Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 210/1986
Gjaldár 1984
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.
Íbúðarlán — Íbúðarhúsnæði — Vaxtagjöld — Húsbygging — Byggingarsamvinnufélag — Byggingarsamningur — Verðbætur
Málavextir eru þeir, að kærandi færði meðal vaxtagjalda til frádráttar í reit 87 í skattframtali sínu árið 1984 vaxtagjöld að fjárhæð 141.358 kr. af skuld við Byggingarsamvinnufélag ungs fólks (Byggung) í Kópavogi. Gat kærandi þess í framtalinu, að hann hefði gerst þátttakandi í 7. áfanga hjá félaginu. Áætluð innborgun til 31. des. 1983 væri 349.500 kr. Hann hefði greitt 265.000 kr. þar af 141.358 kr. í vexti.
Með bréfi, dags. 28. janúar 1985, krafði skattstjóri kæranda um staðfestar kvittanir fyrir greiðslu nefndra vaxtagjalda og með bréfi kæranda, dags. 7. febrúar 1985 barst staðfesting byggingarsamvinnufélagsins, dags. sama dag, á téðri vaxtagreiðslu kæranda og kom þar fram, að vaxtagjöld þessi væru endurgreiðsla á vöxtum, sem félagið hefði orðið að greiða vegna íbúðar kæranda í Kópavogi.
Að þessum upplýsingum fengnum boðaði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 8. mars 1985, að nefnd vaxtagjöld yrðu niður felld af svofelldum ástæðum:
„Samkvæmt upplýsingum í framtalsgögnum yðar genguð þér inn í 7. byggingaráfanga hjá Byggung í Kópavogi á árinu 1983 og greidduð á því ári kr. 123.642 í afborgun og kr. 141.358 í uppsafnaðar verðbætur samkvæmt ákvæðum byggingarsamningsins.
Umsamin hækkun á greiðslur skv. kaup- eða byggingarsamningi í hlutfalli við hækkun lánskjaravísitölu á byggingartímanum telst ekki vera verðbætur á lán frá félaginu heldur hluti kostnaðarverðs íbúðarinnar. Fjármagnskostnaður félagsins vegna lána sem félagið tekur, hvort heldur er til reksturs eða til að fjármagna byggingarkostnað að svo miklu leyti sem fjárframlög samningsaðila nægja ekki á byggingartíma, telst vera fjármagnskostnaður hjá félaginu og óviðkomandi samningsaðilum.
Bent skal á að með byggingarsamningi milli aðila telst ekki hafa myndast skuldasamband milli aðila en með skuld er venjulega átt við einhliða skyldu manna til að greiða peninga (t.d. til lánveitanda). Með byggingarsamningi milli aðila telst félagið ekki veita samningsaðila sínum nokkurt lán.“
Þessu mótmælti kærandi í bréfi, dags. 18. mars 1985, en með bréfi, dags. 8. maí 1985, framkvæmdi skattstjóri hina boðuðu breytingu sína og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1984 í samræmi við það. Með bréfi, dags. 6. júní 1985, mótmælti kærandi endurákvörðun skattstjóra og krafðist þess, að hinn umdeildi vaxtagjaldafrádráttur yrði að fullu tekinn til greina. Með kæruúrskurði, dags. 4. október 1985, hafnaði skattstjóri kærunni með vísan til þeirra forsendna, sem fram komu í bréfi skattstjóra til kæranda, dags. 8. maí 1985.
Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. október 1985. Er þess krafist, að vaxtafrádráttur sá, sem tilfærður sé í skattframtali árið 1984, verði að fullu tekinn til greina með hliðsjón af úrskurði ríkisskattanefndar nr. 334/1985. Með bréfi, dags. 5. nóvember 1985, sendi umboðsmaður kæranda nokkur gögn. Er hér um að ræða greinargerð kæranda fyrir kæruatriðum, greiðsluyfirlit frá Byggung, Kópavogi, pr. 31. desember 1983 vegna kæranda, bráðabirgðauppgjör og hreyfingalistar. í greinargerðinni kemur fram, að kærandi hafi gert samning við byggingarsamvinnufélagið Byggung í Kópavogi hinn 18. september 1983. Skv. 3. gr. samningsins sé gert ráð fyrir, að kærandi greiði kostnaðarverð fyrir íbúðina, en auk þess fjármagnskostnað af lánum, sem fé-lagið taki vegna byggingarinnar svo og fjármagnskostnað vegna greiðslna frá kæranda, sem séu of seint fram komnar miðað við greiðsluáætlun félagsins. Þegar kærandi hafi gerst aðili að 7. byggingaráfanga félagsins hafi verið gert ráð fyrir því í greiðsluáætlun, að búið væri að greiða 275.200 kr. Verðbætur við undirskrift samnings á þá fjárhæð hafi verið orðnar 187.789 kr. Fjármagnskostnaður frá sept.-des. 1983 hafi verið 12.917 kr. eða fjármagnskostnaður samtals 200.706 kr. Frá þeirri upphæð hafi verið dregnar verðbótatekjur 59.348 kr. Nettófjárhæð 141.358 kr. hafi verið færð í skattframtal 1984 sem frádráttarbær fjármagnskostnaður vegna húsbyggingar, sbr. 30. gr. laga nr. 75/1981.
Með bréfi, dags. 10. febrúar 1986, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu í máli þessu að ákvörðun skattstjóra verði staðfest.
Fram kemur í skýringum kæranda og framlögðum gögnum, að hin umþrættu vaxtagjöld séu fólgin í verðbótum á greiðslur skv. byggingarsamningi. Eigi verður talið, að hér sé um að ræða frádráttarbær vaxtagjöld skv. 1. tl. E- liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er kröfu kæranda því hafnað.