Úrskurður yfirskattanefndar

  • Eignfærsla fasteignar
  • Vaxtabætur
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 261/2015

Gjaldár 2010-2014

Lög nr. 90/2003, 68. gr. B-liður, 72. gr., 73. gr. 1. tölul.  

Ríkisskattstjóri synjaði beiðni kæranda um eignfærslu fasteignar í skattframtölum hans árin 2010-2014 og að lán vegna eignarinnar yrði fært sem lán til öflunar íbúðarhúsnæðis í skattframtölunum. Byggði ríkisskattstjóri á því að samkvæmt opinberri skráningu hefði kærandi ekki verið eigandi fasteignarinnar frá árinu 2009. Kærandi hélt því fram að hann hefði verið raunverulegur eigandi fasteignarinnar og að afsal hennar til dóttur kæranda og síðar X ehf., einkahlutafélags í hans eigu, hefði verið til málamynda í tilefni af gjaldþroti kæranda. Yfirskattanefnd benti á að gögn málsins bæru ekki annað með sér en að kærandi hefði selt fasteignina á árinu 2009 og frá þeim tíma haft leiguafnot af eigninni. Var tekið fram að kærandi hefði hagað ársreikningi og skattskilum X ehf. svo og eigin skattskilum í samræmi við það að eignarhald og rekstur fasteignarinnar væri á vegum félagsins. Var kröfum kæranda varðandi eignfærslu fasteignarinnar og ákvörðun vaxtabóta hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að þann 23. júlí 2014 bárust ríkisskattstjóra leiðrétt skattframtöl kæranda árin 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014. Lutu breytingar kæranda að ýmsum atriðum. Meðal annars var farið fram á að kæranda yrði fært til eignar íbúðarhúsnæðið H í skattframtölum hans árin 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014. Óskaði kærandi jafnframt eftir því að lán frá Sparisjóðnum í Keflavík og síðar Íbúðalánasjóði vegna öflunar íbúðarhúsnæðis að H yrði fært með 100% hlutfalli í stað 20% í skattframtölum árin 2009 og 2010, svo og að lán þetta yrði fært sem lán til öflunar íbúðarhúsnæðis í skattframtöl árin 2011, 2012, 2013 og 2014. Þá fór kærandi fram á honum yrðu færð til eignar hlutabréf í X ehf. í skattframtölum árin 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014 og í Y ehf. í skattframtali árið 2010. Kærandi fór einnig fram á lækkun á tekjuskattsstofni vegna skerts gjaldþols gjaldárin 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014.

Ríkisskattstjóri tók erindi kæranda vegna gjaldáranna 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013 til úrlausnar með tveimur úrskurðum, dags. 25. ágúst 2014 og 25. september 2014, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Samkvæmt úrskurðunum synjaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um að færa íbúðarhúsnæðið H til eignar hjá kæranda á framangreindu tímabili. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands hefði kærandi ekki verið eigandi H frá 21. október 2009, heldur hefði fasteignin verið í eigu X ehf., einkahlutafélags í eigu kæranda. Húsnæðið væri fært í eignaskrá félagsins og samkvæmt skattframtölum þess væri eignin fyrnd, ásamt því að afborganir og vaxtagjöld hefðu verið gjaldfærð í rekstrinum. Þar sem kærandi hefði ekki átt umrædda eign á tímabilinu frá 21. október 2009 til 12. júní 2014 uppfyllti hann heldur ekki skilyrði B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 til greiðslu vaxtabóta. Fallist var á að færa kæranda til eignar hlutabréf í X ehf. gjaldárið 2013. Þá var fallist á að lækka tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda gjaldárin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013 vegna óbætts kostnaðar vegna veikinda á árunum 2008 til 2012, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Beiðni um lækkun vegna gjaldáranna 2007 og 2008 var synjað á grundvelli reglu 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 um sex ára tímamörk fyrir breytingum á ákvörðun um skattstofn eða álagningu.

Með kæruúrskurði, dags. 25. september 2014, tók ríkisskattstjóri kæru kæranda vegna gjaldársins 2014 til úrlausnar, sbr. 99. gr. laga nr. 90/2014. Hafnaði ríkisskattstjóri því að færa kæranda til eignar í skattframtali árið 2014 fasteignina H, enda væri X ehf. skráð eigandi húsnæðisins allt árið 2013 og fasteignin því ekki framtalsskyld hjá kæranda, sbr. 1. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003. Þá hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um að færa í skattframtalið skuldir og vaxtagjöld vegna tilgreinds láns til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003. Fallist var á að færa kæranda til eignar hlutabréf í X ehf. Þá var fallist á að lækka tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda vegna óbætts kostnaðar vegna veikinda á árinu 2013, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003.

II.

Með kæru, dags. 17. nóvember 2014, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar fyrrgreindum þremur úrskurðum ríkisskattstjóra, þ.e. kæruúrskurði, dags. 25. september 2014, og úrskurðum vegna skatterindis, dags. 29. ágúst 2014 og 25. september 2014. Af hálfu kæranda er þess krafist að hnekkt verði synjun ríkisskattstjóra að færa fasteignina að H til eignar í skattframtölum kæranda árin 2009 til 2014, svo og sé kærð synjun ríkisskattstjóra á færslu vaxtagjalda vegna lána til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota í skattframtöl sömu ára. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðu yfirliti, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Samkvæmt kröfugerð og rökstuðningi í kæru kæranda er ekki gerður ágreiningur um önnur atriði í úrskurðum ríkisskattstjóra.

Í kærunni er byggt á því að þrátt fyrir opinbera skráningu hafi kærandi verið raunverulegur eigandi fasteignarinnar H. Rakið er að kærandi hafi upprunalega keypt fasteignina H hinn 28. apríl 1998. Í tilefni af gjaldþroti kæranda hafi fasteignin verið færð til S, dóttur kæranda, hinn 21. október 2009, og í kjölfarið til X ehf. hinn 21. nóvember 2009. Afsöl fasteignarinnar hafi því verið málamyndagerningar. Í kærunni er vísað til bréfs Íbúðalánasjóðs til kæranda, dags. 16. október 2013, þess efnis að við eigendaskipti H hafi ekki verið leitað samþykkis Íbúðalánasjóðs eins og skylt hefði verið samkvæmt 16. gr. reglugerðar nr. 552/2004, um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, auk þess sem vakin sé athygli á því að fyrirtæki hafi ekki heimild til yfirtöku fasteignaveðbréfa. Í kjölfar bréfsins hafi kærandi fært eignina af X ehf. yfir á sjálfan sig. Samkvæmt framansögðu hafi leyfis ekki verið aflað frá Íbúðalánasjóði vegna eignayfirfærslu, ekkert endurgjald hafi átti sér stað, og kærandi, en ekki X ehf., hafi allt tíð greitt af fasteignaveðbréfi til Íbúðalánasjóðs vegna íbúðarhúsnæðisins. Raunveruleg eignatilfærsla hafi ekki átt sér stað þar sem skuldbindingar og veðbönd eignarinnar hafi ekki fylgt með. Engum kaupsamningi hafi verið þinglýst, einungis afsali. Þar sem ekki hafi verið aflað samþykkis Íbúðalánasjóðs sé afsalið ógildur gerningur. Kærandi hafi búið í H frá 1998 og það hafi verið skráð lögheimili hans. Vísar kærandi til þess að ekki hafi verið gerð grein fyrir kaupunum í bókhaldi X ehf. Framangreint sýni að umrædd afsöl hafi verið málamyndagerningar og að kærandi hafi verið raunverulegur eigandi fasteignarinnar.

Til stuðnings kröfu um ákvörðun vaxtabóta er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skuli allir vera jafnir fyrir lögum. Með því sé m.a. átt við að ekki skuli mismuna fólki varðandi rétt til vaxtabóta samkvæmt B-lið 1. mgr. 68. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt 5. mgr. B-liðar 68. gr. greindra laga sé réttur til vaxtabóta bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota og stofnist rétturinn við kaup. Réttur kæranda hafi stofnast kaup á fasteigninni árið 1998. Samkvæmt 6. mgr. B-liðar 68. gr. félli réttur til vaxtabóta niður þegar íbúðarhúsnæði teljist ekki lengur til eigin nota. Íbúðarhúsnæðið hafi verið notað til eigin nota allt umrætt tímabil. Telur kærandi að ríkisskattstjóri hafi ekki átt að byggja ákvörðun sína á alfarið á því formsatriði að fasteignin hafi ekki verið skráð eign kæranda hjá Þjóðskrá. Kærandi byggir jafnframt á því að verði litið svo á að X ehf. eigi H, þá hafi hann sem eigandi félagsins eignarhald yfir fasteigninni. Eignarhald samkvæmt 5. mgr. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 sé bundið við að eiga eign í því formi sem hún sé og ráðstafa að eigin vild.

Með kæru til yfirskattanefndar fylgdu ýmis gögn, m.a. upplýsingar frá Íbúðalánasjóði og Sparisjóði Keflavíkur árin 2008-2013 vegna íbúðarláns að H, afsöl vegna fasteignarinnar, bréf Íbúðalánasjóðs til kæranda, dags. 16. október 2013, og yfirlit yfir greiðslur kæranda vegna fasteignaveðbréfsins.

III.

Með bréfi, dags. 15. desember 2014, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda umsögn í málinu:

„Samkvæmt fasteignaskrá þjóðskrár Íslands er S skráður eigandi frá 21. október 2009 til 21. nóvember 2009 þegar félagið X ehf., er skráður eigandi. Nefnt félag er skráður eigandi til 12. júní 2014 þegar kærandi er að nýju skráður eigandi. Ríkisskattstjóri bendir á að félagið er einkahlutafélag og er sjálfstæður skattaðili.

Í B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, kemur fram að réttur til vaxtabóta sé bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Við skoðun á því hvort skattþegnar uppfylli skilyrði B-liðar 68. gr. varðandi eignarhald, ber ríkisskattstjóra að fylgja opinberri skráningu fasteignaskrár er varðar eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota.

Samkvæmt ofangreindri skráningu er kærandi ekki skráður eigandi að íbúðarhúsnæði að H á umræddu tímabili og uppfyllir því ekki ofangreind skilyrði B-liðar 68. gr. Engu breytir í þessu sambandi þó kærandi greiði af lánum sem á eigninni hvíla. Er þess því krafist að hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 17. desember 2014, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 23. janúar 2015, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Af hálfu kæranda er ítrekað að umrædd afsöl hafi verið málamyndagerningar sem sýslumaður hefði ekki mátt samþykkja, enda hafi lán Íbúðalánasjóðs ekki flust á milli. Samkvæmt 6. tölul. 2. gr. og 16. gr. reglugerðar nr. 522/2004, um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, hafi fyrirtæki sem séu sjálfstæðir skattaðilar ekki heimild til yfirtöku fasteignaveðbréfa. Kærandi bendir á að ríkisskattstjóri hafi samþykkt skattframtöl lögaðilans X ehf. fyrir gjaldárin 2009-2014. Samkvæmt skattframtölum og ársreikningum félagsins eigi félagið enga fasteign. Kærandi hafnar röksemd ríkisskattstjóra um að engin ný gögn hafi komið fram í málinu. Vísar kærandi til gagna sem sýni fram á að kærandi greiddi sjálfur af umræddu láni.

Með bréfi, dags. 2. mars 2015, hefur ríkiskattstjóri áréttað kröfu sína um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri bendir á að það sé staðreynd samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands að S hafi verið skráð eigandi H frá 21. október 2009 til 21. nóvember 2009. Frá þeim tíma hafi X ehf. verið skráð eigandi þar til 12. júní 2014 þegar kærandi hafi að nýju verið skráður eigandi. Ekki verði séð að kærandi uppfylli skilyrði B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, á umræddum gjaldárum.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 3. mars 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 24. mars 2015, hefur umboðsmaður kæranda grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu eru röksemdir kæranda ítrekaðar.

IV.

Skilja verður kæru til yfirskattanefndar svo að hún taki til synjunar ríkisskattstjóra að færa fasteignina H til eignar í skattframtölum kæranda árin 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014, auk þess sem gerð sé krafa um að hlutfall láns til öflunar greinds íbúðarhúsnæðis verði hækkað úr 20% í 100% í skattframtölum kæranda árin 2009 og 2010 og að lán þetta verði fært með sama hlutfalli í skattframtöl árin 2011, 2012, 2013 og 2014. Ekki verður séð að gerður sé ágreiningur um önnur atriði í hinum kærðu úrskurðum ríkisskattstjóra.

Eins og rakið hefur verið bar erindi kæranda að hjá ríkisskattstjóra með því að lögð voru fram endurgerð skattframtöl árin 2009, 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014 hinn 23. júlí 2014. Að því er varðaði síðasta árið tók ríkisskattstjóri erindið til meðferðar sem kæru vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2014, sbr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Hafnaði ríkisskattstjóri kærunni að því er þetta gjaldár varðaði. Að öðru leyti leit ríkisskattstjóri á erindi kæranda sem beiðni um breytingu á álagningu opinberra gjalda (skatterindi) viðkomandi gjaldár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003. Um afgreiðslu á skatterindinu liggja fyrir tveir úrskurðir ríkisskattstjóra, annars vegar úrskurður, dags. 29. ágúst 2014, frá skattstofunni Akureyri, og hins vegar úrskurður, dags. 25. september 2014, frá aðalskrifstofu ríkisskattstjóra. Með fyrri úrskurðinum var tekin afstaða til þeirra þátta í erindi kæranda sem vörðuðu eignfærslu íbúðarhúsnæðis að H í skattframtöl árin 2010 til og með 2013 og tilgreiningu lána frá Íbúðalánasjóði (áður Sparisjóðinum í Keflavík) í skattframtölum árin 2011 til og með 2013. Niðurstaða ríkisskattstjóra var sú að synja beiðni kæranda um breytingar á skattframtölunum hvað þessi atriði varðaði, enda hefði X ehf. en ekki kærandi verið eigandi fasteignarinnar frá 21. október 2009. Með síðari úrskurðinum tók ríkisskattstjóri einnig afstöðu til eignfærslu húsnæðisins að H og vaxta/eftirstöðva láns frá Íbúðalánasjóði, en þó eingöngu hvað varaði skattframtal árið 2013. Synjaði ríkisskattstjóri erindi kæranda hvað þessi atriði varðaði. Byggði ríkisskattstjóri sem fyrr á því að X ehf. en ekki kærandi hefði verið eigandi umrædds húsnæðis. Hins vegar féllst ríkisskattstjóri á beiðni kæranda um að færa til eignar í skattframtali árið 2013 hlutabréf í X ehf., svo og féllst ríkisskattstjóri á lækkun tekjuskattsstofns gjaldárin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013 á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003.

Samkvæmt framansögðu voru hnökrar á meðferð ríkisskattstjóra hvað varðaði afgreiðslu á skatterindi kæranda vegna gjaldáranna 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003. Meðal annars tók ríkisskattstjóri ekki afstöðu til beiðni kæranda um að hækka lánshlutfall fyrrgreinds láns úr 20% í 100% í skattframtölum árin 2009 og 2010. Liggur því ekki fyrir neinn kæranlegur úrskurður um það atriði. Verður að vísa kærunni frá yfirskattanefnd að því er varðar það kæruatriði. Að öðru leyti þykir ekki fara á milli mála um þá afstöðu sem ríkisskattstjóri tók til þeirra þátta erindis kæranda sem kærumál þetta varðar.

Eins og fram er komið synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um eignfærslu fasteignarinnar H í skattframtölum hans árin 2010 til og með 2014 og að lán frá Íbúðalánasjóði yrði fært sem lán til öflunar íbúðarhúsnæðis í skattframtöl árin 2011 til og með 2014. Byggði ríkisskattstjóri á því að samkvæmt opinberri skráningu hefði kærandi ekki verið eigandi H frá árinu 2009. Því væri eignin ekki framtalsskyld hjá kæranda gjaldárin 2010 til og með 2014, sbr. 1. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003. Þar sem kærandi hefði ekki verið eigandi umrædds íbúðarhúsnæðis á viðkomandi árum yrði ekki heldur fallist á að tilgreint lán hefði verið vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003.

Meðal gagna málsins eru þinglýst afsal greindrar fasteignar að H frá kæranda til S, dags. 26. október 2009, þinglýst afsal fasteignarinnar frá S til X ehf., dags. 21. nóvember 2009, og þinglýst afsal eignarinnar frá X ehf. til kæranda, dags. 12. júní 2014. Öll afsölin kveða á um að fasteignin sé selt og afsöluð afsalshafa sem yfirtaki áhvílandi veðskuldir og að fullnaðaruppgjör vegna eignarinnar hafi farið fram. Fyrir liggur að X ehf., sem var einkahlutafélag í eigu kæranda, færði íbúðarhúsnæðið H í eignaskrá félagsins eftir fyrrgreint afsal, dags. 21. nóvember 2009. Tilgangur félagsins samkvæmt samþykktum þess er kaup og sala á fasteignum og leiga atvinnuhúsnæðis. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir rekstrarárið 2013, sem staðfestur var af stjórn félagsins 23. maí 2014 og áritaður var af skoðunarmanni, áður en hann var leiðréttur í tilefni af erindi kæranda í júlí 2014, var umrætt íbúðarhúsnæði helsta eign félagsins. Í rekstrarreikningi félagsins voru færðar leigutekjur að fjárhæð 2.081.831 kr., en til gjalda m.a. rekstrarkostnaður húsnæðis 340.830 kr., fyrning fasteignarinnar 500.000 kr. og fjármagnskostnaður 2.345.514 kr. Tap ársins nam 907.810 kr. Hliðstæðar upplýsingar koma fram í ársreikningum félagsins fyrir fyrri ár.

Kærandi byggir á því að hann hafi verið raunverulegur eigandi fasteignarinnar umrætt tímabil. Fyrrgreind eigendaskipti, upphaflega til dóttur kæranda og síðar til X ehf., hafi verið til málamynda í tilefni af gjaldþroti kæranda. Ekkert endurgjald hafi verið innt af hendi af hálfu tilgreindra kaupenda og kærandi hafi ávallt staðið sjálfur að afborgunum fasteignaveðbréfs með veði í íbúðarhúsnæðinu. Vegna þessara röksemda kæranda skal tekið fram að eins og rakið er hér að framan liggur fyrir í málinu afsal kæranda á fasteigninni til S svo og afsal fasteignarinnar frá S til X ehf., en í báðum þessum gerningum kemur fram að kaupandi yfirtaki áhvílandi veðlán sem hvíli á eigninni. Er því ekki um það að ræða að ekkert endurgjald hafi komið fyrir eignina. Þá kemur fram í málsgögnum að kærandi taldist greiða einkahlutafélaginu leigu fyrir afnot sín af húsnæðinu, en óumdeilt er að kærandi hafi þrátt fyrir fyrrgreindar ráðstafanir nýtt eignina áfram til íbúðar. Leigugjald tekjufærði einkahlutafélagið í ársreikningi sínum og skattskilum og færði bæði fyrningu húsnæðis, vaxtagjöld og rekstrarkostnað eignarinnar til frádráttar tekjum. Í þessu ljósi verður ekki séð að neinu skipti þótt kærandi hafi staðið straum af umræddum útgjöldum, einkum afborgunum af veðláni, enda verður að álykta að kærandi hafi innt leigugreiðslur af hendi með þessum hætti. Jafnframt ber kærandi fyrir sig að við eigendaskiptin hafi ekki verið aflað samþykkis Íbúðalánasjóðs í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 522/2004, um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf. Þá megi fyrirtæki ekki yfirtaka fasteignaveðbréf sjóðsins. Ákvæði reglugerðarinnar kunna að skipta máli varðandi skuldasamband kæranda við Íbúðalánasjóð, en hafa ekki áhrif á gildi fasteignaviðskipta, svo sem kærandi heldur fram.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið bera gögn málsins ekki annað með sér en að kærandi hafi selt umrædda fasteign á árinu 2009 og haft frá þeim tíma leiguafnot af eigninni. Var fasteignin í eigu X ehf. allt þar til einkahlutafélagið afsalaði eigninni til kæranda hinn 12. júní 2014. Hagaði kærandi ársreikningi og skattskilum félagsins svo og eigin skattskilum á árunum 2010 til 2014 í samræmi við það að eignarhald og rekstur fasteignarinnar væri á vegum félagsins. Eins og mál þetta er vaxið stoðar ekki fyrir kæranda að bera fyrir sig að eigendaskiptin á árinu 2009 hafi verið gerð til málamynda. Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfum kæranda um að færa fasteignina H í skattframtöl kæranda árin 2010 til og með 2014.

Það leiðir af framangreindri niðurstöðu að ekki verður fallist á að lán frá Íbúðalánasjóði (áður Sparisjóðinum í Keflavík) verði fært í skattframtöl kæranda árin 2011 til og með 2014. Kærandi styður kröfu sína um ákvörðun vaxtabóta jafnframt þeim rökum að jafna megi hlutafjáreign kæranda í X ehf. við eignarhald á íbúðarhúsnæði samkvæmt 5. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, en kærandi hafi verið eini eigandi félagsins og borið allan kostnað vegna íbúðarhúsnæðisins.

Í 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 er kveðið á um að maður, sem skattskyldur er samkvæmt 1. gr. laganna og ber vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, eigi rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum, enda geri hann grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali samkvæmt 1. mgr. 90. gr. í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Samkvæmt 5. mgr. B-liðar sömu lagagreinar er réttur til vaxtabóta bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Í málinu liggur fyrir að eigandi umrædds íbúðarhúsnæðisins hafi verið X ehf. sem er sjálfstæður skattaðili. Verður ekki fallist á að kærandi geti byggt rétt til vaxtabóta í gegnum eignarhald á einkahlutafélaginu, svo sem felst í kröfugerð kæranda. Greiðsla kæranda á afborgunum og vöxtum af fasteignaveðbréfi hefur ekki þýðingu í þessu sambandi, enda verður að líta svo á að þar hafi í raun verið um að ræða þátt í greiðslu leigugjalds til skráðs eiganda eignarinnar, svo sem fram er komið.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá að því er snertir hækkun hlutfalls láns til öflunar íbúðarhúsnæðis í skattframtölum kæranda árin 2009 og 2010. Að öðru leyti er kröfum kæranda í máli þessu hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja