Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollflokkun

Úrskurður nr. 201/2015

Lög nr. 88/2005, 20. gr.   Almennar reglur um túlkun tollskrár.  

Deilt var um tollflokkun flatskjáa sem kærandi hafði flutt til landsins. Yfirskattanefnd féllst á með tollstjóra að skjáirnir gætu ekki talist gerðir „eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum“ og gætu þar af leiðandi ekki fallið undir tollskrárnúmer 8528.5100 í tollskrá. Var m.a. bent á að skjárinn væri ekki eingöngu búinn tengjum sem telja mætti einkennandi fyrir gagnavinnslukerfi og að í kynningarefni frá seljanda væri lögð áhersla á þá möguleika sem skjárinn veitti til áhorfs á myndefni í miklum gæðum.

I.

Kæra í máli þessu, dags. 10. apríl 2012, varðar úrskurð tollstjóra, dags. 10. febrúar 2012, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á tölvuskjám. Kemur fram í kærunni að ágreiningur sé um tollflokkun skjáanna, en við tollafgreiðslu var lagt til grundvallar að skjáirnir féllu undir tollskrárnúmer 8528.5900 í tollskrá. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun tollstjóra verði hnekkt og umræddir tölvuskjáir taldir falla undir tollskrárnúmer 8528.5100. Tekið skal fram að yfirskattanefnd fékk málið til meðferðar við gildistöku laga nr. 123/2014, um breytingu á lögum um yfirskattanefnd og fleiri lögum, hinn 1. janúar 2015, sbr. 17. gr. hinna fyrstnefndu laga.

II.

Helstu málavextir eru þeir að hinn 19. október 2011 flutti kærandi inn til landsins tölvuskjái, þar með talið skjái af tegundinni AOC E2795VH frá Hollandi. Við rafræna tollafgreiðslu var byggt á því að greindir skjáir féllu undir tollskrárnúmer 8528.5900 í tollskrá.

Með kæru, sem barst tollstjóra þann 6. janúar 2012, mótmælti kærandi álagningu aðflutningsgjalda vegna innflutnings tölvuskjáa sem taldir hefðu verið falla undir tollflokk 8528.5900 og krafðist þess að álagningin tæki mið af því að skjáirnir féllu undir tollflokk 8528.5100. Í kærunni kom fram að um væri að ræða tölvuskjái til almennrar sölu sem bæru ýmis tengi eða VGA, DVI, HDMI og DisplayPort. Skjáirnir væru á standi sem gæfi færi á að stilla halla á skjá og ekki útbúnir raufum eða innbyggðu plássi fyrir stýrispjöld til að framkvæma vinnslu á gögnum frá jaðarbúnaði og varpa niðurstöðu á skjáinn. Var í þessu sambandi skírskotað til skýringarmynda af skjánum og upplýsinga á vefsvæði framleiðanda (www.aoc-europe.com).

Með úrskurði, dags. 10. febrúar 2012, hafnaði tollstjóri kröfu kæranda. Í úrskurði tollstjóra kom fram að málið snerist um tollflokkun tölvuskjáa (flatskjáa) sem hefðu ýmsa tengimöguleika, m.a. D-SUB, DVI-D, HDMI og USB. Tók tollstjóri fram að samkvæmt upplýsingum á vef framleiðanda væri skjárinn með veggfestingu og hvorki hægt að breyta hæð hans né halla, eins og fram kæmi í kæru kæranda. Þá væru innbyggðir hátalarar í skjánum. Við skjáinn væri hægt að tengja ýmis jaðartæki gegnum stafræna skjátengið HDMI, en slíkt tengi gæti flutt bæði mynd og hljóð í hæstu gæðum sem og aðra stafræna tækni. Hvaða jaðartæki sem væri gæti birt upplýsingar á skjánum og væri engrar stýringar eða vinnslu þörf frá skjánum þar sem stýringin færi fram í jaðartækinu sem sendi gögnin til aflestrar í gegnum HDMI tengi og kapal. Þannig væri hægt að nota skjáinn hvort sem er með gagnavinnsluvél (tölvu) eða sem almennan skjá. Yrði því ekki fallist á með kæranda að notkun skjásins væri eingöngu bundin við tölvu. Vöruliður 8528 tæki til skjáa og myndvarpa, án sjónvarpsmóttökubúnaðar; móttökutækja fyrir sjónvarp, einnig með útvarpsviðtæki eða hljóð- eða myndbandsupptökubúnaði eða flutningsbúnaði. Ætti undirliðurinn „aðrir skjáir“ við um tollflokkun á flatskjá með framangreindri lýsingu og samkvæmt 6. tölul. almennra reglna um túlkun tollskrár bæri að byggja tollflokkun í undirliði á orðalagi. Bæri því að flokka vöruna í tollskrárnúmer 8528.5900 sem aðra skjái en þá sem væru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum í nr. 8471. Þessari niðurstöðu til stuðnings vísaði tollstjóri ennfremur til c-liðar 3. tölul. almennra reglna um túlkun tollskrár. Loks benti tollstjóri á að niðurstaða hans væri í samræmi við ákvörðun sem tekin hefði verið á 48. samráðsfundi tollskrárnefndar Alþjóðatollastofnunarinnar (e. World Customs Organization). Með vísan framangreinds yrði að fella umrædda vöru AOC E2795VH undir tollskrárnúmer 8528.5900.

III.

Með kæru, dags. 10. apríl 2012, skaut kærandi framangreindum úrskurði tollstjóra til ríkistollanefndar, sbr. sbr. kæruheimild í þágildandi 1. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í kærunni kom fram að tollstjóri hefði fellt hina innfluttu tölvuskjái undir tollskrárnúmer 8528.5900 á þeim forsendum að skjáirnir væru búnir HDMI-tengi. Um væri að ræða merkjastaðal sem notaður væri m.a. fyrir gagnavinnsluvélar og myndmerkið væri hið sama og samkvæmt DVI-staðli sem einnig væri mikið notaður við gagnavinnslu. Nú væru uppi áform hjá helstu framleiðendum innan tölvugeirans að leggja niður DVI- og VGA-staðlana og nota þess í stað HDMI og Display Port frá og með árinu 2015. HDMI-staðall væri því nú þegar orðinn þungamiðja í tækniþróun gagnavinnsluvéla. Fráleitt væri því að skjáir með HDMI-tengjum væru sjálfkrafa undanskildir undirlið 8528.5100 í tollskrá, enda væri það tengi jafnan notað til að tengja gagnavinnsluvélar við skjáina, svo sem fartölvur, spjaldtölvur, leikjatölvur o.fl. Skjárinn sem um ræddi væri að öllu leyti hefðbundinn skjár fyrir gagnavinnsluvél með viðeigandi skjátengjum (VGA, DVI og HDMI), hallastillingu á fæti sem væri skýlaus krafa fyrir gagnavinnsluvél vegna návígis notanda við skjáinn, gæfi ekki færi á að bæta við stýringum fyrir aðra tengistaðla en þá sem fyrir væru og væri þar að auki útbúinn innbyggðu USB-fjöltengi sem væri gagnslaust nema skjárinn væri tengdur gagnavinnsluvél. Í kærunni kom fram að ónákvæmt væri að halda því fram að hvaða jaðartæki sem er gæti birt upplýsingar á skjánum vegna HDMI-tengisins. Þótt HDMI-staðall væri orðinn útbreiddur í heimabíókerfum og háskerpu afspilunarbúnaði þá væri staðallinn langt í frá algildur þegar viðtæki væru annars vegar. Þannig væri hægt að tengja öll sömu tæki við skjáinn í gegnum DVI-tengi þar sem myndmerkið væri hið sama í báðum tilvikum. Miðað við það ættu allir skjáir með DVI-tengi að flokkast í sama undirlið og skjáir með HDMI-tengi.

Í kærunni vék kærandi m.a. að tilvísun tollstjóra til túlkunarreglu 3c í tollskrá til stuðnings því að hinir umdeildu skjáir féllu undir tollskrárnúmer 8528.5900 og benti á að ekki væri um það að ræða í málinu að til álita kæmi að fella vöruna undir tvo eða fleiri undirliði þar sem undirliðir 8528.5100 annars vegar og 8528.5900 hins vegar útilokuðu hvor um sig hinn. Ef vara gæti fallið undir einhverja vöruliði sem væru framar safnliðnum „aðrir“ gæfi augaleið að túlkunarregla 3c krefðist þess að flokkað væri í þann síðasta af þeim liðum. Engan veginn fengi því staðist að telja liðinn „aðrir“ jafnsettan öðrum liðum í sama vörulið, enda myndu allar vörur þá falla í þann flokk. Skjár gæti fallið undir undirlið 5100 ef hann væri í grundvallaratriðum ætlaður sem tölvuskjár. Eftirtaldir eiginleikar einkenndu tölvuskjái án undantekninga: 1) skjáirnir væru á fæti, 2) þeir væru búnir einu eða fleirum af tengjunum VGA, DVI, HDMI eða Display Port og 3) ekki væri gert ráð fyrir að í slíkum skjám væri unnt að nota tengispjöld eða sérhannaða merkjabreyta sem notuðu aðra tengistaðla en að framan væri rakið. Sá skjábúnaður, sem til umfjöllunar sé í ákvörðun Alþjóðatollastofnunarinnar sem tollstjóri hafi vísað til, sé einmitt af þeim toga, þ.e. notist við sérhæfðar merkjabreytur/tengispjöld. Sú túlkun tollstjóra, að tölvuskjárinn sé útilokaður frá undirlið 8528.5100 þar sem hann geti tekið við merki frá utanaðkomandi uppsprettu annarri en gagnavinnsluvél, fengi samkvæmt framansögðu ekki staðist.

IV.

Með bréfi, dags. 21. maí 2012, lagði tollstjóri fram umsögn í máli kæranda, sbr. þágildandi 4. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í umsögninni er þess krafist að úrskurður tollstjóra verði staðfestur. Segir m.a. svo í umsögninni:

„Ágreiningur í máli þessu snýr að ákvörðun Tollstjóra þess efnis að skjáir af gerðinni AOC E2795VH skyldu flokkast í tollskrárnúmer 8528.5900. Um er að ræða 68,5 cm (27“) flatskjái. Ýmsir tengimöguleikar eru við skjáinn m.a. D-SUB, DVI-D, HDMI og USB. Hægt er að tengja ýmis jaðartæki í gegnum stafræna skjátengið HDMI. Slíkt tengi getur bæði flutt mynd og hljóð í hæstu gæðum sem og aðra stafræna tækni. HDMI tengið gerir það að verkum að mörg jaðartæki geta birt upplýsingar á skjánum en engrar stýringar eða vinnslu er þörf á skjánum. Stýring fer fram í jaðartækinu sem sendir gögnin til aflestrar í gegnum HDMI tengi og kapal. Skjár með HDMI tengi getur túlkað og birt þau gögn. Af þessu leiðir að hægt er að nota skjáinn hvort heldur sem er með gagnavinnsluvél (tölvu) eða sem annan almennan skjá.

[...]

Þeir skjáir sem ágreiningur þessi stendur um eru með tengimöguleikum í gegnum VGA, DVI, DisplayPort (DP) og HDMI. Embætti Tollstjóra hefur litið svo á að VGA, DVI og DP séu tölvutengingar þó svo að DVI og DP gefi ýmsa aðra möguleika í gegnum viðbótar búnað líkt og sérhæfðar snúrur. Eins og kærandi bendir á þá er hægt að fá snúrur fyrir DP yfir í HDMI og milli DVI og HDMI. Er það mat embættisins að það hafi ekki áhrif á mat á tollflokkun skjásins þar sem verið er að meta skjáinn sem slíkan án alls aukabúnaðar.

HDMI tengi gefur ýmsa möguleika einkum vegna þess að hátalarar eru í skjánum. Kærandi reynir að draga úr þessum eiginleika skjásins í kæru sinni, en embættið vill benda á að slíkt tengi sé fyrir hendi til að víkka notkunarmöguleika skjásins. Í því sambandi má nefna að í kynningargögnum seljanda kemur fram að í fullri upplausn sé einnig hægt að horfa á myndir og spila leiki. Þykir þetta styrkja enn frekar það mat embættis Tollstjóra að umræddir skjáir séu ekki eingöngu ætlaðir sem tölvuskjáir.

Varðandi það að skjárinn getur fengist á hallanlegum fæti, þá verður því ekki mótmælt að fótur geti fylgt skjánum. Hins vegar kemur fram í gögnum frá seljanda sem embættið hefur kynnt sér að seljandi leggur áherslu á að skjárinn sé tilvalinn til þess að festa upp á vegg (e. ideal for wall-mounting).

Af ofangreindu má sjá að tilvitnun embættisins í túlkunarreglu 3. c á fullan rétt á sér. Ef megin notkun tækisins væri óumdeild hefði að öllum líkindum verið vitnað í athugasemd 3 við flokk XVI.

Að öðru leyti vísast til hins kærða úrskurðar.“

Með bréfi ríkistollanefndar, dags. 1. júní 2012, var kæranda send umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni.

Með tölvupósti til ríkistollanefndar, dags. 30. ágúst 2012, gerði kærandi grein fyrir athugasemdum sínum.

Þar sem afgreiðslu máls kæranda var ólokið við gildistöku laga nr. 123/2014 hinn 1. janúar 2015 tók yfirskattanefnd við meðferð málsins frá þeim degi, sbr. 17. gr. nefndra laga.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á skjám á árinu 2011, nánar tiltekið tollflokkun skjáanna, sbr. úrskurð tollstjóra, dags. 10. febrúar 2012. Fram er komið að um er að ræða 68,5 cm (27“) flatskjái af tegundinni AOC E2795VH frá Hollandi með bera ýmis tengi, m.a. D-SUB, DVI-D, HDMI og USB, sbr. lýsingu í hinum kærða úrskurði tollstjóra og í kæru kæranda til ríkistollanefndar. Fyrir liggur að skjáirnir eru með innbyggðum hátölurum. Þá virðist ágreiningslaust að skjáirnir séu búnir stillanlegum fæti þannig að hægt sé að stilla halla á skjá, eins og haldið er fram af hálfu kæranda, en í umsögn tollstjóra er tekið fram að því verði ekki mótmælt að slíkur fótur geti fylgt skjánum. Eins og fram er komið taldi tollstjóri að skjáirnir gætu ekki talist gerðir „eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum í nr. 8471“ og gætu þar af leiðandi ekki talist falla undir tollskrárnúmer 8528.5100 í tollskrá. Féllu skjáirnir því undir tollskrárnúmer 8528.5900 sem aðrir skjáir. Lagði tollstjóri í því sambandi áherslu á að þar sem umræddir skjáir væru búnir stafrænu skjátengi, þ.e. HDMI tengi, væri unnt að tengja ýmis jaðartæki við skjána sem birt gætu upplýsingar á skjánum án þess að nokkurrar stýringar eða vinnslu væri þörf á skjánum sjálfum. Þá skírskotaði tollstjóri til upplýsinga á vef seljanda þar sem vakin væri sérstök athygli á því að í fullri upplausn væri skjárinn hentugur til að horfa á myndir eða spila leiki og tilvalinn til að festa upp á vegg. Af hálfu kæranda hefur því hins vegar verið haldið fram að hinn umdeildi skjár sé fyrst og fremst ætlaður til nota sem tölvuskjár. Er bent á í því sambandi í kæru til ríkistollanefndar að HDMI tengi séu óðum að ryðja sér til rúms sem merkjastaðall fyrir gagnavinnsluvélar. Fái ekki staðist að sá eiginleiki skjás einn og sér, að geta tekið við merki frá utanaðkomandi uppsprettu annarri en gagnavinnsluvél, eigi að útiloka skjáinn frá því að geta fallið undir tollskrárnúmer 8528.5100.

Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Í 85. kafla tollskrár er m.a. fjallað um rafbúnað og -tæki og hluta til þeirra. Falla skjáir og myndvörpur án sjónvarpsmóttökubúnaðar undir vörulið 8528 í þeim kafla og er þar gerður greinarmunur á annars vegar skjám með myndlampa (e. Cathode-ray tube monitors) og hins vegar öðrum skjám. Að því er snertir hina síðasttöldu skjái eru tilgreind tvö tollskrárnúmer, þ.e. tollskrárnúmer 8528.5100 sem tekur til skjáa „sem gerðir eru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum í nr. 8471“ og tollskrárnúmer 8528.5900 sem tekur til annarra skjáa.

Fyrir liggur að hinn umdeildi skjár er ekki eingöngu búinn tengjum sem telja má einkennandi fyrir gagnavinnslukerfi, þ.e. tengjum sem aðeins geta tekið við merkjum frá örgjörva gagnavinnsluvéla, og er auk þess búinn hátölurum. Í kynningarefni seljanda, sem tollstjóri hefur vísað til, er og lögð áhersla á þá möguleika sem skjárinn veitir til áhorfs á myndefni í miklum gæðum. Að þessu athuguðu verður að fallast á með tollstjóra að skjárinn geti ekki talist gerður eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum, sbr. tollskrárnúmer 8528.5100. Með vísan til þess og 1. tölul. í almennum reglum um túlkun tollskrár verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja