Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 54/1986

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981 — 32. gr., 44. gr. 1. mgr. 2. ml., 45. gr.  

Fyrning — Sérstök fyrning — Fyrning, sérstök — Fyrning á móti tekjufærslu — Fyrningarskýrsla — Niðurlagsverð — Tekjutímabil — Framreikningur fyrninga — Fyrnanleg eign — Fyrning einstakra eigna — Vantaldar tekjur — Afurðamiði

I.

Kærðar eru með bréfi, dags. 20. febrúar 1985, breytingar á skattframtali kæranda 1984, er barst skattstjóra í kærufresti til hans. í kærubréfi umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar segir m.a.:
„S. h/f kærir hér með eftirfarandi breytingar á framtalinu:
1. Skattstjóri færir framreiknaðar aukaafskriftir til tekna kr. 1.399.464 á þeim forsendum að ekki hafi verið afskrifað af tilteknum eignalið. Þar sem þetta er ekki rétt er gerð athugasemd við þennan lið. Fyrirframafskrift þessi var afskrifuð af liðnum vélar og áhöld 77-78 sem er flatningssamstæða frá B. h/f. Afskrift þessi hefur verið framreiknuð á þessari vél síðan, eins og fram kemur á fyrningarskýrslum þessara ára.
2. Skattstjóri hækkar tekjur vegna framkomins mismunar á afurðamiða frá M. og tekjufærslu undir liðnum sala innanlands, um kr. 204.630. Þessi upphæð er á ársreikningi færð undir liðinn sala útfluttra afurða — saltfiskur, eins og sjá má á meðfylgjandi ljósriti úr hreyfingalista þessa reiknings.

II.

Með bréfi, dags. 18. nóvember 1985, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í máli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd: „Liður 1 í kæru:
Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Liður 2 í kæru:
Fallist er á kröfu kæranda.

III.

Um kærulið 1.
Á skattframtali 1982 gjaldfærði kærandi 40% fyrningu 530.112 kr. á móti tekjufærslu að fjárhæð 1.325.281 kr. Fyrningarfjárhæð þessi var á fyrningarskýrslu kæranda 1981 talin undir liðnum aðrar fyrningar vegna véla og áhalda keyptra 1977 — 1978. Hins vegar var fyrningarfjárhæðin 530.112 kr. ekki tekin með í samtölu fenginna fyrninga nefndra véla og kom því ekki til lækkunar á bókfærðu verði þeirra 31. desember 1981. Hefði það verið gert, hefði bókfært verð þeirra numið 135.609 kr. og orðið 33.396 kr. lægra en niðurlagsverð vélanna, þ.e. 10% af fyrningagrunni þeirra 1.690.045 kr. Á fyrningarskýrslum kæranda árin 1982 og 1983 er nefnd fyrningarfjárhæð framreiknuð sérstaklega en ekki sem fengnar fyrningar af vélum og áhöldum keyptum 1977 — 1978. Staðhæfing umboðsmanns kæranda í kærulið 1 hér að framan fær því eigi staðist. Samkvæmt gögnum málsins virðast fyrningar af vélum og áhöldum keyptum 1977 og 1978 hafa verið ofreiknaðar sem hér segir:

Í skattframtali 1982 Kr. 33.396
Í skattframtali 1983 " 256.513
Í skattframtali 1984 " 407.438

Skattstjóri tekjufærði á skattframtali kæranda 1984 framreiknaða aukaafskrift 1.399.464 kr. og lækkaði þar með yfirfæranlegt rekstrartap um þá fjárhæð. Eigi var rétt af skattstjóra að leiðrétta með hækkun brúttótekna á skattframtali 1984 offærðar fyrningar í skattframtölum kæranda 1982 og 1983. Að svo vöxnu þykir verða að fella niður breytingu skattstjóra á skattframtali 1984 samkvæmt kærulið 1, en fyrningar í því framtali eru lækkaðar um 407.438 kr.

Um kærulið 2.
Með hliðsjón af framlögðum gögnum er fallist á kröfu kæranda samkvæmt þessum kærulið.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja