Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 219/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 74. gr. 1. tl.  

Eignarskattsstofn — Eignarskattsverð — Mat skattskyldrar eignar — Fasteignamatsverð — Fasteign — Verkamannabústaður — Dánarbú

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var eigi talið fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu gjalda 1985 og sætti hann því áætlun skattstjóra á eignarskattsstofni. Álagningin var kærð til skattstjóra með kæru dags. 20. ágúst 1985 og skattframtal 1985 lagt fram. Með kæruúrskurði dags. 14. október 1985 féllst skattstjóri á að leggja framtalið til grundvallar álagningu með þeirri breytingu að íbúð í Reykjavík var talin til eignar á fasteignamatsverði.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 11. nóvember 1985 og er hún svohljóðandi:

„Íbúð í eigu dánarbúsins er þar hækkuð upp til samræmis við fasteignarmatsverð, sem í þessu tilfelli er út í hött.

Íbúð þessi, sem nú hefur verið seld, heyrði undir Verkamannabústaðakerfið og þrátt fyrir ítrekaðar óskir okkar um að fá að selja hana á opnum markaði, þá var því ætíð synjað. Gangverð þessarar íbúðar hefði verið ca. 2.2 — 2.4 milljónir króna miðað við hefðbundin greiðslukjör eins og þau tíðkast á fasteignamarkaði í Reykjavík. Staðgreiðsluverðið hefði því verið um 1.6 — 1.8 milljónir króna, eða nálægt fasteignamatsverði. Þar sem stjórn Verkamannabústaða synjaði um söluheimild á íbúðinni, sá hún um mat á íbúðinni og hljóðaði það upp á um 840 þúsund krónur.

Þar sem við gátum með engu móti sætt okkur við þetta verð endurskoðaði stjórnin matið og hljóðaði það eftir endurmatið upp á kr. 1.139.345.00. Stjórn verkamannabústaða hefur nú staðið okkur skil á þeirri upphæð að fullu. Um mat íbúðarinnar sáu starfsmenn Stjórnar verkamannabústaða alfarið (eingöngu) og fengum við ekki að tilnefna neinn aðila fyrir okkar hönd í matsnefnd, til að gæta okkar hagsmuna, eins og eðlilegt hefði þó talist. Hlýtur það að vera einsdæmi í lýðfrjálsu landi, að kaupandi ákveði sjálfur verð eigna, án þess að seljandi geti haft þar nokkra hönd í bagga. Hlýtur einnig að vera hæpið að slíkt standist ákvæði Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands um eignarétt.

Þar sem raunverulegt verðmæti íbúðarinnar er 1.139.345.00 samkvæmt matsgerð opinbers aðila, hlýtur það að teljast hinn eini og sanni eignarskattsstofn. Væntum við því að leiðrétting verði gerð á eignarskatti í samræmi við það.

Með bréfi dags. 3. febrúar 1986 gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Skv. 1. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981 skal telja fasteignir til eignar á gildandi fasteignamatsverði. Er því gerð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra.

Með vísan til þess er fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra er kröfu kæranda synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja