Úrskurður yfirskattanefndar

  • Fjárfesting í atvinnurekstri
  • Kæranleg skattákvörðun

Úrskurður nr. 48/1999

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 95. gr.   Lög nr. 30/1992, 3. gr. 1. mgr., 5. gr. 1. mgr.  

Í skattframtali sínu árið 1997 tók kærandi ekki tillit til neikvæðs mismunar vegna fjárfestingar í atvinnurekstri sem skattstjóri hafði ákvarðað við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að hefði kærandi ekki viljað una breytingu skattstjóra gjaldárið 1996 hefði honum borið að reka réttar síns og skjóta málinu til yfirskattanefndar. Var talið að kærandi gæti ekki með kæru vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1997 komið að efnislegum mótmælum við leiðréttingu sem skattstjóri hefði gert á skattframtali hans það ár og einungis lotið að því að fylgja eftir þeirri ákvörðun sem tekin hefði verið fyrra gjaldárið.

I.

Málavextir eru þeir að á skattframtali sínu árið 1996 gat kærandi þess að hann hefði á árinu 1995 selt hlutabréf að nafnvirði 500.000 kr. í Veitingahúsinu X hf. fyrir 500.000 kr. Með bréfi, dags. 24. júlí 1996, tilkynnti skattstjóri kæranda að frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri hefði verið felldur niður, enda drægist söluverð fyrrgreindra hlutabréfa 500.000 kr. frá frádráttarbærri fjárfestingu. Neikvæður mismunur 240.000 kr. færðist til næsta árs. Af hálfu kæranda var álagning gjaldárið 1996 kærð með kæru, dags. 15. ágúst 1996, og boðaður rökstuðningur. Með kæruúrskurði, dags. 4. nóvember 1996, vísaði skattstjóri kærunni frá vegna vanreifunar. Með skattframtali kæranda árið 1997 fylgdi athugasemd frá kæranda um að hann hefði fyrir misskilning talið sig hafa selt framangreind hlutabréf árið 1995. Hlutabréfin hefðu ekki verið seld fyrr en 1997 svo sem nánari grein var gerð fyrir.

Með bréfi, dags. 24. júlí 1997, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að breytingar hefðu verið gerðar á skattframtali hans fyrir gjaldárið 1997. Kom fram að breytingarnar lytu meðal annars að hlutafjáreign kæranda og hefðu þær verið gerðar á grundvelli athugasemdar kæranda á skattframtali árið 1996 um að hann hefði selt áðurnefnd hlutabréf. Hefði skattstjóri af þeim sökum lækkað hlutafjáreign kæranda um 500.000 kr., skuldir í reitum 86 og 168 um sömu fjárhæð og frádrátt vegna hlutabréfakaupa í samræmi við lækkun hlutafjáreignar.

Með kæru, dags. 15. ágúst 1997, mótmælti umboðsmaður kæranda breytingum skattstjóra á skattframtali 1997 og vísaði hann í áðurnefnda athugasemd sem fylgdi með skattframtali 1997 um að kærandi hefði fyrir misskilning talið sig hafa selt umrædd hlutabréf á árinu 1995.

Í úrskurði, dags. 23. desember 1997, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda og staðfesti fyrri ákvörðun sína. Benti skattstjóri á að ekkert kæmi fram í kæru sem gæfi tilefni til að breyta leiðréttingum skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1997 og ekki hefðu verið lögð fram nein gögn sem styddu staðhæfingar kæranda.

Með kæru, dags. 12. janúar 1998, hefur umboðsmaður kæranda skotið máli þessu til yfirskattanefndar. Með kærunni fylgir ljósrit af kaupsamningi sem dagsettur er 5. desember 1997. Í samningnum selja eigendur 100% hlutafjár í Veitingahúsinu X ehf. allt hlutafé í félaginu. Meðal seljenda hlutafjárins samkvæmt kaupsamningnum er kærandi í þessu máli. Farið er fram á að skattframtöl árin 1996 og 1997 verði leiðrétt með tilliti til þess að salan á hlutabréfunum hafi farið fram 1997.

Með bréfi, dags. 25. september 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að mati ríkisskattstjóra hefur kærandi ekki lagt fram nægjanleg gögn sem leiða ættu til þess að breyta úrskurði skattstjóra að svo stöddu. Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem sanna staðhæfingu hans um að hann hafi ásamt öðrum sameigendum að Veitingahúsinu X ehf. selt rekstur þess á árinu 1996 (sic). Hið framlagða ljósrit af Kaupsamningi (sic) um sölu á 100% hlutafjár í Veitingahúsinu X, ehf., dags. 5. desember 1997, getur eitt og sér ekki talist nægjanleg sönnun fyrir þeirri staðhæfingu kæranda að hann hafi á árinu 1996 (sic) selt sinn hluta í rekstri veitingahússins

Með vísan til ofangreinds og til forsendna hins kærða úrskurðar er það krafa ríkisskattstjóra að kröfum kæranda verði synjað að svo stöddu .“

II.

Telja verður að kæran varði annars vegar kæruúrskurð skattstjóra, dags. 4. nóvember 1996, varðandi gjaldárið 1996 og hins vegar kæruúrskurð skattstjóra, dags. 23. desember 1997, vegna gjaldársins 1997. Kæruefnið er sú breyting skattstjóra á tilfærðum frádrætti vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, sem upphaflega var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 24. júlí 1996, og varðaði gjaldárið 1996. Álagningu það gjaldár mótmælti kærandi með bréfi, dags. 28. ágúst 1996, og vísaði skattstjóri kærunni frá með fyrrgreindum kæruúrskurði. Breyting skattstjóra gjaldárið 1997, sbr. tilkynningu, dags. 24. júlí 1997, og kæruúrskurð, dags. 23. desember 1997, laut aðeins að því að framfylgja þeirri ákvörðun, sem tekin var fyrra gjaldárið. Telja verður að ef kærandi vildi ekki una breytingu skattstjóra gjaldárið 1996 hefði honum borið að reka réttar síns og skjóta málinu til yfirskattanefndar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Hvað varðar gjaldárið 1996 er kæran til yfirskattanefndar, dags. 12. janúar 1998, fram komin að kærufresti til nefndarinnar löngu liðnum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, enda er kæruúrskurður skattstjóra vegna þess gjaldárs dagsettur 4. nóvember 1996 og ekki liggur annað fyrir en hann hafi verið póstlagður þann dag. Að því er snertir breytingu skattstjóra gjaldárið 1997 þá verður í samræmi við framanritað ekki talið að kærandi geti komið að efnislegum mótmælum við þá leiðréttingu sem samkvæmt framansögðu leiddi einungis af hinni fyrri ákvörðun.

Með skírskotun til þess sem að framan greinir er kærunni vísað frá yfirskattanefnd.

Tekið skal fram að yfirskattanefnd hefur ekki hliðstæða heimild til breytinga á áður álögðum opinberum gjöldum og ríkisskattstjóra er veitt með 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja