Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 188/1986

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981 — 15. gr., 20. gr., 99. gr.  

Atvinnurekstur — Frádráttarbær kostnaður — Hrossaeign — Búrekstur — Veiðihlunnindi — Tómstundagaman — Arður af eignarréttindum — Landbúnaður — Landbúnaðarskýrsla — Veiðileigutekjur — Bújörð — Reiknað endurgjald — Reiknað endurgjald, takmörkun fjárhæðar — Reiknað endurgjald, ákvörðun skattstjóra — Frávísun v/vanreifunar — Vanreifun

I.

Málavextir eru þeir, að skattstjóri óskaði með bréfi dags. 8. mars 1985 eftir tilteknum upplýsingum um bifreiðaviðskipti kæranda. Í bréfinu lét skattstjóri þess getið, að litið væri svo á að bifreiðaviðskipti kæranda félli undir 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981 og væri því fyrirhugað að endurákvarða opinber gjöld skv. heimild í 96. gr. nefndra laga, ef um hagnað af téðum viðskiptum væri að ræða. Þann 6. júní 1985 ritaði skattstjóri kæranda bréf. í því var honum tilkynnt, að skattframtal hans hefði verið tekið til endurálagningar með vísun til 96. gr. áður nefndra laga og með vísun til boðunar í bréfi skattstjóra frá 8. mars 1985, en eigi hefði borist svar við því bréfi. Færður hefði verið til tekna söluhagnaður bifreiða að fjárhæð 436.749 kr. með því að litið væri svo á að bifreiðaviðskipti kæranda féllu undir 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. í bréfi skattstjóra er gerð grein fyrir útreikningi söluhagnaðarins, þ.e. mismuni söluverðs bifreiða og kaupverðs þeirra að teknu tilliti til verðbreytinga. Tekið var fram, að söluverð bifreiðar af gerðinni Bronco árg. 73 hefði verið áætlað með því að fyrirspurn skattstjóra þar um hefði ekki verið svarað.

Breyting skattstjóra á skattframtali kæranda 1984 var ekki kærð til skattstjóra í kærufresti til hans. Með bréfi, dags. 31. júlí 1985, mótteknu af skattstjóra 11. ágúst 1985, sendi umboðsmaður kæranda erindi til skattstjóra með ósk um að álögð tekjuhækkun vegna ósvaraðs fyrirspurnarbréfs yrði felld niður og álögð gjöld lækkuð til samræmis við það með vísun til rökstuðnings, er í erindinu var tilgreindur. Skattstjóri vísaði málinu frá með bréfi, dags. 17. september 1985. Taldi hann að skriflegar athugasemdir í nefndu erindi við ósvöruðu fyrirspurnarbréfi skattstjóra frá 8. mars 1985 væru of seint fram komnar og yrði því ekki tekin efnisleg afstaða til þeirra. Erindið var síðan tekið til meðferðar hjá embætti ríkisskattstjóra. Úrskurður hans í málinu er dags. 17. október 1985. Í honum segir m.a.:

„Þegar könnuð eru gögn málsins og litið til þess, hversu tíð bifreiðaviðskipti gjaldanda voru á umræddu skattári og því næsta á undan, þykja eigi hafa komið fram nægileg rök fyrir því að viðskiptin falli að 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Er því fallist á þá skoðun skattstjóra, að hagnað af viðskiptunum beri að skattleggja samkv. 1. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt upplýsingum í bréfi umboðsmanns gjaldanda var söluverð Bronco-bifreiðar kr. 150.000 og verður því tap af sölu hennar kr. 20.000. Þar sem söluverðið lá ekki fyrir áætlaði skattstjóri söluhagnað kr. 50.000.

Skattskyldur söluhagnaður var því lækkaður úr 436.749 kr. í 366.749 kr.

II.

Úrskurðinn kærði umboðsmaður kæranda til ríkisskattstjóra með kærubréfi, dags. 24. október 1985. Fór hann fram á, að nefnd tekjuhækkun yrði felld niður. Andmælt var því að bifreiðaskipti kæranda árin 1982 og 1983 gætu talist tíð. Með sölu bifreiðanna hafi kærandi verið að fjármagna íbúðarkaup sín. Með bréfinu lagði umboðsmaðurinn fram dóm kveðinn upp í bæjarþingi Seltjarnarness 23. nóvember 1984. Þar var kæranda gert að þola riftun á kaupsamningi frá 1983 um bifreiðina, Honda Prelude AM, árgerð 1979. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi keypt þá bifreið í október 1983 á 230.000 kr. og selt hana aftur fyrir sama verð í þeim sama mánuði.

Ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð í málinu þann 26. nóvember 1985. Var kröfum kæranda hafnað. í úrskurðinum er m.a. bent á, að af fylgiskjali með skattframtali 1984 og öðrum gögnum málsins megi sjá, að kærandi hafi á árinu 1983 keypt átta bifreiðar og selt sjö. Þá sé þess getið í kæru umboðsmanns kæranda að sala á „Ecoline-bifreið“, er hann hafi átt í tvö ár, hafi farið þannig fram, að á sex vikum hafi verið skipt fjórum sinnum á bifreiðum og teknar þá upp í andvirði ódýrari bifreiðir. Með því að rekja gang þeirra viðskipta sjáist, að kærandi hafi á þeim hagnast um 150.000 kr. Auk þess hafi hagnaður af sölu „Ecoline-bifreiðar“ verið 244.085 kr. eftir að tekið hafi verið tillit til verðbreytinga skv. ákvæðum 26. gr. laga nr. 75/1981. Þá telur ríkisskattstjóri að niðurstaða fyrrgreinds dóms bæjarþings Seltjarnarness breyti því ekki að telja beri hagnað af bifreiðaviðskiptum kæranda á árinu 1983 skattskyldan, né heldur að dómurinn breyti því hver fjárhæð hagnaðarins skuli teljast.

III.

Úrskurði ríkisskattstjóra hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kærubréfi, dags. 10. desember 1985. í því er ítrekuð krafan um niðurfellingu tekjuhækkunar á skattframtali kæranda 1984 um 366.749 kr. vegna bifreiðaviðskipta hans. Segist umboðsmaðurinn vilja ítreka það að umrædd bifreiðaviðskipti tilheyri ekki atvinnurekstri hjá kæranda eða braski enda hafi hér verið um einkabifreiðar að ræða. Til að ná sem bestu verði og mestri útborgun hafi bifreiðasalar ráðlagt umbjóðanda sínum að skipta niður í ódýrari bifreiðar og það hafi hann gert við sölu á umræddri Ecoline-bifreið, sem hann hafi átt í tvö ár og honum hafi verið reiknað til tekna með 244.085 kr. Sú spurning vakni hvernig meðhöndlun skattyfirvalda hefði orðið, ef umbjóðandi sinn hefði verið svo heppin að selja bifreiðina beint. Varpar umboðsmaðurinn fram þeirri spurningu í kærubréfi sínu, hvort túlka beri skatta-lögin þannig, að einstaklinga eigi að skattleggja fyrir að fá sem besta og öruggustu greiðslu fyrir bifreiðar sínar sem þeir hafi átt í tvö ár og flokka þá undir braskara. Þá hafi umbjóðanda sínum verið reiknaðar 122.664 kr. til tekna. En það sé mismunur á kaup- og söluverði bifreiða á árinu 1983. Vekur umboðsmaðurinn athygli á fyrrgreindum dómi bæjarþings Seltjarnarness þar sem kærandi hafi verið dæmdur til að endurgreiða andvirði bifreiðar 230.000 kr. auk kostnaðar. Bifreiðina sé hann nú búin að selja aftur fyrir 110.000 kr. Tap á umræddri bifreið hafi því orðið 120.000 kr. fyrir utan kostnað. Með sölu á umræddum bifreiðum hafi umbjóðandi sinn verið að fjármagna íbúðarkaup sín og sé því farið frá á, að umrædd tekju-hækkun verði felld niður enda óraunhæft með vísun til framkominna upplýsinga segir umboðsmaður kæranda að lokum í kæru sinni til ríkisskattanefndar.

IV.

Með bréfi dags. 20. janúar 1986 gerir ríkisskattstjóri þá kröfu í málínu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

V.

Svo sem atvikum máls þessa er háttað varðandi bifreiðaviðskipti kæranda á árinu 1983 þykir bera að ákvarða söluhagnað hans af sölu bifreiða á því ári eftir ákvæðum 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Svo sem fram kemur í málinu var kæranda með dómi bæjarþings Seltjarnarness, uppkveðnum þann 23. nóvember 1984, gert að þola riftun að fullu á kaupsamningi frá 3. október 1983 um þargreinda bifreið með þeim hætti að gegn afhendingu bifreiðarinnar endurgreiði hann kaupandanum söluverðið. Ber því að líta svo á að sala bifreiðarinnar hafi aldrei farið fram. Af þeim sökum er umrædd bifreið eignfærð á skattframtali kæranda árið 1984 og honum ekki reiknaður söluhagnaður vegna sölu hennar á árinu 1983.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja