Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 317/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. og B-liður, 31. gr. 1. tl., 92. gr., 99. gr.  

Verktakagreiðsla — Launamiði — Frádráttarbær kostnaður — Rekstrarkostnaður, frádráttarbærni — Kæra — Málsmeðferð áfátt — Kröfugerð — Kröfugerð óljós — Vanreifun — Frávísun v/vanreifunar

Málavextir eru þeir, að skattstjóra barst að því er ætla verður frá kæranda ljósrit af launamiða á hann útgefinn af F. h.f., þar sem er tilgreind greiðsla til hans sem verktaka 5.500 kr. Ljósrit þetta er ódagsett og ekki kemur fram, hvenær það barst skattstjóra. Var ljósrit þetta síðan tekið sem kæra og með úrskurði, uppkveðnum 11. nóvember 1985, færði skattstjóri ofangreinda upphæð, 5.500 kr., til tekna í reit 24 á skattframtali sem reiknuð laun, með vísan til 59. gr. laga nr. 75/1981.

Kærandi hefur skotið máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi dags. 9. desember 1985. Verður helst af kærunni ráðið að athugað verði með kostnað til frádráttar áðurnefndum tekjum.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 8. apríl 1986, gerð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra, þar eð kærandi hafi ekki sýnt fram á, að hann hefði haft neinn kostnað vegna öflunar teknanna.

Gagn það er skattstjóra barst og hann tók sem skattkæru fullnægir ekki þeim lágmarkskröfum sem gerðar eru til hennar um efni og form samkvæmt upphafsákvæðum 99. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Var honum því eigi rétt að svo vöxnu að kveða upp kæruúrskurð í málinu. Þrátt fyrir þá annmarka þykir eftir atvikum eigi rétt að ómerkja úrskurðinn og er kæran því tekin til meðferðar. Kröfugerð kæranda þykir ekki svo skýr eða rökstudd sem skyldi og er kærunni vísað frá ríkisskattanefnd sökum vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja