Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðahlunnindi
  • Skattmat
  • Verð bifreiðar

Úrskurður nr. 143/2014

Gjaldár 2012

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 96. gr., 118. gr.   Lög nr. 37/1993, 22. gr.   Skattmat fyrir tekjuárið 2011  

Í máli þessu var deilt um ákvörðun bifreiðahlunninda vegna afnota kæranda, sem var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður X ehf. og eigandi alls hlutafjár í félaginu, af bifreið í eigu X ehf. Bifreiðin hafði verið flutt notuð til landsins og var af tegund sem ekki var að finna í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra. Yfirskattanefnd taldi ekki fá staðist að miða ákvörðun bifreiðahlunninda við innflutningsverð bifreiðarinnar og benti á að samkvæmt skattmati bæri að miða við verð nýrrar bifreiðar frá bifreiðaumboði. Þá tæki tollverð bifreiðar ekki tillit til hugsanlegrar söluþóknunar innflytjanda. Væri ekki komin fram önnur tæk viðmiðun um verð bifreiðarinnar en sú sem ríkisskattstjóri hafði byggt á, þ.e. tilgreint kaupverð bifreiðarinnar í skattskilum X ehf., sem auk þess væri í samræmi við reglu í skattmati að því er varðaði hlunnindi af notkun annarra vélknúinna ökutækja en bifreiða.

I.

Með kæru, dags. 30. júní 2013, sbr. greinargerð, dags. 19. ágúst 2013, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 4. apríl 2013, um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2012. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurðinum að færa kæranda til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 955.395 kr. í skattframtali árið 2012 vegna meintra ótakmarkaðra einkaafnota kæranda af bifreiðinni L allt tekjuárið 2011, en bifreið þessi var í eigu launagreiðanda kæranda, X ehf.

Af hálfu kæranda er þess krafist í kæru til yfirskattanefndar að tekjufærð bifreiðahlunnindi verði lækkuð í 580.415 kr.

II.

Málavextir eru þeir að samkvæmt gögnum málsins er kærandi stjórnarformaður og framkvæmdastjóri X ehf., auk þess að vera eigandi alls hlutafjár í félaginu. Af hálfu X ehf. voru gerð skil á bifreiðahlunnindamiða (RSK 2.035) vegna bifreiðarinnar M, sem er jeppabifreið af gerðinni GMC Yukon Denali, árgerð 2007, þar sem fram kom að kærandi hefði haft ótakmörkuð endurgjaldslaus afnot af bifreiðinni á árinu 2011 og var hlunnindamat tilgreint 580.415 kr. Geymslustaður bifreiðarinnar utan vinnutíma var tilgreindur á starfsstöð félagsins að L-götu, sem er jafnframt heimili kæranda. Tímabil notkunar bifreiðarinnar var sagt frá 1. apríl 2011 til 31. ágúst 2011.

Með bréfi til kæranda, dags. 24. janúar 2013, óskaði ríkisskattstjóri eftir skýringum á því að bifreiðahlunnindi samkvæmt innsendum bifreiðahlunnindamiða hefðu ekki verið tekjufærð í skattframtali kæranda árið 2012. Í svarbréfi kæranda, dags. 31. janúar 2013, kom fram að gleymst hefði að telja bifreiðahlunnindin fram. Í framhaldi af frekari bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 1. og 19. febrúar 2013, og svarbréf kæranda, dags. 10., 11. og 25. febrúar 2013, boðaði ríkisskattstjóri kæranda með bréfi, dags. 7. mars 2013, endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 2012, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 955.395 kr. í reit 134 í skattframtali árið 2012, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, vegna fullra og ótakmarkaðra afnota kæranda af bifreiðinni M í níu mánuði árið 2011, auk beitingar 25% álags að fjárhæð 387.011 kr. á vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn gjaldárið 2012, sbr. 2. mgr. 108. gr. sömu laga.

Af hálfu kæranda var boðuðum breytingum mótmælt með bréfi, dags. 18. mars 2013, þar sem áréttuð voru áður fram komin sjónarmið kæranda, m.a. um litla notkun greindrar bifreiðar. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. apríl 2013, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd, þó þannig að álagsbeiting kom ekki til framkvæmda, og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 2012 til samræmis, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003.

III.

Í boðunarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 7. mars 2013, og úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. apríl 2013, var rakið að kærandi væri prókúruhafi og stjórnarformaður X ehf. og eigandi alls hlutafjár í félaginu. Samkvæmt bifreiðahlunnindamiðum frá X ehf. vegna tekjuársins 2011 hefði kærandi haft ótakmörkuð endurgjaldslaus afnot af bifreið félagsins, M, tímabilið 1. apríl til 31. ágúst 2011, en geymslustaður bifreiðarinnar utan vinnutíma væri tilgreindur á starfsstöð félagsins að L-götu. Þá gerði ríkisskattstjóri grein fyrir lagagrundvelli skattlagningar bifreiðahlunninda samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og tók fram að fjármálaráðherra hefði sett reglur á grundvelli 118. gr. sömu laga um mat á hlunnindum sem ríkisskattstjóri vísaði til sem auglýsingar nr. 1299/2011 í B-deild Stjórnartíðinda. Í greindum matsreglum kæmi fram að eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum sem og stjórnarmenn félaga teldust ætíð hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim hefðu verið látnar í té og þeir hefðu til einkanota. Með tilliti til þess að kærandi væri framkvæmdastjóri og eigandi félagsins yrði að gera ríkar kröfur til þess að leitt yrði í ljós með gögnum eða sýnt fram á með öðrum afdráttarlausum hætti að kærandi hefði ekki haft umráð yfir bifreið félagsins sem meta bæri til skattskyldra tekna eftir reglum um bifreiðahlunnindi miðað við full umráð. Raunverulegur akstur eða notkun í eigin þágu væri ekki hið eiginlega inntak þeirra hlunninda sem hér um ræddi, heldur hin ótakmörkuðu endurgjaldslausu umráð. Í svarbréfi kæranda, dags. 25. febrúar 2013, kæmi ekkert fram varðandi bann við einkaafnotum né um eftirlit hefði slíkt bann verið til staðar. Jafnframt væri ljóst að í tilviki kæranda væri ómögulegt að fylgja slíku banni eftir, þar sem kærandi væri eigandi alls hlutafjár í félaginu, og væri því í sjálfsvald sett hvernig notkun á umræddri bifreið væri háttað hverju sinni. Vegna fram kominna andmæla kæranda samkvæmt bréfi, dags. 18. mars 2013, áréttaði ríkisskattstjóri það ákvæði skattmatsreglna að eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum sem og stjórnarmenn félaga teldust ætíð hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim væru látnar í té og þeir hefðu til einkanota. Af hálfu kæranda hefði ekkert komið fram því til stuðnings að þessi regla ætti ekki við í tilviki hans.

Í umfjöllun ríkisskattstjóra um fjárhæð bifreiðahlunninda, sbr. matsreglur fjármálaráðherra, kom fram að hlunnindi væru reiknuð sem 21% af matsverði bifreiðar samkvæmt bifreiðaskrá RSK vegna bifreiða sem teknar hefðu verið í notkun á árunum 2006, 2007 og 2008. Bifreiðin M hefði verið innflutt notuð, enginn umboðsmaður hefði verið á Íslandi á þeim tíma og tegund bifreiðarinnar væri ekki að finna í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra. Samkvæmt eignaskrá X ehf. árið 2009 hefði kaupverð bifreiðarinnar verið 5.000.000 kr. og þætti rétt að styðjast við þá fjárhæð í tilviki kæranda. Framreiknað kaupverð frá árinu 2009 með verðbreytingarstuðli 1,2132 næmi 6.066.000 kr. og væri fjárhæð bifreiðahlunninda því ákvörðuð 955.395 kr. (6.066.000 kr. x 21% x 9 mánuðir) miðað við full og ótakmörkuð umráð bifreiðarinnar frá ársbyrjun 2011 til 21. september sama ár, en bifreiðin hefði verið á bifreiðaskrá þann tíma.

IV.

Samkvæmt kæru til yfirskattanefndar, dags. 30. júní 2013, og greinargerð kæranda, dags. 19. ágúst 2013, er þess krafist að fjárhæð skattskyldra bifreiðahlunninda verði lækkuð frá því sem ríkisskattstjóri ákvarðaði. Kveðst kærandi telja eðlilegt að einhver hlunnindi verði reiknuð vegna persónulegra afnota af bifreiðinni M í eigu X ehf. þrátt fyrir að þau hafi verið afskaplega lítil. Hafi kæranda fundist vel í lagt á innsendum bifreiðahlunnindamiða að tilgreina hlunnindi 580.415 kr., en vænst þess að fallist yrði á þá fjárhæð. Kærandi vísar til þess að samkvæmt meðfylgjandi gögnum frá skoðunarstöð hafi bifreiðinni verið ekið 4.308 km á 20 mánaða tímabili frá október 2010 til júní 2012.

Kærunni fylgja m.a. ljósrit skoðunarvottorðs frá 26. júní 2012 og gögn um skoðun þann dag og 11. nóvember 2010, bifreiðahlunnindamiða og útprentun úr tollakerfi vegna tollafgreiðslu bifreiðar 28. febrúar 2008.

V.

Með bréfi, dags. 27. september 2013, hefur ríkisskattstjóri lagt fram þá kröfugerð fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. október 2013, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

VI.

Kæran í máli þessu varðar skattlagningu bifreiðahlunninda kæranda gjaldárið 2012 vegna ætlaðra einkanota hans af bifreiðinni M af gerðinni GMC Yukon Denali, árgerð 2007, en bifreið þessi var í eigu launagreiðanda kæranda, X ehf. Fram er komið að einkahlutafélag þetta er að öllu leyti í eigu kæranda og var hann framkvæmdastjóri félagsins, auk þess að vera stjórnarmaður. Kærandi tilfærði engin skattskyld bifreiðahlunnindi í skattframtali sínu árið 2012, en fram er komið að þar hafi verið um mistök kæranda að ræða, enda er út af fyrir sig ágreiningslaust að hann hafi haft afnot af bifreið þessari á árinu 2011 sem meta beri honum til skattskyldra hlunninda. Með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. apríl 2013, færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna í skattframtali árið 2012 skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 955.395 kr. með vísan til þess að líta yrði svo á að kærandi hefði haft full og ótakmörkuð umráð yfir umræddri bifreið á níunda mánuð á árinu 2011, sbr. reglur ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2011, en í því sambandi vísaði ríkisskattstjóri til auglýsingar nr. 1299/2011 sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda. Af hálfu kæranda er því ekki mótmælt að hann hafi haft full og ótakmörkuð umráð greindrar bifreiðar hluta ársins 2011. Hins vegar telur kærandi að ríkisskattstjóri hafi ákvarðað skattskyld bifreiðahlunnindi með of hárri fjárhæð. Krefst kærandi þess að fjárhæð bifreiðahlunninda verði lækkuð í 580.415 kr. í samræmi við innsendan bifreiðahlunnindamiða (RSK 2.035) frá X ehf. vegna umræddrar bifreiðar.

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu falla endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, svonefnd bifreiðahlunnindi. Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Samkvæmt 118. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 21. gr. laga nr. 128/2009, skal ríkisskattstjóri að fenginni staðfestingu ráðherra gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögunum. Um útgáfu ríkisskattstjóra á matsreglum samkvæmt áðurgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 75/1981 er fjallað m.a. í úrskurði yfirskattanefndar nr. 664/1997, sem birtur er í 2. hefti Skatta- og tollatíðinda 1997 (ST 1997:115) og á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is), og vísast í þann úrskurð um almenn atriði um ákvörðun bifreiðahlunninda. Kveðið er á um mat bifreiðahlunninda í lið 2.3 í reglum ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2011, sbr. reglur nr. 1057, 29. desember 2010, sem voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt greindum skattmatsreglum skulu ársumráð bifreiðar metin til tekna sem hlutfall af verði þeirra. Nemur hlutfall þetta almennt 26% af verði bifreiðar sem tekin var í notkun á árunum 2009, 2010 eða 2011, 21% af verði bifreiðar sem tekin var í notkun á árunum 2006, 2007 eða 2008 og 18% af verði bifreiðar sem tekin var í notkun á árunum 2005 eða fyrr. Fram kemur að bifreið, sem flutt hefur verið inn notuð, teljist hafa verið tekin til notkunar á því ári sem hún var framleidd. Mánaðarleg hlunnindi teljast 1/12 af hlunnindum reiknuðum, sbr. að framan, fyrir hvern byrjaðan mánuð og skal við það miðað ef umráðin vara hluta úr ári. Þá kemur fram í skattmatsreglum að verð bifreiðar sé í þessu sambandi skilgreint í bæklingnum Bifreiðaskrá (RSK 6.03) sem gefinn sé út árlega og sé að finna á upplýsingavef ríkisskattstjóra (rsk.is) og miðist við staðgreiðsluverð samkvæmt verðlista á nýrri bifreið frá bifreiðaumboði ár hvert. Sækja skuli verð bifreiðar í bifreiðaskrá þess árs þegar bifreiðin var tekin í notkun og margfalda með verðbreytingarstuðli viðkomandi árs, sbr. töflu í greindum bæklingi og upplýsingar á rsk.is, eða miða við staðgreiðsluverð nýrrar bifreiðar sömu tegundar á staðgreiðsluárinu 2011 reynist það lægra. Sé bifreið eigi til sölu hér á landi og eigi unnt að fá staðfestar upplýsingar um verð á henni skal miða við verð á sambærilegum bifreiðum. Í stað þess að sækja verð bifreiðar í bifreiðaskrá skal heimilt að miða verð til útreiknings á bifreiðahlunnindum við upphaflegt kaupverð viðkomandi bifreiðar eins og það er fyrst skráð í ökutækjaskrá hjá Umferðarstofu margfölduðu með verðbreytingarstuðli kaupárs, sbr. hér að framan.

Ríkisskattstjóri vísaði til þess í úrskurði sínum að bifreiðin M væri af tegund sem ekki væri að finna í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra, enda hefði bifreiðin verið flutt inn notuð og enginn umboðsmaður hér á landi fyrir viðkomandi tegund á þeim tíma. Við þessar aðstæður greip ríkisskattstjóri til þess úrræðis að styðja verð til útreiknings á bifreiðahlunnindum við tilgreint kaupverð bifreiðarinnar í eignaskrá X ehf. árið 2009 sem hefði verið 5.000.000 kr. Þá fjárhæð framreiknaði ríkisskattstjóri frá árinu 2009 með verðbreytingarstuðli 1,2132 og ákvarðaði bifreiðahlunnindi með 21% framreiknaðrar fjárhæðar og miðað við notkun á níunda mánuð (5.000.000 kr. x 1,2143 x 21% x 9 mánuðir). Samkvæmt því ákvörðuðust bifreiðahlunnindi 955.395 kr. Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að bifreiðahlunnindi verði lækkuð í 580.415 kr. til samræmis við innsendan bifreiðahlunnindamiða. Samkvæmt bifreiðahlunnindamiða er þessi fjárhæð þannig fengin að leitt er fram tollverð og gjöld við tollafgreiðslu að fjárhæð 3.026.526 kr., sú fjárhæð framreiknuð frá árinu 2008 með verðbreytingarstuðli 1,4752 og útkoman reiknuð til bifreiðahlunninda með 26% framreiknaðrar fjárhæðar auk þess sem gengið er út frá sex mánaða notkun. Tollverð og gjöld, sem hér er til vísað, koma fram á aðflutningsskýrslu sem fylgir kæru til yfirskattanefndar, en þar er um að ræða útprentun úr tollakerfi tollstjóra vegna bifreiðar sem tollafgreidd hefur verið 28. febrúar 2008.

Eins og rakið er að framan er í skattmatsreglum kveðið á um þá meginreglu um ákvörðun á verði til útreiknings á bifreiðahlunnindum að miða skuli við það verð sem lægra er; staðgreiðsluverð nýrrar bifreiðar á því ári þegar bifreið var tekin í notkun, framreiknað frá kaupári til tekjuárs með verðbreytingarstuðli viðkomandi árs, eða staðgreiðsluverð nýrrar bifreiðar sömu tegundar á tekjuárinu. Jafnframt kemur fram að sé bifreið eigi til sölu hér á landi og eigi unnt að fá staðfestar upplýsingar um verð á henni skuli miða við verð á sambærilegum bifreiðum. Loks kemur fram í skattmatsreglum að í stað þess að sækja verð bifreiðar í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra skuli heimilt að miða verð til útreiknings á bifreiðahlunnindum „við upphaflegt kaupverð viðkomandi bifreiðar eins og það er fyrst skráð í ökutækjaskrá hjá Umferðarstofu margfölduðu með verðbreytingarstuðli kaupárs, sbr. hér að framan“, svo sem þar segir. Síðastnefnt ákvæði er nokkuð torráðið, enda kemur verð bifreiðar ekki fram í ökutækjaskrá. Af hálfu kæranda er þessi regla augljóslega skilin þannig að heimilt sé að ganga út frá kaupverði bifreiðar í hendi fyrsta eiganda samkvæmt skráningu í ökutækjaskrá. Telur kærandi þannig að í tilviki bifreiðarinnar M sé rétt að horfa til innflutningsverðs sem verið hafi 3.026.526 kr., þ.e. tollverð 2.150.004 kr. og tollur/gjöld 876.522 kr., sbr. fyrirliggjandi aðflutningsskýrslu í útprentun úr tollakerfi. Af þessu tilefni skal tekið fram að fyrir liggur að umrædd bifreið var flutt inn notuð og verður að ganga út frá því að það hafi komið fram í innflutningsverðinu. Samkvæmt skattmatsreglum skal á hinn bóginn miða verð til útreiknings á bifreiðahlunnindum við verð nýrrar bifreiðar frá bifreiðaumboði, svo sem fram er komið, en tekið er tillit til aldurs bifreiðar með mismunandi hlutfalli bifreiðahlunninda. Er sérstaklega tekið fram í skattmatsreglunum að bifreið, sem flutt hafi verið inn notuð, teljist hafa verið tekin til notkunar á því ári sem hún var framleidd. Þá er ljóst að tollverð bifreiðar tekur ekki tillit til hugsanlegrar söluþóknunar innflytjanda. Samkvæmt þessu þykir ekki fá staðist að miða við innflutningsverð notaðrar bifreiðar sem grundvöll undir ákvörðun bifreiðahlunninda.

Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að fram hafi komið í málinu önnur tæk viðmiðun um verð bifreiðarinnar M en sú sem ríkisskattstjóri byggði á. Tekið skal fram að viðmið við kaupverð í hendi eiganda er í samræmi við reglu sem fram kemur í lið 2.3 í reglum ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2011 að því er varðar hlunnindi af notkun annarra vélknúinna ökutækja en bifreiða. Þá verður ekki séð að verðákvörðun ríkisskattstjóra sé kæranda óhagstæð, m.a. þegar litið er til þess að umrætt verð hlýtur að hafa markast af aldri og ástandi bifreiðarinnar við kaup. Með vísan til þessa verður því ekki fallist á kröfu kæranda um að miða verð greindrar bifreiðar til ákvörðunar bifreiðahlunninda við annað og lægra verð en samkvæmt hinum kærða úrskurði.

Í öðru lagi felst í kröfu kæranda að ákvarða beri bifreiðahlunnindi vegna notkunar umræddrar bifreiðar miðað við sex mánaða notkun á árinu 2011, þ.e. frá og með apríl það ár, en fram er komið af hálfu kæranda að bifreiðin hafi eingöngu verið notuð yfir sumarmánuðina 2011, sbr. bréf til ríkisskattstjóra, dags. 11. febrúar 2013.

Tekið skal fram að miðað við aðstæður í málinu veltur úrlausn þess á því hvort eigin notum kæranda af umræddri bifreið hafi verið fyrir að fara, enda ber að ákvarða bifreiðahlunnindi miðað við ótakmörkuð afnot, þ.e. full umráð, verði niðurstaðan sú, sbr. fyrrgreindar skattmatsreglur ríkisskattstjóra þar sem fram kemur að eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum sem og stjórnarmenn félaga teljist ætíð hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim eru látnar í té og þeir hafa til einkanota. Ekki er um það deilt að kærandi hafi haft umrædda bifreið til umráða á árinu 2011, enda liggur fyrir að kærandi nýtti bifreiðina í eigin þágu. Verður ekki talið að neitt hafi komið fram í málinu um að umráð kæranda yfir bifreiðinni hafi verið með öðrum hætti á fyrstu þremur mánuðum ársins en eftir þann tíma, þar til bifreiðin var tekin af skrá í september 2011. Að því leyti sem byggt er á því af hálfu kæranda að notkun bifreiðarinnar skipti máli en ekki umráðin sem slík skal vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. júní 1999 í málinu nr. E-3852/1998 (Magnús Hreggviðsson gegn íslenska ríkinu), sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands frá 10. febrúar 2000 í málinu nr. 356/1999 (H 2000:571), en í dómi þessum er m.a. tekið fram að með skattlagningu bifreiðahlunninda launamanns, sem nýtur ótakmarkaðra afnota af bifreið, sé verið að skattleggja umráðin sem slík og skipti ekki máli í því sambandi hversu mikið launþeginn nýtir sér umráðaréttinn. Þá er sérstaklega tekið fram í lið 2.3 í fyrrgreindum skattmatsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 2011 að meta skuli full og ótakmörkuð umráð starfsmanns af bifreið launagreiðanda til tekna án tillits til notkunar hans á bifreiðinni.

Samkvæmt framansögðu þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til að hagga við fjárhæð bifreiðahlunninda samkvæmt hinum kærða úrskurði. Kröfu kæranda þar að lútandi er því hafnað.

Það athugast að hvorki í boðunarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 7. mars 2013, né úrskurði hans um endurákvörðun, dags. 4. apríl 2013, er vísað með réttum hætti til þeirra stjórnvaldsfyrirmæla (skattmatsreglna) sem ríkisskattstjóri byggði á hvað varðar númer þeirra, dags- og ársetningu, en eins og fram er komið er hér um að ræða auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 1057/2010, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda. Hins vegar eru reglur þessar raktar efnislega á viðunandi hátt. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið voru annmarkar á rökstuðningi ríkisskattstjóra, sbr. 4. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki þykja þó alveg næg efni til að ómerkja ákvörðun ríkisskattstjóra af þessum sökum, enda verður ekki séð að annmarkar þessir hafi haft áhrif á efni ákvörðunarinnar né valdið kæranda réttarspjöllum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja