Úrskurður yfirskattanefndar

  • Ívilnun í sköttum
  • Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu

Úrskurður nr. 339/2013

Gjaldár 2012

Lög nr. 90/2003, 65. gr. 1. mgr. 1. tölul.   Reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996.  

Kröfu kæranda um ívilnun í sköttum vegna kostnaðar sem hlotist hafði af meðferð hjá sjúkraþjálfara og kírópraktor var hafnað þar sem útgjöldin voru ekki talin hafa haft í för með sér verulega skert gjaldþol kæranda.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 2012 fylgdi umsókn um lækkun á tekjuskattsstofni (RSK 3.05) vegna veikinda, slysa eða ellihrörleika, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í greinargerð með umsókninni kom fram að kærandi hefði verið meðhöndluð af sjúkraþjálfara og kírópraktor á árinu 2011 vegna brjóskloss. Var gerð grein fyrir sundurliðun útgjalda að fjárhæð samtals 95.359 kr. vegna þessa. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2012 var kæranda ekki veitt ívilnun.

Með kæru, sem ekki er meðal gagna málsins en mun hafa borist ríkisskattstjóra 7. ágúst 2012, fór kærandi fram á að henni yrði ákvörðuð ívilnun af framangreindum sökum. Með kæruúrskurði, dags. 26. október 2012, hafnaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um ívilnun. Í úrskurðinum vísaði ríkisskattstjóri til ákvæða 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 og tók fram að helsta forsenda lækkunar á tekjuskattsstofni samkvæmt lagagreininni væri skerðing á gjaldþoli og greiðsluhæfni vegna óbættra útgjalda umfram venjulegan framfærslukostnað, t.d. vegna veikinda, slysa eða framfærslu vandamanna. Væri þessum ákvæðum einkum ætlað að bregðast við skertu gjaldþoli vegna óvæntra og ófyrirséðra útgjalda. Þess utan réðist ívilnun af gjaldþoli umsækjanda, en við mat á því væri bæði litið til tekna sem og eigna er aukið gætu gjaldhæfi viðkomandi. Þá kom fram að kostnaður vegna veikinda „samkvæmt framlögðum reikningum Lyfju“ (sic) að fjárhæð 95.359 kr. væri ekki það mikill að unnt væri að ræða um verulega gjaldþolsskerðingu. Við skoðun á „launatekjum heimilisins nokkur síðustu ár“ væri ekki um að ræða tekjuskerðingu. Yrði því að synja umsókn kæranda um ívilnun.

II.

Með kæru, dags. 22. janúar 2013, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar og mótmælt synjun embættisins um ívilnun. Í kærunni er vísað til þess að tekjur kæranda hafi dregist saman milli áranna 2010 og 2011 um 21%, svo sem nánar greinir. Þá hafi tekjur heimilisins sömuleiðis dregist saman á liðnum árum eða um 18% milli áranna 2010 og 2011 og um 10% ef miðað sé við meðaltal áranna 2008-2010. Þá sé hluti launatekna heimilis kæranda á umræddu tímabili til kominn vegna greiðslna úr séreignarlífeyrissparnaði. Sé tekið tillit til þess að þar sé ekki um að ræða reglulegar tekjur heimilisins nemi skerðing tekna milli ára 662.187 kr. eða 8,5%. Þá sé í þessum útreikningi ekki tekið tillit til verðbólguáhrifa á tímabilinu, en vísitala neysluverðs hafi hækkað um 36,7% frá ársbyrjun 2008 til ársloka 2011. Í öllum tilvikum verði því að teljast um að ræða verulega tekjuskerðingu. Til viðbótar þeirri tekjuskerðingu hafi kærandi orðið fyrir kostnaði að fjárhæð samtals 95.359 kr. vegna veikinda sinna. Sé því um að ræða verulega gjaldþolsskerðingu á árinu 2011.

III.

Með bréfi, dags. 18. mars 2013, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að hinn kærði úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. mars 2013, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal ríkisskattstjóri taka til afgreiðslu umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns ef ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafa skert gjaldþol hans verulega. Lögin hafa ekki að geyma nánari ákvæði um ákvörðun ívilnunar við þessar aðstæður. Í reglum ríkisskattstjóra nr. 212/1996, um skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 66. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið séu að ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafi haft í för með sér skert gjaldþol. Með skertu gjaldþoli sé átt við að greiðslugeta manns sé skert vegna þess að hann hafi orðið fyrir verulegum kostnaði umfram bætur og styrki sem hann hafi fengið vegna framangreindra tilvika. Með kostnaði vegna ellihrörleika, veikinda eða slysa í þessu sambandi sé átt við dvalarkostnað á stofnunum, lyfja- og lækniskostnað, kostnað vegna ferða, ýmiss konar sérútbúnaðar vegna fötlunar o.s.frv. Sýnt skuli fram á að um óhjákvæmilegan kostnað sé að ræða og fyrir þurfa að liggja gögn til staðfestingar á honum.

Samkvæmt forsögu lagaákvæða um ívilnanir í sköttum er ljóst að búið hefur að baki þeim sú hugmynd að réttlætanlegt væri að víkja frá almennum reglum um skattálagningu þar sem gjaldþol skattþegns hefur skerst verulega vegna sérstakra áfalla, svo sem slysa eða veikinda. Upphaflega var það almennt skilyrði fyrir ívilnunum í sköttum að gjaldþol skattþegns hefði skerst verulega vegna þeirra atvika sem gátu gefið tilefni til ívilnana. Það skilyrði er berum orðum áskilið varðandi ívilnanir samkvæmt 1. og 6. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Varðandi önnur ívilnunartilefni virðist megináherslan fremur vera á þeim kostnaði sem fallið hefur á skattþegn af tilgreindum orsökum, sbr. m.a. ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Varðandi forsögu ívilnana og almenn atriði að því er þær snertir má vísa til álits umboðsmanns Alþingis, dags. 2. febrúar 1996, í málinu nr. 1427/1995 (SUA 1996:485).

Eins og fram kemur í kafla I hér að framan laut umsókn kæranda um ívilnun í skattframtali hennar árið 2012 að lækkun tekjuskattsstofns vegna kostnaðar að fjárhæð samtals 95.359 kr. sem hlotist hefði af meðferð kæranda hjá sjúkraþjálfara og kírópraktor á árinu 2011, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Taka verður undir það með ríkisskattstjóra að umrædd útgjöld geti ekki talist hafa haft í för með sér verulega skert gjaldþol kæranda á árinu 2011 í skilningi framangreinds ákvæðis, enda verður ekki talið að um sé að ræða útgjöld sem séu verulega umfram kostnað vegna heilbrigðisþjónustu einstaklinga sem almennt má gera ráð fyrir að falli til. Er þá m.a. litið til upplýsinga í opinberum framfærsluviðmiðum. Með vísan til þess verður að hafna kröfu kæranda um lækkun tekjuskattsstofns gjaldárið 2012.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda um ívilnun í sköttum gjaldárið 2012 er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja