Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 52/1986

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 51. gr., 63. gr. 1. mgr. 2. tl.  

Vaxtagjöld — Frádráttarbærni vaxtagjalda — Verðbætur — íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Kaupsamningur — Verðtryggingarákvæði kaupsamnings — Vísitölutryggt kaupverð — Afhendingardagur eignar — Byggingarvísitala — Byggingarkostnaður — Stofnverð — Byggingartími — Byggingarsamningur — Hjón — Sköttun hjóna

Málavextir eru þeir, að meðal vaxtagjalda til frádráttar færði kærandi vaxtagjöld að fjárhæð 183.942 kr. til H. s.f. Að fengnum kvittunum fyrir vaxtagreiðslum þessum boðaði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 13. apríl 1985, að vaxtagjaldaliður þessi yrði felldur niður. Fjárhæðin fælist í vöxtum og verðbótum á árinu 1983 af greiðslum af byggingarkostnaði íbúðar til H. s.f. Hækkun á umsömdu verði í kaup- og verksamningi í hlutfalli við verðlags-þróun á byggingartíma teldist ekki vera vextir af láni og því ekki frádráttarbær frá tekjum.

Greiðslu verðbóta í slíkum samningum væri ætlað að mæta þeirri hækkun, sem yrði á vinnulaunum og efni á byggingartíma og bæri að færa slíkar bætur til hækkunar á grunnverði samkvæmt samningum. Sama gilti um svokallaða vexti, sem greiddir væru í stað verðbóta eða ásamt verðbótum, svo og vexti á greiddar verðbætur samkvæmt slíkum samningi. Þá tók skattstjóri fram, að með byggingarsamningi milli aðila teldist ekki hafa myndast skuldasamband heldur tvíhliða kröfuréttarsamband. Með byggingarsamningi teldist byggingarfélagið ekki veita samningsaðila sínum neitt lán.

Með bréfi, dags. 25. apríl 1985, var hinni fyrirhuguðu lækkun vaxtagjalda mótmælt af hálfu kæranda. Þess var krafist aðallega, að vaxtagjöld til H. s.f. 183.942 kr. yrðu að fullu tekin til greina með skírskotun til 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda hefði verið stofnað til skuldar við félagið og jafnframt bent á, að mögulegt hefði verið að kaupa íbúð á föstu verði og stofna til skuldar við aðra aðila. Til vara var þess krafist, að fjármagnskostnaður á byggingartíma yrði áætlaður í samræmi við það, sem almennt gerðist í slíkum tilvikum. Gera mætti ráð fyrir, að hann væri eigi lægri en 15% af byggingarkostnaði. Verðbætur samkvæmt slíkri áætlun væru 70.500 kr. Greiddir vextir eftir afhendingu næmu 66.468 kr. og væri því frádráttarbær vaxtakostnaður 136.968 kr. í stað 183.942 kr. Til þrautavara var þess krafist, að til frádráttar yrðu viðurkenndir vextir 66.468 kr. sem inntir hefðu verið af hendi eftir afhendingu íbúðarinnar og eftir að allri vinnu og efniskaupum á byggingartímanum hefði verið lokið. Þessir vextir væru alveg sambærilegir við aðra vexti og ekki gæti leikið vafi á því, að þeir væru frádráttarbærir. Kærandi greindi frá því, að 5. júlí 1981 hefði verið gerður kaupsamningur við H. s.f. um íbúð í húsinu J., Reykjavík. Samkvæmt kaupsamningnum sé kaupverðið 470.000 kr. er skyldi greitt samkvæmt nánari ákvæðum samningsins. íbúðin hafi verið afhent tilbúin undir tréverk í ágúst-mánuði 1982 og flutt í hana í desember s.á. Samningurinn hafi verið miðaður við það, að verðbætur greiddust af tilstofnaðri skuld við kaupin fram að afhendingardegi en vextir eftir það. Svo sem fram komi á kvittunum hafi verðbætur þær, sem færðar hafi verið til frádráttar á árinu 1983, verið greiddar það ár. Ekki komi fram í samningi, að verðbætur þessar skuli sérstaklega notaðar til greiðslu hækkunar á efni og vinnulaunum. Ljóst sé, að seljandi hafi einnig veruleg útgjöld vegna fjármagnskostnaðar á byggingartíma og m.a. tekið framkvæmdalán hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Hefði kærandi byggt íbúðina frá grunni, sé ljóst að fjármagnskostnaður á byggingartíma hefði verið frádráttarbær. Bréfinu fylgdi ljósrit umrædds kaupsamnings, dags. 5. júlí 1981.

Með bréfi, dags. 26. júlí 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda, að áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1984 hefðu verið tekin til endurákvörðunar. Greiddar verðbætur 117.474 kr. til H. s.f. væru felldar niður með skírskotun til forsendna í bréfi skattstjóra, dags. 13. apríl 1985. Þá hafnaði skattstjóri einnig vaxtafrádrætti 66.468 kr. vegna greiddra vaxta til H. s.f. eftir afhendingardag á þeim forsendum, að hvorki yrði ráðið af kaupsamningnum, að tvíhliða kröfuréttarsambandi væri að fullu lokið né að umsamdar greiðslur teldust ekki hækkun á stofnverði. Ekki var fallist á að heimila til frádráttar áætlaðan fjármagnskostnað vegna íbúðarbyggingar, þar sem lagaheimild skorti.

Af hálfu kæranda var endurákvörðun þessi kærð með kæru móttekinni þann 22. ágúst 1985 af skattstjóra og var vísað til bréfs, dags. 25. apríl 1985. Tekið var fram, að seljandi hefði uppfyllt kaupsamning við afhendingu íbúðarinnar og ekki yrði séð hvernig hann gæti staðfest það frekar.

Með úrskurði, dags. 4. október 1985, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda.

Þeim úrskurði hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 1. nóvember 1985, og boðað, að nánari greinargerð yrði send síðar. Í bréfi, dags. 7. nóvember 1985, gerir umboðsmaður kæranda grein fyrir kröfum sínum og rökstuðningi. Þar segir svo:

„Málavextir eru þeir að ofanrituð keyptu árið 1981 íbúð og hún afhent í ágúst 1982. Samkvæmt kaupsamningi skyldi kaupverð hækka í samræmi við byggingarvísitölu til afhendingardagsetningar. Skuld við byggingarverktaka á afhendingardegi skyldi bera hæstu eftirá greidda vexti þar til hún væri að fullu greidd.
Samkvæmt E-lið 30. gr. laga nr. 75/1981 er heimilt að draga frá tekjum „vaxtagjöld vegna annarra skulda en fasteignaveðskulda til tveggja ára eða lengri tíma er þó
einungis heimilt að draga frá tekjum. Af þessu má álíta að vaxtagjöld sem kveðið
er á í kaupsamningi frá afhendingardegi falla undir þetta ákvæði. Í úrskurði skattstjórans í Reykjavík frá 26. júlí 1985 telur hann að svo sé ekki. Röksemdarfærsla skattstjóra felst í „að ekki sé lokið því tvíhliða kröfuréttarsambandi sem kaupsamningurinn hljóðar". Þessari röksemdarfærslu vil ég mótmæla og bendi á að íbúðin var afhent kaupanda í ágúst 1982. Með afhendingu íbúðarinnar lýkur seljandi sínum hluta samningsins og því er ekki um tvíhliða kröfuréttarsamband að ræða á árinu 1983.

Með hliðsjón að framanrituðu er það ósk mín að úrskurði skattstjórans í Reykjavík dags. 4. október 1985 verði breytt þannig að vextir kr. 66.468 verði heimilaðir til frádráttar í skattframtali 1983.

Með bréfi, dags. 13. janúar 1986, fellst ríkisskattstjóri á, að vextir á framreiknaðar, ógreiddar eftirstöðvar kaupverðs á afhendingardegi séu frádráttarbær vaxtagjöld.

Krafa kæranda fyrir ríkisskattanefnd er þrautavarakrafa sú, sem sett var fram á skattstjórastigi, og lýtur að því, að til frádráttar vegna umræddra viðskipta við H. s.f. komi 66.468 kr., sem teljist vextir inntir af hendi eftir afhendingardag íbúðar þeirrar, sem í málinu greinir. Er eigi ágreiningur um þessa fjárhæð sem slíka í málinu. Er krafa kæranda tekin til greina. Hluti vaxtagjalda eða 9.253 kr. er færður til frádráttar hjá eiginkonu. Fær það eigi staðist, sbr. 2. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981. Frádráttarliður þessi færist hjá eiginmanni.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja