Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 293/1986
Gjaldár 1985
Lög nr. 73/1980 — 10. gr., 11. gr., 12. gr., 20. gr., 36. gr. Reglugerð nr. 182/1962 — 12. gr., 13. gr., 15. gr.
Landsútsvar — Olíufélag — Aðstöðugjald — Matvöruverslun — Olíuvörur — Kærufrestur — Kærufrestur vegna landsútsvars — Kæruréttur — Kæruheimild sveitarfélags — Sveitarfélag — Frávísun — Skattyfirvald — Andmælareglan
Kærandi, X-hreppur, krafðist þess í kæru til skattstjórans í Reykjavík, dags. 17. október 1985, að lagt yrði 1,33% aðstöðugjald á rekstur matvöruverslunar A h.f. í X-hreppi er rynni óskipt í sveitarsjóð X-hrepps og fellt yrði niður landsútsvar á þann rekstur.
A h.f. er gjaldskyld til landsútsvars, sbr. d. lið 10. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, og reiknast sá skattur 1 1/3% af heildarsölu, sbr. d. lið 11. gr. sömu laga. Annaðist skattstjórinn í Reykjavík álagningu landsútsvars á fyrirtækið sbr. 12. gr. fyrrnefndra laga, en skattframtali þess árið 1985 hafði fylgt sérstakt framtal til skatts þessa. Að gerðri breytingu á framtöldum skattstofni tilkynnti skattstjórinn í Reykjavík fyrirtækinu með bréfi, dags. 3. júlí 1985, um fjárhæð þess landsútsvars, er því bæri að greiða á árinu 1985 til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Var kærufrestur tilgreindur 15 dagar frá póstlagningu þess bréfs, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 182/1962, um landsútsvör. Gjaldandi sætti sig ekki við ákvörðun skattstjóra á gjaldi þessu, en sá ágreiningur varðar ekki deiluefni í þessu máli.
Með bréfi, dags. 17. október 1985, sneri X-hreppur sér til skattstjórans í Reykjavík þrátt fyrir það, að kærufrestur vegna álagningar landsútsvara gjaldárið 1985 væri liðinn eins og tekið var fram í bréfinu og var farið fram á, að álagt landsútsvar á A h.f. yrði endurskoðað. Rökstuddi sveitarfélagið kröfu sína svo:
„1 Málsatvik eru þau að á árinu 1983 yfirtók A hf. rekstur matvörubúðar í X-hreppi. Þar er einnig selt bensín og olíuvörur en sala þessa hluta er aðskilin í versluninni og því á að vera auðvelt að aðgreina sölu verslunarinnar í bensín og olíuvörur annarsvegar og matvörur hinsvegar. Líklega er það gert í dag.
2. Lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 73/1980 fjalla um landsútsvör í 10. og 11. gr. þeirra laga. Þar er kveðið á um í d-lið 10. gr. að "Olíufélög sem flytja inn olíur, olíuvörur og annast sölu þeirra og dreifingu innanlands" skuli greiða landsútsvör. Þegar þessi lög voru sett og þegar reglugerðin frá 1965 (sic) var samin hefur líklega ekki verið gert ráð fyrir því að olíufélögin færu út í rekstur matvöruverslana eða fyrirtækja án þess að stofna nýtt félag um þann rekstur sem væri sjálfstæður skattaðili og bæri því ekki landsútsvar. Nú hefur slíkt gerst hér í X-hreppi.
Af þessum sökum og vegna þess að ég álít að tilgangur landsútsvarsins á olíufélögin hafi verið sá að leggja skatt á sölu olíuvara en ekki matvara, þá kæri ég álagt lands-útsvar á A h.f. v/rekstur þess í X-hreppi. Fer ég fram á að lagt verði 1.33% aðstöðugjald á rekstur matvöruverslunarinnar sem renni óskipt í sveitarsjóð X-hrepps og fellt verði niður landsútsvar á þann rekstur.“
Með kæruúrskurði, dags. 6. nóvember 1985, vísaði skattstjórinn í Reykjavík kærunni frá sem of seint framkominni. Vísaði skattstjóri til þess, að kærufrestur vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1985 hefði runnið út hinn 22. ágúst 1985, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og auglýsingu skattstjóra, dags. 24. júlí 1985, skv. 1. mgr. 98. gr. sömu laga. Þá væri kærufrestur vegna álagningar landsútsvars einnig útrunninn. Samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 182/1962, um landsútsvör, sbr. 20. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, færi um kærurétt sveitarfélaga skv. 13. og 14. gr. reglugerðarinnar. Skv. 13. gr. skyldi kæra hafa borist skattstjóra innan 15 daga frá því að ábyrgðarbréf um álagninguna hefði verið póstlagt. Álagningin hefði verið tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 11. júlí 1985. Hefði kærufrestur vegna landsútsvars því runnið út hinn 26. júlí 1985. Af framangreindum sökum væri kæran, sem dags. væri 17. október 1985, en móttekin 24. s.m., of seint fram komin.
Frávísunarúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda, X-hrepps, verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 7. nóvember 1985, og er þess krafist, að efnislegur úrskurður verði lagður á sakarefnið, enda þótt kærufrestur vegna álagningarinnar sé liðinn.
Með bréfi, dags. 3. desember 1985, krefst ríkisskattstjóri þess, að hinn kærði frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Kærandi telur að sér beri aðstöðugjald vegna reksturs A h.f. á matvöruverslun í sveitarfélaginu, en félagið greiðir landsútsvar, sbr. d.lið 10. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, og var sá skattur m.a. reiknaður af þeim rekstri gjaldárið 1985. Snéri kærandi sér réttilega til skattstjórans í Reykjavík með kröfu sína hér að lútandi. Sakarefnið varðar skattgreiðslur A h.f. og því væri rétt að skattstjóri gæfi gjaldanda kost á að gæta hagsmuna sinna. Þrátt fyrir þetta verður þó úrlausn skattstjóra eigi haggað, enda er ágreiningslaust, að kært hafi verið að liðnum kærufresti og kærandi eigi sýnt fram á, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því, að kært yrði í tæka tíð. Verður því að staðfesta hinn kærða frávísunarúrskurð skattstjóra.