Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tryggingabætur
  • Teknategund

Úrskurður nr. 65/1999

Gjaldár 1994

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul., B-liður, 28. gr. 2. tölul., 31. gr. 1. tölul., 66. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr., 15. gr.  

Fallist var á það með kæranda að telja bæri fengnar tryggingabætur vegna tímabundinnar örorku til rekstrartekna hans. Var m.a. vísað til þess að í skatt- og úrskurðaframkvæmd hefði verið fallist á að telja iðgjöld sjálfstætt starfandi manna af slíkri tryggingu, sem um ræddi í málinu, til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar þeirra.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 14. júlí 1997, fór skattstjóri fram á það við kæranda að gerð yrði grein fyrir greiðslu slysabóta vegna tímabundinnar örorku að fjárhæð 118.553 kr. tekjuárið 1993 sem kærandi hefði fengið frá X hf. en ekki talið fram til tekna í skattframtali sínu árið 1994. Vísaði skattstjóri til upplýsinga frá tryggingafélaginu, er hann hefði undir höndum, þar sem fram kæmi að kærandi hefði þegið umræddar slysabætur. Kvaðst skattstjóri ekki fá annað séð en að um skattskyldar tekjur væri að ræða samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Umboðsmaður kæranda svaraði bréfi skattstjóra með bréfi, dags. 23. júlí 1997, þar sem hann greindi frá því að kærandi hefði litið svo á að umrædd greiðsla félli undir ákvæði 2. tölul. 28. gr. laga nr. 75/1981 og því ekki talið greiðsluna fram í skattframtali sínu árið 1994.

Með bréfi, dags. 1. september 1997, tilkynnti skattstjóri kæranda að fyrirhugað væri að endurákvarða opinber gjöld hans gjaldárið 1994 vegna tekjufærslu hjá honum á 118.553 kr. Vegna þeirrar viðbáru kæranda í bréfi, dags. 23. júlí 1997, að greiðsla slysabóta á árinu 1993 félli undir ákvæði 2. tölul. 28. gr. laga nr. 75/1981 tók skattstjóri fram að engin gögn hefðu verið lögð fram því til staðfestingar að um væri að ræða greiðslu vegna varanlegrar örorku, t.d. lokauppgjör tryggingafélags. Ítrekaði skattstjóri að ekki yrði annað séð en að um skattskyldar tekjur væri að ræða samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Kæranda var gefinn 15 daga frestur til að leggja fram andmæli sín.

Með bréfi, dags. 15. september 1997, mótmælti umboðsmaður kæranda skattlagningu umræddra slysabóta og benti á að kærandi teldi sig ekki hafa fengið í hendur lokauppgjör frá tryggingafélaginu. Þá fór umboðsmaður fram á það með bréfi, dags. 11. nóvember 1997, að ef slysabæturnar yrðu taldar skattskyldar tekjur kæranda yrði honum veitt ívilnun á grundvelli 66. gr. laga nr. 75/1981.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 6. apríl 1998, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd, hækkaði tekjur kæranda um 118.553 kr. á skattframtali 1994 og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld hans gjaldárið 1994 til samræmis við það. Kvað skattstjóri liggja fyrir og vera ómótmælt að kærandi hefði fengið greiddar bætur vegna tímabundinnar örorku frá tryggingafélagi á árinu 1993 sem teldust til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, enda hvorki undanþegnar skattskyldu samkvæmt 2. tölul. 28. gr. sömu laga né öðrum ákvæðum laganna. Þá synjaði skattstjóri beiðni kæranda um ívilnun samkvæmt 66. gr. laga nr. 75/1981.

II.

Með kæru, dags. 4. maí 1998, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun til yfirskattanefndar. Í kærunni kveður umboðsmaður liggja fyrir að kærandi hafi fengið umræddar bætur að fjárhæð 118.553 kr. greiddar. Þá sé ljóst að bætur þessar hafi kærandi fengið vegna slyss sem hann hafi orðið fyrir í starfi sínu sem sjálfstæður atvinnurekandi. Af því leiði að eðlilegra sé að bæturnar færist til tekna í rekstrarreikningi en á skattframtali. Megi í því sambandi benda á að reiknuðu endurgjaldi og gjöldum því tengdu hafi verið skilað reglulega þann tíma sem bæturnar náðu yfir. Sé því gerð krafa um að umræddar bætur verði færðar til tekna í rekstrarreikningi kæranda.

Með bréfi, dags. 25. september 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að mati ríkisskattstjóra hefur kærandi ekki lagt fram nauðsynleg gögn er leiða ættu til breytinga á úrskurði skattstjóra. Hefur kærandi þannig ekki lagt fram sundurliðanir á gjaldaliðnum „tryggingar“ í rekstrarreikningi sínum er leggi sönnur á það að hann hafi greitt iðgjaldagreiðslur vegna slysabóta þeirra er málið snýst um.

Með vísan til ofangreinds og til forsendna hins kærða skattstjóraúrskurðar er það krafa ríkisskattstjóra að kröfum kæranda verði synjað að svo stöddu.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 17. desember 1998, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra og gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði í kröfugerðinni sem hann teldi ástæðu til. Svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 9. janúar 1999, barst yfirskattanefnd hinn 11. janúar 1999. Þar segir m.a. svo:

„[Kærandi] hefur með slysatryggingu sinni ekki aðrar tekjur að verja en rekstrartekjur sínar. Hann hefur og ekki aðrar tekjur til að greiða iðgjöld af umræddri tryggingu. Af því leiðir, að greiðslumáti tryggingar sýnist ekki koma máli þessu við. Hjálagt fylgir ljósrit af kvittun frá X hf. vegna greiðslu á umræddri slysatryggingu kr. 57.325 sem gjaldfærð er í rekstrarreikningi. Ítrekuð er krafa um, að umræddar bætur verði færðar til tekna í rekstursreikningi, svo sem tíðkað hefur verið í afgreiðslu skattstjóra í sambærilegum málum.“

III.

Samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teljast til skattskyldra tekna, með þeim undantekningum og takmörkunum er greinir í lögunum, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Í dæmaskyni um skattskyldar tekjur er m.a. í 2. tölul. A-liðar sömu lagagreinar tilgreindar tryggingabætur, meðlög og styrkir. Skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar aðrar skaðabætur og vátryggingabætur, sbr. þó 2. tölul. 28. gr. laganna. Í nefndum 2. tölul. 28. gr. er kveðið á um að til skattskyldra tekna teljist ekki eignaauki sem verður vegna greiðslu líftryggingafjár, dánarbóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku, enda séu bætur þessar ákveðnar í einu lagi til greiðslu.

Í framhaldi af fyrirspurnarbréfi sínu, dags. 14. júlí 1997, og að fengnu svarbréfi kæranda, dags. 23. júlí 1997, boðaði skattstjóri kæranda umrædda tekjuhækkun í bréfi, dags. 1. september 1997, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, eins og grein þessari var breytt með 16. gr. laga nr. 145/1995. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 6. apríl 1998, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd samkvæmt 5. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 16. gr. laga nr. 145/1995. Var úrskurður þessi kæranlegur til yfirskattanefndar samkvæmt 6. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 16. gr. laga nr. 145/1995.

Skattstjóri skattlagði hjá kæranda umræddar bætur vegna tímabundinnar örorku frá X hf. og vísaði til þess að um væri að ræða skattskyldar tekjur samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Í fyrrgreindum bréfum sínum vísaði skattstjóri til fyrirliggjandi upplýsinga frá tryggingafélaginu án þess þó að gera nánari grein fyrir gögnunum eða kynna kæranda þau svo sem rétt hefði verið, sbr. 13. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og eftir atvikum á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga.

Samkvæmt framansögðu voru ágallar á meðferð skattstjóra á málinu. Þar sem út af fyrir sig er enginn ágreiningur um það að umrædd greiðsla frá tryggingafélaginu sé skattskyldar tekjur kæranda, sbr. kröfugerð í kæru til yfirskattanefndar, þykir allt að einu rétt að veita kærunni efnislega úrlausn.

Kærandi stundar sjálfstæða starfsemi við akstur. Umboðsmaður kæranda hefur upplýst að um sé að ræða bætur úr slysatryggingu og komið er fram að iðgjöld af tryggingunni voru gjaldfærð í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1993 vegna aksturs. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við þá gjaldfærslu. Í skattframkvæmd, sbr. og úrskurðaframkvæmd yfirskattanefndar, hefur verið fallist á að telja iðgjöld sjálfstætt starfandi manna af slíkri tryggingu, sem hér um ræðir, til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar þeirra samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af þessu leiðir að fengnar tryggingabætur, sem í máli þessu greinir, teljast til rekstrartekna kæranda, enda teljast hvers kyns tekjur sem taldar eru upp í 7. gr. laga nr. 75/1981 til tekna samkvæmt B-lið greinarinnar ef þær tengjast atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Samkvæmt þessu er krafa kæranda í málinu tekin til greina. Rekstrartap ársins lækkar samkvæmt þessu um 118.553 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja