Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 169/1986
Gjaldár 1985
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr., 59. gr. 1. mgr., 106. gr. 1. mgr. 2. ml.
Reiknað endurgjald — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Reiknað endurgjald, ákvörðun skattstjóra — Reiknað endurgjald, takmörkun fjárhæðar — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Síðbúin framtalsskil — Álag — Vítaleysisástæður — Hjón
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1985 og eru kæruatriði sem hér greinir:
1. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að beita 15% álagi á gjaldstofna vegna síðbúinna framtalsskila en skattframtal kærenda barst skattstjóra þann 24. júní 1985 eða eftir lok framtalsfrests en fyrir álagningu opinberra gjalda það ár. Er þess krafist að sú álagsbeiting verði felld niður. Er gerð grein fyrir hinum síðbúnu framtalsskilum og þau sögð „stafa af seinagangi og mistökum annars vegar endurskoðenda minna og hins vegar E“, svo sem kærandi, eiginmaður, getur um í kæru sinni til skattstjóra, dags. 13. ágúst 1985.
2. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að hækka reiknað endurgjald eiginmanns vegna rekstrar „Á.“ úr 50.000 kr. í 150.000 kr. og eiginkonu úr 210.000 kr. í 310.000 kr. Þessum ákvörðunum sínum til stuðnings vitnaði skattstjóri í viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra og tók tillit til annarra launa og veikinda við ákvörðun reiknaðs endurgjalds eiginmanns. Í bréfi til skattstjóra dags. 24. september 1985 er svofelld grein gerð fyrir fjárhæð þess reiknaðs endurgjald er fært var í skattframtali kærenda árið 1985:
„Hér er um að ræða atvinnurekstur sem öll fjölskyldan stendur að. Aðkeypt vinnuafl nam kr. 990.000 árið 1983 en kr. 1.490.000 árið 1984 eða 51,0% hærra. Ástæðan er sú að umbjóðandi minn minnkaði við sig vinnu og var tekið tillit til þess við gerð framtals og reiknaðra launa sem eru samtals kr. 220.000 árið 1983 og kr. 260.000 árið 1984 eða 18,2% hærra.
+A það skal bent að [eiginmaður] var frá vinnu vegna veikinda tæpa 3 mánuði á árinu 1984 og hafði það jafnframt áhrif á vinnuframlag [eiginkonu].
Viðmiðunarreglur varðandi reiknuð laun eru aðeins til að taka mið af en ekki til að fara alfarið eftir þar sem margar aðrar ástæður og atvik hafa þar áhrif á.“
Með bréfi dags. 10. febrúar 1986 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Álag.
Krafist er staðfestingar á álagsbeitingu skattstjóra. Sú almenna regla gildir að aðili getur ekki öðlast meiri rétt með því að framselja rétt sinn eða skyldur til umboðsmanns. Það að fela umboðsmanni að ganga frá og skila skattframtali getur því ekki leitt til þess að aðili öðlist rýmri rétt til undanþágu frá beitingu álags en ella. í þessu sambandi er rétt að benda á að síðbúin framtalsskil umboðsmanns geta verið bein afleiðing af háttsemi aðila og koma þá til álita ýmis önnur tilvik en sein skil gagna til umboðsmanns. Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á að almennt orðuð yfirlýsing umboðsmanns um að vegna ástæðna sem eingöngu megi rekja til hans hafi framtalsskil aðila dregist, sé ein sér fullnægjandi röksemd fyrir niðurfellingu álags. Reiknuð laun.
Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“
Um 1.
Eftir atvikum þykir rétt að verða við kröfu kærenda og falla frá beitingu álags.
Um 2.
Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga 75/1981 um tekju- og eignarskatt má ákvörðun skattstjóra aldrei mynda tap sem nemur meiru en samanlögðum almennum fyrningum skv. 38. gr. og gjaldfærslu skv. 53. gr. Samkvæmt rekstrarreikningi Á. var ákvörðun skattstjóra um hækkun endurgjalds óheimil og er því fallist á kröfu kærenda.