Úrskurður yfirskattanefndar
- Ívilnun í sköttum
- Menntun barns
Úrskurður nr. 340/2013
Gjaldár 2012
Lög nr. 90/2003, 65. gr. 1. mgr. 4. tölul. Reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996.
Kröfu kæranda um ívilnun vegna náms dóttur kæranda við Listaháskóla Íslands var hafnað þar sem talið var að ívilnun vegna menntunar barns kæmi ekki til álita vegna háskólanáms eða annars sambærilegs framhaldsnáms.
I.
Helstu málavextir eru þeir að hinn 15. ágúst 2012 barst ríkisskattstjóra umsókn um lækkun (RSK 3.05) þar sem kærandi óskaði eftir lækkun tekjuskattsstofns vegna menntunar barns, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í greinargerð með umsókninni kom fram að dóttir kæranda, sem væri nemandi við Listaháskóla Íslands, hefði stundað skiptinám við skóla í París í Frakklandi á árinu 2011. Þar sem dýrt væri að leigja húsnæði í París hefði kærandi staðið straum af hluta kostnaðar dóttur sinnar vegna húsaleigu. Var vísað til meðfylgjandi gagna um millifærslur að fjárhæð 500.000 kr. og þess farið á leit að tekjuskattsstofn kæranda yrði lækkaður með vísan til þessa.
Ríkisskattstjóri tók erindi kæranda til meðferðar sem kæru á álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2012, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og með kæruúrskurði, dags. 2. október 2012, synjaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um ívilnun. Í úrskurðinum vísaði ríkisskattstjóri til ákvæðis 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 og tók fram að samkvæmt því bæri að taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns hefði maður veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri er stunduðu nám í framhaldsskólum. Með námi væri aðallega átt við nám að loknu grunnskólanámi, þ.e. nám í mennta- eða fjölbrautaskólum, en ekki framhaldsnám eins og háskólanám. Þannig kæmi ívilnun ekki til álita ef stundað væri nám sem veitti rétt til námslána. Dóttir kæranda væri í háskólanámi sem veitti rétt til námsláns. Félli umsókn kæranda því utan atvika er fella mætti að skilgreiningum á ákvæðum 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 um aðstæður eða málavexti er leitt gætu til lækkunar á tekjuskattsstofni. Yrði þegar af þeirri ástæðu að synja beiðni kæranda um ívilnun.
II.
Með kæru, dags. 9. desember 2012, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 2. október 2012, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að dóttir kæranda, sem stundaði nám við Listaháskóla Íslands, hafi hlotið styrk til að dvelja sem skiptinemi við listaskóla í París í Frakklandi eitt misseri og fengið það nám metið sem hluta af námi við Listaháskóla Íslands. Sé þess krafist að synjun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi á þeim forsendum að í 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 sé hvorki rætt um framhaldsnám né háskólanám. Einungis sé gert að skilyrði að viðkomandi barn skuli vera 16 ára eða eldra, og sé það skilyrði uppfyllt í máli kæranda. Í öðru lagi sé þess hvergi getið í umræddu ákvæði að réttur til námslána skerði rétt til ívilnunar samkvæmt því. Þá sé mun erfiðara að fá námslán vegna náms erlendis ef viðkomandi nám sé kennt í skóla á Íslandi. Sé það skoðun kæranda að túlkun ríkisskattstjóra á 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 sé of þröng og með ýmsum takmörkunum sem löggjafinn hafi ekki haft í huga við setningu ákvæðisins. Þvert á móti megi ætla að löggjafinn hafi haft í huga fjárhagsleg, samfélagsleg og félagsleg áhrif af styrkjum foreldra til menntunar barna sinna. Sé krafa kæranda um ívilnun því áréttuð.
III.
Með bréfi, dags. 4. febrúar 2013, hefur ríkisskattstjóri krafist þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags 7. febrúar 2013, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.
Með bréfi, dags. 14. febrúar 2013, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum.
IV.
Samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal ríkisskattstjóri taka til afgreiðslu umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns ef hann hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri. Lögin hafa ekki að geyma nánari ákvæði um ákvörðun ívilnunar við þessar aðstæður. Í reglum ríkisskattstjóra nr. 212/1996, um skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 66. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið sé að barnið sé orðið 16 ára og stundi nám a.m.k. þrjá mánuði á árinu. Kemur fram að hér sé fyrst og fremst átt við börn á aldrinum 16-21 árs sem stundi nám að loknu grunnskólanámi, þ.e. nám í mennta- eða fjölbrautaskólum, iðnnám o.þ.h. Er tekið fram að veiti námið rétt til námslána komi ívilnun ekki til álita. Þá er í reglum þessum mælt fyrir um takmarkanir á fjárhæð ívilnunar vegna menntunar barna og skerðingu fjárhæðar ívilnunar vegna tekna námsmanns, svo sem nánar greinir.
Í skattframkvæmd hefur verið lagt til grundvallar, í samræmi við framangreindar reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996 sem settar eru með stoð í 3. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, að ívilnun samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 komi ekki til álita vegna háskólanáms eða annars sambærilegs framhaldsnáms. Verður sú túlkun ákvæðisins í skattframkvæmd að teljast bæði langvarandi og fastmótuð og hefur komið fram í framtalsleiðbeiningum ríkisskattstjóra um langt árabil. Nám dóttur kæranda við Listaháskóla Íslands á árinu 2011 verður að teljast til framhaldsnáms í framangreindum skilningi og ljóst er að slíkt nám veitir almennt rétt til námslána samkvæmt lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum, sbr. 2. mgr. 1. gr. þeirra laga. Með vísan til framangreinds verður að hafna kröfu kæranda um lækkun tekjuskattsstofns gjaldárið 2012.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda um ívilnun í sköttum gjaldárið 2012 er hafnað.