytanda, framangreindum reglum, með því fororði að aðeins jafnsettir undirliðir verða bornir saman. Viðkomandi athugasemdir við flokka og kafla gilda einnig með tilliti til þessarar reglu, nema annað leiði af orðalagi.
Í 22. kafla tollskrár er fjallað um drykkjarvörur, áfenga vökva og edik. Í málinu er ágreiningslaust að umrædd drykkjarvara falli undir vörulið 2202 í greindum kafla, en undir þann vörulið fellur vatn, þar með talið ölkelduvatn og loftblandað vatn, með viðbættum sykri eða öðru sætuefni eða bragðbætt, og aðrar óáfengar drykkjarvörur, þó ekki ávaxtasafar eða matjurtasafar í nr. 2009. Drykkjarvörur úr sojabaunum í pappaumbúðum falla undir tollskrárnúmer 2202.9031. Til stuðnings því sjónarmiði sínu, að hin umdeilda drykkjarvara falli undir síðastgreint tollskrárnúmer, hefur kærandi vísað til þess að flokka beri vöruna þar sem henni sé lýst með sem nákvæmustum hætti, sbr. a-lið 3. tölul. túlkunarreglnanna, eða þar sem um blöndu sé að ræða eftir því sem helst einkenni vöruna, sbr. b-lið 3. tölul. reglnanna. Eins og hér að framan greinir inniheldur varan auk vatns, sykurs og ýmissa aukaefna 3% sojabaunir og 15% ávexti. Ekki verður því fallist á með kæranda að soja innihald vörunnar sé mest einkennandi fyrir hana. Er um að ræða blandaða drykkjarvöru sem samkvæmt fyrirliggjandi innihaldslýsingu inniheldur m.a. 3% sojabaunir og 15% ávexti. Er ljóst bæði af heiti vörunnar og innihaldslýsingu að í skilningi b-liðar 3. tölul. túlkunarreglnanna einkennist varan af því að vera bæði ávaxta- og sojadrykkur. Þá kemur ekki til álita að bera saman orðalag þeirra undirliða sem um er deilt, þ.e. annars vegar undirliða 2202.903–2202.9039 sem hafa nákvæma vörulýsingu, þ.e. drykkjarvara úr sojabaunum, og undirliða 2202.9091–2202.9099 sem hafa almenna lýsingu og bera safnheitið „annars“, sem eðli máls samkvæmt tekur til drykkjarvöru sem er útilokuð frá þeim undirliðum sem á undan eru taldir. Eðli málsins samkvæmt lýsir safnliður með slíku heiti ekki vörunni nægjanlega. Þar sem samkvæmt framansögðu er ekki fallist á að vörunni sé nægjanlega lýst í undirliðum 2202.9031–2202.9039 sem drykkjarvöru úr sojabaunum, eða öðrum undirliðum vöruliðs 2202 ber samkvæmt skýringarreglu, 3.b. sbr. og skýringarreglu 3.c. að flokka hana undir Annars í undirliði 2202.9091–2202.9099, nánar tiltekið miðað við umbúðir í tollskrárnúmerið 2202.9091.
Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, svo og með vísan til b-liðar 3. tölul. í almennum reglum um túlkun tollskrár, verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.