Úrskurður yfirskattanefndar

  • Áætlun skattstofna
  • Framfærslueyrir

Úrskurður nr. 195/1999

Gjaldár 1998

Lög nr. 75/1981, 96. gr. 1. mgr.  

Skattstjóri synjaði að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda sökum þess að framfærslueyrir væri neikvæður og skýringar kæranda í þeim efnum ekki fullnægjandi. Með kæru til yfirskattanefndar fylgdi yfirlýsing föður kæranda um fjárhagsaðstoð við hana. Yfirskattanefnd taldi að jafnvel þótt byggt yrði á skýringu kæranda um fjárstuðning föður hennar yrði að telja framfærslueyri kæranda afbrigðilega lágan. Var kærunni vísað frá yfirskattanefnd að svo stöddu, en áætlun skattstjóra á tekjuskatts- og útsvarsstofni lækkuð.

I.

Málavextir eru þeir helstir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1998 og sætti kærandi af þeim sökum áætlun skattstjóra á gjaldstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda árið 1998 barst skattstjóra í hendur 2. júní 1998. Á framtalinu taldi kærandi sér til tekna launatekjur frá Y hf. að fjárhæð 153.797 kr. og reiknað endurgjald vegna hárgreiðslustarfa að fjárhæð 100.000 kr. Þá taldi kærandi 5.250 kr. greiðslu úr sjúkrasjóði stéttarfélags til skattfrjálsra tekna. Til frádráttar færði kærandi iðgjald í lífeyrissjóð að fjárhæð 5.584 kr. Tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda nam 248.213 kr. Til eignar taldi kærandi fasteign að fjárhæð 581.810 kr., bifreið að fjárhæð 583.200 kr. og hreina eign samkvæmt efnahagsreikningi 863.839 kr. Til skulda taldi kærandi skammtímalán frá X að fjárhæð 950.000 kr.

Með bréfi, dags. 19. október 1998, óskaði skattstjóri eftir skýringum kæranda á að lífeyrir kæranda hefði verið neikvæður samkvæmt skattframtali ársins 1998. Með bréfinu fylgdi lífeyrisútreikningur skattstjóra þar sem kom fram að framfærslueyrir kæranda var neikvæður um 135.694 kr.

Í bréfi umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 12. nóvember 1998, kom fram að á árinu 1997 hefði kærandi keypt hlut í hárgreiðslustofu. Kvað hann rekstraraðila vera tvo og rekstur skráðan á kennitölu hvors aðila fyrir sig. Á árinu 1997 hefði reksturinn ekki gengið vel og kærandi fengið fjárhagsaðstoð frá föður sínum, X, til að ná endum saman. Tók umboðsmaðurinn fram að umrædd aðstoð hefði verið með þeim hætti að ekki yrði séð nákvæmlega hvað hún hefði verið mikil

Með kæruúrskurði, dags. 15. desember 1998, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda um að álagning opinberra gjalda yrði byggð á skattframtali hennar. Í forsendum úrskurðarins segir m.a.:

„Með bréfi dags. 19. október sl. var óskað skýringa á því að lífeyrir samkvæmt framtali og fylgigögnum var neikvæður og bent á að með þessum ágalla er skattframtal ófullnægjandi heimild um tekjur, eignir og önnur atriði.

Í svarbréfi dags. 12 nóvember sl. kemur einungis fram að fengin hafi verið fjárhagsaðstoð hjá föður kæranda. Engar upplýsingar fylgdu með hvaða hætti sú fjárhagsaðstoð var og ekki lögð fram nein gögn. Á framtali föður kemur heldur ekkert fram um þessa fjárhagsaðstoð, hvorki er talið þar fram lán til dóttur né styrkur.

Með vísan til framangreindra athugasemda þykir hið innsenda skattframtal ekki vera nægilega traustur grundvöllur til að byggja álagningu opinberra gjalda 1998 á og er því hafnað.“

Með kæru, dags. 8. janúar 1999, hefur umboðsmaður kæranda kært kæruúrskurð skattstjóra til yfirskattanefndar. Hann gerir kröfu um að skattframtal kæranda verði tekið til álagningar á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu. Kærunni fylgir yfirlýsing frá X, dags. 7 janúar 1999, þar sem segir m.a.:

„Mér er kunnugt um að þær forsendur um tekjur sem gefnar voru áður en rekstur dóttur minnar hófst brugðust að mestu þannig að framfærsla var ekki fyrir hendi á grundvelli skattframtals hennar. Ég hef því veitt henni fjárstuðning sem í fyrsta lagi fólst í láni að fjárhæð 950.000 kr. og hefur hún talið þá fjárhæð fram til skuldar við mig á skattframtali sínu. Þessu til viðbótar hef ég afhent dóttur minni óreglulega styrki til framfærslu án þess að sérstök skráning hafi átt sér stað þar um.

[…] Við lauslega samantekt með dóttur minni höfum við komist að niðurstöðu með að fjárstuðningur minn í þessu sambandi hafi getað numið um 300.000 kr. og er það mat mitt að slíkir fjármunir þurfi ekki að skoðast sem einhver lánveiting heldur aðstoð föður og dóttur við aðstæður sem þessar.“

Með bréfi, dags. 5. febrúar 1999, hefur ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Samkvæmt skattframtali kæranda var lífeyrir hans á árinu 1997 neikvæður um 135.694 kr., sbr. útreikning í bréfi skattstjóra dagsettu 19. október 1998. Að teknu tilliti til framfærslueyris frá föður samkvæmt upplýsingum í kæru hækkar lífeyririnn um 300.000 kr. og verður jákvæður um 164.306 kr. eða um 450 kr. á dag. Þessi fjárhæð getur ekki hafa nægt kæranda til greiðslu fæðis, klæða húsnæðis og annars framfærslukostnaðar. Líklegt er að húsnæðiskostnaður kæranda einn og sér sé verulega umfram nú fram talinn heildarlífeyri kæranda. Að svo vöxnu máli verður álagning ekki byggð á framtalinu og telur ríkisskattstjóri að staðfesta beri úrskurð skattstjóra með vísan til forsendna hans.“

II.

Með bréfi skattstjóra, dags. 19. október 1998, fylgdi útreikningur á framfærslueyri kæranda árið 1997 þar sem fram kom að framfærslueyrir var neikvæður um 135.694 kr. Óumdeilt er að útreikningur þessi er réttur að því undanskildu að á vanti fjárhagsstuðning föður kæranda sem talinn er hafa numið 300.000 kr., sbr. kæru til yfirskattanefndar, dags. 8. janúar 1999, og meðfylgjandi yfirlýsingu föður. Enda þótt byggt yrði á þessari skýringu, verður allt að einu að telja að framfærslueyrir kæranda sé afbrigðilega lágur þannig að skýringin nægi ekki til þess að unnt sé að fallast á skattframtalið, sbr. kröfugerð ríkisskattstjóra, dags. 5. febrúar 1999. Að svo vöxnu þykir verða að vísa kærunni frá yfirskattanefnd. Eftir öllum atvikum þykir mega lækka áætlun skattstjóra á tekjuskatts- og útsvarsstofni í 700.000 kr. auk álags.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá að svo stöddu. Stofn til tekjuskatts og útsvars verður 700.000 kr. auk álags.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja