Úrskurður yfirskattanefndar

  • Takmörkuð skattskylda
  • Eignarskattur
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 262/1999

Gjaldár 1998

Lög nr. 75/1981, 3. gr. 9. tölul. (brl. nr. 145/1995, 2. gr. b-liður), 95. gr. 1. mgr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr.  

Staðfest var að kæranda, sem var búsettur erlendis en átti fasteignir hér á landi, bæri að greiða eignarskatt af öllum fasteignum sínum óháð því hvort þær gáfu af sér tekjur eða ekki.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem ber takmarkaða skattskyldu hér á landi, taldi fram á skattframtali sínu árið 1998 fasteignina X, 11.927.000 kr. Húsaleigutekjur í reit 521 voru tilgreindar 305.000 kr. Í athugasemdadálki framtalsins kom fram að eignarhlutir kæranda í fasteignunum Y og Z gæfu ekki af sér tekjur og féllu því ekki í þann hóp fasteigna sem nefndur væri í 5. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og væri eignarskattsskyldur skv. 9. tölul. sömu lagagreinar.

Með bréfi, dags. 28. júlí 1998, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 9. tölul. 3. gr., sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, að eignarhlutir hans í Y og Z, samtals að fjárhæð 6.462.175 kr., hefðu verið færðir til eignar á skattframtali hans árið 1998. Við álagningu opinberra gjalda árið 1998 var kæranda ákvarðaður eignarskattsstofn 18.389.175 kr. og opinber gjöld lögð á hann í samræmi við það.

Umboðsmaður kæranda kærði álagningu opinberra gjalda með kæru til skattstjóra, dags. 13. ágúst 1998, og mótmælti breytingu skattstjóra. Vék umboðsmaður að ákvæðum um takmarkaða skattskyldu í 3. gr. laga nr. 75/1981. Þar væri engin ákvæði sem kvæðu á um að kæranda bæri að greiða eignarskatt af framangreindum fasteignahlutum. Krafðist umboðsmaður kæranda þess að breyting skattstjóra samkvæmt bréfi, dags. 28. júlí 1998, yrði felld úr gildi.

Skattstjóri hafnaði kröfu kæranda með kæruúrskurði, dags. 15. desember 1998. Byggði hann á því að með b-lið 2. gr. laga nr. 145/1995 hefði verið gerð breyting á 9. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem fram hefði komið að allir sem ættu hér á landi eignir samkvæmt 4.–8. tölul. 3. gr. áðurnefndra laga skyldu greiða af þeim eignarskatt óháð því hvort þær gæfu af sér tekjur. Fyrir fyrrgreinda lagabreytingu hefði það verið skilyrði eignarskattsálagningar að eignirnar gæfu af sér tekjur. Samkvæmt d-lið 24. gr. laga nr. 145/1995 hefði nefnd lagabreyting komið til framkvæmda í fyrsta sinn við álagningu eignarskatts gjaldárið 1997. Eignir kæranda væru því réttilega skattlagðar í samræmi við áður tilvitnaða lagagrein.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 19. janúar 1999. Í kæru er gerð svofelld grein fyrir kæruefni:

„Ég ber takmarkaða skattskyldu á Íslandi og ber mér því aðeins að greiða eignarskatt af eignum skv. 4.–8. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981. Þeir töluliðir fjalla aðeins um tekjur og eina tilvísun í þeim til eigna er til þeirra eigna sem gefa af sér umræddar tekjur. Eignir mínar að Y og Z gefa ekki af sér skattskyldar tekjur og falla því ekki undir eignarskattsskyldu samkvæmt beinu orðalagi laganna. Ekki skiptir hér sköpum hver kann að hafa verið tilgangur síðustu breytingar nefndrar lagagreinar þar eð orðalag greinarinnar er ljóst og ótvírætt. Ég geri því kröfu um að eignarskattsstofn minn gjaldárið 1998 verði lækkaður í kr. 11.927.000.

Þá bendi ég á að þrátt fyrir athugasemd á framtali mínu breytti skattstjóri framtali mínu án þess að gefa mér kost á að koma að athugasemdum mínum eða sjónarmiðum. Þetta fær ekki samrýmst ákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt enda mátti skattstjóra vera ljóst bæði af framtali mínu árið 1998 og framtali mínu 1997 ásamt kæru til yðar vegna þess að ágreiningur var um breytingar hans. Ber yður þegar af þeim sökum að fella breytingar skattstjóra úr gildi.“

Með bréfi, dags. 26. febrúar 1999, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Athygli yfirskattanefndar er vakin á því að svo virðist sem réttrar málsmeðferðar hafi ekki verið gætt af hálfu skattstjóra við hina kærðu skattákvörðun. Skattstjóri framkvæmdi hina umdeildu ákvörðun á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. bréf skattstjóra, dags. 28. júlí 1998. Verður að telja að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst af hendi skattstjóra áður en hann tók hina umdeildu ákvörðun, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður að telja að skattstjóra hafi borið að fara með breytinguna eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Telji yfirskattanefnd þrátt fyrir ofangreindan meintan annmarka á málsmeðferð að taka eigi aðra afstöðu til kærunnar en að ómerkja úrskurð skattstjóra gerir ríkisskattstjóri þær kröfur að staðfesta eigi úrskurð skattstjóra með vísan til forsendna hans.“

II.

Í máli þessu er deilt um hvort kærandi skuli greiða eignarskatt af fasteignum sem hann á hér á landi en hefur ekki af tekjur. Skattstjóri hefur byggt á því að kæranda beri að greiða eignarskatt af umræddum eignum á grundvelli 9. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og því ákvæði var breytt með b-lið 2. gr. laga nr. 145/1995. Ákvæði 3. gr. laga nr. 75/1981, sem hér skipta máli, eru svohljóðandi:

„Takmarkaða skattskyldu bera þessir aðilar, enda falli þeir ekki undir ákvæði 1. eða 2. gr. eða séu undanþegnir skattskyldu skv. 4. gr.

[…]

5. Allir aðilar sem eiga fasteign hér á landi eða hafa rétt yfir fasteign hér á landi er þeir hafa af tekjur eða teljast hafa af tekjur samkvæmt ákvæðum laga þessara skulu greiða tekjuskatt af þeim tekjum.

[…]

9. Allir aðilar sem eiga eignir hér á landi skv. 4.–8. tölul. skulu greiða eignarskatt af þeim eignum.“

Fyrir gildistöku laga nr. 145/1995 sagði í 9. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981 að allir aðilar sem ættu eignir sem skattskyldar tekjur gæfu samkvæmt 4.–8. tölul. greinarinnar skyldu greiða eignarskatt af þeim eignum. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem var samþykkt sem lög nr. 145/1995 kemur fram að umrædd breyting á 9. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981 leiði til þess að eignarskattur greiðist af skattskyldum eignum óháð því hvort eignirnar gefi af sér tekjur eða ekki.

Telja verður að með tilvísun 9. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981 til eigna samkvæmt 4.–8. tölul. sömu lagagreinar sé skylda aðila til greiðslu eignarskatts bundin við eignir sem þar eru taldar, þar á meðal fasteignir, en undanþegnar séu aðrar eignir svo sem verðbréf. Í þessu sambandi skal tekið fram að áskilnaður 5. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981, um að aðili hafi tekjur af fasteign eða teljist hafa tekjur samkvæmt ákvæðum laganna, leiðir af eðli þess skattstofns er í ákvæðinu greinir.

Að virtum framtalshætti kæranda ber að fallast á að skattstjóra hafi verið heimilt að framkvæma hina kærðu breytingu á grundvelli 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, eins og það ákvæði verður skýrt með hliðsjón af 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt þessu ber að staðfesta niðurstöðu skattstjóra um að kæranda beri að greiða eignarskatt af eignarhlut sínum í fasteignunum Y og Z samkvæmt 9. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981, eins og því ákvæði var breytt með b-lið 2. gr. laga nr. 145/1995.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja