Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur

Úrskurður nr. 176/1999

Virðisaukaskattur 1997

Lög nr. 50/1988, 5. gr., 20. gr. 1. mgr.   Reglugerð nr. 50/1993, II. kafli, 15. gr.   Reglugerð nr. 192/1993, 1. gr.  

Fallist var á kröfu kæranda um frádrátt innskatts samkvæmt tveimur reikningum frá aðila sem felldur hafði verið af grunnskrá virðisaukaskatts, enda var óumdeilt að kærandi hafði greitt virðisaukaskatt samkvæmt reikningunum, að reikningarnir uppfylltu skilyrði fyrir sönnun innskatts og að um væri að ræða kaup á virðisaukaskattsskyldri þjónustu.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 18. mars 1998, fór skattstjóri fram á það við kæranda með vísan til 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að hann gerði grein fyrir innskattsfrádrætti vegna virðisaukaskattstímabilsins júlí-desember 1997, sbr. innsenda virðisaukaskattsskýrslu fyrir það uppgjörstímabil. Skyldu þeir liðir skýrðir, sem mynduðu meirihluta innskatts á tímabilinu, með afritum af helstu fylgiskjölum, auk útskriftar úr bókhaldi (sundurliðunarbók) yfir færslur á innskattslykil í fylgiskjalanúmeraröð.

Að fengnum gögnum frá kæranda hinn 7. apríl 1998 boðaði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 14. apríl 1998, lækkun innskatts 48.106 kr. á fyrrgreindu virðisaukaskattstímabili samkvæmt tveimur tilgreindum reikningum (fskj. nr. 139 og 215) útgefnum af X, húsasmíðameistara, á þeim grundvelli að virðisaukaskattsnúmer þessa aðila (vsk. nr. 19400) væri lokað og því skoðaðist innskattsfrádráttur af slíkum fylgiskjölum óheimill. Þá var boðuð beiting álags samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988 og tekið fram að um útreikning dráttarvaxta færi samkvæmt 28. gr. sömu laga.

Af hálfu kæranda voru ekki gerðar athugasemdir við hina boðuðu lækkun skattstjóra á innskatti umrætt tímabil. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 18. maí 1998, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 149/1996, og lækkaði tilgreindan innskatt samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu, dags. 2. mars 1998, fyrir uppgjörstímabilið júlí-desember 1997, úr 634.936 kr. í 586.830 kr. eða um 48.106 kr., enda væri innskattsfrádráttur af fylgiskjölum nr. 139 og 215 ekki heimill, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, með síðari breytingum. Skattstjóri bætti 10% álagi eða 4.811 kr. við hækkun virðisaukaskatts samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Næst gerðist það í málinu að með bréfi, dags. 26. maí 1998, sneri umboðsmaður kæranda sér til skattstjóra og fór fram á endurupptöku hans á úrskurði um endurákvörðun, dags. 18. maí 1998. Sagði svo í bréfi þessu:

„Málavextir eru þeir að ofangreindur skattþegn sem er bóndi nýtti sér innskatt af reikningi frá X. Skattstofan hafnaði reikningnum á þeirri forsendu að virðisaukaskattsnúmer X væri lokað. Umræddur reikningur er til kominn vegna smíðavinnu, sem X innti af hendi fyrir [kæranda] … Undirrituð getur ekki séð hvernig hægt er að hafna löglegum reikningi frá X á þeim forsendum að Vsk númer sé lokað. Hvernig geta skattþegnar þessa lands fylgst með hvaða númer eru opin og hvaða númer lokuð?

Fyrir hönd skattþegns tilkynnir undirrituð að skattþegn telur sig vera í fullum rétti með að nýta sér þennan innskatt.“

Skattstjóri tók beiðni umboðsmanns kæranda um endurupptöku til meðferðar hinn 15. júní 1998 og hafnaði því að taka málið til meðferðar að nýju, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda væri efnislega ekkert nýtt í erindi umboðsmanns kæranda, heldur einungis lýst þeirri skoðun að umræddir reikningar væru löglegir og innskattsfrádráttur heimill þrátt fyrir að virðisaukaskattsnúmer útgefanda væri lokað. Skattstjóri hefði tekið afstöðu til þessa, sbr. bréf, dags. 14. apríl 1998. Jafnframt höfnun um endurupptöku framsendi skattstjóri yfirskattanefnd endurupptökubeiðni umboðsmanns kæranda, dags. 26. maí 1998, og vísaði til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.

Með bréfi, dags. 9. október 1998, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 443/1996.“

III.

Eins og fram hefur komið leitaði umboðsmaður kæranda eftir endurupptöku á úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 18. maí 1998, með bréfi sínu, dags. 26. maí 1998, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við þær aðstæður rofnaði kærufrestur til yfirskattanefndar vegna hinnar umdeildu endurákvörðunar, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frá því að höfnun skattstjóra með bréfi, dags. 15. júní 1998, á því að taka málið til nýrrar meðferðar var tilkynnt kæranda hélt kærufrestur til yfirskattanefndar áfram að líða að nýju, sbr. niðurlagsákvæði 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af hálfu kæranda hefur úrskurði skattstjóra um endurákvörðun út af fyrir sig ekki verið skotið til yfirskattanefndar. Skattstjóri hefur hins vegar jafnframt synjun sinni um endurupptöku framsent yfirskattanefnd beiðni umboðsmanns kæranda um endurupptöku, dags. 26. maí 1998, sem kæru til nefndarinnar. Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 23. júní 1998, var kæranda tilkynnt um móttöku erindisins sem kæru. Ekki hafa borist athugasemdir frá kæranda af því tilefni. Samkvæmt framansögðu þykir rétt að líta á umrætt erindi, dags. 26. maí 1998, sem kæru til yfirskattanefndar.

Eins og fram hefur komið byggði skattstjóri synjun sína um frádrátt innskatts vegna umræddra reikninga á því að virðisaukaskattsnúmer nefnds X væri „lokað“. Verður að skilja þetta svo að umræddur aðili hafi verið felldur af grunnskrá virðisaukaskatts, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og því ekki verið skráður samkvæmt lögunum.

Óumdeilt er að kæranda var gert að greiða virðisaukaskatt samtals að fjárhæð 48.106 kr. samkvæmt umræddum reikningum útgefnum af X. Ekki verður annað séð en reikningar þessir uppfylli skilyrði 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, II. kafla reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, sbr. og 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, hvað varðar form og efni, og hefur skattstjóri út af fyrir sig ekki dregið í efa að svo sé.

Samkvæmt þessu og þar sem skattstjóri hefur ekki dregið í efa að greiðslur kæranda til nefnds X hafi verið vegna kaupa á þjónustu sem skattskyld var samkvæmt ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þykir rétt að taka kröfu kæranda til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja