Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 360/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 32/1978 — 126. gr., 129. gr.   Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 1. tl., 56. gr., 91. gr. 1. og 3. mgr., 100. gr. 8. mgr.  

Hlutafélag — Samruni — Sameining hlutafélaga — Lok skattskyldu — Hlutafélagaskrá — Tilkynning til hlutafélagaskrár — Áætlun — Samrunadagur — Yfirfærsla skattaréttarlegra skyldna og réttinda — Framsending ríkisskattanefndar til skattstjóra — Lögaðili — Sjálfstæður skattaðili

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda, sem er hlutafélag, var ekki skilað skattframtali árið 1985. Við frumálagningu það gjaldár áætlaði skattstjóri kæranda því skattstofna til álagningar opinberra gjalda. Í kæru til skattstjóra, dags. 30. júlí 1985, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningunni og tók fram, að hlutafélagið hefði verið sameinað D. h.f. á árinu 1984 og enginn rekstur hefði verið í nafni þess á því ári. Var vísað til tilkynningar til hlutafélagaskrár, sbr. 32. tbl. Lögbirtingablaðs 1985 og bréfs til skattstjóra, dags. 1. apríl 1985, vegna hlutafjármiða.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 29. október 1985, og hafnaði kröfu kæranda. Vísaði skattstjóri til þess, að kærandi hefði í árslok 1984 ekki uppfyllt skilyrði XV. kafla laga nr. 32/1978, um hlutafélög, varðandi tilkynningar til hlutafélagaskrá vegna samruna félaganna og hefði því enn verið skráð hlutafélag í lok þess árs. Samkvæmt 1. tl. 2. gr. og 1. og 3. mgr. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, bæri slíku félagi að senda skattstjóra skattframtal ásamt rekstrar- og efnahagsreikningi um tekjur síðast-liðins árs og eignir í árslok.

Þessum kæruúrskurði var af hálfu umboðsmanns kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 30. október 1985, og farið fram á, að álögð opinber gjöld gjaldárið 1985 yrðu felld niður. Hlutafélagið T. hefði verið sameinað D. h.f. sbr. tilkynningu til hlutafélagaskrá, dags. 27. desember 1984, og hefði það hlutafélag tekið við öllum réttindum og skyldum T. h.f. frá og með 1. janúar 1984. Á grundvelli þessarar tilkynningar hefði skattframtal ekki verið sent vegna T. h.f. Kærunni fylgdi skattframtal árið 1985 fyrir T. h.f. ásamt launaframtali 1985 „í þeirri von að það megi verða til að flýta afgreiðslu málsins, eins og í kærunni segir. Tekið var fram, að engin starfsemi hefði farið fram á vegum T. h.f. frá því í mars 1983. Þær breytingar, sem átt hefðu sér stað frá þeim tíma, hefðu verið greiðslur á opinberum gjöldum o.þ.h.

Með úrskurði nr. 538, dags. 4. nóvember 1985, vísaði ríkisskattanefnd kærunni ásamt skattframtali vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1985 til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar, sbr. 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981. Nýjan kæruúrskurð kvað skattstjóri upp þann 27. janúar 1986. Endurákvarðaði hann áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1985. Segir svo um þetta í úrskurðinum:

„Tilkynning um samruna hlutafélaganna T. h.f. og D. h.f. dags. 27. desember 1984 er móttekin hjá hlutafélagaskrá þann 3. janúar 1985. T. h.f. telst því ótvírætt vera skrásett hlutafélag í árslok 1984 sbr. áður tilvitnuð ákvæði í lög um hlutafélög nr. 32/1978 og ber sem slíkt skattskyldu gjaldárið 1985 skv. 1. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt innsendu framtali er félagið talið eignalaust í árslok 1984 og hafi engar tekjur haft á því ári.

Eftir atvikum er fallist á að taka fyrir að nýju álagningu opinberra gjalda á félagið gjaldárið 1985. Við ákvörðun gjaldstofna verður hins vegar litið svo á að yfirfærsla eigna og skulda félagsins til D. h.f. þ.e. samruni hafi ekki átt sér stað fyrir árslok 1984. Gjaldstofn til eignarskatts hjá T. h.f. gjaldárið 1985 verður því sá sami og hann var gjaldárið 1984 að viðbættri eignaaukningu vegna verðbóta af fjárfestingarsjóðstillagi á bundnum reikningi sbr. 54. gr. laga nr. 75/1981 með áorðnum breytingum en þær námu á árinu 1984 14.816 kr. Eignarskattsstofn verður þannig 910.275 kr. Tekjur á árinu 1984 verða 14.816 kr., sem eru verðbætur af fjárfestingasjóðstillagi á bundnum reikningi en frá þeim tekjum dragast gjöld vegna verðbreytinga skv. 53. gr. laga nr. 75/1981 sem nema 249.687 kr. Gjöld umfram tekjur verða skv. því 234.687 kr. sem mynda yfirfæranlegt tap til næsta árs.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. febrúar 1986. Er vísað til fyrri rökstuðnings og farið fram á, að öll gjöld verði felld niður af T. h.f., þar sem ljóst sé, að eignir hlutafélagsins hafi þegar verið skattlagðar með öðrum eignum D. h.f.

Með bréfi, dags. 15. apríl 1986, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu: „Þar sem kærandi uppfyllir skilyrði 129. gr. hlutafjárlaga (sic) nr. 32/1978 er fallist á kröfu kæranda.

Samkvæmt gögnum málsins hefur verið ákveðið á hluthafafundum í T. h.f og D. h.f., höldnum þann 27. desember 1984, að sameina fyrrnefnda hlutafélagið því síðarnefnda sbr. 126. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög. Tilkynning um þessa ákvörðun, dags. sama dag, var birt í 32. tbl. Lögbirtingablaðs, útgefnu 15. febrúar 1985, sbr. 129. gr. nefndra laga. Í samningi um sameiningu þessa, dags. 27. desember 1984, sem fyrir liggur í málinu, kemur fram, að hluthafar í T. h.f. fá eingöngu hlutabréf í D. h.f. sem gagngjald fyrir hlutafé sitt í fyrrnefnda félaginu. Þá kemur fram í málsgögnum, að þessi samruni hlutafélaganna hefur verið miðaður við 1. janúar 1984, og af hendi þeirra hafa skattskil fyrir árið 1984 verið á því byggð. Af hálfu kæranda hefur þannig verið við það miðað, að skattskyldu hans væri lokið um áramót 1983/1984. Á það verður eigi fallist. Með hliðsjón af því, að eigi virðist ágreiningur um það, að engin eiginleg starfsemi hafi farið fram af hálfu kæranda árið 1984, og að virtum skattskilum D. h.f. fyrir árið 1984, sem fyrir liggja í málinu, byggð á fyrrnefndum forsendum samrunans og þannig verið lögð til grundvallar álagning opinberra gjalda gjaldárið 1985, þykja eigi efni til þess að gera kæranda að greiða hin kærðu gjöld. Eru þau því felld niður jafnframt því yfirfæranlega tapi, sem skattstjóri ákvarðaði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja