Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 227/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 93. gr., 95. gr. 2. mgr., 106. gr. 1. mgr. 2. ml  

Síðbúin framtalsskil — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Rökstuðningur úrskurðar skattstjóra — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Framtalsfrestur

Málavextir eru þeir, að skattframtal kærenda árið 1985 barst skattstjóra hinn 19. apríl 1985. Með bréfi, dags. sama dag, fór umboðsmaður kærenda fram á, að heimildarákvæðum um viðurlög í 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt yrði ekki beitt með tilliti til þeirra aðstæðna, sem sköpuðust vegna tímabundinna framtalsskila. Með bréfi, dags. 19. júlí 1985, tilkynnti skattstjóri kærendum, að 15% álagi hefði verið bætt við skattstofna samkvæmt skattframtalinu, sbr. heimildarákvæði 2. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, þar sem framtalið hefði borist að liðnum framtalsfresti. Lagði skattstjóri skattframtalið að viðbættu álagi þessu til grundvallar álagningu opinberra gjalda við frumálagningu þetta gjaldár.

Með kæru, dags. 20. ágúst 1985, mótmælti umboðsmaður kærenda álagsbeitingunni. Gerði hann grein fyrir því, sem olli drætti á framtalsskilunum. Kærandi hefði komið til framtalsgerðar, en þá hefði framtalið ekki verið undirritað af eiginkonu, sem hefði verið veik. Að framtalsgerð lokinni hefði hann, umboðsmaðurinn, sent framtalið með pósti til kærenda og óskað eftir undirskrift eiginkonu og að framtalið yrði sent aftur til skattstjóra. Mistök hefðu orðið á þessu og því tafir á því, að það bærist til skattstjóra. Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með úrskurði, dags. 19. nóvember 1985, og hafnaði kröfu kærenda, enda væri ekki fallist á, að tilvik kærenda væri þess eðlis, að ákvæði 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 gætu átt við.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 10. desember 1985. Krefst hann þess, að álagið verði fellt niður. Færir hann aðallega fram þá málsástæðu, að mistök þau, sem fyrr hefur verið lýst, hafi valdið drætti þeim, sem varð á framtalsskilunum. Kærandi hefði leitað framtalsaðstoðar 20. febrúar 1985 og framtal þá frágengið og vélritað. Til vara vill hann byggja á því, að kærendur hafi átt rétt á framtalsfresti einstaklinga með atvinnurekstur til 20. maí 1985 skv. bréfi ríkisskattstjóra. Kærandi hefði verið með verktakarekstur árið 1983 og af þeim sökum greitt aðstöðugjald. Eftirstöðvar af rekstri væru litlar, en gera hefði átt grein fyrir því á sínum tíma. Fylgdi kærunni rekstrarreikningur ársins 1984 vegna eftirstöðva þessa reksturs.

Með bréfi, dags. 10. mars 1986, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu: „Gerð er krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra.

Forsenda fyrir beiðni umboðsmanns kæranda til skattstjóra um að álagi yrði ekki beitt var að vegna árstíðabundins álags hjá umboðsmönnum hafi framtalsskil tafist.

Í kæru til ríkisskattanefndar telur kærandi að framtalsskilum hafi lokið 20. febrúar 1985 en vegna misskilnings hafi gögnum ekki verið skilað til skattstofu fyrir en 19. apríl 1985.

Ríkisskattstjóri fellst ekki á að tilvik kærenda sé þess eðlis að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 eigi við.

Varakröfu sína byggir umboðsmaður kæranda á því að kærandi hafi haft atvinnurekstur með höndum á árinu 1983 og sendir með kæru til ríkisskattanefndar rekstraryf­irlit vegna eftirstöðva af rekstrinum. Á árinu 1984 hafði kærandi ekki með höndum neinn atvinnurekstur þannig að honum bar ekki lengri frestur en til 10. febrúar, sbr. 93. gr. laga nr. 75/1981. Ekkert liggur heldur fyrir í málinu um að hann hafi haft lengri frest.

Jafnframt er bent á, vegna tilvitnunar umboðsmanns kæranda í bréf ríkisskattstjóra, að fresturinn til 20. maí var háður því skilyrði að endurskoðendur hefðu fyrir kl. 12 á hádegi þann 18. mars 1985 tilkynnt viðkomandi skattstjóra um nöfn þeirra framteljenda sem frest átti að fá fyrir.

Með vísan til framanritaðs er ítrekuð krafa um álagsbeitingu.

Ríkisskattstjóri og skattstjóri láta við það sitja að fjalla um hina umdeildu álagsbeitingu með tilliti til ákvæða 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem mælir fyrir um skyldu til niðurfellingar álags, þegar tilgreind atvik hafa verið fyrir hendi. Að öðru leyti er eigi af þeirra hálfu leitast við að skjóta stoðum undir þá kröfu. að heimildarákvæðum 2. ml. 1. mgr. 106. gr. nefndra laga skuli beitt í tilviki kærenda, en eigi leysa lög þá undan slíkum málatilbúnaði. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af fyrirliggjandi skýringum kærenda er hið kærða álag niður fellt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja