Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 201/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 5. gr., 31. gr. 7. tl., 63. gr. 1. mgr. 3. tl. 3. mgr.  

Hjón — Sköttun hjóna — Rekstrartap, frádráttarbærni — Rekstraraðili — Rekstrartap, meðferð hjá hjónum — Rekstrartap, eftirstöðvar frá fyrri árum — Eftirstöðvar rekstrartaps frá fyrri árum — Yfirfæranleiki rekstrartaps — Rekstrartap, yfirfæranleiki — Samrekstur — Samrekstur hjóna — Sjálfstæður skattaðili

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem rak trésmiðju, dró frá hagnaði af þeirri starfsemi, er nam 2.101.658 kr., ónotaðar eftirstöðvar rekstrartapa frá fyrri árum framreiknaðar að fjárhæð 1.327.082 kr., sbr. samræmingarblað, sem fylgdi skattframtali hans árið 1985. Með bréfi, dags. 20. maí 1985, boðaði skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að lækka fjárhæð framreiknaðs yfirfæranlegs rekstrartaps færðu til lækkunar á hreinum tekjum af atvinnurekstri um 226.574 kr. eða sem svaraði til yfirfæranlegs framreiknaðs taps af skattframtali maka árið 1984 með skírskotun til 3. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá taldi skattstjóri, að kærandi hefði að auki offært framreiknað rekstrartap frá fyrri árum um 282.021 kr. svo sem hann gerði nánari grein fyrir og boðaði því lækkun rekstrartaps um þá fjárhæð. Ekki var bréfi þessu svarað innan tilskilins svarfrests. Með bréfi, dags. 19. júlí 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda m.a., að framreiknað yfirfæranlegt rekstrartap fært til lækkunar á hreinum tekjum ársins 1984 væri lækkað úr 1.327.082 kr. í 818.487 kr. Að gerðri þessari breytingu yrði fjárhæð í reit 62 í skattframtalinu 1.283.171 kr. í stað 774.576 kr.

Í kæru, dags. 12. ágúst 1985, mótmælti umboðsmaður kæranda lækkun rekstrartapsins um 226.574 kr. með svofelldum rökum: „Umbjóðandi minn fær ekki séð að þó svo að þau hjónin hafi á tímabili verið með sameiginlegan rekstur þeirra tvískiptan og hann hafi hagræðis vegna verið „eyrnamerktur hvoru þeirra fyrir sig, að ónotað millifæranlegt tap á þeim rekstri, sem lagður var niður, megi ekki sameina eða jafna út á móti þeim rekstri, sem haldið er áfram með. Með kæruúrskurði, dags. 14. október 1985, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Skattstjóri vísaði til þess, að skv. 3. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skyldi fara með tap eins og hreinar tekjur af atvinnurekstri, en þær skyldi telja hjá því hjóna, sem fyrir rekstrinum stæði. Öll málsgögn bæru með sér, að kjólaverslunin D. hefði einvörðungu verið rekin af eiginkonu kæranda og þætti ekki hafa verið sýnt fram á annað. Væri því óheimilt að færa tap af þeim rekstri á móti rekstrartekjum kæranda.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 24. október 1985. Í kærunni er svofelldan rökstuðning að finna:

„Umbjóðendur mínir telja þó að þau hafi hvort fyrir sig stjórnað sínhvoru (sic) fyrirtækinu, hann trésmíðaverkstæðinu og hún kjólaversluninni, þá hafi rekstur beggja rekstrardeilda verið á ábyrgð þeirra beggja og að um sameiginlegan rekstur hafi verið að ræða. Tap kjólaverslunarinnar er borið uppi af rekstri trésmíðaverkstæðisins og þar með telja þau að millifæranlega tapið af rekstri kjólaverslunarinnar hljóti að mega draga frá tekjum verkstæðisins samkvæmt 7. tölulið 31. gr. laga nr. 75/1981.

Ég legg áherslu á það að hér er um deildarskiptan sameiginlegan rekstur að ræða og fer hér með fram á að framreiknað tap á rekstri kjólaverslunarinnar megi draga frá tekjum trésmíðaverkstæðisins áður en til skattlagningar kemur á nettó afrakstur ársins.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 1986, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Enginn tölulegur ágreiningur er í málinu.

Að virtum málsgögnum og með vísan til ákvæða 3. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir bera að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja