Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 129/1986
Gjaldár 1984
Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl., 53. gr., 74. gr. 1. tl. 1. mgr. 2. ml. og 5. tl. 2. mgr., 95. gr. — 106. gr. Lög nr. 74/1983 — 3. gr.
Álag — Síðbúin framtalsskil — Vítaleysisástæður — Málsmeðferð áfátt — Framtalsfrestur — Andmælareglan — Rekstrareign — Útistandandi skuldir — Verðbreytingarfærsla — Einkafirma — Einstaklingsfyrirtæki — Eign utan rekstrar — Tilurð útistandandi skuldar — Sönnun — Viðhaldskostnaður — Endurbætur — Fasteign — Fasteignamatsverð — Endurbætur ómetnar til fasteignamats — Stofnverð — Sérstakur eignarskattur
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1984. Kæruatriði eru sem hér segir:
1. Kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1984 og sættu því
áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Skattframtal kærenda árið 1984, sem dagsett er þann 1. ágúst 1984, barst skattstjóra 2. s.m. í kæru til skattstjóra, dags. 23. ágúst 1984, fór umboðsmaður kærenda þess á leit, að innsent skattframtal yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 án álags. Umboðsmaðurinn bar því við, að síðbúnar lagabreytingar hefðu orðið valdar að þeim töfum, sem urðu á framtalsskilunum. Væri því farið fram á, að viðurlög yrðu ekki
látin bitna á þeim aðilum, sem umboðsmaðurinn hefði skilað framtölum fyrir eftir lok framtalsfrests, ýmist fyrir útkomu skattskrár eða í kærufresti.
Með úrskurði, dags. 3. apríl 1985, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda á kærendur gjaldáríð 1984 með breytingum, sem kærðar hafa verið, sbr. liði 2 og 3 hér að neðan, og að viðbættu 25% álagi á skattstofna samkvæmt heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna hinna síðbúnu framtalsskila. Tók skattstjóri fram ákvörðun sinni til stuðnings, að maður geti ekki öðlast meiri rétt með því að fela umboðsmanni framtalsskil sín svo sem nánar var rakið. Þá vísaði skattstjóri til þess, að framtalsskil kærenda hefðu dregist áður. Einnig væri til þess að líta, að almennt orðuð staðhæfing um annir umboðsmanns þætti ekki ein sér fullnægjandi röksemd fyrir niðurfellingu álags, sbr. 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 29. apríl 1985, krefst umboðsmaðurinn niðurfellingar álagsins. Vísar hann til röksemda í kærunni til skattstjóra og úrskurða ríkisskattanefndar um sama efni. Ennfremur ber hann við högum kærenda.
2. Í ofangreindum kæruúrskurði, dags. 3. apríl 1985, gerði skattstjóri þá breytingu á skattframtalinu, að hann færði 584.764 kr. af útistandandi skammtímaskuld alls að fjárhæð 717.423 kr. hjá F. h.f. af efnahagsreikningi kæranda í reit 13 á eignahlið skattframtalsins. Skattstjóri tilgreinir svofelld rök fyrir þessari ákvörðun sinni:
„Nefnd skuld er ótengd einkarekstri kæranda, sbr. skattframtöl eldri ára, þar sem útistandandi skuld hjá F. h.f. er færð sem persónuleg skuld óháð rekstri, enda verður ekki séð að umfang reksturs gefi tilefni til slíkrar lánastarfsemi. Framlagning útistandandi skuldar, sem ekki ber vexti, til rekstrar eins og gert er á framtali kæranda þykir óeðlileg enda eigi gerð í rekstrarlegum tilgangi.“
Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 29. apríl 1985, er þess krafist, að inneignin hjá F. h.f. verði viðurkennd sem skammtímakrafa í efnahagsreikningi kæranda. Sé inneign þessi m.a. tilkomin vegna húsaleigu, sem hefði verið viðskiptafærð auk þess sem kærandi hafi lánað F. h.f. talsverðar fjárhæðir. Komi þá ekki til álita, hvort krafan beri vexti né heldur, að hún hafi áður verið færð á persónuframtal. Kærandi hafi hætt störfum hjá F. h.f. árið 1982 og hugðist setjast í helgan stein. Þetta hafi hins vegar breyst og hafi hann í árslok 1983 sett á stofn einkafyrirtæki. Eðlilegt hefði verið talið, að hann fengi inneign hjá F. h.f. inn í reksturinn og þar af leiðandi inn í útreikning verðbreytingarfærslu 1984, þar sem hann hefði þurft aukna lánafyrirgreiðslu með því að fé hans hefði verið bundið í F. h.f. Á það mætti og líta, að hefði F. h.f. tekið lán árið 1983 til þess að greiða skuldina við kæranda, hefði hann þurft þess minni lánafyrirgreiðslu og stofnar til verðbreytingarfærslu orðið óbreyttir, bæði hjá kæranda og F. h.f.
Til vara er þess krafist af hálfu kæranda, að inneign vegna húsaleigu fyrir árin 1980-1982 samtals 73.500 kr. verði sem inneign á efnahagsreikningi. 3. Á fyrningarskýrslu voru tilgreindar endurbætur á fasteigninni F, Reykjavík, samtals 712.594 kr. Skattstjóri taldi endurbætur þessar ómetnar til fasteignamats í árslok 1983 og færði þær til eignar í efnahagsreikningi með skírskotun til 1. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Jafnframt hækkaði skattstjóri stofn til sérstaks eignarskatts skv. lögum nr. 74/1983 um sömu fjárhæð.
Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 29. apríl 1985, segir svo um þetta atriði: „Eignfærðar hafa verið endurbætur 712.594 kr. á fasteign að F. Endurbætur þessar eru ómetnar til fasteignamats. Endurbæturnar földust (sic) m.a. í að skipt var um járnklæðningu utan á húsinu, steypt var gólf í kjallara og þar innréttuð verslun. Það mætti telja stærstan hluta til viðhalds, frekar en endurbóta.Við teljum að virði eignarinnar aukist ekki um 712.594 kr. heldur einungis hluta af þessari upphæð t.d. 50%, og förum fram á að einungis sá hluti verði tekinn í stofn til sérstaks skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Þar sem ekki lá fyrir sundurliðuð verklýsing þótti ekki stætt á að skipta þessum útgjöldum í eign- og gjaldfærslu, en hækkun fasteignamats vegna breytinganna nær aldrei ofangreindri fjárhæð.“
Með bréfi, dags. 2. desember 1985, krefst ríkisskattstjóri þess, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans um alla kæruliðina.
Um 1. tl.
Kærendum var fyrst í hinum kærða úrskurði gerð grein fyrir því sérstaklega að álagi væri beitt. Þegar af þeirri ástæðu þykir bera að fella hið kærða álag niður. Er krafa kærenda því tekin til greina um þetta kæruatriði.
Um 2. tl.
Skattstjóri hefur fært af efnahagsreikningi þess einkafirma, sem kærandi stofnaði á árinu 1983, þann hluta útistandandi skuldar firmans hjá F. h.f., sem svarar til þeirrar fjárhæðar sem kærandi færði sem útistandandi skuld hjá hlutafélaginu í eignahlið skattframtals síns árið 1983. Eigi þykja af hálfu kæranda fram komnar þær skýringar á tilurð skuldar þessarar, að efni séu til þess að taka kröfur hans til greina.
Um 3. tl.
Viðurkennt er, að umræddar endurbætur á R, Reykjavík, hafi eigi verið metnar til fasteignamats, en fjárhæðin var eignfærð að fullu eða 712.594 kr. Kemur fram af hálfu umboðsmanns kæranda, að eigi hafi verið stætt á því að skipta þessum kostnaði til eignar og gjalda, þar sem sundurliðuð verklýsing hafi eigi legið fyrir. í kærunni er blaðinu hins vegar snúið við og vill umboðsmaðurinn nú telja meginhluta kostnaðarins vera vegna viðhalds. Engin gögn eru færð fram fyrir þessari breytingu og þykir því eigi vera unnt að taka tillit til hennar að neinu leyti. Þá sýnist krafa kæranda lúta að því, að aðeins hluti kostnaðarins verði látinn mynda skattstofn, þar sem framkvæmdirnar við húseignina skili sér eigi í hækkuðu fasteignamatsverði til jafns við ílagðan kostnað. Með skírskotun til 2. ml. 1. mgr. 1. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 3. gr. laga nr. 74/1983, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, þykir verða að hafna þessari kröfu kæranda.