Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 173/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 74. gr. 5. tl. 2. mgr.  

Útistandandi skuldir — Eignarskattsstofn — Eignarskattsverð — Sönnun — Mat skattskyldrar eignar — Tap á útistandandi viðskiptaskuld

Málavextir eru þeir, að kærendur færðu sem útistandandi skuldir á skattframtali sínu 1985 inneign hjá U. h.f. alls að fjárhæð 4.566.009 kr. í kæru til skattstjóra, dags. 22. ágúst 1985, gerði umboðsmaður kærenda þá kröfu að eignarskattur gjaldárið 1985 yrði felldur niður þar sem framtalin eign hjá U. h.f. væri mjög vafasöm og fengist ef til vill aldrei greidd. Með kæruúrskurði uppkveðnum 13. nóvember 1985 synjaði skattstjóri kærunni á eftirfarandi forsendum:

„Samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 5. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt skal telja útistandandi skuldir til eignar á nafnverði að viðbættum áföllnum vöxtum og verðbótum á höfuðstól í lok reikningsárs nema sannað sé að þær séu minna virði.

Kærendur hafa hvorki sannað né gert sennilegt með gögnum að inneign hjá U. h.f. sé töpuð eða minna virði en fram er talið á skattframtali og er kæru því synjað.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar. Er þess krafist að framtalin eign kærenda hjá U. h.f. verði felld niður við útreikning eignarskattsstofns gjaldárið 1985. Fjárhæð kröfunnar sé sennilega töpuð þar sem félagið hafi verið lýst gjaldþrota og engar eignir fyrir hendi hjá því til að mæta kröfum.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 24. febrúar 1986, er á þá leið að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja