Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 132/1986

Gjaldár 1983

Reglugerð nr. 486/1982 — 29. gr., 43. gr.   Lög nr. 10/1960 — 10. gr., 13. gr., 21. gr., 28. gr. 1. mgr.   Lög nr. 75/1981 — 99. gr., 100. gr., 112. gr.  

Söluskattur — Söluskattsálag — Söluskattsuppgjör — Söluskattur, vangreiddur — Söluskattur, ofgreiddur — Vextir — Dráttarvextir — Vextir af ofgreiddu skattfé — Innheimta opinberra gjalda — Valdsvið ríkisskattanefndar — Lögskýring — Úrskurður ríkisskattanefndar — Kærumeðferð — Kæruheimild — Frávísun, mál utan valdsviðs — RIS.1982-.838

Málsatvik eru þau að með skattframtali sínu árið 1984 lét kærandi fylgja á sérstöku fylgiskjali samanburð á fjárhæð á innsendum söluskattsskýrslum og ársreikningi fyrir árið 1983. Kom í ljós við þann samanburð að sölugjaldi alls að fjárhæð 42.704 kr. hefði ekki verið skilað. Gerði kærandi sundurliðaða grein fyrir því hvernig fjárhæð þessi myndaðist á einstökum söluskattstímabilum ársins 1983. Kom í ljós að um vangreiðslu sölugjalds hefur verið að ræða vegna átta söluskattstímabila en ofgreiðslu vegna fjögurra tímabila, þ.e. apríl, maí, júní og september. Með bréfi, dags. 9. maí 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda um fjárhæð vangreidds sölugjalds árið 1983 42.704 kr. auk álags 58.940 kr. reiknað til og með 15. maí 1985 eða alls 101.644 kr. Gat skattstjóri þess að byggt væri á sundurliðunum kæranda sjálfs og áður er um getið. Fylgdi og tilkynningunni sundurliðun skattstjóra á söluskattsfjárhæðinni á einstök tímabil auk útreiknings hans á álagsfjárhæðinni. Kemur þar fram að ofgreitt sölugjald var dregið frá heildarfjárhæð vanreiknaðs sölugjalds ársins en hafði ekki áhrif við útreikning álags á vanreiknað sölugjald hvers tímabils. Kærandi kærði ákvörðun þessa til skattstjóra með kæru dags. 17. maí 1985 og krafðist þess „að ofgreitt sölugjald einstakra mánaða sé dregið frá vangreiddu sölugjaldi áður en viðurlög eru reiknuð“.

Þann 29. maí 1985 kvað skattstjóri upp kæruúrskurð í málinu. Synjaði hann kröfu kæranda með svofelldum forsendum:

„Tilkynning skattstjóra um vangreitt sölugjald fyrir árið 1983 ásamt yfirliti um stöðu hvers mánaðar fyrir sig og útreikningur á álagi og dráttarvöxtum á vanreiknað sölugjald er dags. 09.05.1985 og póstlagt sama dag, kærufrestur til skattstjóra var tilgreindur 10 dagar, krafa umboðsmanns kæranda var dags. 17. maí 1985 eða á kærufresti. Skv. 21. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt, skal aðili sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt söluskattsskýrslu, sé söluskattur ekki greiddur á tilskyldum tíma, eða til viðbótar þeim söluskatti, sem honum ber að standa skil á, sbr. 10. gr. ofangr. laga. Í úrskurði við 29. gr. reglugerðar nr. 486/1982 um söluskatt segir að komi í ljós við endurskoðun söluskatts (samanburð við tekjuskattsframtöl), að áætlun vegna einstakra gjaldtímabila, svo og eftir atvikum framtalin velta á söluskattsskýrslum, er hærri samanlagt en tekjuskattsframtal en hins vegar fullnægjandi söluskattsskýrsla eða söluskattsyfirlit hefur borist skattstjóra, þó of seint sé, skal endurgreiða ofreiknaðan söluskatt.

Skv. ofanrituðu þykir ekki hægt að taka kæru yðar til greina, þar sem í þeim tilfellum að um drátt er að ræða á söluskatti ber að greiða viðurlög á hann óháð því hvort inneign er einhvern annan mánuð.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 10. júní 1985, og er kröfugerðin svohljóðandi:

„Kröfur umbj. m. eru þær, að ofgreitt sölugjald einstakra mánaða sé dregið frá vangreiddu sölugjaldi einstakra mánaða áður en viðurlög og dráttarvextir eru reiknaðir.

Í lögum um sölugjald er hvergi að finna ákvæði um vexti af ofgreiddu sölugjaldi, en hins vegar ítarleg ákvæði um viðurlög og dráttarvexti vegna vangreidds sölugjalds. Við útreikninga sína styðst skattstjóri eingöngu við vangreitt sölugjald einstakra tímabila, en tekur ekkert tillit til þeirra tímabila, þar sem sölugjald er ofgreitt. Jafnvel þótt lög um sölugjald beri ekki með sér ákvæði um vexti af ofgreiddu sölugjaldi, telur umbj. m. andstætt eðli máls og almennum víðskiptaháttum að sniðganga ofgreidd sölugjaldstímabil við útreikning viðurlaga á vangreidd sölugjaldstímabil.

Aðalkrafa umbj. m. er því sú, að ofgreitt sölugjald verði dregið frá vangreiddu sölugjaldi áður en viðurlög eru reiknuð, en til vara, að ofgreitt sölugjald verði dregið hlutfallslega frá vangreiddu sölugjaldi og reiknuðum viðurlögum þeirra vangreiddu tímabila, sem á undan hafa gengið hinu ofgreidda.

Með bréfi dags. 3. desember 1985 gerir ríkisskattstjóri þær kröfur fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þegar umræddur mismunur kom fram við ársuppgjör kæranda fyrir árið 1983 var rétt að hann léti innheimtumanni ríkissjóðs í té leiðréttar söluskattsskýrslur fyrir sérhvert tímabil þess árs, þ.á m. fyrir þau tímabil sem sölugjald hafði áður verið ofgreitt. Sérstök ákvæði eru hvorki í söluskattslögum né reglugerð um vexti af ofgreiddu sölugjaldi og fer þá um það eftir ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt og 43. gr. reglugerðar nr. 486/1982 um söluskatt. Um vexti af ofgreiddu skattfé er fjallað í 112. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, í XIII. kafla þeirra laga um innheimtu og ábyrgð. Hefur verið litið svo á að ágreiningsefni varðandi innheimtu álagðra opinberra gjalda, þ.m.t. vexti eigi ekki undir kærumeðferð þá, sem kveðið er á um í 99. og 100. gr. laga nr. 75/1981, sbr. t.d. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 838 frá árinu 1982. Verður að líta svo á að sama gildi um kærumeðferð eftir 13. gr. söluskattslaga varðandi það ágreiningsefni sem til úrlausnar er í máli þessu. Er það því eigi á valdsviði ríkisskattanefndar að fjalla um kæru kæranda og henni af þeim ástæðum vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja