Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sérstakt gjald vegna síðbúinna skila á virðisaukaskattsskýrslu
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 348/2013

Virðisaukaskattur 2012

Lög nr. 50/1988, 27. gr. B (brl. nr. 163/2010, 9. gr.).   Lög nr. 30/1992, 12. gr.  

Kærð var sú ákvörðun ríkisskattstjóra að leggja á kæranda sérstakt gjald vegna síðbúinna skila á virðisaukaskattsskýrslu. Þar sem álagning gjaldsins var fyrst tilkynnt kæranda með kæruúrskurði ríkisskattstjóra, sem leiddi til þess að þær ástæður sem kærandi taldi afsaka síðbúin skil komu fyrst fram í kæru til yfirskattanefndar, var kæran send ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

I.

Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru umboðsmanns kæranda, dags. 12. desember 2012, er ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt kæruúrskurði, dags. 15. október 2012, um að leggja á kæranda sérstakt gjald 5.000 kr. vegna síðbúinna skila á virðisaukaskattsskýrslu uppgjörstímabilið janúar-júní 2012, sbr. 27. gr. B laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Af hálfu kæranda er þess krafist að hið sérstaka gjald verði fellt niður. Til stuðnings kröfunni er tiltekið í kæru til yfirskattanefndar að ekki hafi verið um neina skattskylda veltu að ræða á umræddu uppgjörstímabili og hafi kærandi hreinlega gleymt að skila inn virðisaukaskattsskýrslu (núllskýrslu) sem að einhverju leyti megi rekja til aldurs kæranda. Kærandi hafi óverulegar rekstrartekjur vegna skógræktar. Um sé að ræða skilvísan gjaldanda um áratugaskeið. Þá er bent á það í kærunni að við upphaflega áætlun virðisaukaskatts umrætt uppgjörstímabil hafi ríkisskattstjóri ekki upplýst um tilvist hins sérstaka gjalds sem megi teljast óeðlilegt, enda hafi kærandi ekki getað brugðist við og óskað eftir niðurfellingu gjaldsins við skil á virðisaukaskattsskýrslu sinni.

II.

Með bréfi, dags. 4. febrúar 2013, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Í kæru er þess krafist að fellt verði niður sérstakt gjald að fjárhæð kr. 5.000 vegna síðbúinna skila virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir tímabilið janúar - júní 2012 sem rekja megi m.a. til aldurs kæranda. Kærandi skilaði 0 skýrslu fyrir framangreint tímabil.

Samkvæmt hinum kærða úrskurði var innsend virðisaukaskattsskýrsla kæranda tekin til greina og áætlun um virðisaukaskatt felld niður. Jafnframt var kæranda ákvarðað sérstakt gjald samkvæmt 1. mgr. 27. gr. B laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Í 1. mgr. 27. gr. B laga nr. 50/1988 er kveðið á um að berist virðisaukaskattsskýrsla eftir að skattaðili hefur sætt áætlun skuli ríkisskattstjóri leggja á hann sérstakt gjald að fjárhæð kr. 5.000.

Að framangreindu virtu er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur. Ekki þykir hafa verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 2. mgr. 27 gr. B, um niðurfellingu framangreinds gjalds, geti átt við.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 7. febrúar 2013, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Í máli þessu er til umfjöllunar sú ákvörðun ríkisskattstjóra að leggja á kæranda sérstakt gjald að fjárhæð 5.000 kr. vegna síðbúinna skila á virðisaukaskattsskýrslu uppgjörstímabilið janúar-júní 2012, sbr. 1. mgr. 27. gr. B laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 163/2010. Fram kemur í þessu lagaákvæði að berist virðisaukaskattsskýrsla eftir að skattaðili hafi sætt áætlun skuli ríkisskattstjóri leggja á hann sérstakt gjald að fjárhæð 5.000 kr. fyrir hverja virðisaukaskattsskýrslu sem ekki hafi verið skilað á réttum tíma samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. B má fella niður gjald samkvæmt 1. mgr. færi skattaðili gildar ástæður sér til málsbóta og meti ríkisskattstjóri það í hverju tilviki hvað skuli telja gildar ástæður í þessu sambandi.

Í athugasemdum við 9. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 163/2010, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (rafræn þjónustusala og eftirlit vegna áætlana), er tekið fram að hátt hlutfall skattaðila, sem sæti áætlun ríkisskattstjóra, leiðrétti áætlunina síðar með því að skila virðisaukaskattsskýrslu. Síðbúin virðisaukaskattsskil séu gríðarlega kostnaðarsöm fyrir skattyfirvöld og innheimtumenn ríkissjóðs og fjöldi þeirra sem séu áætlaðir á hverju uppgjörstímabili hafi aukist síðastliðin ár. Engin viðurlög hafi verið við vanskilum skýrslna utan lögbundins álags og sé þess vænst að gjaldið verði einn liður í því að sporna við áætlunum í virðisaukaskatti.

Tildrög hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra voru þau að kærandi stóð ekki skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir umrætt uppgjörstímabil á tilskildum tíma og sætti kærandi því áætlun virðisaukaskatts vegna tímabilsins, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988. Var skattskyld velta kæranda áætluð 480.392 kr. og útskattur ákvarðaður í samræmi við það 122.500 kr. Þá var kæranda ákvarðað álag að fjárhæð 12.250 kr. í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt innsendri virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir greint uppgjörstímabil, sem barst ríkisskattstjóra 12. október 2012, var skattskyld velta kæranda engin á tímabilinu. Með hinum kærða úrskurði, dags. 14. október 2012, féllst ríkisskattstjóri á að innsend virðisaukaskattsskýrsla yrði lögð til grundvallar ákvörðun á virðisaukaskatti kæranda uppgjörstímabilið janúar-júní 2012. Samkvæmt því féll áður ákvarðaður virðisaukaskattur niður ásamt álagi, en hins vegar ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda sérstakt gjald að fjárhæð 5.000 kr. með vísan til 27. gr. B laga nr. 50/1988.

Af hálfu kæranda er m.a. fundið að því að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um þá ákvörðun ríkisskattstjóra sem í málinu greinir, þ.e. álagningu sérstaka gjalds samkvæmt 27. gr. B laga nr. 50/1988. Þegar litið er til eðlis þess gjalds, sem mælt er fyrir um í 27. gr. B laga nr. 50/1988, sem er lögbundið og leiðir sjálfkrafa af tilgreindum aðstæðum í 1. mgr. greinarinnar, verður út af fyrir sig ekki að því fundið þótt ákvörðun gjalds þessa hafi ekki verið boðuð kæranda sérstaklega. Á hitt er að líta að þar sem það var ekki gert og gjaldið fyrst tilkynnt kæranda með kæruúrskurði ríkisskattstjóra var þess naumast að vænta að kærandi bæri fram með kæru til ríkisskattstjóra þær ástæður sem hann taldi afsaka síðbúin skil á skýrslu sinni, sbr. 2. mgr. 27. gr. B laga nr. 90/2003. Leiðir þetta til þess að sjónarmið og skýringar kæranda hér að lútandi koma fyrst fram í kæru til yfirskattanefndar. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt framansögðu þykir rétt, með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, að senda ríkisskattstjóra kæruna til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar, sbr. ennfremur sjónarmið í H 1992:1377.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni ásamt meðfylgjandi gögnum er vísað til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja