Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1/1990

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 99.gr., 100.gr.8.mgr., 101.gr.3.mgr.  

Frávísun — Kærufrestur — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Endurákvörðun — Framsending ríkisskattanefndar til skattstjóra — Valdsvið ríkisskattanefndar

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts á tilskildum tíma árið 1982. Skattstjóri áætlaði kæranda því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Skattframtal kæranda árið 1982 barst skattstjóra þann 31. ágúst 1982. Með úrskurði, dags. þann 18. október 1982, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni, þar eð kærufrestur vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1982 hefði runnið út þann 28. ágúst 1982.

Af hálfu kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 11. nóvember 1982. Er þess farið á leit, að álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 verði hagað í samræmi við innsent skattframtal.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar athugasemdir með bréfi, dags. 14. desember 1982:

„Skattframtal kæranda var móttekið að liðnum kærufresti, sbr. 99. gr. skattalaganna og var því skattstjóra rétt að vísa framtalinu frá.

Eftir atvikum þykir þó rétt að mæla með að framtalinu verði vísað til skattstjóra til nýrrar meðferðar."

Kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu sýnist lúta að því, að hinn kærði frávísunarúr-skurður skattstjóra sé réttur, en hins vegar verði nýtt sú heimild, sem ríkisskattstjóra er veitt í 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til breytinga á áður álögðum opinberum gjöldum og í því sambandi verði skattstjóra falin sú endurákvörðun. Eigi hefur ríkisskattanefnd slíka heimild, sem hér um ræðir og getur úrlausn nefndarinnar eigi byggst á téðum ákvæðum. Með hliðsjón af öllum atvikum þykir þó með vísan til 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 mega vísa kærunni og skattframtali kæranda fyrir árið 1982 til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja