Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 351/1986

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981 — 91. gr., 100. gr. 5. mgr., 106. gr.  

Síðbúin framtalsskil — Vantaldir skattstofnar — Áætlun — Skattframtal, ófullnægjandi — Fylgigögn skattframtals — Álag — Ársreikningur — Málflutningsumboð ríkisskattstjóra — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Skylda ríkisskattstjóra til kröfugerðar

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1984 og er kæra umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar svohljóðandi:

„Að beiðni ofangreinds umbjóðanda okkar er úrskurður skattstjórans í Reykjavík, dags. 10. febrúar s.l, á kæru yfir opinberum gjöldum gjaldárið 1984, hér með skotið til ríkisskattanefndar. Ágreiningsefnið: Ágreiningsefnið er sú ákvörðun skattstjóra í úrskurði, dags. 10. febrúar s.l., að beita 25% álagi á gjaldstofna með vísan til 106. gr. laga nr. 75/1981.

Málavextir: Vandamál, sem upp komu í sambandi við starfsmannahald hjá kæranda urðu þess valdandi að ekki tókst að ganga frá endanlegum ársreikningi félagsins fyrir árið 1983 fyrir lok þess frests, sem veittur var til skila á skattframtölum gjaldárið 1984.

Hins vegar voru efni til þess að semja bráðabirgða rekstrar- og efnahagsreikning, sem verið gat grundvöllur fyrir gerð skattframtals og ákvörðun skattstofna. Var það gert og skattframtal sent fyrir lok skilafrests.

Í stað þess að ákvarða gjaldstofna í samræmi við skattframtalið áætlaði skattstjóri þá og byggði álagningu gjalda á hinum áætluðu gjaldstofnum.

Með kæru þeirri til ríkisskattanefndar, sem vísað var til skattstjóra og hann afgreiddi með þeim úrskurði, sem nú er kærður til ríkisskattanefndar, fylgdi nýtt skattframtal byggt á endanlegum ársreikningi fyrir árið 1983. Þótti rétt að hafa þennan hátt á. Gjaldstofnar samkvæmt þessu framtali eru nánast hinir sömu og samkvæmt því framtali, sem skilað var á réttum tíma og fyrr er getið. Mestur munur er á eignarskattsstofni, sem lækkar um 2,11%.

KRÖFUGERD: Aðalkrafa: Gerð er sú krafa að fallið verði frá beitingu álags á gjaldstofna og álögð gjöld gjaldárið 1984 lækkuð samkvæmt því.

Varakrafa: Til vara er þess krafist að álagi verði einungis beitt á þá hækkun gjaldstofna, sem fram kemur í skattframtali því, er fylgdi kæru, sem úrskurðuð var af skattstjóra 10. febrúar s.l., frá því framtali, sem sent var fyrir lok framtalsfrests. Sú hækkun er þessi:

Gjaldstofnar: Skv. framtali Skv. framtali með Vantalinn

sem skilað var kæru, sem (oftalinn)

á réttum tíma úrsk. var 10/2/86 stofn %

Tekjuskattsstofn 0 0 0 0

Eignarskattsstofn… 66.315.000 64.915.690 (1.399.310) (2.11)

Aðstöðugjaldsstofn ... 107.462.000 109.011.363 1.549.363 1.44

Stofn til iðnl.sjóðs

og iðn.m. gjalds…. 6.540.000 6.647.399 107.399 1.64

Rökstuðningur: Í úrskurði skattstjóra, dags. 10. febrúar 1986, segir: „Gjaldandi skilaði ekki framtali vegna álagningar gjalda ársins 1984 ...“ Hér birtist forsendan fyrir álagsbeitingunni. Hún er röng. Framtali var skilað. Þegar af þeirri ástæðu ber að verða við aðalkröfu umbj. okkar. Er hún því ítrekuð án frekari rökstuðnings, utan þess að vísa til lýsingar á málavöxtum hér að framan. Að þessu athuguðu skýrir varakrafan sig sjálf.“

Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt sendi ríkisskattstjóri ríkisskattanefnd skattagögn varðandi álagningu gjalda á kæranda gjaldárin 1983 og 1984 „án umsagnar“ um kæru umboðsmanns kæranda til nefndarinnar, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 15. apríl 1986.

Fallist er á aðalkröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja