Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 281/1986

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl., 60. gr. 2. mgr., 106. gr. 2. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að í greinargerð um eignabreytingar á skattframtali sínu 1984 gat kærandi um að hann hefði fengið „bifreið afhenta frá X sem eftirlaunagreiðslu vegna næstu fimm ára. Verð hennar væri 268.591 kr. og hefði 1/5 hluti þess verið færður til tekna á árinu. Með bréfi, dags. 13. nóvember 1984, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði í hyggju m.a. að hækka tekjur á skattframtali 1984 um 214.873 kr., þar sem bifreiðina skyldi telja til tekna á því ári sem hún hefði verið afhent og vitnaði í því sambandi til 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Þessum áformum um breytingu á skattframtali kæranda 1984 var andmælt af umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 23. nóvember 1984. Í því segir hann m.a.: „Gjaldandi lét af störfum hjá X í árslok 1982 og var þá gerður við hann eftirlaunasamningur til fimm ára. Einn þáttur í greiðslu eftirlaunanna samkvæmt samningnum var að gjaldandi skyldi eignast bifreiðina á þessum árum. Hér er um að ræða greiðslu fyrir fimm ára tímabil, en ekki eitt ár og á verðmæti því ótvírætt að dreifast til tekna á þessi fimm ár. Fyrirtækið mun einnig gjaldfæra verðmæti bifreiðarinnar á fimm árum.
Með bréfi, dags. 16. apríl 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda, að hann hefði ákveðið í framhaldi af bréfaskiptum þessum að endurákvarða opinber gjöld kæranda 1984 skv. 96. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Um grundvöll endurákvörðunarinnar segir svo í bréfi skattstjóra:
„Sá hluti bifreiðarinnar sem ekki var tekjufærður kr. 214.873,- er færður til tekna á framtali yðar í lið T-2 sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981. Hér er ekki um óvissar tekjur að ræða og bifreiðin kemur yður að fullum notum þegar við afhendingu.
Við ofangreindar fjárhæðir bætist 25% álag skv. 106. gr. laga nr. 75/1981 kr. 53.718,- á tekjur til tekjuskatts og á tekjur til útsvars kr. 53.718,-.

II.

Endurákvörðun skattstjóra var til hans kærð með bréfi, dags. 15. maí 1985. Var sú kæra síðan rökstudd með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 21. júní 1985. ítrekuð voru þau atriði, er frá er greint í svarbréfi til skattstjóra þann 23. nóvember 1984. Kærandi hafi látið af störfum hjá X á árinu 1982. Hafi hann þá gert eftirlaunasamning við fyrirtækið þar sem kveðið sé á um tiltekin laun og launagildi næstu fimm ár frá starfslokum. Þáttur í þessu samkomulagi hafi verið að kærandi eignaðist á tímabilinu bifreið, sem áður hafi verið í eigu fyrirtækisins, m.ö.o. hluti af launakjörum hans á þessu fimm ára tímabili hafi verið yfirtaka bifreiðarinnar. Líklegt megi telja að hin beinu laun hefði orðið eitthvað hærri, ef bifreiðin hefði ekki komið til. Þá benti umboðsmaður á það í bréfi sínu til skattstjóra, að launin samkvæmt samningnum væru talin til tekna á samningstímanum og andvirði bifreiðarinnar hefði verið tekjufært með sama hætti. Á sama hátt hafi fyrirtækið fært bifreiðina af bifreiðareikningi á fyrirframgreiddan kostnað, sem síðan sé gjaldfærður á samningstímanum. Með þessum rök¬um var endurákvörðun skattstjóra frá 16. apríl 1985 mótmælt og sú krafa gerð að hækkun opinberra gjalda samkvæmt henni yrði felld niður.
Skattstjóri kvað upp úrskurð í málinu þann 17. september 1985 og hafnaði kröfu kæranda með vísan til forsendna fyrir endurákvörðun í tilkynningu hans frá 16. apríl 1985.

III.

Úrskurði skattstjóra hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kærubréfi, dags. 8. október 1985. Gerð er sú krafa að hin umdeilda hækkun tekna verði felld niður og að skattframtal kæranda 1984 verði lagt óbreytt til grundvallar álagningu gjalda. Varðandi rökstuðning vísar umboðsmaðurinn til kæru sinnar til skattstjóra dags. 21. júní 1985, en engin viðbótarrök hafi verið færð fram í úrskurði skattstjóra.

IV.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 17. mars 1986, fyrir gjaldkrefjenda hönd gert svofellda kröfu í máli þessu: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

V.

Krafa kæranda í máli þessu þykir eigi studd þeim rökum og gögnum að unnt sé að taka efnislega afstöðu til hennar. Við svo búið er kröfu kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja