Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 341/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 73/1980 — 33. gr., 37. gr., 38. gr., 39. gr., 40. gr., 41. gr.   Reglugerð nr. 81/1962 — 8. gr., 12. gr.  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstig — Aðstöðugjaldstilkynning — Verslunarskip — Aðstöðugjaldsskipting milli sveitarfélaga — Aðstöðugjaldsskylda — Lögheimilissveitarfélag — Fasteignaafnot — Heimilisföst atvinnustofnun — Kæra — Kærumeðferð skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Kæruheimild sveitarfélags — Aðstöðugjaldsgreinargerð

Málavextir eru þeir, að við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1985 var hundraðshluti þess aðstöðugjalds, sem kæranda var gert að greiða, 1,3% skv. málsgögnum. í kæru, dags. 15. ágúst 1985, fór umboðsmaður kæranda fram á, að aðstöðugjaldið reiknaðist 0,65% af aðstöðugjaldsstofni með því að rekstur kæranda væri einvörðungu rekstur á farþega- og vöruflutningaskipi (X).

Skattstjóri tók kæruna til meðferðar í kæruúrskurði, dags. 14. október 1985, og ákvað, að álagt aðstöðugjald gjaldárið 1985 skyldi óbreytt standa, enda yrði ekki á það fallist, að X væri að öllu leyti verslunarskip og því þætti ekki ástæða til þess að breyta álagningarprósentu, sbr. a. og d. liði 38. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, um hámark hundraðshluta aðstöðugjalds. Þá þykir rétt að geta þess, að í málinu liggur fyrir ljósrit af bréfi skattstjóra Vesturlandsumdæmis, dags. 19. ágúst 1985, til A., þar sem segir, að skv. símtali þann dag hafi innheimtufulltrúi kaupstaðarins farið fram á, að aðstöðugjald S. h.f. árið 1985 yrði reiknað að nýju með álagningarprósentunni 0,33. Tekur skattstjóri fram í bréfinu, að fyrri útreikningur aðstöðugjaldsins væri 1,3% skv. tilkynningu A. þar um og geti skattstjóri ekki breytt fyrri ákvörðun sinni með úrskurði.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. nóvember 1985, og ítrekuð sú krafa, að aðstöðugjaldsstigið verði ákveðið 0,65%. Þá segir svo í kærunni:

„Forsendur félagsins fyrir kærunni byggjast á því að eina starfsemi félagsins er að eiga og reka farþega- og vöruflutningaskip, X, sem annast flutninga milli A. og R. og ber því að leggja á félagið 0,65% aðstöðugjald, þ.e.a.s. að gjaldið verði lagt á skv. gjaldstiga um rekstur verslunarskipa. Til frekari stuðnings því að X teljist verslunarskip má t.d. benda á, að kjarasamningar áhafnar eru þeir sömu og áhafna á millilandaskipum. Með bréfi, dags. 10. mars 1986, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Í tilkynningum, dags. 3. maí og 20. maí 1985, birtum í Lögbirtingablaði nr. 74, útg. 17. maí 1985 og nr. 82, útg. 11. júní 1985, tilgreindi skattstjóri Vesturlandsumdæmis þau sveitarfélög í umdæminu, sem ákveðið hefðu að nota heimild laga til innheimtu aðstöðugjalds, sbr. 41. gr. laga nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga. Var þar tekið fram, að álagningarstigar hefðu verið sendir hlutaðeigandi umboðsmönnum til birtingar, en fyrir A. væri álagningarstiginn birtur á skattstofu umdæmisins. Tilkynning skattstjóra um aðstöðugjald í A. gjaldárið 1985, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 81/1962, um aðstöðugjald, sem dagsett er 26. apríl 1985, kveður á um, að gjaldstigi skuli vera 0,33% af rekstri fiskiskipa; 0,65% af rekstri verslunarskipa og fiskiðnaðar; 1% af hvers konar iðnrekstri og 1,30% af öðrum atvinnurekstri og falla þessir gjaldstigar að því hámarki, sem um ræðir í 38. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Skattstjóri hefur ákveðið, að aðstöðugjald kæranda gjaldárið 1985 skuli reiknast 1,3% af aðstöðugjaldsstofni, en rekstur kæranda er í greinargerð um aðstöðugjaldsstofna árið 1985 tilgreindur sem útgerð farþegaskips. Krafa kæranda er sú, að gjaldið reiknist 0,65% af stofni, þ.e.a.s. í þeim gjaldflokki, sem gildir fyrir rekstur verslunarskipa. Eigi er neinn ágreiningur um aðstöðugjaldsstofn eða skiptingu hans, en fram kemur í ársreikningi kæranda, að hluti af starfsemi hans fer fram í R. og er afgreiðslukostnaður þar sundurliðaður í skýringum með ársreikningnum. Þá kemur fram, að kærandi á afgreiðsluhús við R.-höfn. Eigi hefur kærandi tekið tillit til þessa í aðstöðugjaldsgreinargerð sinni, sbr. 2. mgr. 40. gr. og 4. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980, og skattstjóri eigi gengið eftir skýrslu um þetta og komið þeim upplýsingum til skattstjórans í R., enda hefur ekkert aðstöðugjald verið lagt á kæranda þar vegna starfsemi hans í því umdæmi og skattur þessi að öllu leyti lagður til A. Eins og málsatvikum er hér háttað og með vísan til 40. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 81/1962, um aðstöðugjald, svo og úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 34, dags. 16. janúar 1963, í aðstöðugjaldsmáli kæranda verður að telja, að skattstjóra hafi borið að gæta að aðstöðugjaldsskyldu kæranda í R.. í gögnum málsins liggur fyrir bréf A., dags. 1. ágúst 1984, til skattstjóra, þar sem þess er m.a. farið á leit, að aðstöðugjald kæranda í máli þessu gjaldárið 1984 verði endurreiknað og ákveðið 0,33% af stofni í stað 1,3% svo sem skattstjóri hafði miðað við það gjaldár. Með bréfi, dags. 2. ágúst 1984, tilkynnir skattstjóri sveitarfélaginu, að hann geti ekki breytt fyrri ákvörðun sinni með úrskurði, og tekur fram, að fyrri útreikningur aðstöðugjaldsins hefði verið 1,3% af stofni skv. tilkynningu A. þar um. Samskonar afgreiðsla liggur fyrir af hendi skattstjóra vegna gjaldársins 1985, sbr. bréf hans, dags. 19. ágúst 1985, til A. vegna hliðstæðra tilmæla sveitarfélagsins fram borinna símleiðis eftir því sem fram kemur í bréfinu. Með vísan til 33. gr., sbr. 39. gr., laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, verður að telja, að sveitarfélagið hafi verið að kæra álagt aðstöðugjald kæranda og skattstjóra hafi því borið að fella kæruúrskurð um sakarefnið gjaldárið 1984. Í úrlausn þess máls, sem skiptir sköpum um þá aðstöðugjaldsálagningu á kæranda, sem hér er til meðferðar, má ætla, að á það reyndi, hvernig ákvörðun um aðstöðugjaldsálagningu í téðu sveitarfélagi væri farið, en efni þykja til þess, að upplýsingar um það liggi fyrir. Eins og álagningu aðstöðugjalds á kæranda hefur verið háttað gjaldárið 1985 svo sem hér að framan hefur verið rakið þykir eigi verða hjá því komist að ómerkja þessa skattákvörðun með öllu og er skattstjóra rétt að ákveða að nýju aðstöðugjald kæranda að lögum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja