Úrskurður yfirskattanefndar
- Þungaskattur
- Viðurlagaákvörðun
Úrskurður nr. 328/1999
Þungaskattur 1998
Lög nr. 3/1987, 4. gr. B-liður, 18. gr. 1. og 3. mgr. Lög nr. 50/1987, 76. gr. Lög nr. 19/1991, 115. gr. 2. mgr. Lög nr. 30/1992, 2. gr.
Ríkisskattstjóri gerði kæranda sekt þar sem heildarþyngd bifreiðar hans hefði mælst hærri en skráð gjaldþyngd ökutækisins. Kærandi mótmælti sektinni á þeim grundvelli að hann hefði þegar greitt sekt samkvæmt umferðarlögum vegna aksturs bifreiðarinnar með ás- og heildarþunga umfram heimild. Yfirskattanefnd benti á að kærandi hefði með akstri bifreiðar sinnar brotið gegn ákvæðum tvennra laga er vörðuðu ekki nema óbeint sömu hagsmuni. Líta yrði svo á að um sjálfstæð brot sé að ræða. Þrátt fyrir það yrði að telja að í samræmi við meginreglur almennra hegningarlaga og laga um meðferð opinberra mála hefði verið rétt, svo sem á stóð í málinu, að kæranda yrði gerð sekt í einu lagi vegna umræddra brota. Að því virtu taldi yfirskattanefnd að kæranda yrði ekki gerð frekari sekt en orðið væri. Var sektarákvörðun ríkisskattstjóra því felld niður. Kröfu kæranda um dráttarvexti vegna endurgreiðslu oftekins þungaskatts aftur í tímann, m.a. til fyrri eiganda bifreiðarinnar, var vísað frá yfirskattanefnd.
I.
Með kæru, dags. 10. júní 1998, hefur kærandi mótmælt sektarákvörðun ríkisskattstjóra að fjárhæð 25.000 kr. vegna aksturs bifreiðarinnar S með heildarþyngd yfir skráðri gjaldþyngd.
II.
Málavextir eru þeir að bifreið kæranda var vigtuð við ... hinn 10. júlí 1997, sbr. skýrslu er liggur fyrir í málinu og gerð var af lögreglu og vegaeftirliti. Samkvæmt skýrslunni var heildarþyngd bifreiðarinnar meiri en skráð leyfileg gjaldþyngd þess í ökutækjaskrá. Í fyrrgreindri skýrslu kom fram að gjaldþyngd bifreiðarinnar væri 18.000 kg en heildarþyngd bifreiðarinnar hefði reynst 22.100 kg eða 4.100 kg umfram gjaldþyngd. Í framhaldi af því sendi ríkisskattstjóri kæranda bréf, dags. 16. september 1997, með yfirskriftinni „fyrirspurn og boðun v/skýrslu um brot á reglum um þungaskatt“ þar sem fram kom að ríkisskattstjóri hefði í hyggju að endurákvarða þungaskatt á kæranda og beita sekt að fjárhæð 25.000 kr., sbr. heimild í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, með áorðnum breytingum samkvæmt lögum nr. 68/1996, vegna þess að heildarþyngd bifreiðarinnar var meiri en skráð leyfileg gjaldþyngd hennar í ökutækjaskrá. Umboðsmaður kæranda mótmælti áformum ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 24. september 1997. Byggði hann á því að kærandi hefði þegar greitt sekt til sýslumannsins á T vegna umrædds brots (umferðalagabrots) að fjárhæð 26.000 kr. og væri því ekki hægt að fallast á viðbótarsekt að fjárhæð 25.000 kr. Þá hefði bifreiðin verið undanþegin ökurita vegna viðhaldsvinnu í þágu Pósts og síma, sbr. bréf Vegagerðar ríkisins, dags. 4. september 1996. Fór umboðsmaður kæranda fram á að álagning þungaskatts yrði leiðrétt þar sem gjaldþungi bifreiðarinnar hefði verið rangt tilgreindur og að fyrri eigendum bifreiðarinnar yrði endurgreiddur með vöxtum oftekinn þungaskattur frá árinu 1988 til 1. apríl 1996.
Næst gerðist það að ríkisskattstjóri boðaði kæranda með bréfi, dags. 3. febrúar 1998, að nýju ákvörðun sektar vegna umræddra brota, nú að fjárhæð 40.000 kr. á grundvelli verklagsreglna sem ríkisskattstjóri hefði sett með stoð í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987 með áorðnum breytingum. Gerði ríkisskattstjóri grein fyrir verklagsreglunum. Kom þar jafnframt fram að í kjölfar fyrirmæla fjármálaráðuneytis til ríkisskattstjóra ætti ríkisskattstjóri einungis að beita sektum í þeim tilvikum þegar bifreið mældist yfir gjaldþyngd, í stað sektar auk endurákvörðunar þungaskatts síðustu 60 daga fyrir brot.
Í bréfi umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 12. febrúar 1998, voru mótmæli gegn boðaðri sekt ítrekuð með þeim rökum að kærandi hefði þegar greitt sekt vegna umferðarlagabrots að fjárhæð 26.000 kr. með sáttarboði.
Ríkisskattstjóri hratt hinni boðuðu sektarákvörðun í framkvæmd með bréfi, dags. 11. maí 1998. Ennfremur ákvað hann að beita lægri boðuðu sektinni að fjárhæð 25.000 kr. en ekki að fjárhæð 40.000 kr., sem til væri komið vegna breytts verklags, með þeim rökum að hún væri ívilnandi. Vísað var til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987 með áorðnum breytingum og verklagsreglna ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri benti á að sáttarboð það sem umboðsmaður kæranda vitnaði í væri vegna brots á umferðarlögum nr. 50/1987, nánar tiltekið ásþungabrot, en ríkisskattstjóri væri hins vegar að beita sekt fyrir brot á lögum nr. 3/1987 um fjáröflun til vegagerðar, sbr. síðari breytingar, þar sem heildarþyngd bifreiðar með farmi væri meiri en gjaldþyngd þess. Ríkisskattstjóri féllst á að leiðrétta álagningu þungaskatts á grundvelli afrits bréfs, dags. 1. júlí 1996, en tók ekki afstöðu til leiðréttingar á ofteknum þungaskatti til fyrri eigenda. Benti hann á að það að bifreiðin væri undanþegið ökurita hefði ekkert með þetta mál að gera.
III.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 10. júní 1998, er gerð sú krafa að „sektarkröfur á hendur umbjóðanda okkar bæði hvað varðar meint brot á umferðarlögum og lögum um fjáröflun til vegagerðar verði felldar niður“. Leggur umboðsmaður áherslu á að kærandi telji sig hafa gert sátt um málið og greitt þá fjárhæð sem um var samið og að sú greiðsla hafi átt við um hið meinta brot í heild sinni, enda hafi skýrslan verið unnin af fulltrúum Vegagerðarinnar og lögreglu í sameiningu. Þá krefst umboðsmaður að greiddir verði dráttarvextir á oftekinn þungaskatt frá 1. apríl 1996 er hann eignaðist bifreiðina til greiðsludags, svo og að ofgreiddur þungaskattur verði endurgreiddur til fyrri eigenda bifreiðarinnar.
IV.
Með bréfi, dags. 5. febrúar 1999, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og því sem fram kemur í umsögn þessari.
Einstök atriði í kæru gjaldanda, kröfur um niðurfellingu á ákvörðun ríkisskattstjóra.
A. Í fyrsta lagi óskar kærandi eftir niðurfellingu á ákvörðun ríkisskattstjóra þar sem kærandi hafi þegar gert sátt um málið og greitt þá fjárhæð sem þar var um samið.
Ríkisskattstjóri vill ítreka það sem fram kom í sektarútboði ríkisskattstjóra þar sem segir, að sekt sú sem kærandi hafi greitt hafi verið vegna sáttarboðs frá lögreglu vegna brots á umferðarlögum nr. 50/1987, nánar tiltekið vegna ásþungabrots. Ríkisskattstjóri var hins vegar að beita kæranda sekt fyrir brot á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, þar sem heildarþyngd ökutækis með farmi var meiri en gjaldþyngd þess, sbr. 3. mgr. 18. gr. laganna.
B. Í öðru lagi fer kærandi fram á niðurfellingu á úrskurði ríkisskattstjóra þar sem ökutækið hafi verið undanþegið notkun ökurita vegna þjónustuhlutverks þess í þágu Pósts og síma.
Ríkisskattstjóri vill benda á að undanþága frá notkun ökurita undanskilur kæranda ekki frá greiðslu þungaskatts samkvæmt gjaldþyngd og í framhaldi af því sekt, ef ökutækið er tekið með heildarþyngd meiri en skráða gjaldþyngd. Undanþágan hefur ekkert með gjaldþyngd að gera.
C. Ríkisskattstjóri mótmælir ekki kröfu kæranda um að greiddir verði dráttarvextir á oftekinn þungaskatt frá 1. apríl 1996 til þess dags sem endurgreiðslan fór fram í kjölfar leiðréttingar á álögðum þungaskatti enda fari um slíkt skv. lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.
D. Kröfu kæranda um að fyrri eigendum ökutækisins verði endurgreiddur með vöxtum oftekinn þungaskattur frá árinu 1988 á ekki heima í máli þessu.
Ríkisskattstjóri fer fram á að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, auk þeirra röksemda sem fram hafa komið í kröfugerð ríkisskattstjóra, þar sem framkomin gögn og málsástæður varðandi kæruefnið gefa ekki tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“
V.
Í máli þessu er til umfjöllunar ákvörðun ríkisskattstjóra um að gera kæranda sekt eftir ákvæðum 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum. Af hálfu kæranda er krafist niðurfellingar sektarinnar. Í kæru til yfirskattanefndar víkur umboðsmaður kæranda jafnframt að sekt þeirri sem kærandi gekkst undir hjá sýslumanninum á ..., sbr. 2. mgr. 115. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og krefst þess að yfirskattanefnd felli hana niður. Úrskurðarvald yfirskattanefndar samkvæmt lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, tekur ekki til sektargerða lögreglustjóra, og verður þessari kröfu kæranda því ekki sinnt.
Af hálfu kæranda er út af fyrir sig ekki andmælt að heildarþyngd bifreiðar hans hafi við eftirlit 10. júlí 1997 reynst vera umfram skráða gjaldþyngd sem kílómetragjald þungaskatts miðaðist við, sbr. ákvæði B-liðar 4. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum. Athugasemd kæranda um að bifreiðin hafi ekki verið búin ökurita vegna notkunar hennar fyrir Póst og síma þykir ekki hafa þýðingu í því sambandi. Í 1. mgr. 18. gr. nefndra laga er boðið að eigandi eða umráðamaður ökutækis skuli sæta refsingu hafi heildarþyngd ökutækis með farmi verið meiri en gjaldþyngd þess. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar skal ríkisskattstjóra ákvarða eiganda eða umráðamanni ökutækis sekt hafi hann brotið gegn 1. mgr. án þess að talið verði að akstur hafi verið vantalinn. Samkvæmt gögnum málsins reyndist bifreið kæranda við eftirlit 10. júlí 1997 vera 4.100 kg umfram gjaldþyngd, sem þá var skráð 18.000 kg. Ríkisskattstjóri hefur hins vegar ekki talið að kærandi hafi vantalið akstur.
Samkvæmt framansögðu voru út af fyrir sig lagaskilyrði til beitingar sektar skv. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, með áorðnum breytingum. Fyrir liggur hins vegar að kærandi hefur þegar gengist undir greiðslu sektar að fjárhæð 26.000 kr. vegna aksturs bifreiðar sinnar með ás- og heildarþunga umfram heimild samkvæmt 76. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Er krafa kæranda um niðurfellingu sektarákvörðunar ríkisskattstjóra fyrst og fremst studd því að með sektargerð lögreglustjóra hafi máli kæranda verið lokið með sátt við þar til bær yfirvöld.
Aðstaðan í málinu er því sú að kærandi hefur með akstri bifreiðar sinnar brotið gegn ákvæðum tvennra laga er varða ekki nema óbeint sömu hagsmuni. Líta verður svo á að um sjálfstæð brot sé að ræða. Þrátt fyrir það verður að telja að í samræmi við meginreglur almennra hegningarlaga og laga um meðferð opinberra mála hefði verið rétt, svo sem á stóð í málinu, að kæranda yrði gerð sekt í einu lagi vegna umræddra brota. Að því virtu verður kæranda ekki gerð frekari sekt en orðið er. Er sektarákvörðun ríkisskattstjóra því felld niður.
Hvað varðar kröfu kæranda um dráttarvexti skal tekið fram að úrskurðarvald yfirskattanefndar tekur ekki til ákvörðunar dráttarvaxta. Þessari kröfu kæranda er því vísað frá yfirskattanefnd. Þá liggur ekki fyrir neinn úrskurður, sem kæranlegur er til yfirskattanefndar, vegna fyrri eigenda bifreiðar kæranda. Kröfu hans um að fyrri eigendum bifreiðarinnar verði endurgreitt vegna oftekins þungaskatts frá árinu 1988 og þar til kærandi kaupir bifreiðina, er því jafnframt vísað frá yfirskattanefnd.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Sektarákvörðun ríkisskattstjóra er felld niður. Að öðru leyti er kröfum kæranda í máli þessu vísað frá yfirskattanefnd.