Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 303/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 10/1960 — 12. gr., 21. gr., 25. gr., 26. gr.  

Söluskattur — Skattsekt — Söluskattsskil — Söluskattsskil, frestun milli tímabila — Söluskattstímabil — Skattrannsókn — Bókhald — Söluskattsskýrsla — Söluskattsálag — Skattsvik — Tekjuskráning — Skattrannsóknarstjóri — Sönnun

Með bréfi, dags. 13. nóvember 1985, hefur skattrannsóknarstjóri sent ríkisskattanefnd til sektarmeðferðar mál B. h.f., Reykjavík. í því bréfi er svofelld greinargerð:

„Málavextir eru þeir að rannsóknardeild ríkisskattstjóra gerði athugun á bókhaldi og söluskattsskilum B. h.f., Reykjavík, fyrir mánuðina janúar, febrúar, mars, apríl og maí 1985. Tekin var saman skýrsla um athugunina og hún send gjaldanda með bréfi ríkisskattstjóra dags. 5. júlí 1985.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að félagið er stofnað 26.11.1971 og er starfsemi þess fjórþætt. í fyrsta lagi er um að ræða innflutning og sölu á bílum, vélhjólum, vinnuvélum o.þ.h., í öðru lagi hjólbarðasölu, í þriðja lagi varahlutaverslun og í fjórða lagi rekstur bílaverkstæðis.

Bókhald er tölvufært. Að sögn aðalbókara var bókhald félagsins fært en eigi reyndist unnt að sannreyna það þar sem útkeyrslur úr tölvu voru ekki fyrirliggjandi. Tekjuskráning gjaldanda fer að mestu leyti fram á þann veg að sala er skráð á nótur sem hvorki eru með fyrirfram áprentuðum haus né fyrirfram númeraðar. Um leið og nóta er skrifuð prentar tölvan nafn félagsins á nótueyðublöðin og gefur þeim númer í hlaupandi röð. Félagið auðkennir sér ekki nóturnar á annan hátt. Þá er sala ennfremur skráð á nótur sem eru fyrirfram númeraðar og með áprentuðu nafni og nafnnúmeri félagsins.

Í skýrslunni kemur einnig fram að misræmi er á milli innsendra söluskattsskýrslna og bókhalds, þannig að ekki er talin fram sú heildarvelta og söluskattsskyld velta sem bókhaldið segir til um mánuðina febrúar, mars og apríl. Gjaldandi skilaði, að kröfu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra, yfirliti yfir vanframtalda söluskattsskylda veltu sína mánuðina janúar til og með maí 1985. Samkvæmt yfirliti þessu er söluskattsskyld velta gjaldanda vanframtalin um kr. 3.885.079 í febrúar, kr. 3.206.256 í mars (misritaðist sem kr. 3.208.256 í skýrslu rannsóknardeildar), og kr. 4.379.817 í apríl 1985.

Í bréfi sínu dags. 17. júlí 1985 gerir umboðsmaður gjaldanda ekki athugasemdir við skýrslu rannsóknardeildar, að því er varðar umfjöllun um söluskattsskil félagsins.

Á grundvelli skýrslunnar gerði ríkisskattstjóri félaginu að greiða viðbótarsölugjald af vanframtalinni söluskattsskyldri veltu ásamt álagi með úrskurði dagsettum 9. ágúst 1985, mál 2-2-877.

Hækkun ríkisskattstjóra var sem hér segir:

1985 Viðbótarsölugjald Álag reikn. fram til 16.8.1985

Kr.

febrúar 751.918 263.171

mars 620.539 192.367

apríl 847.670 228.871

Samtals 2.220.127 684.409

Gjaldandi kærði ekki úrskurð þennan.

Samkvæmt framangreindum gögnum málsins var bókhaldi félagsins ekki hagað lögum samkvæmt á umræddum söluskattstímabilum, tekjuskráningu verulega ábótavant, söluskattsskyld velta þess vanframtalin og því greiddur lægri söluskattur en vera bar.

Telja verður að þetta varði gjaldanda sektum skv. 1. og 2. mgr. 25. gr. laga um söluskatt nr. 10/1960, sbr. nú 4. gr. laga nr. 33/1982.“ Með bréfi ríkisskattanefndar dags. 19. nóvember 1985 var félaginu veitt færi á að skila vörn af sinni hálfu í tilefni af framanröktu bréfi skattrannsóknarstjóra. Var það gert með bréfi, dags. 17. desember 1985 og þar gerðar svofelldar athugasemdir:

„1. Bókhald félagsins er allt tölvufært og tel ég það í góðu lagi. Hefur verið lögð áhersla á það, að tölvuvæða sem mest innan fyrirtækisins og eru helstu tölvukerfi sem hér segir:

Fjárhagsbókhald, viðskiptamannabókhald vegna vörusölu búðar og dekkja, viðskiptamannabókhald vegna bifreiðasölu, launabókhald, víxlaskrá, tolla- og verðútreikningsprógram, útskrift bílreikninga, svo og lagers og sölukerfi varahlutaverslunar. Flest öll þessi kerfi eru uppfærð frá degi til dags (up to date).

Sú fullyrðing rannsóknardeildar ríkisskattstjóra að ekki hafi verið hægt að sannreyna bókhald félagsins þykir okkur ekki réttmæt. Þótt heildarhreyfingarlisti ársins lægi ekki fyrir þegar þá bar að garði, er með litlum fyrirvara hægt að skrifa hann út. Á það skal bent að athugunin fór fram um mánaðarmót, þ.e. 1. og 2. júlí, þegar álagið er mest á tölvunni, þ.e. verið að uppfæra viðskiptamenn, skrifa út yfirlit, reikna laun o.s.frv. Að sögn aðalbókara fengu fulltrúar rannsóknardeildar alla þá lista er þeir báðu um, og auk þess yfirlit um vangreitt sölugjald sem fylgir skýrslu þeirra dags. 4. júlí 1985.

  1. Varðandi reikninga, sem skrifaðir eru út í tölvu var það eingöngu af sparnaðarástæðum, sem talvan var látin útbúa fyrirsögn (eða haus) og númer í hlaupandi röð. Sparar þetta félaginu alla reikningaprentun sem er æði kostnaðarsöm. Töldum við þetta jafn öruggt og fyrirfram tölusetta reikninga, þar sem sérfræðiþekkingu þarf til að breyta þessari töluröð í tölvunni.
  2. Í bréfi yðar dags. 19. nóvember s.l. gerið þér grein fyrir kröfu skattrannsóknarstjóra um sektir vegna meints undandráttar á sölugjaldi. Ég leyfi mér að benda á að sölugjald félagsins hefur verið reiknað út fyrir hvern mánuð og fært í bókhaldi rétt, þótt eigi hafi verið hægt að greiða alla upphæðina.

Er hér því frekar um vanskil, en undandrátt að ræða, enda hefur ekkert komið fram í bókhaldi félagsins, sem bendir til sölugjaldssvika. Hér er því eingöngu um drátt á greiðslu. Tel ég afar mikilvægt að hafa þetta í huga, ef ástæða þykir að beita sektum sbr. 25. gr. söluskattslaga, umfram álag skv. 21. gr. sömu laga.“

Sannað þykir að á söluskattsskýrslur gjaldanda hafi vísvitandi verið skráðar lægri veltutölur en bókhald hans sýndi mánuðina febrúar til apríl 1985 og nemur vangreitt sölugjald þessara mánaða samtals 2.220.127 kr. Með lögum nr. 33/1982 1. gr. var sett ákvæði er skyldar gjaldendur ótvírætt til að skila sölugjaldi mánaðarlega í síðasta lagi á eindaga að viðlögðu álagi skv. 21. gr. auk þess sem hann gæti sætt refsingum skv. 25. gr. Með hliðsjón af lagaákvæðum þessum og broti gjaldandans þykir refsing hans hæfilega ákveðin 3.000.000 kr. og hefur þá verið tekið tillit til álags samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960 með síðari breytingum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja