Úrskurður yfirskattanefndar
- Rekstrarkostnaður
- Fundakostnaður
- Risna
- Starfsmannakostnaður
- Ferðakostnaður
Úrskurður nr. 327/1997
Gjaldár 1994
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul., 52. gr. 1. tölul. (brl. nr. 147/1994, 5. gr., sbr. brl. nr. 101/1995).
Í málinu var deilt um frádráttarbærni kostnaðar vegna aðalfundar kæranda, sem var einkahlutafélag, gjafa til starfsfólks hans og viðskiptavina og þátttöku maka stjórnarformanns kæranda í viðskiptaferð á vegum félagsins. Yfirskattanefnd féllst á að kostnaður við aðalfund, þ.m.t. veitingar á aðalfundi, væri frádráttarbær rekstrarkostnaður, enda væri kostnaðurinn eðlilegur miðað við tilefni. Þar sem kærandi hafði ekki upplýst hvar aðalfundur félagsins var haldinn og hvaða kostnaður tengdist fundinum hafnaði yfirskattanefnd gjaldfærslu kostnaðarins. Þá hafnaði yfirskattanefnd frádráttarbærni gjafa til starfsfólks kæranda með vísan til 1. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981, svo sem það ákvæði hljóðaði á þeim tíma sem málið varðaði. Um gjafir til viðskiptavina tók yfirskattanefnd fram að slík verðmæti yrðu ekki í öllum tilvikum felld undir nefnt lagaákvæði, enda væri sýnt fram á að þau hafi verið afhent í risnu- eða kynningarskyni eftir almennum og efnislegum mælikvarða og gerð grein fyrir tengslum kostnaðarins við tekjuöflun að öðru leyti. Þar sem engin grein hafði verið gerð fyrir þiggjendum eða tengslum þeirra við rekstur var kröfu hans um gjaldfærslu hafnað. Þá var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á rekstrarlegan tilgang með þátttöku maka stjórnarformanns í ferðum hans og var því hafnað að um hefði verið að ræða frádráttarbæran kostnað.
I.
Málavextir eru þeir að skattstjóri endurákvarðaði opinber gjöld kæranda 1994 að undangengnum bréfaskiptum, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 14. júlí 1995 og kæruúrskurð, dags. 16. janúar 1996. Lækkaði skattstjóri gjaldaliði á rekstrarreikningi kæranda og leiddu breytingar skattstjóra til lækkunar á yfirfæranlegu rekstrartapi kæranda. Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 15. febrúar 1996, sbr. greinargerð, dags. 14. maí 1996. Í kærunni er vísað til bréfaskipta við skattstjóra og tekið fram að með gögnum og skýringum hafi verið sýnt fram á að gjaldfærsla á umræddum kostnaðarliðum sé fyllilega heimil og í samræmi við skattalög, reglur og viðteknar venjur. Undir rekstri málsins hefur umboðsmaður kæranda vísað til reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.
Kæruatriði málsins eru eftirfarandi:
1. Móttaka gesta: Skattstjóri felldi niður kostnað vegna aðalfundar kæranda. Um var að ræða kostnað samkvæmt tveimur fylgiskjölum. Fylgiskjal nr. 6300 þar sem gjaldfærður var kostnaður að fjárhæð 1.160 kr. vegna aksturs leigubifreiðar og 16.070 kr. vegna veitinga fyrir þrjá á veitingastað og fylgiskjal nr. 6324 að fjárhæð 29.271 kr. vegna matarveitinga og vínfanga að Hótel X. Skattstjóri taldi að umræddur kostnaður hefði fallið til eftir aðalfund kæranda. Einnig taldi skattstjóri að ekki hefði verði gerð nægileg grein fyrir tengslum umrædds kostnaðar við rekstur kæranda. Af hálfu kæranda hefur komið fram að um sé að ræða kostnað vegna veitinga til hluthafa og stjórnar kæranda. Einnig felldi skattstjóri niður kostnað 5.340 kr. samkvæmt tveimur fylgiskjölum vegna veitinga á þeirri forsendu að ekki hefðu komið fram skýringar vegna þessa kostnaðar. Tók hann fram að ekki hefði komið fram hvaða viðskiptavini væri um að ræða og hvernig tengsl þeirra væru við rekstur kæranda. Af hálfu kæranda hefur komið fram að um sé að ræða útgjöld sem kærandi hafi sannanlega orðið fyrir vegna viðskiptamanna sinna.
2. Gjafir: Skattstjóri felldi niður kostnað vegna gjafa að fjárhæð 253.661 kr. með vísan til 52. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu kæranda kom fram að um væri að ræða kostnað vegna jólagjafa til starfsfólks auk þess sem fyrirtækið færði bestu viðskiptavinum sínum eða öðrum samstarfsaðilum konfekt eða vín í árslok eftir viðskipti ársins eða við sérstök tilefni svo sem á stórafmælum.
3. Ferðakostnaður: Skattstjóri felldi niður ferðakostnað vegna maka stjórnarformanns kæranda 152.583 kr. á þeirri forsendu að makinn hefði ekki verið skráður starfsmaður kæranda á umræddu rekstrarári og yrði ekki séð að um gjöld sem tengdust rekstri kæranda beint væri að ræða í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Af hálfu kæranda kom fram að á ferðum sínum erlendis þætti stjórnarformanni kæranda þægilegra að hafa eiginkonu sína með í för til aðstoðar á fundum o.þ.h. frekar en að hafa ritara með sér. Fyrirkomulag þetta sparaði kæranda fjármuni þar sem eiginkonan væri ekki á launum, en ritari eða annar starfsmaður væri á launum.
Með bréfi, dags. 5. júlí 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans."
II.
Um 1. tölul. Fallast má á það að kostnaður við aðalfund, þ.m.t. veitingar á aðalfundi, séu frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og nú e-lið 6. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, enda sé kostnaðurinn eðlilegur, miðað við tilefni. Skattstjóri felldi niður kostnað vegna veitinga fyrir þrjá á veitingastaðnum Y og vegna matarveitinga og vínfanga í veitingasal Hótel X auk kostnaðar vegna leigubifreiðar frá síðarnefnda staðnum í heimahús. Af hálfu kæranda hefur ekki verið upplýst hvar aðalfundur kæranda var haldinn og hvaða kostnaður tengist aðalfundinum. Að svo vöxnu er kæruatriði þessu synjað.
Kærandi þykir ekki hafa gert þá grein fyrir kostnaði að fjárhæð 5.340 kr. og tengslum hans við rekstur sinn að fallist verði á gjaldfærslu, sbr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Gjaldfærslu er því hafnað.
Um 2. tölul. Skattstjóri synjaði kæranda um gjaldfærslu gjafa að fjárhæð 253.661 kr. Er þar um að ræða blóm 5.000 kr., afmælisgjöf 25.000 kr., konfekt 103.801 kr. gjafakort til jólagjafa 100.000 kr. og áfengi 19.860 kr. Hefur komið fram hjá kæranda að um er að ræða jólagjafir til starfsfólks og að kærandi hafi fært bestu viðskiptavinum sínum og öðrum samstarfsaðilum konfekt eða vín í árslok eða við sérstök tilefni svo sem við stórafmæli. Af hálfu kæranda hefur kostnaður þessi ekki verið sundurliðaður eftir framangreindum tilefnum. Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans að því er varðar gjafir til starfsmanna svo og afmælisgjöf. Rétt er að benda á vegna þessa kæruatriðis að með 5. gr. laga nr. 147/1994, um breyting á lögum nr. 75/1981, sbr. lög nr. 101/1995, um breyting á lögum nr. 147/1994, var 1. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981 breytt. Sú breyting kom til framkvæmda gjaldárið 1995 vegna tekna og gjalda á árinu 1994, sbr. 17. gr. laga nr. 147/1994. Umþrættur kostnaður samkvæmt þessum kærulið er að öðru leyti vegna afhendingar konfekts og áfengis til viðskiptavina sem kærandi kveðst hafa innt af hendi í risnu- eða kynningarskyni. Skattstjóri hefur alfarið hafnað gjaldfærslu með skírskotun til ákvæðis 1. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981. Verðmæti sem afhent eru viðskiptavinum verða ekki í öllum tilvikum felld undir nefnt lagaákvæði, enda sé sýnt fram á að þau hafi verið afhent í risnu- eða kynningarskyni eftir almennum og efnislegum mælikvarða og gerð grein fyrir tengslum kostnaðarins við tekjuöflun að öðru leyti. Kærandi hefur enga grein gert fyrir umræddum kostnaði hvorki heildarfjárhæð né viðmiðunum sem hann hefur stuðst við. Skýringar kæranda eru einungis almennt orðaðar og engin grein gerð fyrir þiggjendum eða tengslum þeirra við rekstur kæranda. Að svo vöxnu þykir verða að hafna þessu kæruatriði.
Um 3. tölul. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á rekstrarlegan tilgang með þátttöku maka stjórnarformanns í ferðum hans. Verður því ekki fallist á að um hafi verið að ræða rekstrarkostnað í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Kæruatriði þessu er hafnað.