Úrskurður yfirskattanefndar
- Frumgögn skattstjóra
- Gagnaöflun ríkisskattstjóra áfátt
Úrskurður nr. 337/1997
Gjaldár 1992
Lög nr. 30/1992, 6. gr.
Gögn máls þessa fundust ekki hjá embætti skattstjóra og voru því ekki lögð fyrir yfirskattanefnd. Yfirskattanefnd tók fram að við þessar aðstæður yrði ekki felldur efnisúrskurður í málinu. Að svo vöxnu taldi nefndin ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun skattstjóra úr gildi.
I.
Með kæru, dags. 16. febrúar 1995, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1992, sbr. endurákvörðun, dags. 29. apríl 1993, og kæruúrskurð, dags. 17. janúar 1995. Í kærunni er mótmælt þeirri ákvörðun skattstjóra að lækka frádrátt kostnaðar vegna ökutækjastyrks sem kærandi fékk frá X árið 1991 og er þess krafist að frádráttur kostnaðar vegna ökutækjastyrks á skattframtali kæranda gjaldárið 1992 verði að fullu tekinn til greina.
Með bréfi, dags. 14. mars 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Ríkisskattstjóri hefur frá árinu 1995 árangurslaust reynt að afla nauðsynlegra gagna í málinu frá skattstjóranum í Reykjavík en gögnin finnast ekki þar. Einnig hafa kæranda verið send bréf þar sem óskað er eftir nauðsynlegum gögnum en engin svör hafa borist. Hefur því ekki tekist að afla þeirra gagna sem nauðsynleg eru til að hægt sé að taka efnislega á kærunni. Ríkisskattstjóri gerir því kröfu um frávísun kærunnar frá yfirskattanefnd."
II.
Eins og fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra hafa gögn máls þessa ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan. Þar sem fullnægjandi gögn hafa ekki verið lögð fyrir yfirskattanefnd verður ekki felldur efnisúrskurður í máli þessu. Að svo vöxnu verður því ekki hjá því komist að fella hina kærðu endurákvörðun úr gildi, en með úrskurði þessum er engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnis máls þessa.